Ég var í heimsókn hjá bókaranum mínum í síðustu viku og ég var að ræða við hana um það að ég ætlaði að fara stofna nýtt fyrirtæki þegar upp kom sú hugmynd að kaupa notaða kennitölu. Ég skoðaði það af alvöru en á endanum ákvað ég að stofna bara nýja kennitölu. Það hefur marga kosti og galla að kaupa notaðar kennitölur og það er ekki alltaf auðveld ákvörðun, ég hef því tekið saman hér nokkrar ástæður fyrir því afhverju sumir aðilar kjósa að kaupa notaðar kennitölur og vona að þetta hjálpi ykkur til að skilja betur hvort það henti ykkur betur að kaupa notaða kennitölu eða stofna nýja.

Ástæða 1: Ódýrara.

Það er engin skráð viðmið í verðum á notuðum kennitölum, almennt séð seljast þær bara á því verði sem báðir aðilar eru sáttir með en mín reynsla hefur þó verið sú að ekki sé óalgengt að kennitölur seljist á bilinu 60-120þús ef það eru engin verðmæti í þeim annað en bara kennitalan. Sú upphæð er þá aðeins lægra en skráningarkostnaðurinn hjá RSK sem er kr.131.000-.

Ástæða 2: Óþarfi að greiða hlutafé.

Þegar nýtt einkahlutafélag er skráð hjá RSK þá ber eigenda að greiða að minnsta kosti 500.000- inn á bankareikning fyrirtækisins sem upphaflegt hlutafé. Þetta er þá peningurinn sem fyrirtækið kemur til með að starfa með fyrst um sinn og notar til að byggja upp reksturinn. Sumum finnst þetta vera óþarflega há upphæð og kjósa frekar að kaupa notaða kennitölu þar sem er nú þegar búið að leggja þennan pening inn í félagið (og félagið líklega búið að eyða honum) og því óþarfi að leggja hann aftur inn.

Ástæða 3: Uppsafnað tap.

Sumar kennitölur geta verið með uppsafnað tap en það getur nýst nýja eigendanum í bókhaldinu þar sem tapið getur komið upp á móti hagnaði félagsins og þannig getur fyrirtækið sloppið við að greiða tekjuskatt af hagnaðinum. Þar sem tekjuskatturinn er 20% má í segja að sparnaðurinn við að nýta uppsafnaða tapið jafngildi 20% af heildarupphæð tapsins… en þá er með engu öll sagan sögð. Það eru afskaplega margir hlutir sem spila þarna inn í sem gera það að verkum að oft sé erfitt að nýta þetta tap. Það má einungis nota tapið gegn hagnaði í sambærilegum rekstri, þannig ef þið kaupið kennitölu sem var í heildsölurekstri þá getið þið ekki nýtt tapið í fasteignaviðskipti eða hárgreiðslustofu, um leið og tilgangi rekstursins er breytt eyðist út tapið. Svo hverfur líka tapið eftir X ár ef það er ekki nýtt, mann ekki alveg hversu mörg ár, en þið eruð því einungis bara með stuttan tíma til að nýta það. Ég hef séð fólk reyna rukka mun hærri upphæðir fyrir kennitölur með uppsafnað tap en mín reynsla hefur þó verið sú að það fæst yfirleitt ekki mikið fyrir það enda þarf ansi margt að raðast upp rétt til að nýji eigandinn geti verið fullviss um að geta nýtt tapið. Staðreyndin er sú að flest fyrirtæki eru rekin með tapi fyrstu árin svo kannski ólíklegt að svona meira tap nýtist þeim. En ef þið getið nýtt svona tap þá um að gera að nýta það.

Ástæða 4: Gömul kennitala

Hérna áður fyrr fannst fólki það mjög flott að vera með gamla kennitölu og það hljómar alveg kúl en staðreyndin er sú að það er ekki að fara gera mikið fyrir ykkur. Ég hef allavegana aldrei fundið neinn mun í mínum viðskiptum hvort sem ég er með nýja eða gamla kennitölu en ef þið hafið haft einhverja aðra reynslu af þessu þá endilega deilið því með okkur í athugasemdum hér fyrir neðan.

Gallinn

Gallinn við að kaupa notaða kennitölu er sá að maður veit aldrei hvar hún hefur verið og hvort verið sé að kaupa köttinn í sekknum. Það gætu verið einhverjar skuldir eða skuldbindingar áhvílandi og það er erfitt að vera 100% viss um að allt sé i góðu lagi. Persónulega kaupi ég aldrei notaðar kennitölur nema ég treysti seljandanum eða einhver annar sem ég þekki geti vottað hann.

Mín ákvörðun

Í mínu tilfelli þá skoðaði ég tvær notaðar kennitölur, mér alveg sama um aldur kennitölunar og ég ætlaði hvort eð er að leggja inn hlutafé svo einu ástæðurnar fyrir því að ég var að skoða að kaupa notaða kennitölur var sú að annað fyrirtækið var ódýrt og hitt var með uppsafnað tap. En mér fannst seljendurnir vera biðja um aðeins of mikið og mér lág svolítið á að klára þetta og ég nennti ekki að standa í viðræðum og samningagerð við þessa aðila, fljótlegra og þægilegra var bara að stofna nýtt ehf. og það var einmitt það sem ég gerði.

Eruð þið sammála þessum vangaveltum mínum eða ekki? Og hver er ykkar reynsla af því að kaupa og selja kennitölur? Endilega deilið skoðunum ykkar með okkur því þannig lærum við best 🙂