The Startup Kids

Í gær sá ég forsýningu á nýrri heimildarmynd um unga frumkvöðla sem starfa í „startup“ heiminum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þessi heimildarmynd var unnin af tveimur öflugum frumkvöðlum, Sesselju Vilhjálmsdóttur og Völu Halldórsdóttur. Drifnar áfram af eigin áhuga og ástríðu fyrir að skapa og framkvæma, ákváðu þær að fara út í þetta skemmtilega verkefni með það markmið að hvetja ungt fólk til að láta drauma sína verða að veruleika. Þær ferðuðust vítt og breitt og tóku viðtöl við unga frumkvöðla út um allan heim sem hver og einn hafði náð góðum árangri á sínu sviði.

Þrátt fyrir að hafa verið búinn að vita að þessi mynd væri í vinnslu í þó nokkurn tíma, enda man í glögglega eftir því þegar hún var fjármögnuð í gegnum Kickstarter,  hafði ég enga hugmynd um hvernig lokaútkoman myndi verða og var ég því vægast sagt spenntur. Myndin stóðst allar mínar væntingar og var frábærlega skemmtileg samantekt á því umhverfi sem hefur myndast í kringum „startup“ heiminn og þau tækifæri sem þar búa fyrir fólk á öllum aldri. Aldur er ekki lengur afsökun, þú ert hvorki of gamall né of ungur til að láta hugmyndir þínar verða að veruleika, það eina sem skiptir máli er að þú sért tilbúin að framkvæma og fylgja því eftir með vinnu og þrautseigju.

Maður gat ekki annað en fyllst innblástri þegar maður horfði á þessa mynd og ég þurfti að hafa mig allan við að stökkva ekki úr sætinu og hlaupa upp á skrifstofu svo ég gæti nú farið að vinna og haldið áfram að vinna í mínum hugmyndum. Ég náði þó að standast þá freistingu og mætti þess í stað ferskur á þessum ljúfa laugardegi :)

Ég mæli hiklaust með að þið kynnið ykkur myndina betur á vefsíðu Startup Kids eða addið þeim á twitter eða facebook.

 


Reykjavik Runway í topp 10 í Gullegginu

Ég kynntist henni Ingibjörgu Grétu Gísladóttur fyrst fyrir nokkrum árum síðan þegar hún rak Hugmyndhúsið við Grandagarð og það fór ekkert á milli mála að þar var öflug manneskja á ferðinni. Í framhaldi af því hefur hún haldið áfram að starfa í frumkvöðlaumhverfinu og stofnaði fyrirtækið Reykjavik Runway, nú þegar hefur fyrirtækið náð að verða vel sýnilegt í íslenskum tískuheimi enda skipulagði það glæsilega hönnunarkeppni sumarið 2012.

Reykjavik Runway er eitt af 10 fyrirtækjum/viðskiptahugmyndum til að komast í úrslit í Gullegginu og því fannst mér það nauðsynlegt að heyra aðeins í henni Ingibjörgu og biðja hana um að segja okkur aðeins frá fyrirtækinu og framtíðarplönum þess.

 

Stefna Ingibjargar með fyrirtækið er að reyna aðstoða íslenska fatahönnuði við að koma sér á framfæri á alþjóðavettvangi. Það kemur til með að vera gert í gegnum internetið með öflugri vefsíðu, við það bætast svo öflug áhersla á markaðsmál og tengslanet við mikilvæga aðila í tískuheiminum erlendis.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hana Ingibjörgu með tölvupósti í netfangið igg@reykjavikrunway.com.


Kasy í topp 10 í Gullegginu

Katrín Sylvía Símonardóttir er stofnandi fyrirtækisins kasy, en næstu helgi keppir það fyrirtæki til úrslita í Gullegginu sem er frumkvöðlakeppni á vegum Innovit. Viðskiptahugmynd Katrínar felst í því að framleiða sundfatnað fyrir konur með línur og er hægt að aðlaga sundfatnaðinn að aðstæðum að hverju sinni.

Ég skellti mér í smá bíltúr með henni Katrínu þar sem ég truflaði hana við akstur með allskonar skemmtilegum spurningum. Þess má líka geta að ég tók viðtalið upp á símann minn svo tæknilega séð var hún að tala í símann við aksturinn :)

Kasy sundfötin fara bráðlega í framleiðslu og því augljóst að kvennmenn út um allan heim þurfa ekki að bíða alltof lengi eftir því að geta fjárfest í slíkri hönnun. En fyrir þau ykkar sem getið ekki beðið þá getið þið nálgast frekari upplýsingar á facebook síðu kasy.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hana Katrínu með tölvupósti í netfangið kasydesign@gmail.com.


Karolina Fund í topp 10 í Gullegginu

Eitt af því sem fólk kvartar mest yfir þegar það er að stofna fyrirtæki er hversu erfitt það er að nálgast fjármagn. Bankar lána yfirleitt ekki til nýrra fyrirtækja nema að það sé til einhverskonar veð fyrir því og það reynist mörgum erfitt að finna fjárfesta og hvað þá áhugasama fjárfesta sem eru tilbúnir að leggja pening í fyrirtækið.

Ég hitti í gær tvo af stofnendum Karolina Fund, sem þessa dagana keppir til úrslita í Gullegginu, þá Inga Rafn og Jónmund. En Karolina Fund hefur einmitt þann tilgang að leysa ofangreint vandamál og hjálpa ungum fyrirtækjum og frumkvöðlum að nálgast fjármagn í gegnum hópfjármögnun (e. crowdfunding). Heyrum hér aðeins hvað þeir höfðu að segja:

 

Þannig að Karolina Fund kemur til með að búa til vettvang fyrir skapandi fólk til að leita sér hópfjármögnunnar fyrir verkefni sín. Með því að setja upp ýtarlegar upplýsingar um verkefnin svo sem vidjó, ýtarlegar textalýsingar, markmið, fjárþörf o.f.l. geta hugsanlegir fjárfestar fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurfa til að taka ákvörðun um hvort þeir vilji fjárfesta. Það skemmtilega við uppsetninguna á þessu er að hver sem er getur fjárfest í þessum hugmyndum, þú þarft ekki að vera fagfjárfestir heldur einungis að eiga smá pening og þá getur þú lagt þann pening í eitthvað verkefni sem vonandi mun skapa störf og tekjur fyrir íslensku þjóðina auk þess sem þú sjálfur gætir grætt betur á því heldur en ef peningurinn sæti bara í bankanum.

Hægt er að setja upp verkefni þar sem leitað er eftir minni fjárfestum sem þá fá hugsanlega prótótýpu ef vörunni eða eitthvað annað spennandi í þakklætisskyni fyrir sitt framlag. Einnig er þó hægt að setja upp stærri verkefni þar sem fjárfestarnir fá raunverulegan hluta í fyrirtækinu og geta þá orðið meðeigendur í hugmyndinni. Þessi vettvangur ætti því að vera spennandi valmöguleiki fyrir stórar sem smáar hugmyndir í framtíðinni.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hann Inga Rafn með tölvupósti í netfangið contact@karolinafund.com.


Markaðsmál á Mannamáli í topp 10 í Gullegginu

Þóranna Kristín Jónsdóttir er mjög virk í íslenskum markaðsmálum og ég hef oft rekist á hana á ýmsum markaðs- og frumkvöðlatengdum viðburðum. Það var því gaman að sjá að hún væri nú komin í topp 10 í Gullegginu.

Fyrr í dag plataði ég Þórönnu til að hitta mig í kaffibolla á Te&kaffi á laugaveginum til að fá smá upplýsingar um viðskiptahugmynd hennar en líkt og með Viral Trade og Insidememo viðtölin mín þá ákvað ég einnig að taka þetta upp á vidjó.

 

 

Hugmyndin heitir Markaðsmál á mannamáli og gengur út á það að útbúa fræðsluefni fyrir ung fyrirtæki til að auðvelda þeim markaðssetningu fyrirtækisins. Markaðssetning fyrirtækja er eitthvað sem getur reynst mörgum ungum fyrirtækjaeigendum erfiðlega auk þess sem kostnaðurinn er oft ansi mikill. Viðskiptahugmynd Þórönnu mun vonandi auðvelda þessum fyrirtækjum fyrir og vonandi ná að lækka kostnað þeirra við markaðssetningu töluvert.

Þóranna stundar í dag markaðseinkaþjálfun og ráðgjöf og hægt er að nálgast frekari upplýsignar um hana á vefsíðunni thoranna.is eða á facebook síðu hennar.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hana Þórönnu með tölvupósti í netfangið thoranna@thoranna.is.


Insidememo í topp 10 í Gullegginu

Í framhaldi af viðtali mínu við hann Gulla hjá Viral Trade í fyrradag hef ég ákveðið að elta upp nokkra fleiri frumkvöðla sem eru komnir í úrslit hjá Gullegginu til að forvitnast um Hugmyndir þeirra.

Andrés Jónsson, Fannar Freyr Jónsson og Jón Dal eru frumkvöðlarnir sem standa á bak við viðskiptahugmyndina Insidememo. Sú hugmynd snýst um að vinna með sérhæfðar og í mörgum tilfellum staðbundnar upplýsingar og setja þær fram á auðveldan og aðgengilegan hátt. Í raun getið þið ímyndað ykkur öll þau mörgu tilfelli þegar þið eydduð heilu klukkutímunum á Google að leita eftir hinum ýmsu upplýsingum en funduð aldrei nákvæmlega það sem þið voruð að leita eftir, Insidememo er lausnin við því. Þeir koma til með að útbúa hina ýmsu lista og skjöl sem nýtast t.d. fréttamönnum, ráðgjafafyrirtækjum og erlendum viðskiptamönnum sem koma í nýtt land eða borg.

En til að fá nánari upplýsingar um þessa viðskiptahugmynd þá hafði ég upp á honum Andrési út í Bandaríkjunum þar sem hann er í viðskiptaferð og fékk hann til að segja mér nánar frá hugmyndinni í gegnum Skype.

Það skemmtilega við Insidememo er sú staðreynd að þeir eru komnir vel á leið með fyrstu útgáfu af vörunni sinni og mun hún líklega verður opnuð á næstu dögum á slóðinni www.disulistar.is. Hjá Dísulistum munuð þið t.d. geta nálgast lista eins og „Viðburðir í íslensku viðskiptalífi“, „Fjölmiðlalisti 2012“ og „Íslenskir Fjárfestar 2012“ en þann síðasta myndu ábyggilega margir lesendur þessa bloggs hafa áhuga á enda ekki sérstaklega auðvelt að nálgast upplýsingar um fjárfesta hér á landi.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hann Andrés með tölvupósti í netfangið andres@godsamskipti.is.

 


Viral Trade í topp 10 í Gullegginu

 

Í gær fékk ég mér smá göngutúr með honum Guðlaugi Lárusi Finnbogasyni en hann er stofnandi Viral Trade. En sú hugmynd er einmitt ein af 10 sem komust í úrslit í Gullegginu í ár en þetta árið voru vel yfir 200 hugmyndir sem tóku þátt. Sjálfur er ég ekki mikill tölvuleikjamaður fyrir utan kannski Angry Birds á símanum mínum og því þekkti ég þennan heim ekki sérstaklega mikið. En eftir að hafa spjallað aðeins við hann Guðlaug náði ég betri tökum á hugmynd hans og fór að skilja hversu stór og öflugur markaður þetta gæti orðið.

Hugmynd hans byggist í raun á því að í dag er áhugafólk um tölvuleiki farið að eyða afskaplega miklum tíma í tölvuleikjunum þar sem þeir byggja upp tölvuleikjapersónur og safna saman alls kyns verðmætum eins og öflugri sverðum, geimskipum og jafnvel peningum. Vegna þess hversu langan tíma það tekur að eignast þessa hluti í leiknum þá eru mikil verðmæti í þessu og margir sem spila eru tilbúnir að borga raunverulega peninga til að stytta tímann sem þarf til að eignast þessa hluti. Í nokkur ár hafa leikmenn verið að kaupa og selja slíkan varning sín á milli en sá ferill hefur ekki alltaf verið auðveldur og þar kemur Viral Trade inn í myndina. Viral Trade mun starfa sem milliliður á milli þessara leikmanna og tryggja það að allt fari vel fram og fyrir þetta mun Viral Trade taka smá prósentu af öllu því sem fer í gegnum þá.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hann Guðlaug í netfangið glf@hi.is.


Kostnaður nýstofnaðra fyrirtækja

Ég átti afar skemmtilegar samræður um helgina við félaga minn sem var að spá í að fara stofna einkahlutafélag utan um rekstur sinn. Og ég fékk nokkrar spurningar sem ég fæ reglulega og ég ætla hér aðeins að reyna svara nokkrum þessara spurninga. Ef þið hafið einhverjar aðrar spurningar eða viljið koma með einhverjar athugasemdir á þessi svör mín þá endilega skrifið þau hér fyrir neðan :)

1. Er nauðsynlegt að vera með 500 þúsund krónur í hlutafé þegar maður stofnar fyrirtæki og er ekki bara hægt að skrá tæki og tölvur sem hlutafé til að koma í veg fyrir að maður þurfi að setja pening í þetta.

Okey ég fæ þessa spurning óhemju oft og var sjálfur sekur um að spyrja hennar þegar ég stofnaði fyrstu fyrirtækin mín. Staðreyndin er sú að það að vera með einkahlutafélag þótt svo það sé lítill sem enginn rekstur á því kostar pening. Ef þið eruð með vsk-skilda starfsemi þurfið þið að skila inn vsk-skilum annan hvern mánuð og ef þið treystið ykkur ekki í það sjálf þá þarf að greiða einhverjum til að sjá um það, sama er með launagreiðslur, ársreikinga o.f.l. Svo er árleg gjöld sem fyrirtæki þurfa að borga sem ég hreinlega veit ekki alveg hvað gera en það er einhver 15 þúsund kjall á hverju ári sem fer í útvarpsgjöld og eitthvað annað álíka. Svo farið þið að flytja alla kostnaðarliði yfir á fyrirtækið, hýsingu á vefsíðunni, leigu á skrifstofu og ýmislegt fleira sem manni finnst bara sjálfsagt að fyrirtækið eigi að borga. Það er því mikilvægt að það sé einhver peningur til inn í fyrirtækinu svo þið farið ekki á hausinn áður en þið hefið fengið fyrstu tekjurnar ykkar.

En burt séð frá þeim rökum þá er erfiður og dýr ferill sem fylgir því að láta meta tæki og búnað til að setja inn í fyrirtæki og þið þurfið líklega að ráða löggildan endurskoðenda til að sjá um slíkt fyrir ykkur. Síðast þegar ég spurði endurskoðendann minn hvað slíkt myndi kosta mig þá sagði hann um 200 þúsund, sem er aðeins of dýrt fyrir það sem þið eruð að reyna gera.

2. En ef það er ekki hægt að láta meta tækin inn sem hlutafé get ég þá ekki bara tekið peningin út með því að láta fyrirtækið kaupa af mér tölvuna mína eða bílinn eftir að ég stofna það?

Það er eitthvað sem tæknilega séð er hægt að gera en ég myndi þó ræða við endurskoðendann minn áður en ég færi að leggja út í slík viðskipti. En aftur vill ég benda á að 500þús er ekki mikill peningur þegar það kemur að fyrirtækjarekstri og því spurning hvort þið leyfið honum ekki bara að vera í fyrirtækinu, sérstaklega ef þið hafið trú á því sem þið eruð að gera.

3. Hvað kostar að stofna fyrirtæki?

Það eitt að sækja um stofnun einkahlutafélags kostar kr.130.500- (sjá gjaldskrá rsk) við það bætist svo kostnaður við að ráða endurskoðenda til að fylla út alla nauðsynlega pappíra fyrir ykkur. Ef þið hafið stofnað fyrirtæki áður þá eigið þið líklega alla pappírana til og getið hugsanlega stofnað það sjálfir, stundum er þó gott að fá fagmann til að sjá um það sérstaklega ef þið eruð margir í hóp og viljið útbúa gott hluthafasamkomulag til að tryggja rétt ykkar allra. Ég hef ekki ráðið endurskoðenda/lögfræðing til að setja upp pappírana fyrir mig í nokkur ár og veit því ekki alveg hvað það myndi kosta en gæti þó áætlað að það væri á bilinu 40-80þús fyrir utan hluthafasamkomulagið. En þið getið notað hlutaféð til að borga þennan kostnað, sem þýðir að þið verðið í raun bara með 300 þúsund í hlutafé eftir að hafa borgað fyrir þetta og því ennþá minni ástæða til að taka þann pening út úr fyrirtækinu.

4. Hvað kostar að reka einkahlutafélag í hverjum mánuði?

Það er náttúrulegu mjög breytilegt hvað hvert og eitt fyrirtæki þarf að borga en almennt séð þurfið þið að borga einhver útvarpsgjöld sem eru 15 þúsund á ári svo þurfið þið að borga einhverjum til að sjá um bókhaldsmál fyrir ykkur. Hagsýn er öflugt bókhaldsfyrirtæki sem sér um allt mitt bókhald og ég greiði þeim bara fast mánaðarlegt gjald til að sjá um öll vsk-skil, ársreikinga og allt það sem viðkemur þessu. Það hentar mér mjög vel þar sem ég hef sjálfur ekki mikinn áhuga á að sjá um bókhaldið. Kostnaður við slíka þjónustu er mjög breytilegur eftir fyrirtækjum, ég gæti trúað að það væri á bilinu 30-50þús á mánuði fyrir lítil fyrirtæki með öllu innföldu, en ég mæli bara með að þið bjallið í Svövu og Brynhildi hjá Hagsýn í síma 571-0090 til að fá frekari upplýsingar. En við þetta allt bætist svo allskonar kostnaður sem byrjar mjög fljótt að týnast til svo þið skulið alveg búast við því að þið þurfið að borga einhverja tíuþúsund kjalla í hverjum mánuði eftir að þið eruð búin að stofna fyrirtækið. Ég ætla þó ekki að reyna gefa neina fasta tölu hér þar sem það er ómögulegt.

Að lokum

Ég hef í fyrri greinum mínum um stofnun ehf. predikað mikið að ég það eigi að bíða með að stofna fyrirtækið þangað til að þróun viðskiptahugmyndarinnar er kominn á það stig að hún sé byrjuð að skila inn tekjum. Það er dýrt og kostnaðarsamt að stofna og reka fyrirtæki og því skuluð þið fara varlega út í það.

 

 

 

 


Newsjacking

Ég ætla að byrja þessa færslu á því að efna til samkeppni um bestu þýðinguna á enska orðinu "newsjacking". Ef þú hefur ekki heyrt þetta orð áður þá er ekki seinna vænna en að þú lesir færsluna!

Ég kýs að nota orðið "fréttastuldur", þangað til einhver kemur með eitthvað betra. Fréttastuldur hefur verið til lengi og tíðkast í öllum brönsum í heiminum. Orðið kemur samt frá David Meerman Scott, manni sem ég hef skrifað um áður. Hann hefur notað það í mikið af sínum skrifum, bæði í bókum og á blogginu sínu. Nú síðast í nóvember gaf hann út stutta rafbók sem hægt er að kaupa fyrir Kindle.

Fréttastuldur er í raun mjög einfaldur í framkvæmd. Nýttu þér fréttir til að koma sjálfum þér og/eða vörum þínum á framfæri. Þetta gengur út á að finna sjónarhorn á fréttum þar sem þú getur troðið inn á snjallan hátt og þannig "stelur" þú augnablikinu. Þetta frábær leið til fyrir fólk og fyrirtæki sem hefur lítið auglýsingabudget og vantar einhverja umfjöllun.

En hvernig nærðu þessu? Það er hægt að gera þetta klassíska, hringja í fréttamenn eða senda þeim tölvupóst og vona að þeir fjalli um þig í kjölfarið. En auðveldasta leiðin er auðvitað að nota hina svokölluðu samfélagsmiðla. Ef þú eða fyrirtæki þitt ert með blogg, Facebook síðu, Twitter aðgang eða eitthvað slíkt, þá er mjög auðvelt fyrir þig að smella þér inn í umræðuna, án mikillar áreynslu. Best er að nýta þessa miðla alla saman.

Eigum við að taka nokkur dæmi?

Joe Payne er á Twitter.

Fyrirtækið Eloqua sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir markaðsfyrirtæki sem samhæfir vefmælingar, tölvupóstsendingar og aðrar aðgerðir á vefnum. Forstjórinn, Joe Payne (svalt nafn), varð þess áskynja að Oracle var að ganga frá kaupum á aðal samkeppnisaðilanum, Market2Lead. Það hefði verið auðvelt fyrir Joe Payne að kalla inn allt starfsfólkið á krísufund og haft áhyggjur af nýjum risa á markaðnum. Í staðinn settist hann niður, skrifaði bloggfærslu þar sem hann bauð Oracle velkomið og sagði það ánægjulegt fyrir þennan bransa að risarnir á hugbúnaðarmarkaðnum væru farnir að horfa í þennan markað.

Þessi eina bloggfærsla skilaði sér í umfjöllun í Business Week, InfoWorld, PC World og fleiri og fleiri. Á næstu vikum sprungu allir sölukanalar upp út af allri athyglinni og í kjölfarið var skrifað undir $500.000 samning við Red Hat. Payne hefur sagt að þessi litla bloggfærsla hafi fært fyrirtækinu um MILLJÓN dollara í tekjur.

Man einhver eftir stóra saltmálinu hér um daginn?

Ég sá frábært dæmi um fréttastuld þegar stóra saltmálið komst í hámæli. Þannig var mál með vexti að Ölgerðin hafði verið að selja fólki iðnaðarsalt sem var svo notað í matargerð. Þetta var rosalega hávært og leiðinlegt mál, sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Þegar listi yfir þá viðskiptavini sem keypt höfðu saltið komst í fjölmiðla fór allt í háa loft, enda voru þar á meðal nokkrir af stærstu matvælaframleiðendum landsins.

Útiplönin hjá Eðalfisk

Daginn eftir að listinn var gerður opinber sendi fyrirtækið Eðalfiskur frá sér fréttatilkynningu, en Eðalfiskur var á listanum. Þar segir að fyrirtækið fordæmi vinnubrögð Heilbrigðiseftirlitsins þar sem gefið er í skyn að Eðalfiskur hafi notað iðnaðarsaltið til matvælaframleiðslu. Það sé rétt að Eðalfiskur keypti bretti af umræddu salti, en þegar fólk sá að það var merkt sem iðnaðarsalt var því dreift á útiplön fyrirtækisins, ekki notað í framleiðslu. Þetta fór eins og eldur í sinu um netheima, Eyjan, Visir.is, MBL.is og sjónvarpsfréttirnar tóku þetta fyrir og fyrir vikið fékk Eðalfiskur ókeypis umfjöllun sem sýndi að þar væri gæðaeftirlitið í lagi.

Þó að fréttastuldur sé mjög skemmtileg og árangursrík leið til að fá umfjöllun um fyrirtækið þitt þá er hann mjög vandmeðfarinn og getur auðveldlega sprungið í höndunum á þér.

Besta dæmið um illa heppnaðan fréttastuld er þegar tískufyrirtækið Kenneth Cole reyndi að nýta sér mótmælaöldu í Egyptalandi til að vekja athygli á útsölunni hjá sér með því að setja inn tvít merkt #Cairo.

Í stað þess að bera tilætlaðan árangur og vekja athygli á útsölunni fóru að streyma inn blogg, tvít og tölvupóstar þar sem fyrirtækið var skammað og látið heyra það. Á endanum var færslan fjarlægð og fyrirtækið baðst afsökunar.

Hvað getur þú gert?

Vertu vakandi fyrir öllum þeim fréttum sem snerta þig, þinn markað og þína samkeppnisaðila. Ef tækifærið gefst skaltu stökkva til og sjá hvernig þú getur nýtt þér það. Skrifaðu frétt á heimasíðu eða blogg fyrirtækisins og deildu henni svo á Twitter og Facebook síður fyrirtækisins og þína eigin. Ef efnið er nógu djúsí þá mun það verða gripið á lofti og tekið áfram.

Ég mæli líka með bókinni Newsjacking. Hún er stutt og þú kemst í gegn um hana á ca. klukkutíma. Eins kostar hún sáralítið og er vel peninganna virði. Ef þú lest hana og finnst hún áhugaverð mæli ég með fleira efni eftir sama höfund. David Meerman Scott er virtur markaðsgúru með mikla reynslu úr bransanum. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér og mun sennilega mæta oftar hingað inn í hugrenningarnar.

Endilega skjótið á mig fleiri dæmum um fréttastuld í athugasemdum!


 

Gestabloggari:
Hjalti Rögnvaldsson
Bloggari og viðskiptafræðinemi
www.hjaltir.com

 

 


Startup Weekend

 

"No Talk, All Action.
Launch a startup in 54 hours"

 

Er slagorð Startup Weekend út í Bandaríkjunum en Startup Weekend eru viðburðir sem eru búnir að slá heldur betur í gegn og eru í dag haldnir út um allan heim. Hugmyndin á bak við SW er að einstaklingar og hópar með hugmyndir komi saman og í 54 klukkustundir gera þeir ekkert annað en að vinna að hugmyndum sínum. Í lok helgarinnar reyna hóparnir svo að vera komnir með einhverskonar prótótýpu eða uppkast af vöru/vefsíðu/fyrirtæki. Hér fyrir neðan er smá myndband sem sýnir hvernig viðburðurinn gengur fyrir sig út í Bandaríkjunum.

 

 


Startup Weekend - Full from Eighteen Eighty on Vimeo.

 

Nánari upplýsingar um Startup Weekend má finna á vefsíðu þeirra http://startupweekend.org/ En eins og sést á þessu korti eru viðburðirnir sem þeir halda bókstaflega út um allan heim.

 

Þessir viðburðir hafa einnig náð til klakans og eru hér haldnir undir nafninu ANH (Atvinnu- og nýsköpunarhelgar). Þrátt fyrir að viðburðurinn beri mismunandi nafn þá er viðburðurinn sjálfur að stærstum hluta sá sami. Ég hef tvisvar sinnum tekið að mér hlutverk mentors á þessum viðburðum þar sem ég hef verið til staðar til að aðstoða unga frumkvöðla við að reyna láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Í þetta sinn þá ákvað ég þó að taka þátt í ferlinum sem þáttakandi og mætti á Akureyri með hugmynd af nýjum vettvangi fyrir núverandi fyrirtæki mitt þ.e.a.s. ég hef verið með bókunarkerfi fyrir sumarbústaði og vildi komast að því hvort það væri hægt að færa þá hugmynd yfir á tjaldsvæði þar sem mér fannst markaðssetning íslenskra tjaldsvæða vera vægast sagt léleg. Árangur helgarinnar var í raun mun meiri en ég átti von á og komst ég að því að það er ótrúlegt hvað hægt er að afkasta á einni helgi ef maður einbeitir sér 100% að einu verkefni og er ekki að láta neitt trufla sig. Í lok helgarinnar var ég kominn upp með fyrsta uppkastið af vefsíðunni www.campalo.is auk þess sem ég setti upp lendingarsíðu fyrir alþjóðlega útgáfu af vefsíðunni www.campalo.com.

Ég mætti þarna og var búinn að búast við því að ég myndi vera einn út í horni að forrita eitthvað en svo endaði ég á því að fá frábært fólk með mér í hóp sem aðstoðaði mig við að þróa hugmyndina áfram. Ég vil því nýta þetta tækifæri til að þakka Darra, Hrafnhildi, Lilju og Njáli kærlega fyrir alla aðstoðina um helgina :)

Ég get hiklaust mælt með þessum viðburði fyrir alla þá sem hafa áhuga á að láta reyna fyrir sér í fyrirtækjarekstri. Þetta er alvöru stuðningsumhverfi þar sem þið getið leitað ráðleggingar og fengið spark í rassinn en eins og alltaf þá getið þið ekki búist við að aðrir vinni vinnuna ykkar. Þetta er allt undir því komið að þið séuð tilbúin í að gefa 100% af orku ykkar og tíma í viðskiptahugmyndir ykkar. Upplýsingar um næstu ANH viðburði og frekari upplýsingar má nálgast hér http://www.anh.is/ 0g svo leyfi ég líka að fylgja smá myndbrot frá nokkrum af þeim viðburðum sem hafa verið haldnir hér á landi, þið sjáið meðal annars mig bregða fyrir þarna í mentor hlutverki.

 

 


Innovit- Atvinnu og nýsköpunarhelgi from DIMMS on Vimeo.

 


Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiftum

Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að þunnar bækur séu betri en þykkar bækur. Að hluta til er ástæðan fyrir því sú að ég les ekki ýkja hratt og á erfitt með að finna mér tíma til að lesa, en einnig er það vegna þess að ég trúi því að ef hæfni einstaklings á ákveðnu sviði felist að miklu leiti í hversu auðvelt hann á með að einfalda verkið. Ef að rithöfundur bókar þekkir vel viðfangsefni bókarinnar þá ætti hann að geta komið því frá sér á einfaldan og hnitmiðaðan hátt í sem fæstu orðum. Þess vegna hafði ég mjög gaman af því þegar ég fékk í hendurnar litla og netta bók sem hét „Heilræði fyrri unga menn í verzlun og viðskiptum“. Bókin sem er einungis 76 blaðsíður (þar af 45 í formála) er einföld upptalning á góðum ráðum í viðskiptum sem mér virðast eiga alveg jafn vel við í dag eins og fyrir 100 árum þegar þau voru rituð.  Bókin var skrifuð af George H. F. Schrader sem var Bandarískur frumkvöðull sem var búsettur hér á landi í nokkur ár í byrjun síðustu aldar.

Mig langaði bara að taka nokkur góð ráð úr bókinni og deila með ykkur.

„Ef þú átt völ á stöðu sem gefur þér tækifæri til að læra eitthvað og komast áfram, þá er sú staða arðsamari, þó hún byrji með lágu kaupi, heldur en vel launuð staða með engum framtíðarmöguleikum“

Ég hef sjálfur reynt að lifa eftir þessum ráðum og hef oft tekið að mér illa launuð störf gegn því að ég geti lært eitthvað nýtt sem síðan hefur nýst mér betur síðar í lífinu. Þetta eru góð ráð sem allir myndu hagnast að fara eftir.

„Láttu ekki hugfallast, þó fyrstu tilraunir þínar misheppnist, reyndu aftur; fáir eru smiðir í fyrsta sinn.“

Þetta er eitthvað sem en hefur ekki tekist að kenna íslendingum nægjanlega vel, þar sem við virðumst ennþá líta á mistök sem merki um leti eða heimsku. En staðreyndin er þó sú að við lærum aldrei jafn mikið af neinu eins og við lærum af mistökum okkar og það að einstaklingur sé með mistök á baki sér getur verið merki um að viðkomandi hafi öðlast mikla þekkingu af þeim mistökum og geti betur tekist á við komandi verkefni.

„Fyrir unga verzlunarmenn er sérlega gott að lesa bækur um verzlun og verzlunarlöggjöf. En fyrir handverksmenn er mjög nytsamlegt að lesa bækur og blaðagreinar um handiðnir allskonar. Þess konar bækur má fá í hverju bókasafni.“

Í dag er orðið mun auðveldara að nálgast bækur og fræðsluefni um ýmiskonar málefni hvort sem það er á bókasöfnum eða á veraldarvefnum.. Það ætti því ekki að reynast neinum erfitt að afla sér upplýsinga um það sem hann er að vinna við og skapa sér fljót sérstöðu á sínu sviði og auka þannig möguleika á árangri.

„Bezta ráðið sem ég get gefið húsbændum, er að uppala og leiðbeina verkamönnum sínum, og skoða þá eigi sem dauð verkfæri til að græða peninga. Kennið þeim og gefið þeim kost á að læra, hvernig þeir eigi að standa á eigin fótum. Æfið þá þangað til þeir eru færir um að skipa sæti húsbóndans ef nauðsyn ber til. Með því einu móti getur starfið ætíð gengið greitt, og þér sjálfir verðið aldrei þrælar atvinnu yðar. Komið því skipulagi á vinnulið yðar, sem herfylking væri, svo að það geti gegnt starfi yðar, þó veikindi eða elli beri að höndum. Kjósið ætíð einhvern fulltrúa.“

Þetta eru ráð sem ég hef einnig lesið í mörgum nýútgefnum bókum, ráðið fólk sem er hæft og jafnvel mun hæfara en þið sjálf, þjálfið það upp og verið óhrædd við að deila með þeim af reynslu ykkar. Ef að þið sem stjórnendur þjálfið ekki upp starfsfólk ykkar til að taka einn daginn við af ykkur er hætta á að þið sjálf verðið þrælar eigin vinnu og munuð ekki geta farið að minnka við ykkur vinnuna þegar þið farið að eldast þar sem það er engin hæfur til að taka við ykkar störfum.

„Það er betra að byrja með litlu og færast í aukana en að byrja með miklu, aðeins til að fara á höfuðið“

Hann talar um að það sé aldrei gott að byrja með lánsfé og það sé þess í stað gott að reyna byrja með lítið og semja vel. Sjálfur þekki ég vel að byrja fyrirtæki með mikið lánsfé og ég myndi ekki mæla með því, það er mun betra ráð að byrja smátt án lánsfés og byggja félagið statt og stöðugt upp.

„Heiðarlegur gróði og gott mannorð er framar öllu öðru; en varist að græða fé óheiðarlega.

Viðskiptaheimurinn er mun minni en maður gæti ímyndað sér og það að hafa gott orðspor skiptir öllu. Passið ávallt að eiga heiðarleg viðskipti við alla í kringum ykkur bæði vegna þess að ykkur mun líða betur andlega en einnig vegna þess að ef þið eruð óheiðarleg þá fréttist það strax og fólk hættir að treysta ykkur og vill síður eiga viðskipti við ykkur.

Hann endar bókina á eftirfarandi orðum og ég get ekki ímyndað mér betri leið til að enda slíka bók.

„Látið yður umhugað um annað meira og hærra, en að græða fé. Peningarnir eiga aðeins að vera meðal til að ná tilgangi og látið takmark ykkar verða: áhyggjulaust líf. Ef þér þá getið og hafið vilja á að hjálpa öðrum, þá mun það baka yður meiri gleði, heldur en nokkurntíma að hjálpa yður sjálfum - þ. e. a. s. ef þér gerið það skynsamlega.“

Þetta er lítil og nett bók sem er fljótlesin en ætti þó að vera marglesin því í henni eru góð og tímalaus ráð sem þið getið nýtt bæði í viðskiptum og einkalífi ykkar. Ég hefði alveg verið til í að vitna í fleiri greinar úr bókinni en þess í stað ætla ég að mæla með að þið fjárfestið í henni og innbyrðið sjálf þessa skemmtilegu lesningu.

Að lokum vill ég þakka henni Þórunni Jónsdóttur kærlega fyrir að hafa gefið mér þessa bók.


Alþjóðleg frumkvöðlaráðstefna - Startup Iceland

Íslenska frumkvöðlaumhverfið hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum og það hefur aldrei áður verið jafn auðvelt að nálgast upplýsingar og aðstoð við að gera hugmyndir sínar að veruleika. Engu að síður er ennþá langt í land og mikið sem ennþá á eftir að betrumbæta til að íslensk fyrirtæki geti orðið samkeppnishæf á alþjóðlegum markaði. Sem dæmi má nefna að íslensk fyrirtæki eiga oft erfiðara með að finna fjárfesta á fyrstu stigum rekstursins heldur en sambærileg fyrirtæki í erlendum frumkvöðlaumhverfum á borð við San Francisco, New York, London o.f.l. Og þrátt fyrir að Ísland sé góður tilraunamarkaður fyrir mörg fyrirtæki þá takmarkar stærð markaðarins einnig stækkunarmöguleika fyrirtækjanna. Það er því nauðsynlegt að fyrirtæki líti út fyrir landssteina en á sama tíma eru oft takmörkuð tengsl við erlenda markaði og getur reynst erfitt að mynda slík tengsl.

Þessi vandamál ásamt fleirum munu vera tekin fyrir á ráðstefnu sem nú er verið að skipuleggja og mun vera haldin í Maí á þessu ári. Viðburðurinn mun vonandi ná að lyfta umhverfi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja upp á nýtt plan. Þessi ráðstefna leggur fyrir spurninguna "How do you build sustainable entrepreneurial ecosystem?" eða eins og það myndi heita á íslensku "Hvernig byggirðu upp sjálfbært frumkvöðlavistkerfi?". Fengnir verða þekktir erlendir fjárfestar og frumkvöðlar á heimsmælikvarða til að deila reynslu sinni af því hvernig fyrirtæki geta best náð árangri og hvernig best er að búa til umhverfi sem hlúar að og styður við ung fyrirtæki.

 

 

Nú þegar hefur Brad Feld staðfest komu sína á viðburðinn en fyrir þau ykkar sem ekki þekkið hann þá má nálgast frekari upplýsingar um hann á bloggi hans.

 

 

Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast betur með þessu geta skráð sig inn á http://signup.startupiceland.com/.

Ráðstefnan er skipulögð af Bala Kamallakharan fagfjárfesta sem hefur undanfarin ár verið að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Bala hefur fulla trú á því að Ísland gæti orðið góð útungunarvél fyrir öflug fyrirtæki og vill með þessari ráðstefnu styrkja við íslenskt frumkvöðlastarf. Frekari upplýsingar um Bala og ráðstefnuna er að finna á bloggsíðu hans StartupIceland.com.

Við munum svo birta frekar upplýsingar um viðburðinn þegar nær dregur.

 

 


WordPress og virði þess fyrir frumkvöðla

Á mínum unga ferli hef ég braskað ýmislegt hvað varðar vefhönnun. Mér tókst á eitthvern ótrúlegan máta að hanna síðu í Microsoft Word hér í denn en færði mig fljótt yfir í Dreamweaver. Frá Dreamweaver fór ég yfir í Notepad og frá Notepad yfir í Komodo Edit. Mig dreymdi um að læra flókin forritunartungumál og skrifa vefkerfi frá grunni. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir áttaði ég mig á því að ég væri engan veginn maðurinn í slíkt og byrjaði að þróa síður í WordPress kerfinu.

Eins og margir aðrir þá hafði ég litla trú á WordPress í upphafi. Ég kannaðist við WordPress.com síður og fannst þær vera ekkert merkilegri en Blogspot. Sem betur fer hafði ég lesið á eitthverju erlendu bloggi að WordPress væri miklu meira en bloggkerfi. Núna í seinni tíð lít ég á það blogg sem ákveðin vendispunkt sem opnaði fyrir mig endalausan heim af tækifærum.

WordPress er einfaldlega með eitt öflugasta samfélag forritara og hönnuða á netinu og á nokkrum vikum las ég allt sem ég fann um WordPress. Það hefur orðið að kjarnanum af öllu sem ég hef tekið mér fyrir síðustu ár. Ég flutti út til Skotlands, lærði Audio Engineering og opnaði lítið mastering stúdíó miðað á minni útgefendur. Mig tókst að byggja upp trúverðuleika og öflugt orðspor með heimasíðu sem kostaði mig $35 og tók mig 2 daga að innleiða. Ég var í hörkusamkeppni við mikinn fjölda af þraulvönum hljóðmönnum sem að höfðu miklu flottari portfolio en ég. Engu að síður var ég kominn með flottan viðskiptamannahóp á mjög stuttum tíma. Seinna meir komst ég að því hver ástæðan var - síðan mín var að koma ofar upp í vefleit.

Og ég byrjaði að hugsa, hvernig í ósköpunum kemur mín síða upp ofar en hjá þeim sem eru búnir að vera með heimasíðu í mörg ár? Ég fór á Technorati og byrjaði að lesa mig til um "Search Engine Rankings" og grannskoðaði kóðan hjá samkeppnisaðilum. Það sem þeir klikkuðu á var allt tengt Search Engine Optimization (SEO) fyrir síðurnar sínar - ómiðaður title tag, ekkert meta description, enginn notkun á headings eða bold, italics eða underline, ekkert sitemap, enginn alt tags o.s.frv. Ég hafði ekki lagt neina sérstaka áherslu á þessi atriði en samt hafði það komist rétt til skila á minni síðu. Síðan mín var þegar leitarvélabestuð. Samvinnan milli WordPress og þemunnar sem ég hafði keypt bauð hreinilega ekki upp á annað.

Eftir þessa uppgvötun stofnaði ég fyrirtæki sem lagði áherslu á leitarvélabestun og vefsíðugerð. Kjarninn í því fyrirtæki er WordPress kerfið. WordPress er frítt í notkun, með frábært notendaviðmót, endalaust af viðbætum, þemum og auka frameworks, nær fullkomið gagnvart leitarvélum og með mjög öflugt öryggiskerfi. Fyrir frumkvöðla er kerfið ómetanlegt, því þeir geta snúið hugmynd í veruleika á mettíma og á mjög lítinn kostnað. Eins og Valur Þór bendir á þá hafa nú þegar stór hluti íslenskra nýsköpunarfyrirtækja áttað sig á kostum WordPress kerfisins og það er mín von að sú þróun haldi áfram og að WordPress hjálpi íslenskum frumkvöðlum að byggja upp sín fyrirtæki.

 


Gestabloggari:
Ragnar Fjölnisson
Framkvæmdarstjóri Cloud Engineering ehf
http://www.webengineering.is/

 

 

 


Viðskiptasmiðjan, nám fyrir frumkvöðla

Ég var að taka eftir því að nú stendur yfir skráning í Viðskiptasmiðjuna en fyrir þá sem ekki þekkja það þá er það frumkvöðlanám á vegum Klaksins. Námið er hugsað fyrir frumkvöðla á öllum stigum, allt frá þeim sem einungis hafa hugmynd og til þeirra sem eru nú þegar í fullum rekstri.

Viðskiptasmiðjan er gott stuðningsumhverfi til að rækta hugmyndir sínar, þar koma kennarar frá öllum Háskólunum og ýmsir vel tengdir aðilar úr frumkvöðlaumhverfinu til að kenna ykkur hvernig eigi að stofna og reka fyrirtæki. Þetta er einnig góður vettvangur til að byggja upp tengslanet sitt þar sem gott aðgengi er að frumkvöðlum, fjárfestum og fleiri öflugum aðilum.

Ýmsir aðilar sem ég kannast við hafa farið í gegnum Viðskiptamiðjuna og hafa haft góða hluti af henni að segja. Hérna eru nokkrar umsagnir um Viðskiptasmiðjuna.

„Þegar við byrjuðum í Viðskiptasmiðjunni vorum við fjögurra  manna fyrirtæki með einn samstarfsaðila, alltof stóra viðskiptaáætlun og alltof víðan fókus. Viðskiptasmiðjan, kennaraliðið og tengslanet hennar átti stóran þátt í að undirbúa okkur og gera okkur að þeim stjórnendum sem voru í stakk búnir að rúmlega tvöfalda starfsmannafjölda okkar, skerpa fókusinn og ná inn milljón dollurum frá erlendum fjárfestingasjóð.“

-Gunnar Hólmsteinn, framkvæmdastjóri Clara

„Ég lærði það hjá Viðskiptasmiðjunni að ég þyrfti að hafa teymi í fyrirtækinu og með því að mynda rétt teymi þá náðum við að tryggja fjárfestingu frá ekki síðri félögum en Eyri Invest og Nýsköpunarsjóði Atvinnulífsins. Ég náði meira að segja að fá Þórð Magnússon til þess að gerast viðskiptaengill í ReMake áður en Eyrir og NSA komu inn, en það var það sem ég lærði hjá Viðskiptasmiðjunni sem honum líkaði við fyrirtækið. Niðurstaða mín eru botnlausar þakkir til aðstandenda Klaksins fyrir að skapa Viðskiptasmiðjuna ásamt ráðgjöfum, kennurum og leiðbeinendum úr Viðskiptasmiðjunni. Ég veit ekki hvar ég væri án ykkar. Viðskiptasmiðjan verður að vera til staðar fyrir framtíðar frumkvöðla sem eru enn í skugga vanþekkingar sinnar á tungumáli viðskiptageirans.”

-Hilmir, framkvæmdastjóri Remake Electric

Frekari upplýsingar um Viðskiptasmiðjuna má nálgast hér: http://www.klak.is/vidskiptasmidjan/

Umsóknarfrestur fyrir vorönnina er 25.janúar og byrjar sjálft námið 30.janúar. Það er því um að gera fyrir þá sem hafa áhuga að hafa samband við Maríu hjá Viðskiptasmiðjunni í síma 490-1000 og skrá sig.

 


Úthýsing símsvörunnar

Ég er búinn að vera skoða ýmsa möguleika til að gera fyrirtækið mitt sjálfvirkara að öllu leiti og þannig reyna takmarka þá vinnu sem ég þurfi að leggja í hversdagslega hluti  til að geta nýtt tíma minn frekar í áframhaldandi þróun. Ein hugmyndin sem ég fékk var sú að úthýsa símsvörun fyrirtækisins þannig að ég þyrfti ekki að sitja við símann allan daginn sérstaklega þar sem vinnutíminn minn er oftar en ekki heldur óhefðbundinn. Fyrstu hugmyndirnar sem komu upp í hausnum á mér varðandi það var fyrsta lagi að það hlyti að vera fáranlega dýrt og öðru lagi að það hlyti nú að vera erfitt fyrir einhvern aðila út í bæ að svara spurningum um fyrirtækið mitt. Eftir að hafa leitað eftir símsvörunarþjónustu á google fann ég 3 fyrirtæki sem komu til greina, þessi fyrirtæki voru Ritari.is, Miðlun og Símaverið. Eftir að hafa talað við þessi fyrirtæki komst ég að því að þessari hugmyndir mínar um þjónustuna voru fjarri lagi þar sem það kom mér töluvert á óvart að svona þjónusta er á nokkuð hagstæðu verði sérstaklega m.v. það að ég losna við töluverða vinnu. Auk þess sannfærðu þau mig um að starfsmenn þeirra gætu aðlagað sig vel að öllum fyrirtækjum.

Ég hef því ákveðið að slá til og prufa slíka úthýsingu.

Næstu skrefin eru þau að ég mun í sameiningu við símsvörunarfyrirtækið útbúa upplýsingarit fyrir starfsmenn símsvörunnarinnar um fyrirtæki mitt svo þeir geti flétt upp ef einhverjar spurningar koma upp sem þau vita ekki. Einnig verður svo ákveðið með hvaða hætti símtöl sem ég sjálfur þarf að svara fyrir verða áframsend, hægt er að senda þau áfram í GSM síma minn eða einfaldlega taka niður upplýsingar um viðkomandi og ég fæ þær sendar með SMS eða tölvupósti. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig þetta kemur út og mun tvímælalaust deila reynslu minni hérna á blogginu um leið og einhver reynsla er komin.


The New Rules of PR and Marketing

Ég náði loksins að klára bókina The New Rules of PR and Marketing eftir David Meerman Scott í síðustu viku. Ég er búinn að vera að lesa hana síðan í haust en náði aldrei neitt áfram vegna anna. Þannig ég tók mig til yfir hátíðirnar og kláraði kvikyndið. Þetta er frábær bók fyrir þá sem vilja auglýsa sig á internetinu, sérstaklega ef þeir eru nýir inn á þann markað.

David Meerman Scott hefur áratugareynslu úr markaðsheimum. Hann hefur verið markaðsstjóri í stórum B2B fyrirtækjum, unnið sem verðbréfamiðlari en hefur núna síðustu ár unnið fyrir sér sem rithöfundur og fyrirlesari út um allan heim.

Í bókinni tekst Scott á við það sem hann kallar hefðbundna markaðssetningu og ber hana saman við nýju reglurnar sem gilda. Hann talar um mikilvægi þess að vera sýnilegur á netinu og gera það rétt. Til dæmis bara með því að hafa allar fréttatilkynningar þannig upp settar að leitarvélar eigi auðvelt með að finna þær. Annað einfalt dæmi er að vakta umræðu á samfélagsmiðlum og geta þannig brugðist við neikvæðri umfjöllun.

Hefðbundin markaðssetning er auglýsingagerð fyrir sjónvarp, dagblöð, útvarp og slíka miðla. Á meðan hún er ennþá gríðarlega mikilvæg í markaðsstarfi fyrirtækja þá er netið alltaf að koma meira og meira inn, þetta þarf ekki að segja neinum. Gallinn er bara að þeir sem eru vanir þessum hefðbundnu miðlum reyna oft að heimfæra sömu reglur yfir á internetið. Það á því miður ekki við, þar sem eðli miðilsins er bara allt annað. Þannig eru bestu markaðsherferðirnar þær sem samnýta nýmiðla og samfélagsmiðla.

Hér eru nokkur dæmi um netmarkaðssetningu upp úr bókinni sem fyrirtæki og markaðsfólk ættu að íhuga betur:

Blogg

Blogg er alltaf að verða vinsælla meðal fyrirtækja. Þar er hægt að segja frá því sem er að gerast í fyrirtækinu, útskýra vöru, auglýsa, eða segja frá. Þó verð ég að segja að mér finnst skrítið hversu lítið er um íslenskar fyrirtækjabloggsíður. Það eru helst fjarskiptafyrirtækin og sprotafyrirtæki sem eru að blogga. Ég væri til dæmis til í að sjá bílablogg frá Heklu, bjórblogg frá Ölgerðinni, eða orkublogg frá Landsvirkjun. Þá finnst mér fáránlegt hversu fáar auglýsingastofur eru að blogga. Eftir því sem ég veit er Jónson & Le'macks eina stofan.

Blogg er frábær miðill til að vinna traffík inn á síðuna hjá þér, enda ertu að vinna þér inn prik hjá Google með því að uppfæra síðuna stöðugt, og kemur þannig ofar í leitarvélaniðurstöðum. Eins er blogg mjög þægileg leið til að sýna hvað er að gerast í fyrirtækinu. Þá nota ég blogg í minni vinnu til að segja sögu af vörum sem eru nýjar. Textinn sem ég skrifa þá er kannski aðeins of langur til að komast inn á sölusíður en bloggið er einmitt frábær vettvangur til að koma með leiðbeiningar og útskýringar.

Heimasíður

Heimasíðan þín á ekki að snúast um flottheit. Það er öllum sama um hvernig heimasíðan þín lítur út ef það er erfitt að finna upplýsingar á henni. Síðan á að vera byggð fyrir um viðskiptavini þína og með það í huga að leiða þá í gegn um kaupferlið. Þetta leiðir til þess að þeir verða ánægðari fyrir vikið þar sem síðan er auðveld í notkun og upplýsingarnar sem þeir leita að eru á reiðum höndum. Þú verður ánægðari því þetta skilar þér meiri tekjum í gegn um vefinn þinn.

PR eða almannatengsl

Það er alltaf frábært að minnst á nafn fyrirtækis síns á Mbl.is, nú eða í sjónvarpsfréttunum. Það höfðar vel til hégómagirndarinnar og manni finnst maður hafa fengið góða auglýsingu. En hverjir eru að hlusta? Scott færir rök fyrir því að oft er betra að fyrirtæki þitt eða vörumerki að vera í góðu sambandi við bloggara á sínum markaði heldur en að vera getið í fréttunum. Af hverju? Nú vegna þess að ef hátt virtir bloggarar á þínum markaði eru að tala um hvað þú ert að gera góða hluti, þá er virkilega hlustað á það, af fólkinu sem þú virkilega vilt ná til. Þannig er mikilvægt að eiga í allavega jafn góðu sambandi við óháða vefpenna og hæst virta blaðamenn.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------

The New Rules of PR and Marketing hefur selst í milljónum eintaka út um allan heim, allt án þess að höfundurinn hafi eitt krónu í venjulega markaðssetningu. Daginn sem hún var tilbúin sendi hann eintak á 300 þekkta bloggara og bað þá um að lesa hana og gefa sér athugasemdir. Seth Godin tók hana og lofaði á blogginu sínu, þá fór boltinn að rúlla.

Bókin er umdeild, en hún er að fá allt frá 5 stjörnum niður í 1. Mörgum finnst hún þunn og bæta litlu við í markaðsflóruna. Ég er því ósammála. Ég var búinn að lesa mér mikið til um markaðssetningu á netinu og samfélagsmiðla þegar ég byrjaði á bókinni en mér fannst hún engu að síður bæta miklu við. Höfundurinn er með bloggsíðunawww.davidmeermanscott.com og er virkur á Twitter undir nafninu @dmscott. Ef þú vilt kynnast bókinni betur mæli ég með þessari e-book, en hún er einskonar útdráttur á PDF formi. Þú getur sótt hana hér.

Ég mæli með þessari bók fyrir alla sem eru að feta sig áfram í markaðssetningu á netinu. Hún hentar sérstaklega vel fyrir fólk í eigin rekstri sem hefur ekki endilega efni á því að nýta sér hefðbundnu miðlana. Hún er full af dæmisögum, allt frá kosningabaráttu Barack Obama niður í indý hjólreiðabúðir. Kauptu nýjustu útgáfuna, t.d. frá Amazon, þar sem internetið hefur breyst mikið frá því sú fyrsta kom út árið 2007. Lestu þessa og sjáðu hvað þú getur gert á netinu.

 

 

Gestabloggari:
Hjalti Rögnvaldsson
Bloggari og viðskiptafræðinemi
www.hjaltir.com

 


TEDx Iceland

Datt í huga að deila með ykkur nokkrum af TEDx fyrirlestrunum sem voru haldnir í Hörpunni í lok síðasta árs. En alla fyrirlestrana má svo nálgast hér http://tedxtalks.ted.com/browse/talks-by-country/iceland.

 


Losing my Virginity

Um leið og þú lest titil þessarar færslu þá veit ég að þú ert að leita eftir einhverjum djúsí endurminningum frá mér. Ég ætla að byrja á því að valda þér vonbrigðum: þetta er bókaumfjöllun. Í gegn um tíðina hef ég aldrei verið mikið fyrir endurminningar og ævisögur. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að maður geti lært af því hvernig aðrir hafa hagað hlutunum hjá sér, tala nú ekki um ef viðkomandi er milljarðamæringur!

Sir Richard Branson er svalasti milljarðamæringur í heimi. Hann er fæddur í Bretlandi árið 1950 og þrátt fyrir að vera lesblindur og hafa aldrei farið í háskóla er hann í dag í 254. sæti yfir ríkustu mönnum heims. Richard Branson er mikið átrúnaðargoð hjá mér, ekki af því hann er ríkur – heldur hvernig hann hefur orðið ríkur. Ekki nóg með að maðurinn eigi eyju í Karabíska hafinu, hafi flogið í loftbelg yfir Atlantshafið og hafi bjargað gíslum úr Íraksstríðinu, heldur er hann núna að fara að selja ferðir út í geim og niður í dýpstu höf. Hann á Virgin veldið en allir ættu að þekkja Virgin Atlantic flugfélagið, Virgin Music útgáfuna, Virgin Mobile farsímafélagið og svo lengi mætti telja. Ég held að Richard Branson sé efni í nokkrar færslur þannig ég mæli með að þið lesið ykkur til um hann og hvað hann er að gera á Wikipedia. Ég ætla að einblína á ævisöguna hans sem ég var að klára.

Ég keypti ævisögu Bransons á Audible og hlustaði á hana í einum rikk í vikunni. Bókin kemur út árið 1998 og er því orðin nokkuð gömul. Richard Branson skrifar hana sjálfur og les sjálfur inn á hljóðbókina sem er mjög skemmtilegt. Ég reikna með að hún sé tekin upp heima hjá honum á Necker Island en stundum má heyra fuglasöng inn á milli. Mjög heimilislegt allt saman.

Eins og áður sagði var Richard Bransson fæddur í Bretlandi árið 1950. Hann sér illa og er lesblindur en samt var hann farinn að gefa út tímaritið Student í kring um 18 ára aldurinn. Í gegn um Student datt hann inn í að selja plötur í gegn um póstlista. Þegar póstburðarmenn í Bretlandi fóru í verkfall stefndi póstlistaþjónustan í gjaldþrot. Til að bjarga litla fyrirtækinu sínu fann hann, ásamt félögum sínum, autt rými í London og setti upp búð á fimm dögum og var þar með kominn í verslunarrekstur. Veldið byggðist hægt og bítandi upp eftir því sem þeir opnuðu fleiri búðir og færðu sig svo yfir í útgáfubransann. Mike Oldfield var fyrsti alvöru tónlistarmaðurinn sem skrifaði undir hjá Virgin en eftir því sem leið á bættust við í hópinn listamenn eins og Sex Pistols, Human League, Boy George og Janet Jackson til að nefna nokkra.

Richard Branson hefur alltaf haft gaman af því að ögra sjálfum sér og öðrum. Ef þú kemur með nógu klikkaða hugmynd til hans, er hann örugglega til í að taka þátt í henni. Þannig datt hann inn í flugfélagsbransann, þrátt fyrir að hafa ekki neina reynslu af slíkum rekstri og Virgin Atlantic varð til. Í dag er Virgin Atlantic eitt þekktasta nafnið í fluggeiranum og flýgur út um allan heim.

Auk þess að segja frá viðskiptasigrum sínum hleypir Branson lesendum (og hlustendum) inn í líf sitt utan peninganna. Hann segir frá hjónabandi sínu, barneignum, hvernig honum líður eða leið og hvað hann var að hugsa á hverjum tíma. Það er mjög gaman að heyra hann segja frá Joan, konunni sinni, sem hann elskar greinilega heitt, og börnunum sínum Holly og Sam. Einnig segir hann frá því hversu nærri sér hann tekur að sjá fólk í neyð, en í fyrra Íraksstríðinu lét hann fljúga Boeing 747 vél til Bagdad til að frelsa gísla stuttu áður en borgin var lögð í rúst af flugherjum vesturveldanna. Hann segir einnig á lifandi hátt frá því þegar hann flýgur í loftbelg yfir Atlantshafið og eins þegar hann reynir að setja heimsmet í því að sigla yfir sama haf. Eins fer hann yfir hápunkta og lágpunkta á sínum ferli og það er virkilega gaman að hlusta á hann tala.

 

En hvernig var bókin?

Ég gaf bókinni 5 stjörnur af 5 mögulegum. Kannski er ég ekki hlutlaus enda var maðurinn í miklu uppáhaldi hjá mér áður en ég keypti hana. Engu að síður er hún skemmtilega skrifuð, full af kímni og einlægni. Richard Branson hefur gífurlegan húmor fyrir sjálfum sér og greinilega elskað hverja mínútu af því sem hann hefur gert, og það skín vel í gegn.

Ef það er eitthvað sem hægt er að setja út á er það að hann eyðir stórum hluta bókarinnar í að fara í rimmuna sem hann háði við British Airways í byrjun 10. áratugarins, sem á endanum var útkljáð í réttarsal. Hann fer yfir þann slag af kostgæfni og endursegir samtöl orð fyrir orð. Ég held samt að ástæðan fyrir því að hann geri það er bara til að sýna fram á hvað þolinmæði, kjarkur og baráttuvilji skilar miklu í lok dags.

Ég mæli með því fyrir alla sem hafa áhuga á viðskiptum að annað hvort lesa eða hlusta á Losing my Virginity. Einnig ætti hún að veita þeim innblástur sem hafa annað hvort áhuga á að stofna fyrirtæki eða eru með hugmynd sem virðist klikkun en langar að láta hana verða að veruleika. Hana má fá á Audible eða Amazon. Einnig er rétt að minna á nýja bók eftir Branson sem heitir Screw Business As Usual en hún kom út í haust. Að lokum er vert að minnast á bloggið hans Richards sem ég les mjög oft. Meistarinn er líka á Twitter og það er hægt að elta hann: @richardbranson.

Hér er viðtal við hann á TED 2007:

 

 

 

Gestabloggari:
Hjalti Rögnvaldsson
Bloggari og viðskiptafræðinemi
www.hjaltir.com

 

 


Afhverju ertu ekki með póstlista?

Ég er mikil aðdáandi póstlista, þetta er ótrúlega öflugt markaðstæki sem alltof fá fyrirtæki virðast nýta sér. Þess vegna langaði mér að fara aðeins yfir hvað póstlistar eru og hvernig þið getið nýtt þá til að bæði markaðssetja fyrirtæki ykkar og styrkja samband ykkar við núverandi viðskiptavini. Efni greinarinnar varð aðeins meira heldur en hentar í eina færslu og því ákvað ég að skipta þessu upp í 3 færslur sem munu dreifast yfir á næstu daga.

Þessi grein varð til út frá rannsóknarvinnu sem ég var að vinna fyrir póstlista Búngaló en ég mun einnig taka dæmi um reynslu mína af þeim póstlista til að fá meiri raunveruleikablæ yfir þessar færslur. Í þessari grein mun ég einungis vera fjalla um ræfræna póstlista eða netfangalista, það er að sjálfsögðu einnig hægt að vera með póstlista sem er prentaður og sendur út en ég hef lítið notað slíkt og ætla ekki að flækja þessa grein með slíku.

 

Hvað er póstlisti?

Póstlisti er í sinni einföldustu mynd samansafn netfanga, eigandi póstlistans getur svo sent út tölvupóst á eigendur þessara netfanga til að fræða þá um nýjungar, breytingar, fréttir og tilboð. Það góða við póstlista er að þeir eru mjög einfaldir og fljótlegir í notkun, hægt er að skrifa bréf og með einum smelli fá allir á listanum skilaboðin nær samstundis. Það kostar einnig ekkert að senda út á listann, einhver smá kostnaður getur reyndar fylgt ef notast er við sérhæfð póstlistaforrit á netinu en þá yfirleitt einungis þegar komið er upp í fleiri þúsundir skráðra netfanga.

 

Henta póslistar þér og þínu fyrirtæki?

Þú ættir ekki að þurfa velta þessari spurningu mikið fyir þér enda eru 99% líkur á að svarið við henni sé "JÁ!". Póstlistar krefjast lágmarksvinnu og eftir upphaflega uppsetningu þarf einungis nokkrar mínútur fyrir hvern fréttapóst sem þú sendir út. Það kostar ekkert að senda út póstinn og því verður þetta líklega ódýrasta markaðssetningin hjá fyrirtækinu. Þetta er líka gott tækifæri til að byggja upp samskipti við fyrrum viðskiptavini og hugsanlega verðandi viðskiptavini. Það er því engin vafi á því að sama hvað þú ert að gera þá gætir þú nýtt þér póstlista.

 

Skráningar á póstlistann

Skráningar á póstlista geta farið fram með ýmsum mismunandi leiðum. Hvaða leið þið veljið til að fá inn skráningar hefur áhrif á hvernig lesendurnir skynja ykkur og hversu virkir þeir verða á póstlistanum.

 • Í eigin persónu: Ef þið eruð að kynna vörur/fyrirtæki ykkar á einhverjum viðburðum getið þið verið með línustrikað blað og boðið fólk að skrá sig á póstlistann til að fylgjast með nýjustu uppfærslum, fréttum og tilboðum.
 • Skráningarform: Á vefsíðunni ykkar getið þið verið með lítinn hnapp sem býður fólki að skrá sig á póstlistann ykkar. Sem dæmi um slíkt getið þið prufað að smalla á hnappinn hérna hægra megin á vefsíðunni sem segir "Skráðu þig á póstlista Frumkvöðlars.is".
 • Notendur: Ef þið eruð með vefsíðu sem er með skráða notendur þá skráist fólk sjálfkrafa inn á póstlistann á sama tíma og þau skrá sig sem notendur. Þetta er góð leið til að hafa samskipti við notendurnar og koma til skila mikilvægum uppfærslum og breytingum á vörunni/þjónustunni.
 • Viðskiptavinir: Þegar einstaklingur kaupir eitthvað hjá þér annað hvort skráist hann sjálfkrafa eða býðst honum að skrá sig á póstlista fyrirtækisins.
 • Leikir: Hægt er að vera með leiki í gangi þar sem eina sem þarf að gera er að skrá netfang sitt og maður gæti unnið einhver glæsileg verðlaun. Þetta er mjög hraðskreið leið til að byggja upp póstlista.

Fjöldi skráðra aðila á póstlistanum er ekki það eina sem skiptir máli heldur hversu líklegir þeir eru til að nýta sér það sem þú ert að senda þeim. Aðilar sem handskrifuðu netföng sín niður eftir að hafa verið búnir að spjalla við þig í 10 mínútur á einhverjum viðburði eru miklu líklegri til að hugsa hlýlega til fréttapóstsins sem það fær frá þér heldur en aðili sem skráði sig bara til að vinna ókeypis iPhone og veit jafnvel ekkert um fyrirtæki þitt. En almennt séð má miða við að notendur sem skrá sig sjálfir af fyrra bragði séu betri lesendur þar sem þetta er meðvituð ákvörðun og þannig hafa þeir sýnt að þeir hafa í alvöru áhuga á þér, vöru þinni eða fyrirtæki.

 

Í næstu færslu mun ég fjalla um póstlistaforrit og þá sérstaklega það póstlistaforrit sem ég nota mest Mailchimp.com. -->

 

 

 


Seth Godin, Tribes

Audible fyrir Android

Ég hef aldrei hlustað á hljóðbækur. Í vor skráði ég mig samt með aðgang á Audible.com og ætlaði svo aldeilis að fara að hlusta. Nýir meðlimir fá að sækja eina bók sér að kostnaðarlausu og ég rakst á bókina Tribes: We need you to lead us eftir Seth Godin. Svo varð að sjálfsögðu ekkert af allri hlustuninni fyrr en ég fór út að hlaupa um helgina. Þá sótti ég Audible forritið í símann minn og gróf bókina upp úr einhverri möppunni.. Það er furðu þægilegt að hlusta á hljóðbækur, sérstaklega þegar maður er að hlaupa. Maður er aðallega að láta hugann líða þegar maður hleypur og þannig er mjög gott að demba í sig smá fróðleik í leiðinni.

Senor Godin

Seth Godin er nokkuð merkilegur maður. Hann er bandarískur frumkvöðull og rithöfundur. Hann ferðast um allan heim og heldur fyrirlestra auk þess sem hann heldur úti bloggsíðu. Hann setur inn færslu á hverjum einasta degi og hefur gert í yfir 10 ár sem hefur gert hann að einum vinsælasta bloggara í heimi. Hann talar aðallega um markaðsmál og vörumerki, en hann hefur líka farið inn á tengd málefni eins og stjórnun, leiðtogahæfni og sjálfshvatningu. Bækurnar hans hafa selst í milljónum eintaka, þær helstu heita Purple Cow, All marketers are liars og Permission marketing, auk Tribes að sjálfsögðu.

Tribes er bók um leiðtogahæfni. Í henni talar Seth um muninn á því að leiða (e. leading) og stjórna (e. managing). Rauði þráðurinn í bókinni er sá að fólk flykkir sér á bakvið leiðtoga og myndar þannig fylkingar (e. tribes). Leiðtogi segir pattstöðu stríð á hendur. Hann reynir að hafa áhrif á fólk og hrífur það með sér. Ef þú ert leiður á ástandinu sem þú ert í áttu að standa upp og gera breytingar. Ekki láta teyma þig í hjörð heldur taktu af skarið og myndaðu þína eigin fylkingu. Með tilkomu internetsins varð svo miklu miklu auðveldara að mynda fylkingar. Allt í einu voru til blogg þar sem hver var orðinn sinn eigin sérfræðingur því allir hafa rödd á netinu. Miðlar eins og Facebook og Twitter hafa auðveldað fylkingamyndun enn meira.

Bókin er ágæt. Hún er uppfull af dæmisögum og hún veitir sannarlega innblástur. Margt sem hann segir á fullkomlega rétt á sér, sérstaklega þegar kemur að því að segja stöðnun stríð á hendur og gera eitthvað. Ef ég á að setja út á eitthvað þá er hún með full mörgum dæmisögum. Seth kemur efninu frá sér fullkomlega í fyrstu köflunum og virðist vera að reyna að teygja lopann með því að bæta enn fleiri dæmisögum, sem er merkilegt miðað við að bókin er ekki nema 160 bls, eða tæpir 4 tímar sem hljóðbók. Ég myndi gefa 3 stjörnur af 5.

Við tilheyrum öll einhverjum fylkingum. Obama myndaði fylkingu sem skilaði honum forsetastóli. Steve Jobs myndaði fylkingu af fólki sem trúði á hann og hann gerði Apple að verðmætasta fyrirtæki í heimi. Þeir sem ganga nú til kosninga í Sjálfstæðisflokknum á næstu viku munu annað hvort fylkja sér á bakvið Hönnu Birnu eða Bjarna Ben, þau eru leiðtogar hvor í sínu horni með fylkingar á bakvið sig. Jón Gnarr var orðinn þreyttur á stöðnuninni í íslenskri pólitík þannig hann stofnaði Besta Flokkinn. Þá sögu þekkja allir. Ég tel ykkur lesendur góðir sem meðlimi í minni fylkingu.

Hér fyrir neðan er Seth Godin að tala á Ted fyrirlestri til að fylgja bókinni sinni eftir. Ef þið hafið skoðanir á honum, ekki hika við að skilja eftir athugasemdir.

 

 

Gestabloggari:
Hjalti Rögnvaldsson
Bloggari og viðskiptafræðinemi
www.hjaltir.com

 

 


14 frábær ráð gegn stressi frá 18 ógeðslega klárum vinum mínum og sjálfri mér

 

 

Eftir að hafa í fyrsta skipti í fjölda ára fundið fyrir líkamlegum streitu- og kvíðaeinkennum ákvað ég að nýta mér „crowd-sourcing“ og óska eftir ráðum og remedíum sem vinna á þessu via Facebook.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hér er afraksturinn; 14 frábær ráð frá vinum.

1.       Hugleiða í að minnsta kosti 20 mínútur á dag. Hér var mælt sérstaklega með Mindfulness og þessari síðu: http://www.meditationoasis.com/

2.       Fá góðan svefn/hvíld. Fara snemma að sofa og vakna alltaf á sama tíma á morgnana.

3.       Fá sér eitt glas af viskí/rauðvíni/bjór að kvöldi erfiðs dags í vinnunni. Ekki meira en eitt glas og ekki á hverju kvöldi.

4.       Taka kvöld- og helgarfrí! Skipuleggja tímann þannig að ekki sé unnið um helgar (of oft) og ekki hugsa um fyrirtækið eftir klukkan 21.

5.       Finna sér áhugamál.

6.       Verða Íslandsmeistari í einhverju aftur og aftur (tengist nr. 5).

7.       Slaka á. Fara í fótabað, fá sér te, kveikja á kertum, lesa góða bók, fara í heitt bað. Þið vitið...rólegheit og andleg hreinsun. Sem sagt ekki fara á djammið.

8.       Taka Magnesíum og Omega 3. Ég hef upp á síðkastið tekið blómadropa sem heita Stress Relief Daytime (Valerian Hops oral drops) frá A. Vogel og finnst þeir virka ágætlega. Kannski er þetta bara andlegt, en ég ætla að leyfa mér að trúa að þeir virki.

9.       Útivera og hreyfing.

10.   Horfa á sjálfa/n sig í speglu og endurtaka: "OK, í fyrsta lagi þá er nákvæmlega engin ástæða til að stressa sig á þessu. Þú ert osom og það er bara þannig. Fuck 'em ef þeir fatta það ekki strax." (Tóti Stefáns)

11.   Prjóna og/eða baka köku. Sennilega ekki bæði í einu því það er líklegt til að hafa stressandi áhrif.

12.   Komast að því hvað veldur stressinu. Finna svo út verstu mögulegu útkomuna úr þessum kringumstæðum. Sætta þig við hana með einhverskonar rökleiðslu, t.d. "Ég hef þó alltaf heilsuna", "I'll always bounce back" o.s.frv. Eftir það verða allar útkomur bónus.

13.   Stunda kynlíf (http://eyjan.is/2010/12/10/kynlif-er-heilsusamlegt-10-heilsubaetandi-ahrif-kynlifs/)

14.   Síðast en ekki síst (og það sem heldur mér á lífi) hlusta á góða tónlist!

Ef í óefni er komið og streitan hverfur ekki er aðeins eitt að gera. Fara í 5 daga frí (út á land eða erlendis). Þá meina ég fara á mánudegi og koma heim á föstudegi. Ekki hugsa um vinnuna, setja talhólfið á símann og out of office reply á tölvupóstinn. Ef þú ert með sprotafyrirtæki verður rétti tíminn til að taka frí líklega eftir 5-7 ár og ef þú ert streituhrúga er ólíklegt að þú lifir svo lengi. Lífið er ekki vinnan og vinnan er ekki lífið! 5 dagar án þess að einhver fái svar við tölvupósti drepa engan. Talandi af eigin reynslu get ég sagt að þið komið tvíefld til baka og tilbúin til að takast á við hvaða verkefni sem er.

Hér er smá hvatning:
http://www.youtube.com/watch?v=r3M04ca0RdY

 

 

 

Gestabloggari:
Þórunn Jónsdóttir
Co-Founder / COO hjá FAFU

 

 


Hluthafasamkomulag er vatn viðskiptasambandsins

Það eru engar ýkjur þegar ég segi að hluthafasamkomulag (skriflegur samningur milli hluthafa fyrirtækis) er frumkvöðlum jafn mikilvægt og vatn er líkamanum.

Ég veit vel hvernig tilfinning það er að vera að fara að stofna fyrirtæki, hugsanlega með besta vini sínum eða vinkonu og líða eins og maður sé á leið í brúðkaupsferð. Lífið er yndislegt. Það er eins með hluthafasambönd eins og ástarsambönd, þau geta farið út um þúfur og endað með látum. Til að fyrirbyggja, eða í versta falli draga úr, dramanu er nauðsynlegt að vera með ítarlegt hluthafasamkomulag sem tekur á þeim aðstæðum sem upp geta komið við ágreining hluthafa.

Segjum sem svo að tveir hluthafar séu í fyrirtækinu X ehf. og upp komi ágreiningur á milli þeirra sem ekki er hægt að leysa á farsælan hátt. Ljóst er að annar hluthafinn þarf að víkja, selja þarf fyrirtækið eða hreinlega leysa það upp. Ef skriflegt hluthafasamkomulag er fyrir hendi er tiltölulega auðveldara að leysa þetta mál þar sem fyrir liggur hvernig skuli takast á við aðstæður sem þessar. Þetta segi ég með þeim fyrirvara að það er sjaldnast eða aldrei auðvelt þegar einn eða fleiri hluthafar hætta í frumkvöðlafyrirtækjum. Ég get sagt, byggt á eigin reynslu, að það er næstum því eins erfitt að takast á við dramatísk hluthafamál eins og það er að skilja við maka. Hér eru oftast bæði peningar og tilfinningar í spilinu og eins og flestir vita getur það verið eldfim samsetning. Allavega, ef ekkert hluthafasamkomulag er fyrir hendi þarf að setjast niður og reyna að komast að samkomulagi. Ef annar aðilinn, eða báðir, eru reiðir er mjög erfitt að komast að niðurstöðu. Neikvæðar tilfinningar flækjast oft fyrir og geta jafnvel gert skynsamt fólk mjög óskynsamt. Þar fyrir utan krefst það mikillar orku að vinna þessi mál og það jafnvel þegar gott og ítarlegt hluthafasamkomulag er fyrir hendi, hvað þá þegar þarf að byrja frá grunni.

Ég hef heyrt frumkvöðla segja að þeir séu alveg á leiðinni að fara að setjast niður og gera hluthafasamkomulag, en hafi bara ekki fundið tíma til þess. Það er eins og að segja að maður sé alltaf á leiðinni að byggja grunninn að húsinu sínu, en hafi bara ekki tíma til þess og fari því bara beint í að byggja húsið. Svo kemur jarðskjálfti og fólk skilur ekkert í því að húsið hrynji með látum.

Mitt ráð til ykkar er því þetta: Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að stofna fyrirtæki, gerið þá hluthafasamkomulag áður en þið skilið stofnpappírunum til fyrirtækjaskrár.

 

 

Gestabloggari:
Þórunn Jónsdóttir
Co-Founder / COO hjá FAFU

 

 

.


Góð ráð gegn frumkvöðlaþreytu

Það kann að hljóma mjög sexy að vera í eigin rekstri og fólk tengir það oft við frelsi og sveigjanlega vinnutíma. "Það hlýtur nú að vera gott að vera eigin yfirmaður og þurfa þá ekki að eiga samskipti við einhvern leiðinlegan yfirmann sem er alltaf að skipa manni fyrir? Það hlýtur nú að vera gott að geta bara unnið þegar manni hentar? og að geta tekið frí þegar manni dettur það til hugar?"

Nei, því miður er raunveruleikin langt frá þessum hugmyndum okkar um eigin rekstur. Það fylgir því mikil ábyrgð að reka fyrirtæki og jú í sumum tilfellum getur maður verið með aðeins sveigjanlegri vinnutíma en á sama tíma er vinnutíminn yfirleitt töluvert lengri en í hefðbundinni vinnu. Við þetta bætist svo óhemju mikil ábyrgð og stress, þar sem þú sem atvinnurekandinn berð ábyrgð á öllu því sem gerist í fyrirtækinu. Á einhverjum tímapunkti í næstum öllum fyrirtækjarekstri lendir frumkvöðulinn í því sem kallast frumkvöðlaþreyta.

Frumkvöðlaþreyta er það tímabil þegar frumkvöðulinn er bókstaflega búinn með allan eldmóðin sem fór í það að koma fyrirtækinu af stað. Allt í einu er allur hassarinn sem var í upphafi búinn og við tekur samskipti við viðskiptavini, bókhald, reikningagerð, fjármálaáætlanir og allt það sem frumkvöðulinum leiðist. Frumkvöðulinn blómstrar í sköpun, hassar, fjöri, vinnutörnum og hugarflugsfundum, en þegar fyrirtækið er komið á þann stað að starf hans verði hversdagslegt með litlum breytingum þá leggst yfir hann þreyta og eldmóðurinn hverfur.

Þetta er ástand sem flestir frumkvöðlar sem hafa verið í rekstri í nokkur ár kannast vel við og það getur verið mjög erfitt að komast aftur af stað eftir að hafa lent í frumkvöðlaþreytu.

Ég þekki frumkvöðlaþreytuna vel af eigin reynslu og ég ætla hér að reyna deila með ykkur nokkrum góðum ráðum sem hafa virkað fyrir mig í gegnum tíðina. Það væri einnig mjög gaman ef þið mynduð á móti deila með mér ykkar ráðum þegar þið lendið á þessu tímabili.

 

1. Taka frá tíma í eitthvað skemmtilegt.
Takið alltaf frá fyrirfram ákveðin hluta af deginum eða vikunni og nýtið þann tíma í eitthvað sem þið hafið gaman af. Þessi tími gæti verið nýttur í vöruþróun, forritun, hönnun, áætlanagerð eða bara hvaða verkefni sem veitir ykkur ánægju af að vinna í. Passið sérstaklega að loka fyrir allar aðrar truflanir á þessum tíma, slökkvið á símanum, lokið tölvupóstinum og forðist að umgangast truflandi fólki. Þessi klukkutími á dag eða einn dagur í viku gæti gert gæfumuninn og tryggt að þið hafið áfram gaman af því sem þið eruð að gera. Það leiðir einnig til þess að þið verðið orkumeiri restina af vikunni og getið haft meiri orku í að áorka önnur verkefni.

 

2. Losna við útrás.
Það er nauðsynlegt að losna við útrás með einhverjum hætti. Sérstaklega þegar maður er lokaður inn á skrifstofu allan daginn og þarf í sumum tilfellum að takast á við krefjandi og erfiða viðskiptavini. Ég mæli sérstaklega með að fólk fari í ræktina eða stunda einhverjar íþróttir og þá helst ekki sjaldnar en 3 sinnum í viku. Einnig eru til óhefðbundnari leiðir til að losna við útrás eins og við sáum í kvikmyndinni "office space", þar sem þeir fengu útras fyrir reiði sinni á prentaranum. Mikilvægast er að þið finnið þá leið sem hentar ykkur best.

 

3. Vertu í fríi þegar þú ert í fríi.
Frumkvöðlar eru oft ekki alveg nógu duglegir við að taka sér frí og þegar þeir loksins taka sér frí þá taka þeir yfirleitt vinnuna með sér í fríið. Þetta geta verið eilíf símtöl í fríinu, svarandi tölvupóstum á kvöldin eða eitthvað annað vinnutengt. Ef þú ætlar að taka þér frí, taktu þér þá frí og ekki eyða því í að vinna og hugsa um vinnu, slappaðu af og njótu þess að vera í fríi.

 

4. Gerðu vinnuna skemmtilega.
Það er oft hægt að búa til leik úr vinnunni og gera hana þannig mun skemmtilegri. Breytu einföldum verkefnum í keppnir þar sem þú setur þér árangursmarkmið og ef þú nærð þeim innan ákveðina tímamarka færðu einhverskonar verðlaun. Dæmu um slíkt gæti t.d. verið "Ef ég næ að ljúka við að forrita vefsíðuna fyrir næsta sunnudag fæ ég heilan dag í frí" eða "Ef ég næ að selja 10 vörur fyrir næsta föstudag kíkji ég út á Argentínu steikhús". Lykillinn að því að slíkt gangi er að vera agaður, með skýr markmið, skýr verðlaun og passa að standa alltaf við það sem maður lofar. Ég hef einnig gert það að vana mínum að fagna alltaf öllum góðum áföngum innan fyrirtækisins með einhverjum hætti, t.d. ef við fáum mjög góðar fréttir eða stórt verkefni klárast þá fæ ég mér stóran vindill og vískí dreitil til að fagna.

 

.


Atvinnu- og nýsköpunarhelgar

Næstkomandi helgi verður haldin atvinnu- og nýsköpunarhelgi(ANH) á suðurnesjum þetta verður fyrsta skipti á þessu ári sem slíkur viðburður er haldin en hann kemur svo til með að verða haldin víða um land. Aðal markmið ANH er að virkja fólk og styðja við það í að framkvæma. Viðburðurinn er öllum opinn bæði þeim sem eru með viðskiptahugmynd og þeim sem langar til að koma inn í teymi sem nú þegar er með viðskiptahugmynd. Yfir helgina eiga hóparnir að byrja að vinna að frumgerð að ákveðinni vöru eða þjónustu. Á þriðja tug frumkvöðla og aðila með víðtæka reynslu og menntun verða þáttakendum til aðstoðar. Að helginni lokinni geta þátttakendur síðan unnið áfram með vel mótaðar viðskiptahugmyndir og látið þær verða að veruleika.  Verðlaun eru veitt í nokkrum flokkum.

ANH er samstarfsverkefni Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs, sveitarfélaga landsins og Landsbankans.

Varðandi fyrirkomulagið á viðburðinum þá er því lýst svona á vefsíðu ANH (http://www.anh.is):

 1. Þátttakendur halda stutta kynningu á viðskiptahugmynd sem þeir vilja vinna að yfir helgina. Það er í góðu lagi að hugmyndin sé á byrjunarpunkti og kvikni jafnvel á staðnum.
 2. Allir þátttakendur, líka þeir sem kynna viðskiptahugmyndir, eru beðnir um að velja 5-10 hugmyndir sem þeim fannst hljóma best í kynningunni sem var haldin
 3. Kannað er hvaða hugmyndir fengu mestan hljómgrunn og unnið er áfram með þær yfir helgina. Öllum þátttakendum er skipt niður í hópa til að starfa að framgöngu þeirra viðskiptahugmynda sem taldar voru bestar.
 4. Settar eru ítarlegar vörður um hvernig beri að þróa viðskiptahugmyndina yfir helgina og hvaða vörðum hópurinn ætli sér að ná.
 5. Samvinna er lykill helgarinnar.
 6. VINNA ! VINNA ! VINNA!

Ég verð á svæðinu til að leiðbeina en mun jafnframt taka fullan þátt í viðburðinum þar sem ég hef heyrt að það verði oft til ótrúlega öflugir hópar/fyrirtæki á svona viðburðum. Ég mæli með að allir sem hafa einhvern áhuga skrá sig á vefsíðu ANH.


Fafu - skapandi leikföng

 

Fyrirtækið Fafu sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á skapandi leikbúningum fyrir börn. Fafu sem var upphaflega stofnað árið 2009 er rekið af Huldu Hreiðarsdóttur og Þórunni Jónsdóttur. Ég fékk hana Þórunni aðeinst til að setjast niður með mér og segja mér frá Fafu og þeim ferli sem þær þurftu að fara í gegnum til að koma fyrirtækinu á þann stað sem það er í dag.

Fyrir frekari upplýsingar um Fafu getið þið heimsótt vefsíðu þeirra fafutoys.com.

Hérna læt ég svo einnig fylgja með smá kynningar myndband fyrir Fafu leikbúningana.

 

 


Egilsstaðir heimsóttir

Næstkomandi föstudag, 9.september, mun ég heimsækja Egilsstaði þar sem ég mun taka þátt í viðburði sem Þorpið, skapandi samfélag á Austurlandi, er að skipuleggja. Ég eyði þarna stórum hluta af deginum á Egilsstöðum og vildi því reyna nýta tækifærið og kynnast áhugaverðum frumkvöðlum þar í bæ.

Þannig ef þú ert staðsett/ur á Egilsstöðum næsta föstudag og ert til í að hittast yfir kaffibolla og taka gott spjall þá endilega sendu mér tölvupóst á haukur@bungalo.com.

Ég skal svo reyna setja inn frekari upplýsingar hérna um viðburðinn um leið og ég fæ frekari upplýsingar um hann.

 

<< --- UPPFÆRSLA --- >>
Hérna kemur dagskrá viðburðarins:

.


TED fyrirlestrar

Einhver besta uppspretta áhugaverðra fyrirlestra á netinu er TED (www.ted.com). TED er viðburður þar sem margir af mestu hugsuðum okkar tíma koma saman til að deila hugmyndum sínum. Einn af uppáhalds fyrirlestrum mínum á TED er fyrirlestur Ken Robinson um hvernig skólar drepa niður sköpunargáfur nemenda sinna.

Á hverju ári eru haldnir ótal margir sjálfstæðir TED viðburðir sem kallast TEDx og slíkur viðburður var haldin hér á landi 2009 en ég var því miður erlendis á þessum tíma og missti af viðburðinum. Ég var þó að finna nokkrar fyrirlestranna frá þeim viðburði á netinu og vildi deila þeim hérna með ykkur. Hér fyrir neðan eru tveir góðir TEDx fyrirlestrar en restina af Reykjavik TEDx fyrirlestrunum má finna hér http://tedxtalks.ted.com/search/?search=reykjavik

Jónas Antonsson, stofnandi Gogogic tölvuleikjafyrirtækisins. Hann er einn ef uppáhalds fyrirlesurum mínum hér á Íslandi þar sem hann fer oft yfir í mjög skemmtilegar heimspekilegar pælingar um tilvilst okkar.

Torfi G. Yngvason hjá Arctic Adventures, hann hélt einmitt fyrirlestur á viðburðinn sem ég skipulagði fyrr á þessu ári og hét Reynslusögur Íslenskra Frumkvöðla. Hann er með virkilega góða yfirsýn yfir íslenska ferðaiðnaðinn og kemur þeim upplýsingum skemmtilega frá sér.


Tími til að sækja um styrki!

Ef þið stefnið að því að sækja um styrki fyrir viðskiptahugmyndir/fyrirtæki ykkar þá er núna besti tíminn til að byrja. Skilfrestur nokkurra skemmtilegra styrkja rennur út núna í næsta mánuði og því góð ástæða fyrir ykkur til að setjast niður yfir tölvuna og byrja massa út nokkrar styrktarumsóknir. Herna er listi yfir þá styrki sem þið getið sótt um á næstu vikum:

 

15.sept: Tækniþróunarsjóður

Þetta er líklega öflugasti styrkurinn sem er í boði í dag, þar sem hann getur numið allt að 30 milljónum í stærstu verkefnin. En hann skiptist upp í 3 styrktarflokka sem hver er hugsaður til að aðstoða fyrirtæki á mismunandi stað í ferlinum, þessi flokkar eru eftirfarandi:

1. Frumherjastyrkur:
Verkefnin eru einungis styrkt til 2ja ára að hámarki 5 milljónir hvert ár. Krafist er 25% mótframlags umsækjenda.

2. Verkefnisstyrkur:
Almennir verkefnisstyrkir eru til allt að 3ja ára og að hámarki 10 milljónir króna á ári. Krafist er 50% mótframlags umsækjenda.

3. Brúarstyrkur:
Verkefnin eru einungis styrkt til eins árs að hámarki 5 milljónir. Krafist er 50% mótframlags umsækjenda.

Ef þú ert að fara að sækja um styrk hjá Tækniþróunarsjóð í fyrsta skipti þá máttu búast við miklum tíma í það. Það er ætlast til að til staðar sé fullunnin viðskiptaáætlun auk þess þarf að fylla út tímafrek excel-skjöl. Það góða við að sækja um hjá tækniþróunarsjóð er að hann gefur manni gagnrýni til baka svo maður viti hvað maður gerði vitlaust, eini sjóðurinn sem gerir það sem best sem ég veit.

Frekari upplýsingar er að finna hér: http://rannis.is/sjodir/taeknithrounarsjodur/umsokn-og-upplysingar/

 

16.sept: Nýsköpunarstyrkur Landsbankans

Þessi styrkur virðist vera nýtilkominn og því þekki ég ekki vel til hans. Þetta er hugsað til að gefa frumkvöðlum tækifæri til að þróa nýja viðskiptahugmynd, eldri viðskiptahugmynd á nýju markaðssvæði eða nýja vöru eða þjónustu. Í fljótu bragði virðist þetta vera nokkuð opinn styrkur þar sem maður getur nýtt styrkinn í það sem maður þarf mest á að halda.

Frekari upplýsingar má finna hér: http://www.landsbanki.is/fyrirtaekjathjonusta/nyskopun/nyskopunarstyrkir/

Landsbankinn ætlar með þessu að veita 7 styrki að upphæð 1 milljón hver og 20 styrki að upphæð 400þús hver.

 

22.sept: Átak til atvinnusköpunnar (Nýsköpunarmiðstöð)

Eins og segir á vefsíðu nýsköpunarmiðstöðvar um Átak til atvinusköpunar: "Styrkáætlun iðnaðarráðuneytisins fyrir nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með umsóknarferlinu fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins."

Þessi styrkur er gerður til styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta. Styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða í frumkvöðla og sprotafyrirtækjum.

Frekari upplýsingar má nálgast hér: http://www.nmi.is/impra/styrkir-og-studningsverkefni/atak-til-atvinnuskopunar/

Hámarksupphæð er 50% af kostnaði verkefnis sem sótt er um, umsækjandi þarf að fjármagna hinn helminginn sjálfur.

 

Svo rakst ég líka á þennan styrktarlista inn á vefsíðu Landsbankans, góð samantekt: http://www.landsbanki.is/fyrirtaekjathjonusta/nyskopun/fjarmagn-fyrir-reksturinn/styrkir-og-sjodir/

 

 


Ragnheiður Ösp hjá Umemi

 

Ég leit við hjá Ragnheiði Ösp hjá Umemi og ræddi aðeins við hana um fyrirtæki hennar og hvernig það er að starfa sem vöruhönnuður á Íslandi.

Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir er íslenskur vöruhönnuður sem hefur starfað við fyrirtæki sitt Umemi frá árinu 2005. Hún er með mjög sérstakan stíl í hönnun sinni og má hér fyrir neðan sjá nokkrar myndir af vörum sem hún hefur hannað. Frekari upplýsingar um hana má fá á vefsíðu hennar www.umemi.com.

Svo ef ykkur langar í eitt stykki Notknot púða frá Umemi þá veit ég að það er Facebook leikur í gangi hjá þeim: http://www.facebook.com/designbyumemi

 


Viðtöl við frumkvöðla

Ég er í samstarfi við hann Þórarinn Hjálmarsson (http://thorarinnh.segir.is/) að skoða möguleika á að vera með regluleg vidjó viðtöl við íslenska frumkvöðla. Hér að neðan má sjá viðtal sem hann tók við mig um Búngaló.

Við leitum nú að hressum frumkvöðlum sem hefðu áhuga á að deila því sem þeir eru að vinna í með restinni af heiminum í gegnum stutt vidjó viðtöl. Ef þú eða einhver sem þú þekkir er að gera áhugaverða hluti, einhverjar tækninýjungar, stofna fyrirtæki eða eitthvað annað spennó máttu endilega láta okkur vita með því að commenta hér fyrir neðan og við verðum í sambandi við ykkur.

Einnig líka bara ef þið hafið einhverjar óskir um einhverja íslenska frumkvöðla sem þið hefðuð áhuga á að sjá viðtöl við.

Endilega látið í ykkur heyra :)

.