Vika 3: Umboð fyrir vöru

Framhald af fyrri grein: Hvernig fær maður umboð fyrir vöru?

Í þessari viku fékk ég loksins öll skjölin frá framleiðendanum og ýtarlegar upplýsingar/bæklinga um vörurnar. Einnig fékk ég aðgang að bakendanum hjá þeim þar sem ég get fengið allar upplýsingar um vörurnar og pantað þær sjálfur. Svo þurfti ég að átta mig á hvað það myndi kosta mig að fá vörurnar til landsins, bæði aðflutningsgjöldin (tollar, vörugjöld og vsk) og flutningskostnað.


Hvar er hægt að nálgast fréttir um íslenska frumkvöðlaumhverfið?

Mér finnst nú almennt séð ekki vera margir miðlar á Íslandi sem hafa í gegnum árin verið með góð og regluleg skrif um íslenska frumkvöðlaumhverfið og því hefur oft verið erfitt að fylgjast með því sem er að gerast. En hérna eru nokkrir hlekkir á miðla sem ég myndi mæla með að þið mynduð kíkja á.

Facebook grúppur

Íslenskir frumkvöðlar (Þetta mín "go-to" síða til að fylgjast með því sem er að gerast hjá frumkvöðlum, en þess ber að geta að ég er ekki alveg hlutlaus þar sem ég rek þessa grúppu. 4.500 meðlimir).

Hugmyndaráðuneytið (Mér hefur fundist þessi grúppa ekki vera alveg jafn virk og hún var en engu að síður mæli ég með að fylgjast þar með. 4.300 meðlimir)

Korka - Konur í nýsköpun og sprotafyrirtækjum.​ (Ég er ekki meðlimur í þessari grúppu en virðist vera virk. 2.200 meðlimir)

Frumkvöðlar í ferðaþjónustu (Fyrir frumkvöðla í ferðaþjónustu. 300 meðlimir)

Vefsíður

North Stack (Þetta er líklega ein virkasta fréttaveitan um íslenska startup umhverfið.)

Startup Iceland (Bala Kamallakharan er um árabil búinn að vera einn öflugasti bloggarinn í íslenska startup umhverfinu)

Frumkvöðlar (Þetta er náttúrulega barnið mitt en ég hef á síðari árum farið frá því að reyna miðla fréttum og ákveðið að reyna frekar að miðla fróðleik og ýtarlegri greinum varðandi frumkvöðlastarf.)

Nýsköpunarmiðstöð (Fréttir frá nýsköpunarmiðstöð)

Þetta er nú bara stutt upptalning á svona helstu miðlum sem ég þekki og nota en hverju er ég að gleyma? og hvaða aðrar síður ættu heima á þessum lista? Bætið því við í athugsemdum hér fyrir neðan.

P.S. 10 nördastig í boði fyrir þann sem getur sagt mér hvaðan cover myndin með þessari grein kemur :)


Vika 2: Umboð fyrir vöru

Framhald af fyrri grein: Hvernig fær maður umboð fyrir vöru?

Það sem byrjaði bara sem ein stutt færsla um hvernig eigi að fá umboð fyrir vöru er svolítið búið að breytast í röð greina þar sem ég fer deili með ykkur öllu því sem ég er að fara í gegnum til að fá umboð fyrir vöru, stofna fyrirtæki í kringum það og byrja selja og markaðssetja. Vonandi hafið þið gagn og gaman af.

En í þessari viku (viku tvö) gerði ég eftirfarandi atriði:

Valdi nafn á félagið

Tekur alltaf smá tíma að finna gott nafn á félagið og ég vildi helst reyna tryggja það að lénið fyrir nafninu væri laust áður en ég stofnaði það. Það getur verið gott að kíkja inn á ISNIC og athuga þar hvort lénið sé laust.

Ég stofnaði einkahlutafélag

Sem er tiltölulega auðveldur ferill núorðið en ég fjalla meira um það í þessari grein: Að stofna fyrirtæki á 10 mínútum.

Skráði fyrirtækið á vsk-skila og launagreiðendaskrá.

Eins auðvelt og það er að stofna ehf. á netinu þá þarf maður að skrá sig á vsk-skila skrá og launagreiðendaskrá með gamla hættinum, prenta út eyðublað RSK 5.02 og skila til þeirra. Ég verð að segja að mér finnst bæði flókið og leiðinlegt að fylla út þetta eyðublað og það endaði á því að ég heyrði í bókaranum mínum áður en ég skilaði því inn einfaldlega útaf því að ég var ekki viss um hvernig best væri að fylla það út.

Stofnaði bankareikning

Ég er í LanDsbankanum og þar þurfti ég að mæta á staðinn og skrifa undir einhverja pappíra og frekar tímafrekt, hef heyrt að aðrir bankar eins og Arion bjóði upp á að stofna þá rafrænt en ég hef sjálfur ekki prufað það.

Rannsakaði betur framleiðendann

Ég hafði einungis kynnt mér framleiðendann lítilega þegar ég hafði fyrst samband en þar sem ég er að íhuga að fara í langtímasamstarf við þá fannst mér mikilvægt að þekkja þá og vöruframboð þeirra betur.

Setja efni inn á vefsíðuna

Ég henti upp Shopify síðu í síðustu viku og það var í sjálfu sér ekki alltof flókið en tímafrekasta starfið er alltaf að setja gott og ýtarlegt efni inn á vefsíðuna. Ég byrjaði aðeins á því í þessari viku.

Bjó til lógó

Ef maður er með takmarkað fjármagn þá á maður ekki að ráða dýran hönnuð til að búa til logo, ég hef frekar haft þá regluna á hlutum að búa mér bara til einfalt logo sjálfur og svo þegar félagið er farið að skila hagnaði þá ræð ég hönnuð til að gera það rétt.

Greiðslugátt hjá Valitor

Tók ákvörðun um að notast við Valitor greiðslugáttina og hafði samband við þau.

Undirbúa fyrstu pöntun.

Svo byrjaði ég að reyna raða saman vörum í fyrstu pöntun.


Að kaupa notaða kennitölu

Ég var í heimsókn hjá bókaranum mínum í síðustu viku og ég var að ræða við hana um það að ég ætlaði að fara stofna nýtt fyrirtæki þegar upp kom sú hugmynd að kaupa notaða kennitölu. Ég skoðaði það af alvöru en á endanum ákvað ég að stofna bara nýja kennitölu. Það hefur marga kosti og galla að kaupa notaðar kennitölur og það er ekki alltaf auðveld ákvörðun, ég hef því tekið saman hér nokkrar ástæður fyrir því afhverju sumir aðilar kjósa að kaupa notaðar kennitölur og vona að þetta hjálpi ykkur til að skilja betur hvort það henti ykkur betur að kaupa notaða kennitölu eða stofna nýja.

Ástæða 1: Ódýrara.

Það er engin skráð viðmið í verðum á notuðum kennitölum, almennt séð seljast þær bara á því verði sem báðir aðilar eru sáttir með en mín reynsla hefur þó verið sú að ekki sé óalgengt að kennitölur seljist á bilinu 60-120þús ef það eru engin verðmæti í þeim annað en bara kennitalan. Sú upphæð er þá aðeins lægra en skráningarkostnaðurinn hjá RSK sem er kr.131.000-.

Ástæða 2: Óþarfi að greiða hlutafé.

Þegar nýtt einkahlutafélag er skráð hjá RSK þá ber eigenda að greiða að minnsta kosti 500.000- inn á bankareikning fyrirtækisins sem upphaflegt hlutafé. Þetta er þá peningurinn sem fyrirtækið kemur til með að starfa með fyrst um sinn og notar til að byggja upp reksturinn. Sumum finnst þetta vera óþarflega há upphæð og kjósa frekar að kaupa notaða kennitölu þar sem er nú þegar búið að leggja þennan pening inn í félagið (og félagið líklega búið að eyða honum) og því óþarfi að leggja hann aftur inn.

Ástæða 3: Uppsafnað tap.

Sumar kennitölur geta verið með uppsafnað tap en það getur nýst nýja eigendanum í bókhaldinu þar sem tapið getur komið upp á móti hagnaði félagsins og þannig getur fyrirtækið sloppið við að greiða tekjuskatt af hagnaðinum. Þar sem tekjuskatturinn er 20% má í segja að sparnaðurinn við að nýta uppsafnaða tapið jafngildi 20% af heildarupphæð tapsins... en þá er með engu öll sagan sögð. Það eru afskaplega margir hlutir sem spila þarna inn í sem gera það að verkum að oft sé erfitt að nýta þetta tap. Það má einungis nota tapið gegn hagnaði í sambærilegum rekstri, þannig ef þið kaupið kennitölu sem var í heildsölurekstri þá getið þið ekki nýtt tapið í fasteignaviðskipti eða hárgreiðslustofu, um leið og tilgangi rekstursins er breytt eyðist út tapið. Svo hverfur líka tapið eftir X ár ef það er ekki nýtt, mann ekki alveg hversu mörg ár, en þið eruð því einungis bara með stuttan tíma til að nýta það. Ég hef séð fólk reyna rukka mun hærri upphæðir fyrir kennitölur með uppsafnað tap en mín reynsla hefur þó verið sú að það fæst yfirleitt ekki mikið fyrir það enda þarf ansi margt að raðast upp rétt til að nýji eigandinn geti verið fullviss um að geta nýtt tapið. Staðreyndin er sú að flest fyrirtæki eru rekin með tapi fyrstu árin svo kannski ólíklegt að svona meira tap nýtist þeim. En ef þið getið nýtt svona tap þá um að gera að nýta það.

Ástæða 4: Gömul kennitala

Hérna áður fyrr fannst fólki það mjög flott að vera með gamla kennitölu og það hljómar alveg kúl en staðreyndin er sú að það er ekki að fara gera mikið fyrir ykkur. Ég hef allavegana aldrei fundið neinn mun í mínum viðskiptum hvort sem ég er með nýja eða gamla kennitölu en ef þið hafið haft einhverja aðra reynslu af þessu þá endilega deilið því með okkur í athugasemdum hér fyrir neðan.

Gallinn

Gallinn við að kaupa notaða kennitölu er sá að maður veit aldrei hvar hún hefur verið og hvort verið sé að kaupa köttinn í sekknum. Það gætu verið einhverjar skuldir eða skuldbindingar áhvílandi og það er erfitt að vera 100% viss um að allt sé i góðu lagi. Persónulega kaupi ég aldrei notaðar kennitölur nema ég treysti seljandanum eða einhver annar sem ég þekki geti vottað hann.

Mín ákvörðun

Í mínu tilfelli þá skoðaði ég tvær notaðar kennitölur, mér alveg sama um aldur kennitölunar og ég ætlaði hvort eð er að leggja inn hlutafé svo einu ástæðurnar fyrir því að ég var að skoða að kaupa notaða kennitölur var sú að annað fyrirtækið var ódýrt og hitt var með uppsafnað tap. En mér fannst seljendurnir vera biðja um aðeins of mikið og mér lág svolítið á að klára þetta og ég nennti ekki að standa í viðræðum og samningagerð við þessa aðila, fljótlegra og þægilegra var bara að stofna nýtt ehf. og það var einmitt það sem ég gerði.

Eruð þið sammála þessum vangaveltum mínum eða ekki? Og hver er ykkar reynsla af því að kaupa og selja kennitölur? Endilega deilið skoðunum ykkar með okkur því þannig lærum við best :)


Hvernig fær maður umboð fyrir vöru?

Þetta er ein af algengari spurningunum sem ég hef verið að fá á námskeiði í stofnun fyrirtækja og því ákvað ég bara að henda í smá bloggfærslu og vidjó til að reyna svara þessu. Þetta er auðveldara en þið haldið :)

Hérna er afrit af bréfinu sem ég sendi til að reyna fá umboðið, hefði örugglega verið hægt að skrifa það miklu betur en þetta þarf ekki að vera fullkomið, þetta er bara eitthvað til að hefja samræður við framleiðandann.

Dear [fyrirtækjanafn],

I have followed your brand for a while and researched your [vara] and I think you make a great product. I would be very interested in importing and selling your products in my home country of Iceland. I therefore wanted to enquire if you are working with resellers around the world and if it would be possible for me to become a seller of your products in Iceland?

Best regards,
Haukur Gudjonsson

Ef þú hefur áhuga á að fá umboð fyrir einhverja vöru getur þú bara sent þeim póst svipaðan þeim sem ég skrifaði, mátt jafnvel afrita minn ef þú vilt, og svo er þetta bara spurning um að byrja umræðuna við þá. Umræðurnar eru misjafnar eins og fyrirtækin eru mörg en yfirleitt er þetta nokkuð einfalt, þar sem þeir deila með ykkur hvernig þeir starfa með endursöluaðilunu senda svo á ykkur samning og ýtarlegra efni.

Þegar þið eruð svo komin með velyrði fyrir umboðinu getið þið byrjað að vinna áfram í þessu og t.d. keypt .is lén inn á isnic.is, .com lén inn á godaddy.com og svo búið ykkur til vefverslun inn á shopify.

Þetta er alls ekki flókið en þetta er mikil vinna svo þið þurfið að vera tilbúinn að vera öguð og leggja á ykkur alla vinnuna sem fylgir þessu.

Gangi ykkur vel og endilega deilið með okkur hinum hvernig þetta gengur hjá ykkur :)

 


Hvaða styrkir eru í boði fyrir þig og þitt fyrirtæki?

Ég er búinn að fá nokkrar spurningar að undanförnu varðandi hvaða styrkir séu í boði fyrir fólk í fyrirtækjarekstri og ég ákvað því bara að skrifa svarið mitt í formi bloggfærslu hér á frumkvodlar.is. Ég hef áður skrifað um styrki og góð ráð til að sækja um styrki en umhverfið breytist sífellt og þeir styrkir sem voru í boði fyrir nokkrum árum eru það ekki lengur og svo er fjöldin allur af minni styrkjum sem poppa upp hér og þar en eru aðeins í boði í stutta stund. Hérna vil ég því frekar fjalla aðeins um mismunandi flokka af styrkjum, tilgang þeirra og reyna gefa ykkur smá hugmynd um hvaða styrkir gætu hugsanlega verið í boði fyrir ykkur og hvar þið gætuð byrjað að leita.

Nýsköpunarstyrkir

Þetta eru styrkir sem eru sérstaklega hugsaðir til þess að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Þannig í raun mæti segja að þeir séu hugsaðir til að skapa fyrirtæki á Íslandi sem eru samkeppnishæf við það besta erlendis og eiga möguleika á að vaxa alþjóðlega. Þetta eru yfirleitt stærstu og bestu styrkirnir sem eru í boði hér á landi og Tækniþróunarsjóður(Rannís) heldur um þá flesta. Ef þitt fyrirtæki er með áherslu á nýsköpun og nýjungar og er ekki í beinni samkeppni við önnur íslensk fyrirtæki þá mæli ég hiklaust með að þið skoðið þessa styrki en ég vara ykkur þó við að þetta eru langar og strangar umsóknir og með öllu óvíst hvort þær skili einhverju svo ekki fara sækja um þessa styrki með neinu hálfkáki, gerið þetta almennilega ef þið ætlið að gera það á annað borð. Hérna er listi yfir helstu nýsköpunarstyrkina:

 • Fræ: Fræið hefur það að markmiði að styðja við hugmyndir og verkefni á frumstigi sem getur leitt af sér stærra þróunarverkefni og styrkir geta verið allt að 1,5 milljónir.
 • Sproti: Sproti er ætlaður til að styðja við verkefni á byrjunarstigi og styrkir geta numið allt að 20 milljónum.
 • Vöxtur, sprettur: Vöxtur er ætlaður til að styrkja þróunarverkefni sem eru komin af frumstigi hugmyndar. Sprettur er öndvegisstyrkur innan Vaxtar. Þessi styrkir geta numið allt að 50-70m.
 • Markaðsstyrkur: Styrkir vegna sérstaks markaðsátaks og geta numið allt að 10m.
 • Hagnýt rannsóknarverkefni: Geta numið allt að 45m.
 • Einkaleyfastyrkur: Styrkur sérstaklega hugsaður til að aðstoða við einkaleyfisferilinn, getur numið allt að 1,2m.

Atvinnusköpunarstyrkir

Það er eitt af verkefnum ríkisins að lágmarka atvinnuleysi og reyna tryggja það að nóg sé af störfum í boði fyrir landsmenn. Eitt af verkfærunum sem ríkið getur notað til að ýta undir atvinnusköpun er að styðja við og styrkja fjárhagslega þá einstaklinga sem vilja skapa sín eigin störf og störf fyrir aðra. Slíkir styrkir eru yfirleitt veitir í gegnum eitthvað af stofnunum ríkisins.

Besta dæmið um þetta eru þeir styrkirnir Frumkvæði og Starfsorka sem ríkið veitir í gegnum Vinnumálastofnun en eini tilgangur þessar styrkja er að skapa störf fyrir þá einstaklinga sem eru á atvinnuleysisbótum. Frumkvæði er hugsað fyrir einstaklinginn sjálfan og felst í fræðslu og leiðsögn sem getur hjálpað einstaklingnum að komast að því hvort hann geti búið til sitt eigið starf. Ég held að það sé ekki beint fjárhagslegur styrkur sem fylgir þessu en einstaklingnum býðst þó að vera á atvinnuleysisbótum á meðan hann tekur sín fyrstu skref í eigin rekstri sem er í sjálfu sér góður styrkur. Starfsorka er svo átaksverkefni sem hjálpar fyrirtækjaeigendum að ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá og fá greitt með þeim grunn atvinnuleysisbætur fyrstu mánuðina.

Svæðisbundnir styrkir

Mörg bæjarfélög og landshlutar sjá sér hag í því að styðja við fyrirtæki á sínu hagsmunasvæði til að hjálpa þeim að skapa fleiri störf og meiri tekjur fyrir alla. Þótt svo að þetta gæti fallið undir flokkin hér á undan þá er þetta yfirleitt bundið við ákveðið svæði og því takmarkar það töluvert hverjir geta sótt um það. Hérna eru einungis nokkur dæmi en það er ómögulegt að telja allt upp og því verðið þið sjálf að leita ykkur upplýsinga um ykkar landshluta, bæjarfélög o.s.frv. hugsanlega geta bæjarskrifstofur eða aðrar ríkisstofnanir á svæðinu veitt ykkur frekari upplýsingar.

Sérhæfðir styrkir

Styrkir sem eru sérstaklega hugsaðir til að styrkja ákveðnar atvinnugreinar og því mikilvægt að gúggla styrki tengda þeirri atvinnugrein sem þú tilheyrir og einnig heyra í öllum tengdum stofnunum til að spyrjast fyrir. En hérna eru nokkur dæmi um sérhæfða styrki:

Styrkir til tiltekina hópa

Þetta eru styrkir sem eru að einbeita sér að því að styðja við ákveðna hópa innan samfélagsins til að auka þáttöku þeirra í atvinnusköpun og fyrirtækjarekstri.

Styrkir veittir af fyrirtækjum

Oft veita stærri fyrirtæki einhverjar upphæðir á hverju ári til að styðja við góð verkefni sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið, umhverfið o.s.frv. Þetta er hugsuð sem leið fyrir fyrirtækin til láta gott af leiða og ekki skemmir fyrir þeim að þetta geta oft verið góð tækifæri til að komast í fréttirnar. Það er stundum erfitt að finna þessa styrki en á móti kemur þá þýðir það oft að færri aðilar eru að sækja um þá. Nokkur dæmi:

Samstarf milli landa

Það eru í boði óhemjan öll af samstarfsstyrkjum á milli landa en það getur farið svaðalega mikill tími í því að leita og finna rétta styrkinn en besta leiðinn til að finna þá er inn á vef Rannís, Norrænt Samstarf eða Nýsköpunarmiðstöðvar. En athugið að þó að margir þessara styrkja geta verið mjög háir eða upp á tugi milljóna þá getur líka farið mikill tími í að finn þá, afla sér upplýsingar um þá, sækja um þá o.s.frv. En ef þið eruð með einhvern samstarfsaðila í öðru landi eða eruð með starfssemi í fleiri en einu landi þá er þetta hiklaust eitthvað sem þið mættuð skoða nánar.

Næstu skref?

Upptalningarnar hér að ofan af styrkjunum er einungis brotabrot af því sem er í boði og það er engin leið fyrir mig að halda uppfærðum lista yfir þá alla. Ef þú hefur áhuga á að fá styrk fyrir þína hugmynd eða þitt fyrirtæki þá þarftu að leggja út í smá rannsóknarvinnu og finna réttu styrkina fyrir þig en hérna er þó tjékklisti yfir það sem þú getur gert svona aðeins til að styðja við þig í þessum ferli.

 1. Farðu í gegnum allar helstu upptalningar á styrkjum á netinu til að fá betri hugmynd um það sem er í boði. Þær síður sem veita góða upptalningu á styrkjum í boði eru t.d.
 2. Gúgglaðu styrki um eftirfarandi:
  • Nýsköpun, almennt og sérstaklega í kringum þá nýsköpun sem þú ert að vinn að.
  • Atvinnusköpun.
  • Þitt landssvæði
  • Þinn hrepp
  • Þitt bæjarfélag
  • Þína atvinnugrein
  • Tengdar atvinnugreinar
  • Alla þá hópa sem þú gætir hugsanlega tilheyrt
  • Finndu eins marga styrki frá fyrirtækjum eins og þú getur
  • Samstarfsverkefni á milli landa (ef það á við þitt fyrirtæki)
 3. Hafðu samband við ríkisstofnanir á þínu svæði og þinni atvinnugrein og reyndu að fá eins miklar upplýsingar og þú getur frá þeim um styrki, biddu jafnvel um fund með ráðgjafa eða einhverjar frekari hjálp frá þeim.
 4. Sæktu svo bara um allt sem þú getur sótt um og krosslegðu fingur :)

 


Þetta eina ráð mun spara þér 3 ár af erfiðri vinnu

Ég ætla að deila með þér góðu ráði sem mun hugsanlega koma í veg fyrir að þú eyðir næstu 2-3 árum af ævi þinni í að byggja upp fyrirtæki sem gerir ekkert annað en að skapa stress og leiðindi fyrir þig.

Ráðið er einfalt: vertu búin að hugsa vel út i það afhverju þú ert að fara út í fyrirtækjarekstur og hvað þú vilt fá út úr honum.

Námskeið: afhverju viltu stofna námskieð.
Smelltu hér til að horfa frítt á námskeiðið "Afhverju viltu stofna fyrirtæki"

Við höfum öll okkar ástæður fyrir því að vilja fara út í fyrirtækjarekstur, fyrir sum af okkur er það að geta stýrt betur vinnutíma okkar, fyrir aðra er það að fá meiri tekjur og einhverjir eru að þessu til að geta starfað við það sem þeim finnst skemmtilegt. En hver svo sem ástæðan er þá verður þú að vera með hana á hreinu og byggja upp fyrirtækið með það í huga.

Það tekur yfirleitt 2-3 ár í fyrirtækjarekstri að komast á þann stað að reksturinn sé farinn að vera stöðugur og skila hagnaði eða með öðrum orðum að komast út úr mesta harkinu. Á þeim tímapunkt átta margir frumkvöðlar sig á því að reksturinn sem þeir hafa byggt upp er orðin allt annar en sá sem þeir ætluðu að skapa og passar engan vegin við afhverju þeir byrjuðu reksturinn í upphafi.

Þeir sem fóru út í þetta til að stýra betur vinnutíma sínum átta sig á því að þeir þurfa nú að vinna myrkranna á milli til að halda öllu gangandi og eiga engan frítíma lengur. Þeir sem fóru út í þetta til að fá meiri tekjur átta sig á því að allar tekjur fyrirtækisins fara í rekstur fyrirtækisins og þótt svo að fyrirtækið sé að velta háum upphæðum eru þeir ekkert að fá meiri tekjur en þeir voru í gamla starfinu. Þeir sem fóru út í þetta til að starfa við það sem þeim finnst skemmtilegt átta sig á því að tími þeirra fer allur í bókhald, rekstur, starfsmannamál og í raun í allt nema það sem þeim finnst skemmtilegt.

Margir myndu flokka þetta sem lúxus vandamál, þar sem þið eruð kannski búin að byggja upp fyrirtæki sem hefur samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum náð árangri. En við erum frumkvöðlar og við erum ekki að stofna fyrirtæki til að starfa eftir mælikvörðum annara, við erum að þessu til að skapa betra líf fyrir okkur þar sem við höfum tækifæri til að láta drauma okkar verða að veruleika. Við getum því ekki sætt okkur við það að vera föst í einhverju starfi sem okkur líkar ekki við, jafnvel þótt svo við eigum fyrirtækið.

Til þess að hjálpa þér að forðast það að lenda í þessum undarlegu aðstæðum, að byggja upp arðbært fyrirtæki sem skilar þér ekki því sem þú vilt, þá ákvað ég að deila með þér þessu stuttu 10 mínútna námskeiði sem ber titillinn "Afhverju viltu stofna fyrirtæki?". Smelltu hér til að horfa frítt á námskeiðið.

 


5 aðferðir til að markaðssetja með Facebook

Ég hef sjálfur náð nokkuð góðum árangri í gegnum tíðina þegar ég hef verið að markaðssetja vörur og þjónustu í gegnum Facebook. Þetta er líka það markaðstól sem ég mæli oftast með að frumkvöðlar noti þegar þeir eru fyrst að hefja rekstur enda eru 93% íslendinga inn á þessum miðli og því nokkuð góð leið til að ná til þjóðarinnar. En þótt svo að þetta geti verið gott markaðstól þá getur þetta líka verið algjör hausverkur og peningasuga því að flækjustigið er svo rosalega hátt. Það er þess vegna sem mig langaði til að reyna einfalda þetta aðeins og deila hérna með ykkur nokkrum einföldum leiðum sem þið getið notað til að byrja.

1. Persónuleg færsla

Einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að markaðssetja með Facebook er einfaldlega sú að skrifa færslu undir þínum eigin persónulega aðgangi og deila með núverandi vinum þínum. Þrátt fyrir að vera auðveldasta markaðsleiðin á Facebook þá er ótrúlegt hvað margir gleyma þessu eða jafnvel sleppa þessu útaf því að þeir halda að þetta skili ekki neinu. Staðreyndin er þó sú að facebook notendur bregðast alltaf meira og betur við færslum frá vinum heldur en færslum frá einhverjum fyrirtækjum og því er mikilvægt að notfæra sér það. En passið þó að þreyta ekki vini ykkar með endalausum færslum um reksturinn ykkar, deilið frekar hápunktunum og því sem þið eruð stolt af og því sem þið vitið að vinir ykkar hefðu gaman af því að heyra um.

Dæmi: Ég deildi með vinum mínum á Facebook þegar ég byrjaði að kenna aftur námskeið í stofnun fyrirtækja og ég fékk 39 like og 7 share, það er mun meira heldur en maður fær yfirleitt frá ókostuðum færslum sem maður deilir undir fyrirtækjanafni. 

2. Búa til FB grúppu

Þetta er mjög áhugaverð leið til að markaðssetja á Facebook útaf því að þarna er maður í raun ekki að markaðssetja neitt í upphafi heldur er maður að smala saman hópi af fólki í kringum sameiginlegt áhugamál. Ég sjálfur tilheyri mörgum grúppum sem ég heimsæki reglulega til að sjá hvað sé í gangi í kringum þau áhugamál og líklega gerum við það flest. Ef þú nærð svo að búa til stóran hóp af fólki í kringum áhugamál sem tengist þínu fyrirtæki þá býður það alltaf upp á þann möguleika að þú getir búið þér til sérstöðu sem sérfræðingur á þessu sviði og yfirleitt er allt í lagi að nefna vöruna sína einstaka sinnum eða jafnvel auglýsa hana í cover mynd grúppunar. Ég hef líka sjálfur oft búið til grúppur í kringum einhver áhugamál til að sjá hvort það sé nægur áhugi hjá fólki til að réttlæta að stofna fyrirtæki í kringum það og þannig mætti líta á þetta sem leið til að sannreyna viðskiptahugmynd.

Dæmi: Ég stofnaði FB grúppu sem heitir Íslenskir frumkvöðlar fyrir nokkrum árum síðan og í dag eru þar 4.400 meðlimir sem allir hafa áhuga á frumkvöðlastarfi, þarna er ég því kominn með góðan hóp af fólki sem flestir hefðu t.d. áhuga á að lesa þær greinar sem ég skrifa um stofnun og rekstur fyrirtækja inn á frumkvöðlar.is auk þess sem ég leyfði mér að setja smá cover mynd til að kynna námskeiðið mitt í stofnun fyrirtækja.

3. Búa til FB fyrirtækjasíðu

Í sumum tilfellum getur fyrirtækjasíða á Facebook komið í staðinn fyrir vefsíður fyrirtækja eða allavegana fyrst um sinn. Þetta er leið til að deila vörumerkinu ykkar og öllum upplýsingum um félagið með almenning, það er líka orðið þannig í dag að margir notendur eru farnir að leita í Facebook frekar en google eða já.is til að finna upplýsingar um fyrirtæki s.s. opnunartíma, staðsetningu o.f.l. En FB fyrirtækjasíður eru farnar að vera miklu meiri áskorun heldur en þær voru hérna áður fyrr og það er oft mjög takmarkað hvað hægt sé að ná til margra nema maður sé tilbúinn að leggja smá pening í þetta. Facebook er meira segja búið að takmarka hversu margir af fylgjendum síðunar sjái hverja færslu og ef maður vill að allir fylgjendurnir sjá færsluna þá þarf að greiða fyrir það. Ég hef aðstoðað frumkvöðla við selja fyrstu eintökin af vörunum sínum með því einu að stofna FB síðu.

Dæmi: Ég er með FB fyrirtækjasíðu fyrir Frumkvöðlar.is og þar get ég verið ófeimnari við að tala um vöruframboðið mitt og lagt smá pening í að boost-a einstaka færslur svo þær nái til fleiri aðila. 

4. Boosta færslu

Þegar þú ert á annað borð komin með fyrirtækjasíðu þá geturðu skrifað færslu og "boost"-að hana svo. Eins og ég nefndi hér að ofan þá takmarkar Facebook hversu margir af fylgjendum þínum sjá hverja færslu á fyrirtækjasíðunni og því þarftu að bústa hana. Þú gerir það með því að smella á bláa "Boost Post" hnappinn fyrir neðan færsluna og greiða fyrir það ef þú vilt að fleiri sjái hana.

5. Kaupa auglýsingu

Hægt er að kaupa almennar auglýsingar á Facebook og hnitmiða þær á tiltekna hópa eins og eftir aldri, staðsetningu, áhugamálum og sitthvað fleira. Þetta er rosalega öflug leið til að markaðssetja en á sama tíma virðist hún sífellt verða flóknari hjá Facebook og það er nokkuð erfitt að útskýra hvernig best er að gera þetta í svona stuttri grein. En það sem ég get ráðlagt ykkur er að leggja aldrei háar upphæðir í neina markaðsherferð fyrr en þið eruð fyrst búin að prufa hana og tölfræðin staðfesti það að hún sé að virka. Auglýsingarnar eru þekktar fyrir það að brenna upp pening hjá fyrirtækjum sem kunna ekki almennilega að nota þær.

Facebook markaðssetning er mjög viðamikið umfjöllunarefni og hérna er ég einungis að nefna nokkrar leiðir til að markaðssetja með Facebook en þær eru mun fleiri og einnig væri hægt að kafa mun dýpra í hverja og eina af aðferðunum sem ég nefndi hér að ofan. En ég hefði gaman af því að heyra hvaða leiðir hafa verið að reynast ykkur best og hvaða leiðir þið eruð að nota sem voru ekki nefndar hér að ofan.


7 hættumerki hjá frumkvöðlum

Það getur verið afskaplega spennandi og skemmtilegt að vera frumkvöðull enda er fátt jafn gefandi eins og að taka einhverja hugmynd og breyta henni í arðbært fyrirtæki. Fyrirtæki sem bæði skapar störf og kannski betrumbætir heiminn á einhvern smávægilegan hátt. En það er þó langt frá því að vera dans á rósum að vera frumkvöðull, staðreyndin er sú að flestir frumkvöðlar ná illa að skapa jafnvægi á milli einkalífs og vinnu og enda á því að brenna út. En hérna eru 7 merki þess að þú sért ekki að búa til gott jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Ef þú þekkir þessi atriði úr eigin fari þá endileg reyndu að nýta þetta tækifæri til að bregðast við og skapa betra jafnvægi í kringum þinn fyrirtækjarekstur.

1. Vinna myrkranna á milli

Það er rosalega erfitt að koma af stað fyrirtæki og yfirleitt tala ég alltaf um að það taki 2-3 ár bara til að sanna hvort fyrirtækið eigi eftir að ganga upp eða ekki. Svo auðvitað fylgir mikil vinna svona stóru verkefni og ekkert að því að vinna langa vinnudaga fyrst um sinn en staðreyndin er sú að við erum ekki gerð til að vinna myrkranna á milli í of langan tíma. Þannig ef þú ert kominn á ár 2 eða 3 í rekstrinum þínum og þú ert ennþá að vinna 12 tíma á dag þá skaltu fara hægja á þér nema þú viljir lenda í kulnun.

2. Gleyma rækta vini og áhugamál

Eitt það mikilvægasta til að halda geðheilsunni er að eiga sér líf fyrir utan fyrirtækið og besta leiðinn til að gera það er að umgangast vini sína og eiga sér áhugamál. Ég hef sjálfur vanrækt þessa hluti í gegnum tíðina og ég mæli alls ekki með því. Þannig taktu þér frí af og til og bjóddu vinunum í mat eða skelltu þér í fjallgöngu.

3. Vinnan fer að flækjast inn í draumana

Þegar þú ert farinn að dreyma vinnuna á hverri nóttu þá þýðir það að þú verðir að fara hægja á þér. Það er ekki gott fyrir neinn að vera svo heltekin af vinnu sinni að ekkert annað komist að.

4. Allar bækur sem þú lest snúast um fyrirtækið

Það að lesa er yndislegt fyrirbæri og frábær leið til að bæta við sig fróðleik og til að fá frí frá hversdagsleikanum. En eins mikið og ég mæli með að fólk lesi bækur til að bæta þekkingu sína þá þarf líka að passa að bæta skáldsögum inn á lestrarlistann til að halda jafnvægi.

5. Stofna annað fyrirtæki í miðri kulnun

Þetta er fyrirbæri sem ég hef séð all oft hjá félögum mínum í fyrirtækjarekstri og mér sjálfum. Það er í eðli frumkvöðulsins að færast alltaf áfram, að byggja upp fyrirtæki, skapa verðmæti, búa til lausnir, takast á við nýjar áskoranir o.s.frv. En við erum ekkert sérstaklega góð í að átta okkur á því hvenær við eigum að taka skref aftur og hvíla okkur. Það er því ekki óalgengt að frumkvöðlar stofni ný fyrirtæki eða byrji að vinna að nýjum viðskiptahugmyndum þegar þeir eru orðnir leiðir á núverandi fyrirtækjum eða jafnvel orðnir svo útkeyrðir að þeir höndli ekki lengur að halda utan um núverandi rekstur. Ég mæli aldrei með því að einstaklingar séu að stofna önnur fyrirtæki eða byrja vinna í öðrum viðskiptahugmyndum fyrr en þeir eru annað hvort búnir að selja núverandi rekstur sinn eða búnir að koma honum þannig fyrir að hann reki sig að mestu sjálfur.

6. Brenna út án þess að vita það

Við erum afskaplega léleg í því að átta okkur á því hvenær við séum við það að brenna út eða jafnvel að við séum í miðju kulnunarástandi. Mín persónulega upplifun af kulnun er sú að fyrst um sinn byrjaði ég að lenda í 2-3 daga tímabilum þar sem ég var algörlega orkulaus og varð bara að liggja undir sæng þangað til ég gat jafnað mig. Hægt og rólega versnaði þetta þangað til að tímabilin voru komin upp í nokkrar vikur og ég var farinn að lenda í svimaköstum og magaverkjum. En aldrei áttaði ég mig á að þetta væru merki um kulnun enda var lítil umræða um slíkt á þeim tíma, það var ekki fyrr en ég lenti svo illa vegg að ég var frá vinnu í marga mánuði sem að ég áttaði mig á sannleikanum. Ég mæli því með að þið lærið af minni reynslu og hlustið betur á líkama ykkar og bregðist við þegar hann fer að segja við ykkur að eitthvað sé að.

7. Stress, kvíða og þunglyndi

Frumkvöðlar eru líka sérstaklega líklegir samkvæmt tölfræði til að þjást á einhverjum tímapunkti af andlegum veikindum á borð við stress, kvíða og þunglyndi. Það er ekkert til að skammast sín fyrir enda er það mjög algengt meðal frumkvöðla en ég mæli með því að þið leitið ykkur hjálpar hjá sálfræðingi eða öðrum fagaðilum þegar þið byrjið að finna fyrir einkennum þess. Raunverulegur styrkur felst í því að þekkja veikleika sína og vinna með þá frekar en að reyna bæla þá niður.

Það er afskaplega gefandi að stofna og byggja upp fyrirtæki en við sem stofnendur verðum að vera opin fyrir hættumerkjunum. Notið þennan lista sem áminningu um að sinna heilsu ykkar, bæði líkamlega og andlega.


52% ódýrara fyrir fyrirtækið en þig

Það er oft talað um að það sé ódýrara að láta fyrirtækið kaupa vörur heldur en að kaupa þær persónulega.

Þá er verið að vitna í það að þegar að fyrirtæki kaupir vörur fyrir reksturinn eins og t.d. prentara, tölvu, stól og skrifborð þá þurfi fyrirtækið ekki að greiða virðisaukaskatt af vörunni.

En er það í alvörunni satt að það sé ódýrara fyrir fyrirtækið að kaupa vöru en fyrir þig? Og ef það er satt hversu mikið ódýrara er það? Ég ákvað að gera smá reikningsdæmi til að átta mig á hver mismunurinn er í raun og veru og ákvað að taka líka inn í þetta þætti eins og tekjuskatt og launakostnað. Varan sem varð fyrir valinu er MacBook Air fartölva frá Macland sem kostar á þeim tíma sem þessi grein er skrifuð kr.219.990- út úr búð.

Endurgreiðsla á VSK

Fyrir einstakling sem er að kaupa þessa fartölvu þá er þetta ekkert flókið, verðið er bara nákvæmlega það sem er ásett á tölvuna kr.219.990-. Fyrir fyrirtækið sem ætlar að kaupa þessa tölvu þá þarf það jú líka að greiða fullt verð til búðarinnar þegar það fær tölvuna en svo fær það endurgreitt virðisaukaskattinn af tölvunni sem er 24% eða kr.42.578-.

Lækkun tekjuskatts

Ef fyrirtækið skilar hagnaði á því ári sem það kaupir tölvuna þá lækkar kostnaður tölvunnar tekjuskattinn sem fyrirtækið hefði annars þurft að borga. Í þessu dæmi borgar fyrirtækið kr.177,441- án vsk. fyrir tölvuna sem þýðir að hagnaðurinn lækkar um þá upphæð og lækkar þar með tekjuskattinn sem þarf að greiða um 20% af þessari upphæð eða kr.35.482-.

Lækkun launakostnaðar

Ef einstaklingurinn sem er að fara kaupa sér tölvuna á fyrirtæki og er að fá laun sín greidd út úr því fyrirtæki þá er fyrirtækið að greiða launakostnaðinn hans líka. Það þýðir að til þess að fá launin sín greidd sem hann síðan notar til að kaupa tölvuna þarf hann að greiða ca. 35% í staðgreiðslu. Kostnaður tölvunnar fyrir fyrirtækjaeigendann er því kr.219.990 af hans eigin peningum og kr.76.996- af peningum fyrirtækis hans vegna staðgreiðslunar sem fyrirtækið þurfti að greiða til að geta greitt honum út þessa upphæð í launum. Heildarkostnaður tölvunnar er því í raun kr.296.986-.

Niðurstaðan

Kostnaður tölvunnar fyrir einhvern einstakling út í bæ er ennþá óbreyttur eða kr.219.990- aftur á móti er kostnaður fyrirtækisins einungis kr.141.930- (219.990 - 42.578 - 35.482). ÞEtta þýðir að það er í raun 35,5% ódýrara fyrir fyrirtækið að kaupa tölvuna en einstakling út í bæ.

En aftur á móti ef við erum með fyrirtækjaeigenda sem er að reyna ákveða hvort hann eigi að kaupa tölvuna eða fyrirtæki hans þá má einnig taka inn í reikninginn kostnað fyrirtækisins af því að borga honum laun en sá kostnaður hlýtur að leggjast ofan á kaupverð tölvunnar. Það þýðir að ef fyrirtækjaeigandinn kaupir tölvuna sjálfur er kostnaður hans og fyrirtækisins alls kr.296.986- (verð tölvunar + launakostnaður fyrirtækisins). Það væri því 52% ódýrar fyrir fyrirtækjaeigandann að kaupa tölvuna í gegnum fyrirtækið heldur en að kaupa hana sem einstaklingur.

Þetta er að sjálfsögðu bara ein leið til að líta á þetta og ég er viss um að mörg ykkar erum með aðra sýna á þessu en engu að síður vona ég að þetta gefi ykkur einhverja hugmynd um hvernig það er öðruvísi að láta fyrirtæki kaupa vöru heldur en að kaupa hana sem einstaklingur. Ef þið eruð ósammála þessum útreikningum eða eruð með aðrar skoðanir á þessu þá endilega skrifið komment hér fyrir neðan, væri gaman að heyra frá ykkur :)

 

 


Að stofna fyrirtæki á 10 mínútum.

Nýlega breytti Ríkisskattstjóri ferlinum við stofnun fyrirtækja og nú er hægt fara í gegnum allan ferilinn rafrænt inn á vefsíðu RSK. Þetta er svakalega stórt skref fyrir íslenska frumkvöðlaumhverfið því nú er hægt að fara í gegnum allan ferillinn á aðeins 10 mínútum og það tekur ekki nema 1-2 sólahringa frá skráningu áður en fyrirtækið er komið með kennitölu og þið getið hafið rekstur.

Aldrei verið auðveldara að stofna fyrirtæki

Þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki fyrir 15 árum síðan þá man ég hvað það var mikil hausverkur að finna út úr því hvernig ætti að gera það. Ég þurfti að ráða mér lögfræðing til að aðstoða mig við að útbúa öll nauðsynleg stofnskjöl enda voru slík skjöl hvergi aðgengileg og svo flókin að maður þurfti aðstoð við að fylla þau út. Þessi lögfræðiþjónusta kostaði sitt og bætti yfirleitt nokkrum dögum við ferilinn en á þeim tíma tók það svo RSK 7-10 daga að vinna skráninguna. Ég hugsa mér að heildarkostnaður við stofnun á þessum tíma með lögfræðiþjónustu og skráningu hjá RSK hafi verið á bilinu 200-300þús og tíminn sem þetta tók að lágmarki 2 vikur.

Sjálfvirk skráning á vef RSK

En nú er öldin önnur (reyndar ennþá sama öld en þú veist...), allur ferillinn í dag er rafrænn og nú er einfaldlega hægt að fylla inn form á vefsíðu RSK og öll stofnskjölin verða útbúin sjálfkrafa og þau svo undirrituð af stofnendum með rafrænum skilríkum og 1-2 dögum síðar er komin fyrirtækjakennitala og rekstur getur hafist. Hugsanlega mynduð þið ennþá vilja fá lögfræðing í lið með ykkur ef þið þurfið að gera hluthafasamning en að öðru leiti er engin auk kostnaður eða tímafrekar flækjur. Þannig þótt svo að kostnaðurinn vð stofnun sé sá sami (en samt ennþá of hár að mínu mati) þá er þarna búið að útiloka auka lögfræðikostnað og því má segja að hann hafi lækkað um 25-50% fyrir þá sem eru að stofna í fyrsta skipti og ferillinn er núna 700% hraðari (2 dagar í stað 14).

Þetta er virkilega stórt og flott skref hjá RSK og eiga þau heiður skilið fyrir þetta framtak.

Hér má sjá vidjó frá RSK sem útskýrir aðeins ferilinn.

 


Besti aldurinn til að stofna fyrirtæki?

Ég hef oft átt samtöl við fólk sem langar til að stofna fyrirtæki en finnst það ekki alveg vera á rétta aldrinum eða rétta tímanum í lífi sínu. En ég hef líka hitt og unnið með 14 ára gömlum frumkvöðli og 60 ára gömlum frumkvöðli og allt þar á milli. Því er gaman að velta fyrir sér hvort það sé eitthvað til sem mætti kalla besti aldurinn til að stofna fyrirtæki.

Sjálfur byrjaði ég mitt fyrsta frumkvöðlaævintýri 14 ára gamall þótt svo að ég hafi svo ekki stofna mitt fyrsta formlega fyrirtæki fyrr en 23 ára gamall. Ég er í dag 37 ára og hef því farið út í ýmis frumkvöðlaævintýri á þessum 23 árum, svo ég get talað um þetta aldursbil með smá reynslu á bak við mig og ég ætla að fleygja fram smá kenningum um þau tímabil sem ég á ennþá eftir að upplifa.

Það sem ég hef tekið eftir í sjálfum mér, og endurspeglar líklega flesta, er að drifkrafturinn er öflugastur á táningsaldrinum og vel inn á þrítugsaldurinn, eftir það dvínar hann aðeins. Á sama tíma dvínar áhættusæknin og maður fer að vilja fara aðeins öruggari leiðir og þá ekki síst þegar maður fer að eignast fjölskyldu og bera ábyrgð á fleirum en sjálfum sér.

Á móti kemur að með árunum kemur ýmis viska sem getur gert ferilinn töluvert auðveldari. Þetta getur verið aukin þekking á tilteknum iðnaði, viðskiptum, tækni eða bara hvernig heimurinn virkar. Og svo lærir maður líka hvernig maður á betur að nýta tíma sinn og þannig getur maður oft afrekað mun meira á sama tíma og maður gerði a yngri árum. 

En burt séð frá drifkarfti, visku og því öllu þá held ég að það sé einn hlutur sem trompar allt annað þegar það kemur að rétta tímanum til að stofna fyrirtæki en það er þegar andagiftin kemur yfir mann. Alveg sama á hvaða aldri maður er þá er alltaf erfitt að stofna og byggja upp fyrirtæki og því mjög mikilvægt að vera með spennu og ástríðu fyrir viðskiptahugmyndinni.

Þannig jú aldur hefur eitthvað að segja um orku manns og áhættusækni en staðreyndin er sú að það er hægt að stofna fyrirtæki á öllum aldri.

 


Að losna við slæma meðeigendur

Ég ætla ekki að segja ALLIR (þótt ég hugsi það), frekar ætla ég að segja FLESTIR, já flestir þeir stofnendur sem hafa stofnað fyrirtæki með einum eða fleiri meðeigendum hafa á einhverjum tímapunkti þurft að velta fyrir sér "hvernig losna ég við þennan hrikalega meðeigenda".

Þarna er ég ekki að segja að það séu slæmir meðeigendur í öllum hópum stofnenda heldur frekar að það að stofna fyrirtæki með öðrum aðilum sé mjög erfitt og krefjandi verk og því ekki skrítið að það komi upp erfiðar stöður og ósætti manna á milli. Margir vilja líkja þessu við það að vera í hjónabandi og það er margt til í þvi en veltið nú fyrir ykkur að það tekur flesta einstaklinga mörg ár af stefnumótum og sambúð áður en þeir viti hvort viðkomandi sé sá rétti til að giftast og þrátt fyrir það endar um helmingur hjónabanda með skilnaði. Er þá ekki líklegt að stofnun fyrirtækis, sem oftar en ekki er ákveðin í núinu í þokukenndu ástandi eldmóðs á tíunda kaffibolla, sé líkleg til að enda illa? Svo má einnig færa þau rök að það sé auðveldara að losna úr hjónabandi heldur en að losna við meðeigenda enda getur meðeigandi neitað að selja og hvað gera lagsmenn þá?

Fyrirbyggjandi leiðir

Besta leiðin til að koma í veg fyrir að allt fari í háaloft þegar einn eða fleiri meðeigendur eru ósáttir er að hafa í upphafi rekstursins sett skírar línur um hvað skuli gera ef upp koma ósætti. Það er hægt að gera með skriflegu samkomulagi eða svokölluðu hluthafasamkomulagi, og notast þá við klausu sem ég hef heyrt kallað "shotgun claus" og stundum rússnesk rúlletta en sú klása tilgreina að ef upp koma ósætti getur sá ósátti óskað eftir að hinir eigendurnir geri honum tilboð í hans hlut en ef hann tekur ekki tilboðinu þá verður hann að kaupa hina eigendurnar út á sama verði. Þannig er hægt að losna við öll rifrildin og klára þetta á nokkrum dögum frekar en að hafa þetta hangandi yfir manni næstu mánuði og ár.

Skilningsríki meðeigandinn

Ef þú ert svo heppinn að semja um útgöngu við meðeigenda sem er rólegur, yfirvegaður og tilbúinn að ræða þá ertu heppin en það er engu að síður langt til lands. Nú þurfið þið að komast að samkomulagi um hversu mikils virði hans hluti er og hvernig þú ætlar að fara að því að greiða fyrir þann hluta. Verðmatið er yfirleitt sérstaklega erfitt í ungum fyrirtækjum sem eru með engar, litlar eða óreglulegar tekjur, þá eru engin viðmið í því hvernig eigi að verðmeta þetta og yfirleitt er það þá bara samkomulagsatriði.

Brjálaði meðeigandinn

Svo er það alltaf hættan á að þurfa díla við pirraðan og reiðan meðeigenda sem heimtar himinháar upphæðir fyrir sinn hluta og neitar að selja nema fá það. Ef þú ert í þessari stöðu þá finn ég til með þér og óska þér góðs gengis, í svona tilfellum getur góður sálfræðingur verið jafn mikils virði og góður lögfræðingur því svona lagað tekur mikið á andlegu hliðina. Í svona tilfellum er mikilvægt að gera sér grein fyrir hversu mikið þú ert tilbúinn að greiða fyrir fyrirtækið og vera svo tilbúinn að loka því ef hann heimtar meira en það, ef viðkomandi trúir að þú munir gera það þá er hann kannski líklegur til að samþykkja að fá eitthvað frekar en ekki neitt. Svo þarftu einnig að skoða þann möguleika að loka bara fyrirtækinu, oft er það ódýrara og minni fyrirhöfn að byrja alveg upp á nýtt heldur en að standa í endalausum rifrildum við aðila sem skortir rökhugsun.

Besti kosturinn er að sjálfsögðu sá að forðast öll rifrilid og leiðindi sem gætu orðið til þess að meðeigendur verði ósáttir en ef þið lendið einhvertímann í einhverju svona þá óska ég ykkur góðs gengis.

 


Frumkvöðlar í prenti

Flestar framfarir í íslensku frumkvöðlaumhverfi hafa átt sér stað þegar grassrótin sjálf þ.e.a.s. frumkvöðlarnir sem starfa í umhverfinu, taka sig til og setja í framkvæmd þær breytingar sem þeir vilja sjá á umhverfinu. Og þökk sé grassrótinni þá hefur umhverfið stöðugt haldið áfram að verða betra og betra. Nýjustu ummerki áframhaldandi þróunar umhverfisins má nú finna bæði í sjónvarpinu í formi þáttarins Toppstöðvarinnar og í prenti í ný útgefinni bók með sama nafn.

12239603_10153393449088515_8211711442557273461_nEf þið hafi ekki nú þegar keypt ykkur eintak af Toppstöðinni og sömuleiðis nokkur eintök til að nýta í jólagjafir fyrir áhugasama fjölskyldumeðlimi og vini, þá mæli ég með að þið gerið það. Bæði til að undirstrika það fyrir ykkur sjálfum og fyrir þeim sem ykkur þykir vænt um að allt sé hægt og líka til að styðja við þá frumkvöðla sem lögðu tíma sinn, vinnu og fjármuni í að gera þessa bók að veruleika.

 

Bókin samanstendur af greinum frá 40 íslenskum frumkvöðlum (þar á meðal mér sjálfum) sem deila í henni ýmsum góðum ráðum sem þeir hafa lært í gegnum viðskiptaævintýri sín. Það eru því margir mjög góðir fróðleiksmolar þarna sem koma frá reyndum frumkvöðlum.

Í raun vildi ég einnig skrifa þessa blogg færslu í þakklætisskyni til allra þeirra frumkvöðla sem hafa lagt hönd sína á plóginn til að gera íslenskt frumkvöðlaumhverfi betra. Vonandi veitir vinna þeirra þér innblástur til að bretta upp ermarnar ef þér finnst eitthvað mega betrumbæta í frumkvöðlaumhverfinu eða heiminum í heild.

Við erum öll saman í þessu og því betra sem frumkvöðlaumhverfið verður því betri tækifæri munum við eiga á að skapa alþjóðlega fyrirtæki sem ná velgengni.


Frumkvöðlaskattur?

Ég hef í gegnum árin stofnað nokkur fyrirtæki hér á Íslandi og að mörgu leiti er það ekki svo flókinn ferill, sérstaklega þegar maður er búinn að fara í gegnum hann einu sinni áður. Það sem hefur þó alltaf pirrað mig afskaplega mikið er sú staðreynd að kostnaðurinn við að skrá fyrirtæki hér á Íslandi er kr.130.500-.

Það er afar ólíklegt að raunkostnaður ríkisskattstjóra við það að skrá fyrirtæki hjá sér sé svo mikill enda líklega ekki svo mikil vinna fyrir starfsmenn skattstjóra. En ef raunkostnaður þeirra er ekki svo mikill þá hlýtur það að þýða að allt það sem kemur inn umfram raunkostnaðinn sé tækifæri fyrir ríkið að hagnast á framtakssemi íslenskra frumkvöðla þ.e.a.s. að í staðinn fyrir að ríkið sé að styðja við fátæka frumkvöðla, sem eru að reyna byggja upp virði og störf fyrir sjálfa sig og aðra, hefur ríkið ákveðið að reyna skattleggja framtakssemi þeirra.

Allir þeir sem hafa tekið að sér það mikla og erfiða verkefni að byggja upp eigin rekstur gera sér grein fyrir hversu rosalega erfitt það er og hversu mikilvægt það er að hver einasta króna sé nýtt á sem bestann hátt. Hundrað og þrjátíu þúsund krónur eru því yfirleitt mjög mikill peningur fyrir þessa frumkvöðla og í flestum tilfellum stærsti kostnaðarliður þeirra á upphafsstigum rekstursins. Í öllum öðrum löndum sem ég hef kynnt mér frumkvöðlastarf er skráningarkostnaðurinn mun lægri og því má með sanni segja að ríkisskattstjóri sé að veikja samkeppnisstöðu íslenskra frumkvöðlafyrirtækja á alþjóðamarkaðnum með því að skattleggja þau svona hárri upphæð strax í upphafi.

Samanburður á skráningarkostnaði fyrirtækja.

Ísland: kr.130.500-
Kanada: kr.40.000- (326% dýrara á Íslandi)
Svíþjóð: kr.33.000- (395% dýrara á Íslandi)
Danmörk: kr.16.700- (781% dýrara á Íslandi)
USA: kr.9.000- (1.450% dýrara á Íslandi)

* Ég hef einnig heyrt að það sé stundum frítt að skrá fyrirtæki á norðurlöndunum ef um er að ræða nýsköpun en ég hef ekki kynnt mér það nánar.

Lágmarkshlutafé sem þarf að leggja í fyrirtæki á Íslandi (kr.500.000-) er að mínu mati einnig alltof hátt og algjör óþarfi en ég ætla láta þá umræðu bíða betri tíma.

Ég tek það skýrt fram að ég hef ekkert á móti skattlagningu enda er það mikilvægt til að tryggja gott samfélag fyrir okkur öll en mér finnst það mjög ósanngjarnt að vera rukka svo há gjöld af fólki sem er að reyna skapa virði fyrir samfélag okkar.

Endileg deildu með okkur skoðunum þínum á þessu máli hér fyrir neðan.

 


Á að blogga á ensku?

10704014_10153576323706002_609114480533184479_n

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvað ég eigi að gera við frumkvöðlar.is þar sem bloggið fer að verða meira takmarkandi fyrir mig eftir því sem ég sjálfur vex og þróast sem frumkvöðull. Í dag eru mínir mestu vaxtamöguleikar erlendis og flest öll mín samskipti eiga sér stað við erlenda aðila út um allan heim. Því meiri tíma sem ég eyði erlendis því meira geri ég mér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að hætta að takmarka sig við eitt land og byrja hegða sér sem alþjóðlegur frumkvöðull. Eitt af skrefunum í áttina að því er það að færa meira af samskiptum sínum yfir á ensku og því hef ég ákveðið að minnka skriftir mínar hérna á frumkvöðlar.is og einbeita mér í auknu mæli að því að skrifa á ensku á hinni bloggsíðunni minni VikingEntrepreneur.com.

 


Hvað þarf til að byggja upp gott umhverfi fyrir frumkvöðla á Íslandi?

Þorsteinn B. Friðriksson stofnandi og forstjóri Plain Vanilla flutti þennan fyrirlestur á Haustráðstefnu Advania. Ég hef í raun engu við þetta að bæta hjá honum Þorsteini, frábærlega góð samantekt hjá honum og yndislega gaman að fylgjast með velgengni QuizUp.


Klífðu fjöll!!!

Ímyndaðu þér (ef það er ekki nú þegar staðreynd) að þú hafir ekki mikla reynslu af fjallgöngu, hafir kannski mesta lagi gengið upp á Esjuna en lítið annað en það. Svo einn daginn þegar þú ert að keyra um einhvern sveitaveg í fjarlægju landi kemurðu að risastóru fjalli með bratta klettaveggi og þakið í snjó, og þú segjir við sjálfan þig "Þetta er fallegt fjall, ég ætla að klífa það!". Þrátt fyrir að öll almenn skynsemi segji þér að þú hafir enga reynslu né getu til að klífa slíkt fjall þá tekur þú staðfasta ákvörðun.

Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að ef þú myndir óundirbúinn reyna að klífa fjallið myndi líklega fara illa fyrir þér. Þú þarft fyrst að afla þér upplýsinga um fjallið, útvega rétta búnaðinn, æfa þig á minni fjöllum, fá leiðbeiningar frá reyndari fjallgöngumönnum, lesa bækur um það, kannski fara á námskeið og sitthvað fleira til að tryggja það að þú farir þér ekki að voða. En þegar það allt er komið er í raun ekkert sem kemur í veg fyrir það að þú gætir náð markmiði þínu.

Nákvæmlega það sama á við um frumkvöðlaferilinn, hann er alveg eins og að klífa risa stórt og ókunnugt fjall. Ef þú hlustar á skynsemina þá segjir hún þér að þú hafir enga reynslu af því að stofna fyrirtæki, að þú hafir enga þekkingu á því og að þú munir líklega enda sem gjaldþrota aumingi. Þú þarft að horfa fram hjá þeirri "skynsemi" sem samfélagið er búið að kenna þér og taka staðfasta ákvörðun. Ákvörðunin er alltaf fyrsta skrefið í áttina að því að klífa öll fjöll, svo tekur við undirbúningurinn, fyrr en varir ertu orðin hæfur til að takast á við verkefnið, "skynsemin" þagnar og þú klífur fjallið.

Það magnaða við það að fara út í fyrirtækjarekstur er það að þú þarft stöðugt að takast á við ný fjöll sem búa yfir nýjum hættum og erfiðleikum sem þú þarft að finna lausn á. Þegar þú stofnar fyrst fyrirtækið þarftu að finna út úr öllum lagalegu hlutunum við það að stofna fyrirtæki og horfast í augu við "skynsemina" sem segir þér að þetta fari illa. Svo þarftu að fara út fyrir þægindasvæðið þegar þú yfirgefur öruggu vinnuna þína og ferð að vinna að fullu að fyrirtækinu nýja. Svo þarftu að vaxa og gera stórar fjárfestingar, opna dótturfyrirtæki erlendis, reyna selja stórum fyrirtækjasamsteypum vöru þína, veðsetja fasteignina til að fyrirtækið geti vaxið og svo koll af kolli. Og hver einasta staðfasta ákvörðun sem þú tekur um að halda áfram felur í sér að þú þurfir að klífa nýtt fjall og eins og alltaf þegar maður stendur við fjallsræturnar virðist það vera ókljúfanlegt en ef þú leitar hjálpar frá þeim sem hafa meiri reynslu, aflar þér upplýsinga og undirbýrð ferðina vel þá muntu ná að klífa það fjall.

Það fara bráðum að vera komin 10 ár frá því ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki en ég er samt reglulega að klífa ný fjöll og það er alltaf jafn erfitt þegar maður stendur við fjalsræturnar en á sama tíma alltaf jafn gefandi þegar maður kemst á toppinn. Fyrir nokkrum mánuðum síðan fólst fjallið mitt í því verkefni að stofna mitt fyrsta fyrirtæki í erlendu landi og ég stóð við fjalsræturnar, horfði upp og fannst þetta vera ómögulegt verk, ég hafði enga reynslu og vissi ekkert hvernig ég ætti að fara að. En þegar ég loksins tók staðfasta ákvörðun um að gera það þá leitaði ég mér ráðleggingar hjá reyndari aðilum, fékk aðstoð og upplýsingar og lét verða af því. Nú stend ég fyrir framan nýtt fjall sem ég er kvíðinn en afar spenntur fyrir að klífa.

Ekki láta fjallið vinna, skiptu verkefninu niður í minni hluta og sigrastu á hverjum hluta fyrir sig og þá er ekkerf fjall of stórt til að klífa.

Klífðu fjöll!!!


Breytingar hjá Frumkvöðlar.is

Frumkvöðlar.is byrjaði upphaflega bara sem persónulegt blogg en þar sem ég hef lifað og hrærst í frumkvöðlaheiminum í all langan tíma þá snérust allar greinar mínar um fyrirtækjarekstur og frumkvöðlastarf. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hálf undarlegt að hugsa til þess að ég hafi skrifað mína fyrstu bloggfærslu á vefinn 12.maí 2010 en það þýðir að ég sé búinn að vera skrifa á þennan vef í meira en 4 ár. Ég var aldrei með nein sérstök plön varðandi vefinn og var meira bara að gera þetta sjálfum mér til gamans. Hugsanlega spilaði það einnig inn í þetta að ég hafði engan til að læra af þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki og fannst ég því að vissu leiti knúinn til að reyna deila reynslu minni.

Greinarnar sem ég hef skrifað á vefinn hafa verið heldur óreglulegar enda skrifa ég einungis þegar ég hef tíma og þegar ég hef frá einhverju áhugaverðu að segja. Sem dæmi þá skrifa ég yfirleitt flestar greinarnar þegar ég sjálfur er að safna mér upplýsinga um eitthvað ákveðið efni fyrir fyrirtækið mitt og deili þeim svo áfram í formi greinar. Mig er þó farið að langa núna til að breyta vefnum úr því að vera bara blogg yfir í það að verða eitthvað meira og gera í því að reyna safna raunverulegum fróðleik sem virkilega nýtist öðrum frumkvöðlum. Því miður þá hef ég ekki þann tíma sem þarf til að vera stöðugt að skrifa greinar og safna að mér efni enda er ég staddur erlendis að vinna í því að byggja upp mitt eigið fyrirtæki. En þess í stað hef ég nú ráðið nýjan ritstjóra til að halda utan um vefinn fyrir mig.

Ásgeir Ingvarsson nýr ritstjóri Frumkvöðlar.is
e150e5c07e4aa67014562034449d84bcFyrir nokkrum árum hitti ég Ásgeir þegar hann var að skrifa grein um mig fyrir Morgunblaðið og við höfum haldið góðu sambandi síðan þá. Ég vissi það að hann hefði mikinn áhuga á frumkvöðlastarfi og hann þekkti einnig vel til viðskiptaumhverfisins þar sem hann hefur skrifað mikið um það í gegnum árin. Ég ákvað því að fá hann til liðs við Frumkvöðlar.is til að aðstoða að búa til meiri stöðugleika í kringum vefsíðuna. Hann mun skrifa reglulegar greinar inn á vefsíðuna og sjá til þess að þar sé ávallt eitthvað nýtt og spennandi að finna.

Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að skrifa greinar annað slagið eftir því sem tími gefst til og mig dreymir líka um að reyna virkja nokkra reynslubolta í frumkvöðlaheiminum og fá þá til að skrifa greinar einnig. Það er ekki ennþá ljóst hvernig vefsíðan mun halda áfram að þróast en við reynum þó að halda áfram með það markmið að fræða frumkvöðla á öllum stigum fyrirtækjaferilsins.

Það væri afskaplega gaman að heyra frá ykkur lesendunum um hvað þið mynduð vilja sjá okkur fjalla um eða hvernig þið mynduð vilja sjá vefsíðuna þróast. Einnig ef einhver ykkar er tilbúin að hjálpa okkur að einhverju leiti við að gera vefsíðuna betri þá fögnum við slíku.

Eigið frábæran dag :)


Capital Factory

Ég rakst á þetta afar skemmtilega vidjó um Capital Factory inn á TechCrunch og það minnti mig óneitanlega á það þegar ég var að ferðast um Bandaríkin á síðasta ári. En þá kom ég við í Capital Factory og tók þar smá vinnutörn eins og sjá má á sönnunargögnunum hér fyrir ofan. En það sem meira er þá sýnir þetta myndband afskaplega vel hversu mikilvægt það er að vinna í rétta umhverfinu, umkringdur rétta fólkinu og rétta hugarfarinu.

Ég hef undanfarin ár alltaf kosið að starfa í frumkvöðlasetrum þar sem mér finnst það yfirleitt vera besta umhverfið til að veita mér innblástur og til að beintengjast "stuðningshópi frumkvöðla". Reyndar fyrst þegar ég stofnaði núverandi fyrirtæki mitt starfaði ég að mestu leiti á kaffihúsum en fljótlega flutti ég svo fyrirtækið í Hugmyndahús Háskólana sem var virkilega skemmtilegt umhverfi til að vinna í fullt af mjög skapandi fólki, í raun leitt að það hafi liðið undir lok. Þaðan flutti ég svo í Kvosina sem er á frumkvöðlasetur á vegum NMI og hefur farið afskaplega vel um Bungalo þar. Svo þegar ég flutti með fyrirtæki mitt hérna út til Kanada þá kom bara til greina einn staður sem hugsanlegt skrifstofurými fyrir fyrirtækið en það er Volta sem er aðal frumkvöðlasetrið hér í Halifax og hjálpaði sú ákvörðun mér mikið við að læra fljótar inn á rekstrarumhverfið hér úti.

Heima hefur mikið breyst í þessum málum á undanförnum árum og má meðal annars nefna frumkvöðlasetrin sem NMI eru með en einnig Innovation House út á Seltjarnarnesi en síðast þegar ég leit þar við var allt iðandi í lífi þar og mörg öflug fyrirtæki. Ég hvet því sem flesta til að skoða þessi mál betur og reyna komast inn í gott umhverfi til að rækta fyrirtækin.


Þarftu að greiða þér laun?

Ég fékk skemmtilegt bréf frá frumkvöðli sem var að hefja rekstur og var að velta fyrir sér þeim undarlegu lögum sem fjalla um það að stofnandi sé skyldugur að greiða sér út laun frá og með þeim tíma sem fyrirtæki er stofnað. Þessi lög hafa oft og mörgu sinnum komið upp í samtölum á hinum ýmsu viðburðum sem ég hef farið á þar sem frumkvöðlar eru allir jafn hissa á að slík lög séu til staðar og fæstir virðast þeir hafa farið eftir þeim. Það er náttúrulega alltaf slæmt að brjóta lög en ennþá verra ef lögin eru það illa sett fram að maður geti ekki farið eftir þeim.

Á vefsíðu RSK má finna eftirfarandi:

"Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur á að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.

Reglan á bæði við um mann sem stundar atvinnustarfsemi í eigin nafni (eigin kennitölu) og mann sem starfar við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum, eða við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar."

Allir þeir sem hafa farið út í það að stofna frumkvöðlafyrirtæki gera sér grein fyrir því að það er nær óhjákvæmilegt að maður þurfi að starfa við það launalaust í einhverja mánuði eða jafnvel ár áður en þau fara að skila nægum tekjum til að hægt sé að greiða sér manni sæmandi laun. Það er líka áhugavert að skoða viðmiðunarlaunin sem RSK ætlast til að maður greiði sér en ég held að fæstir frumkvöðlar séu að greiða sér út slík laun þótt svo þeir séu komnir eitthvað lengra inn í ferilinn.

Ég hef áður fjallaðu um hversu dýrt það er fyrir stofnendur að greiða sér laun og ég er ennþá á því að stofnendur eigi að reyna greiða sér út eins lítil laun og þeir geta fyrstu mánuðina og árin vegna þess kostnaðar.

Svarið sem ég gaf þessum skemmtilega frumkvöðli sem skrifaði mér var eftirfarandi:

"Ég hef sjálfur stofnað nokkuð fyrirtæki og hef oft einfaldlega sleppt því algjörlega að greiða mér laun til að byrja með og hef aldrei fengið neina athugasemd út á það. Ég hef einnig rætt við fólk innan RSK sem eru að vissu leiti sammála mér að þetta væri fáranleg regla og sú tilfinning sem ég fékk frá þeim var sú að þetta væri bara eitthvað sem væri ekki mikið farið eftir eða allavegana ekki mikið reynt að klekkja á nýsköpunarfyrirtækjum sem ekki greiða sér út laun. 

Mér skilst að ef þú ert í annari vinnu eða í námi þá gildir þessi regla ekki og þú þarft ekki að greiða þér laun. Ég hugsa líka ef fyrirtækið hafi ekki efni á að borga þér laun þá myndi engin fara að elta þig uppi fyrir að hafa ekki gert það. Ég myndi því halda að þetta væri ekki eitthvað sem þú þyrftir að hafa áhyggjur af."

Ég er að sjálfsögðu engin endurskoðandi eða lögfræðingur og ætla því ekki að þykjast vera neinn sérfræðingur í þessum málum að öðru leiti en því að ég hef farið í gegnum þennan ferill nokkrum sinnum. Ég ætla því að biðja þá sem hafa reynslu eða þekkingu á þessum málum að deila þeim með okkur hér fyrir neðan, ég hefði gaman af því að vera leiðréttur ef ég er að fara rangt með eitthvað hér.

 


Kaldlyndur mentorafauskur

Hér áður fyrr gagnrýndi ég oft þá mentora/leiðbeinendur innan frumkvöðlaumhverfisins sem voru mjög harðir við unga frumkvöðla. En þrátt fyrir það hef ég sjálfur í seinni tíð farið að verða mun harðari við unga frumkvöðla og er ófeimnari við að segja mínar skoðanir á fyrirtækjum þeirra.

Ástæðan fyrir þessari auknu harðneskju minni er ekki það að mér líki illa við frumkvöðlana eða hugmyndir þeirra heldur er það frekar útaf því að ég er að benda á hluti sem ég sjálfur vildi óska þess að ég hefði vitað fyrr í ferlinum. Staðreyndin er sú að það að ná árangri í fyrirtækjarekstri getur verið eitthvað það erfiðasta sem þú kemur til með að taka að þér á lífsleiðinni (ef þú fylgir því eftir alla leið). Þú munt þurfa taka erfiðar ákvarðanir og eyða mörgum árum af ævi þinni í að byggja eitthvað upp sem þú veist ekki hvort muni ganga upp eða ekki. Flestir mentorar þekkja þetta af eigin raun og þegar þeir eru að gagnrýna unga frumkvöðla þá eru þeir ekki að gera það af einhverri illkvittni heldur þvert á móti eru þeir að reyna sitt besta til að stytta þennan erfiða feril hjá frumkvöðlunum.

Ég vil þó taka það skýrt fram að mentor á aldrei að vera ókurteis eða niðrandi í gagnrýni sinni á ungum frumkvöðlum og ég mun ekki hika við að eiga orð við þann mentor sem gerist sekur um slíkt. En ég skil núna betur afhverju mentorar eru stundum harðir við unga frumkvöðla, einfaldlega útaf því að þeir eru að reyna undirbúa þá betur undir það sem koma skal.

Ég vil því biðja alla þá sem hafa og munu fá harða gagnrýni frá mentorum um að taka því ekki illa heldur frekar að líta á það sem tækifæri til að betrumbæta viðskiptahugmyndir sínar.


4 þrep í frumkvöðlarekstri

Það að stofna frumkvöðlafyrirtæki og ná árangri er nær alltaf erfiðara og flóknara heldur en fólk gerir sér grein fyrir. Flestir virðast halda að þetta sé eitthvað sem gerist á einhverjum mánuðum en staðreyndin er sú að það að byggja upp stöðugt fyrirtæki tekur yfirleitt að lágmarki 2-3 ár af ævi þinni.

Ferlinum við að búa til stöðugt fyrirtæki má skipta upp í þessi 4 þrep.

11. Þrep: Eldmóðurinn
Þegar maður fær fyrst hugmyndina er allt svo skemmtilegt og spennandi, það virðast ekki vera nein takmörk og það er nokkuð augljóst að þessi hugmynd eigi eftir að verða milljarða króna virði í náinni framtíð. Á þessu tímabili fara sumir frumkvöðlar inn í "incubators" eða frumkvöðlasetur og vinna myrkranna á milli við hugmyndina. Þetta er tímabilið sem lætur frumkvöðalumhverfið líta út fyrir að vera töff og skemmtilegt. Þetta tímabil varir yfirleitt bara í nokkrar vikur eða mánuði.


942451_637189819644430_1875666473_n

2. Þrep: Núðlusúputímabilð
Hérna byrjar alvaran, þú ert með hugmynd sem þú ert búinn að pússa aðeins til en hún er ennþá ekki farin að skila neinum tekjum. Á þessum punkti þarftu að taka ákvörðunina hvort þú sért raunverulega tilbúinn að veðja á hugmyndina þína því næstu mánuði þarftu að vinna í fullu starfi að hugmynd sem er ekki að gefa þér neinar tekjur. Ertu tilbúin að vinna launalaust, fara út fyrir þægindasvæðið og taka áhættu? Fæstir eru tilbúnir að taka skrefið inn í þetta tímabil og af þeim sem taka skrefið gefast margir upp á meðan á þessu tímabili stendur. Þetta tímabil varir yfirleitt í 12-24 mánuði.


slouch-6363. Þrep: Ábyrgðin
Á þessu tímabili er fyrirtækið farið að vaxa og þú farinn að ráða inn starfsmenn, nú þarftu allt í einu að fara taka á þig miklu meiri ábyrgð heldur en þú hefur gert fram að þessu. Vinnutímar þínir eru langir þar sem verkefnalistinn er langur og þú hefur aldrei efni á því að ráða alla þá starfsmenn sem þarf til að sjá til þess að allt gangi vel, þú verður að sjá til þess að allt rúlli vel í fyrirtækinu og vinna frameftir ef eitthvað þarf að klárast. Þú þarft að sjá til þess að þú eigir alltaf nægar tekjur til að borga starfsmönnum þínum, þú þarft að halda utan um þá og funda með þeim reglulega til að vera viss um að þeir séu að skila sinni vinnu. Ef tekjurnar lækka eða eitthvað óvænt kemur upp á gætirðu þurft að hagræða í fyrirtækinu og reka einhvern af starfsmönnum þínum. Í þessu þrepi eru þetta allt í einu hætt að vera leikur og alvaran tekur við.


World-Domination-Summit

4. Þrep: Heimsyfirráð eða stöðnun.
Í fjórða og síðasta þrepinu kemur raunverulega í ljós hvers megnugt fyrirtækið er, nú þarftu að taka ákvörðun um hvort þú ætlir að staðna í stað eða taka áhættuna og reyna vaxa og verða stórt alþjóðlegt fyrirtæki. Ef þú þorir ekki að taka áhættuna á því að vaxa mun fyrirtækið líklega halda áfram að lifa en starfið þitt og fyrirtækið mun breytast í rútinu sem mun aldrei gera neina stórvægilega hluti en mun þó engu að síður halda áfram að bjóða starfmönnum þínum upp á störf og skapa tekjur fyrir þig. Ef þú ákveður að taka áhættuna og veðja á að fyrirtækið þitt getið vaxið með veldishraða þá áttu hættu á því að drepa fyrirtækið, en aftur á móti ef sú áætlun gengur upp eru engar takmarkanir á því hvað fyrirtæki þitt mun geta vaxið og þú munt annað hvort geta rekið stórt alþjóðlegt fyrirtæki eða selt það og exitað með nóg af pening í bankanum.

 

Í hvaða þrepi ert þú og ertu tilbúinn að fara í gegnum öll fjögur þrepin?


Sannleikurinn um að stofna fyrirtæki í öðru landi

Það eru núna 4 ár frá því að ég stofnaði Búngaló ehf. á Íslandi og fór út í það að aðstoða íslenskar fjölskyldur við að leigja út sumarhús sín í gegnum netið. Eins og með flestan fyrirtækjarekstur þá voru fyrstu tvö árin erfið en eftir það fór að ganga betur og í dag er fyrirtækið komið í stöðugan rekstur heima á Íslandi og fyrir utan sjálfan mig er ég með 3 starfsmenn sem vinna að rekstrinum hér heima.

En allt frá því að hugmyndin varð fyrst til hef ég stefnt að því að fara með það erlendis og gera það að alþjóðlegu fyrirtæki. Reyndar eru 70% af viðskiptavinum heima á Íslandi erlendir ferðamenn en það er þó langt frá því að geta talist alþjóðleg fyrirtæki og ég vildi fara skrá inn erlend sumarhús út um allan heim. Ég ætla ekki að fara út í rökræðuna í þessari grein um hvort ég hefði átt að gera þetta fyrr en ég gerði, ég ætla frekar að segja ykkur frá því hvað ég komst að þegar ég loksins lét verða af því að fara út á alþjóðlega markaðinn og stofnaði dótturfyrirtæki í Kanada.

Að "Incorporate"-a
Það er í raun ekkert flóknara að stofna fyrirtæki erlendis  heldur en það er að gera það heima. Lykillinn að því er að finna góðan lögfræðing sem hefur reynslu af því að vinna með frumkvöðlafyrirtækjum og fá hann til að sjá um alla pappírsvinnuna. Kostnaðurinn er svo í nær öllum löndum mun minni en á Íslandi og jafnvel með lögfræðikostnaðinum er hann oft minni heldur en bara skráningarkostnaðurinn hér heima á Íslandi. Sem dæmi þá kostar það um kr.40.000 að stofna fyrirtæki í Kanada (þar sem ég stofnaði dótturfyrirtæki) á meðan að það kostar 140.000- hérna á Íslandi, þannig þið eigið alveg eitthvað aflögu til að borga lögfræðingnum. Mörg lönd eins og t.d. USA eru ódýrari en Kanada.

Gjaldeyrishöftin
Það flóknasta, tímafrekasta og líklega dýrasta, við það að stofna fyrirtækið erlendis var ekki það að stofna sjálft fyrirtækið í framandi landi. Nei það voru gjaldeyrishöftin sem gerðu mér, og mörgum öðrum frumkvöðlum, mjög erfitt fyrir. Ég þurfti að ráða mér lögfræðing sem kostaði dágóðan skilding og fá hann til að senda umsókn til seðlabankans þar sem hann þurfti að sýna fram á að við yrðum að stofna fyrirtæki erlendis til að vaxa, sýna í hvað peningarnir sem við færum með úr landi myndu vera notaðir og að þetta myndi svo örugglega allt skila sér margfalt til baka til íslenska ríkisins. Sem betur fer var ég með góðan lögfræðing og ég fékk samþykki fyrir þessu á einungis 1 mánuði en ég hef heyrt dæmi um að slíkar umsóknir hafi tafist um 4-5 mánuði.

Bungalo skrifstofan út í Kanada

Back to basics
Ég verð að viðurkenna að mér var í senn skemmt og pirraður þegar ég áttaði mig á því að ferillinn úti við það að koma fyrirtæki í gang þar var í raun alveg nákvæmlega sá sami og ég hafið farið í gegnum hér heima þegar ég stofnaði fyrirtækið fyrst. Að leita að skrifstofu, setja upp síma, ráða fólk, búa til réttu tengslin og hitta tugi manna í kaffibolla og spjall, finna ráðgjafa, endurforrita mikið af kerfunum til að henta nýjum kringumstæðum og ótal margir aðrir hlutir sem ég hafði gert áður.

Tungumálið
Eitthvað sem ég hafði ekki hugsað út í var tungumálið. Ég ætlaði alltaf að stofna fyrirtæki í einu af norðurlöndunum en í dag er ég afskaplega fegin því að ég stofnaði það í Kanada því þar skil ég tungumálið.  Jú auðvitað hefðu allir á norðurlöndunum skilið ensku og getað þýtt fyrir mig en það að geta tekið virkan þátt í söluferlum, samningagerðum og fleira er mjög mikilvægt þegar þú ert í litlum fyrirtækjum og það er einungis hægt ef þú skilur móðurmálið í því landi.

Frumkvöðlar eru allstaðar eins
Ég hef haft þá strategíu þegar ég heimsækji önnur lönd að reyna alltaf að hitta þarlenda frumkvöðla og kynnast frumkvöðlaumhverfunum þar. Það sem ég hef komist að er að frumkvöðlar eru yfirleitt eins í öllum löndum, þetta eru opnir og hressir einstaklingar sem leggja metnað sinn í það sem þeir gera. Ég ákvað því að setja upp skrifstofu mína inn í frumkvöðlasetri í Kanada og það hefur gert mér auðveldara fyrir að kynnast öðrum stofnendum sem hafa svo getað ráðlagt mér með hina ýmsu hluti sem ég hefði líklega aldrei getað fundið út úr einn míns liðs.

Það að stofna fyrirtæki erlendis krefst engar rosalegrar sérþekkingar,
miklu frekar er lykillinn bara sá að hafa kjarkinn í að láta það verða af því.
Restin sem þú þarft að vita kemur svo bara með tíð og tíma...

 


Rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi

Tryggvi Hjaltason hafði nýverið samband við mig til að segja mér frá mastersritgerð sem hann hafði unnið um rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi. Helstu niðurstöður verkefnisins voru þessar:

"Niðurstöður rannsóknarinnar eru í raun mjög skýrar og nokkuð afgerandi staðfestar af alþjóðlegum mælingum. Þegar kemur að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi felast veikleikarnir fyrst og fremst í ófullnægjandi fjármögnunarumhverfi, vanköntum á skattaumhverfinu og takmörkuðum aðgangi að sérfræðiþekkingu. En Ísland hefur líka marga styrkleika á þessum vettvangi og eru styrkleikarnir margir hverjir fólgnir í þáttum sem eru ekki eins breytanlegir og veikleikarnir eins og menningu, smæð, tengslum og aðgangi. Á Íslandi er gott að stofna fyrirtæki, aðgangur er að góðu tengslaneti, styttra er í prufumarkaði en almennt gengur og gerist erlendis og grunnaðstæður eru til staðar til þess að mikill hraði getur verið í ferlinu að breyta hugmynd í fyrirtæki."

Hérna má sjá myndband þar sem hann útskýrir nánar rannsóknina og niðurstöður hennar.

Og svo má lesa meira um rannsóknina, framkvæmd hennar og niðurstöðurnar á vefsíðu Tryggva http://seediceland.com/

Nú væri gaman að heyra álita ykkar á íslensku rekstrarumhverfi og hvort þið séuð sammála niðurstöðum þessarar rannsóknar.


Fyrsti sólahringurinn í Halifax


Eftir 6 tíma flug til Toronto og síðan 3 tíma flug til Halifax (ég var of óþolinmóður til að bíða þangað til í næstu viku þegar Icelandair flýgur beint til Halifax) lendir flugvél mín loksins í Halifax. Klukkan var um 1 um nóttu, það voru liðnir 11 klst frá því ég lagði af stað með Flybus frá Reykjavík og ég átti þó ennþá 30 mínútna leigubílaferð eftir áður en ég kom að herberginu sem ég hafði leigt í gegnum AirBnb.

Ég endaði á því að sofa bara í 4 klst áður en ég var glaðvaknaður þótt svo ég væri mjög þreyttur. Eftir að hafa fundið matvöruverslun og sturtað mig lagði ég af stað á minn fyrsta fund, með lögfræðingi mínum hér í Halifax. Hann er algjör snillingur sem sérhæfir sig í að vinna með startup fyrirtækjum og hann sá um að "incorporate"-a Bungalo Technologies Incorporated hér í Kanada fyrir mig og var því öllu lokið áður en ég kom hingað út. Bara svona til að sýna smá lit þá gaf ég honum eina flösku af íslensku fjallagras snafsi í þakklætisskyni. Hann deildi með mér miklu af reynslu sinni af startup umhverfinu hérna úti og það hljómar sem svo að hér sé mikið að gerast, hann kynnti mig einnig í gegnum tölvupóst við öflugan blaðamann í startup umhverfinu sem hann sagði að væri gott að þekkja.

Næsti fundur minn var með Milan Vrekic sem rekur Volta Labs frumkvöðlasetrið hér í Halifax en frá fyrri heimsókn minni hingað virðist það vera virkasta frumkvöðlasetrið hér og hálfgerður miðpunktur meðal frumkvöðla. Ég tók því ekkert annað í mál en að fá skrifstofu rými þar fyrir Bungalo, leigði mér meira segja dvalarstað í næstu götu við hliðin á Volta þar sem ég var staðráðinn í að vinna þaðan. Milan er mjög áhugaverður einstaklingur, upphaflega frá Serbíu en flutti þaðan til Halifax fyrir einhverju síðan og hefur tekið þátt í hinum ýmsu frumkvöðlafyrirtækjum. Við áttum mjög gott samtal og hann deildi með mér ýmsu um frumkvöðlaumhverfið í Halifax. Eitt af því áhugaverðasta sem hann sagði mér og er alveg fast í hausnum á mér eftir fundin var að hann teldi það vera slæman hlut hversu auðveldlega fyrirtæki í Halifax gætu fengið fjármögnun. Hann bætti svo við að "Í Evrópu er kannski 20% af fyrirtækjum að fá fjármögnun en hérna í Halifax eru það öfugt farið og um 80% fyrirtækja eru að fá fjármögnun". Mér fannst það svolítið sláandi en ég er sammála honum um það of auðveldar fjármögnunarleiðir geta haft slæmar afleiðingar í för með sér en það er alveg efni annan pistil. Milan tók vel í beiðni mína að fá skrifstofu hjá Volta og hann gaf mér strax lykla að opna rýminu til að vinna í og sagði að hann gæti reddað mér lokaðri skrifstofu þegar ég væri búinn að ráða 1-2 starfsmenn.

Til þess að kynnast borginni betur og útaf því að þetta var í fyrsta skipti í nokkrar vikur þar sem ég er ekki að vinna 12 tíma á dag þá ákvað ég að nýta tækifærið og fara út að hlaupa. Ég endaði á því að hlaupa og skoða til skiptis og fór alls einhverja 7 km um borgina og líkaði bara vel við það sem ég sá.

Volta var augljóslega virkt frumkvöðlasetur því það var Hackathon í gangi þar strax fyrsta kvöldið mitt í Halifax og mér fannst ég verða að mæta.Ég er sjálfur ekki alveg nógu klár í forritun, hvorki hugbúnaðar né vélbúnaðar til að geta haldi uppi flóknum samræðum við svona klára aðila en finnst það þó afar gaman að sjá hvað er verið að vinna í. Þarna var eitt teymi sem var að prenta þrívíddarprentara með þrívíddarprendaranum sínum. Þarna var aðili sem var að reyna netvæða kaffivélina sína, aðrir voru að leika sér með flug drone-a og svo var ýmislegt annað var þarna í gangi. Ég kynntist einu tveim öðru frumkvöðlunum á svæðinu sem voru ekki að vinna í neinu verkefni og við kíktum út í nokkra bjóra.

Ég ligg núna upp í rúmi morgunin eftir, með þynnku eftir drykkjuna, harðsperrur eftir hlaupið og svolítið tómur í hausnum eftir að hafa reynt að innbyrða svo mikið á einum sólahring en allt í allt ánægður með fyrsta sólahringinn :)


Floginn til Kanada

Ég sit hérna á flugvellinum og bíð eftir flugi mínu til Kanada.

Það er í raun ekki annað hægt að segja en að þetta sé svolítið súrrealískt augnablik. Ég hef einu sinni áður komið til Kanada og nú er ég að fara þangað til að opna skrifstofu fyrir fyrirtæki mitt. Ég hef oft velt fyrir mér hvernig þessi ferill hefur verið hjá öðrum fyrirtækjum þegar þau taka þetta stóra skref yfir á alþjóðlega markaðinn og alltaf séð fyrir mér sem einhvern tignarlegan feril. Staðreyndin er þó sú að ég, líkt og svo margir aðrir frumkvöðlar sem hafa farið í gegnum þetta, er einfaldlega að stökkva út í djúpu laugina. Það er í raun engin önnur leið til að gera þetta, maður þarf bara að fara út og láta reyna á þetta alveg eins og maður lét reyna á þetta þegar maður stofnaði fyrirtækið í upphafi. Ég mun því mæta út til Kanada og reyna mitt besta til að byggja upp tengslanet, finna skrifstofu, funda með hinum ýmsu aðilum, kynna mér viðskiptaumhverfið og í raun bara gera allt sem ég get til að búa til góðan grunn að starfssemi okkar þarna úti. Sem betur fer kynntist ég mörgum frumkvöðlum í fyrstu ferð minni til Kanada og vona að ég geti byggt ofan á þau tengsl mín til að auðvelda þetta allt.

Á meðan ég sit hérna á barnum á flugvellinum rekst ég á annan frumkvöðull, hann Jökul sem starfar hjá Plain Vanilla en hann er á leið til New York til að taka við einhverjum svakalegum verðlunum fyrir QuizUp. Það hlýtur nú að boða gott fyrir ferð mína að hitta fulltrúa þessa öfluga fyrirtækis á leið minni erlendis :)


Stærsti frumkvöðlaviðburður ársins 2014


Ég hef lítið reynt að hylja skoðanir mínar á Startup Iceland viðburðinum sem fer fram 2.júní í Hörpunni enda tel ég þetta vera einn öflugasta viðburð ársins fyrir frumkvöðla og í raun eitthvað sem engin íslenskur frumkvöðull ætti að láta fram hjá sér fara.

Mér finnst það þó afar sorglegt að þetta árið mun ég ekki komast á þennan viðburð þar sem ég verð staddur út í Kanada að opna skrifstofu þar í landi fyrir fyrirtækið mitt. Startup Iceland ráðstefnan spilaði þó stóran þátt í því að ég er núna kominn í útrás til Kanada. Á fyrri ráðstefnunum hitti ég öfluga frumkvöðla sem ég hef haldið góðu sambandi við og út frá þeim samböndum hafa orðið til allskonar tækifæri sem leiða svo af sér önnur tækifæri. Þessi tækifæri eru hluti ástæðu þess að ég sá mér nú hag í því að opna fyrirtækið erlendis, ég er komin með tengslin og þekkinguna á erlendum mörkuðum. Það má því með sanni segja að svona viðburðir eru ekki bara gerðir til að læra af miklu reyndari frumkvöðlum heldur líka til að hitta og kynnast öðrum öflugum einstaklingum (eins og þér sjálfum/sjálfri) og betrumbæta þannig tengslanet þitt.

Þetta verður í fyrsta skipti sem ég missi af þessum viðburð en ég að treysti á að þið nýtið ykkur þetta tækifæri í botn í fjarveru minni, blandið geði við erlenda frumkvöðla, styrkið tengslanet íslenskra frumkvöðla og skálið nokkrum bjórum fyrir mig :)

Startup Iceland ráðstefnan fer fram 2.júní í Hörpunni og þið getið fengið frekari upplýsingar um hana og keypt miða á hana hér: http://www.startupiceland.com/

Kaupið miða tímanlega svo þið missið ekki af þessu :)


Frumlegar leiðir til að markaðssetja fyrirtækið

Þegar verið er að hefja rekstur er oft lítið um fjármagn til að eyða í  markaðssetningu en það er þó engin afsökun fyrir því að markaðssetja ekki fyrirtækið. Sem frumkvöðull er það hlutverk þitt að finna frumlegar, skemmtilegar og fjárlitlar aðferðir til að láta fyrirtækið þitt ganga upp. Ég ætla því að deila hérna með ykkur nokkrum góðum leiðum sem ég hef kynnst í gegnum tíðina til að markaðssetja fyrirtæki þitt fyrir lítinn sem engan pening.

Vertu áhugaverður og komdu þér í fjölmiðla
Það að komast í fjölmiðla er ódýr og árangursrík leið til að kynna fyrirtæki þitt en til þess að fjölmiðlar vilji fjalla um fyrirtæki þitt þarf sagan að vera nógu áhugaverð. Í slíkum tilfellum er aldrei verra að vera með nóg af frumleika og hafa nægt hugrekki til að standa fyrir framan myndavélina. En það er líka mikill undirbúningur sem þarf að eiga sér stað til að fjölmiðlarnir frétti af því sem þú et að gera, þú þarft að útbúa fréttatilkynningu sem í raun er bara smá samandráttur á því sem er að gerast. Svo þarftu að safna saman upplýsingum um alla fjölmiðla sem þú telur að hefðu áhuga á sögu þinni og senda út tölvupóst á þá alla og fylgja því svo eftir með símtali daginn eftir.

Það að komast í fjölmiðla getur þannig verið næstum alveg frí leið til að markaðssetja fyrirtæki þitt en það krefst þó mikillar vinnu og undirbúnings. Svona aðeins til að kveikja í ímyndunaraflinu ykkar þá læt ég hérna fylgja með lista yfir topp 10 hluti sem Richard Branson hefur gert til að koma fyrirtækjum sínum í fjölmiðla.

Haltu fyrirlestra og deildu reynslu þinni
Allt frá því ég hóf minn fyrsta rekstur hef ég vanið mig á það að vera ófeimin við að deila reynslu minni, bæði vegna þess að ég hef lært óhemju mikið af því og vegna þess að það er góð leið til að markaðssetja vöru sína. Með því að deila með öðrum hvað þú hefur lært opnarðu fyrir bæði gagnrýni sem oftar en ekki getur verið uppbyggileg en þú færð þá líka aðra til að opna sig og deila þeirra reynslum. Það að halda fyrirlestra og kynningar út um allan bæ er líka tilvalin leið til að kynna fyrirtæki þitt. Hvort sem þú nefnir það bara á einni glæru eða notar það sem dæmisögu þá er mjög líklegt að fólk eigi eftir að muna vel eftir því og þar af leiðandi er það mjög góð markaðsssetning. Ég hef allavegana oft notað Búngaló (sáuð þið hvað ég gerði þarna) sem dæmisögu og mun halda því áfram.

Bankaðu upp á hjá viðskiptavinum þínum
Það er magnað hversu fáir fatta þetta en besta leiðin til að að selja og markaðssetja vöru þína til hugsanlegs viðskiptavinar er með því að hitta þennan viðskiptavin og segja honum frá vörunni í eigin persónu. Við erum orðin svo háð tölvunum okkar að við felum okkur á bak við samfélagsmiðla og höldum að það sé eina leiðin til að markaðssetja vörur okkar og eiga samskipti við viðskiptavini. Þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki þá tók ég upp á því að ganga í heilu göturnar og banka þar upp á hjá öllum fyrirtækjum sem ég fann með sölumöppuna sem ég bjó til í Word og reyndi að selja þeim vöru mína og veistu hvað... það þrælvirkaði. Svo næst þegar þú ert að kvarta yfir því hvað markaðssetning er dýr og skili litlu, prufaðu þá að standa upp frá tölvunni og hitta viðskiptavini þína í eigin persónu.

Vonandi gaf þetta ykkur einhverjar hugmyndir en endilega deilið með okkur þeim aðferðum sem hafa virkað best hjá ykkur í markaðssetningu.


Ekki láta mig hugsa

Ég var að klára bókina “Don’t Make Me Think” eftir Steve Krug. Hún er eins konar “common sense” kennslubók fyrir vefstjóra. Af hverju var ég að lesa hana? Ég er ekki tölvunarfræðingur eða vefhönnuður heldur viðskiptafræðingur (næstum því). Stór hluti af minni vinnu fer hins vegar fram á netinu. Ég er að rýna í og segja mína skoðun á lendingarsíðum, vörusíðum, forsíðunni, sölulínum á vefnum og margt fleira. Og flestir þeir sem starfa í markaðsgeiraum í dag eru að gera það nákvæmlega sama.

Steve Krug er sérfræðingur í “web usability”, eða vef nytsemi á íslensku. Fyrsta útgáfan af bókinni kom út árið 2000. Á þeim tíma var partý í gangi sem heitir “Dotcom”-bólan og allir og amma þeirra kepptust við að smíða vefsíður og veffyrirtæki og allt sem hét staðlar og samræmt úti var að verða til. Önnur útgáfa af bókinni kom út árið 2006 og þriðja útgáfa í desember á síðasta ári. Ég las aðra útgáfu, enda var sú nýjasta ekki til á Bókasafni Kópavogs. Ég bjóst fyrirfram við að ég myndi rekast á fullt af úreldum stöðlum og hugmyndum um hvernig ætti að nota vefinn en raunin var allt önnur. Vissulega eru dæmin oft frekar gömul en undirstöðuatriðin eru í grunninn þau sömu.

En það besta við bókina er að það var ekkert nýtt í þessu. Í raun var verið að segja manni frá hlutum sem flestir geta sagt sér sjálfur. Þetta er nefnilega oft “common sense”. En stundum þarf bara að benda manni á það.

Nokkur atriði sem ég greip úr bókinni:

Ekki láta mig hugsa
Samkvæmt Steve eigum við að reyna eftir fremsta megni að koma í vef fyrir að gestir á síðunni okkar þurfi að hugsa. Þeir eiga að komast að upplýsingunum sem þeir eru að leita að með sem einföldustum hætti og leiðin á áfangastað á að vera skýr. Í hvert skipti sem einhver þarf að stoppa og hugsa er hann líklegri til að gefast upp og fara eitthvað annað. Höfum hlutina einfalda og skýra.

Less is more
Við dettum rosalega oft í þá gildru að reyna að segja allt á einni síðu. Troðum öllum upplýsingum um vörurnar okkar þar inn og reynum að koma öðrum vörum þangað inn því auðvitað viljum við selja meira. Það sem þetta gerir samt er oftar en ekki að flækja málin fyrir þeim sem heimsækir síðuna. Hann er kannski að leita sér að upplýsingum um eitthvað eitt og ef það er erfitt fyrir hann að finna þær þá er hann líklegri til að loka síðunni og fara annað.

Staðlar eru af hinu góða
Ég hef tilhneigingu til að vilja gera allt upp á nýtt. Finna nýjar leiðir. Vera svo ótrúlega skapandi. En ef við skulum ekki gleyma því að ef við fáum lánaða staðla sem virka frá öðrum síðum þá erum við að gera notendum auðveldara fyrir að nota okkar síðu vegna þess að þeir þekkja leiðakerfið og veftréð, jafnvel þó þeir hafi ekki heimsótt þig áður.

Testing, testing, testing
Láttu prófa síðuna þína. Þó þú skiljir hana mjög vel þá þarf ekki endilega að vera að pabbi þinn geri það. Hann eyðir ekki öllum vinnudeginum að lesa hana og yfirfara eins og þú. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að láta prófa allt vegna þess að þú færð ómetanlega innsýn í það hvernig aðrir upplifa síðuna þína. Það er líka mikill misskilningur að prófin þurfi að vera flókin og dýr. Í raun er nóg að vera með 2 stóla, tölvu og myndavél. Tilgangurinn er einfaldlega sjá það sem notendur sjá þegar þeir nota síðuna þína.

   

“There’s no such thing as an offline business”
- Aaron Shapiro

Vefurinn er nefnilega eitt mikilvægasta markaðstólið sem við höfum. Hugsaðu þér hvernig þú sjálf/ur leitar þér að upplýsingum um vörur. Ef þú sérð auglýsingu athygli þína, til dæmis frá Intersport, er ekki það fyrsta sem þú gerir að fara á Intersport.is eða Google og skrifa Intersport til að leita þér að frekari upplýsingum.

Ég mæli með “Don’t Make Me Think” fyrir alla þá sem koma á einhvern hátt að heimasíðum. Sama hvort það sé lítið frumkvöðlafyrirtæki sem þarf bara að sýna símanúmerið sitt, flóknar vefverslanir eða bara einyrki með prjónablogg. Ég kann ekki að forrita, hef aldrei opnað InDesign og er nýbúinn að læra fyrir hvað skammstöfunin CSS stendur. Ég lærði samt heilmikið á bókinni sem ég get nýtt við í leik og starfi.

Við þurfum öll að hugsa eins og vefstjórar og þess vegna ættu sem flestir að tileinka sér fróðleik frá mönnum eins og Krug.


 

Gestabloggari:
Hjalti Rögnvaldsson
Bloggari og viðskiptafræðinemi
www.hjaltir.com