Í hnotskurn: Friðrik Guðjónsson hjá Prentagram

Hvað heitir fyrirtækið?

Prentagram

Hver er aðal varan?

Hágæða prentun á ljósmyndum, handsmíðaðir íslenskir rammar og allt sent beint heim til viðskiptavinarins.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Ég er stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins en í dag koma þrettán aðrir að daglegum rekstri félagsins. Við erum þó aðeins tvö í fullu starfi þar sem við úthýsum því sem hægt er að úthýsa.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Hugmyndin kviknaði út frá þörfinni sem ég fann hjá sjálfum mér til að framkalla myndir. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að taka ljósmyndir og fékk til dæmis viðurnefnið „Frikki ljósmyndari“ þegar ég stundaði nám í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík, því ég var alltaf með myndavélina á lofti. Ég fann að ég hafði aldrei almennileg tækifæri til að sýna myndirnar þótt þær færu að sjálfsögðu á netið. Hver hefur svosem gaman af því að setjast niður með félögunum og skoðar myndir á Dropbox?

Mig hefur alltaf dreymt um að stofna mitt eigið fyrirtæki og ég var ætíð opinn fyrir „hugmyndinni“ en hún lét ekki sjá sig. Það var svo eitt kvöldið að ljósaperan kviknaði... ég hafði þá sjö árum áður hengt ljósmyndaramma um alla íbúðina mína – en engar voru myndirnar til að setja í þá. Á þessum sjö árum gaf ég mér alveg nokkrum sinnum tíma í að setja myndir á minniskubba/geisladiska og skrifa stærðirnar á römmunum niður á blað bara til að týna þessu öllu aftur. Það að fara með miðann og kubbinn í Hans Petersen, koma svo aftur daginn eftir til að sækja myndirnar og fara með þær heim til að setja í rammana hefði bara ekki komist í framkvæmd.

Það var kominn tími á nútímalega lausn!

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Það var í raun ekki fyrr en ég var orðinn óþolandi leiður á vinnunni minni að ég ákvað að segja upp og láta vaða. Það vildi svo til að hugmyndin kom á svipuðum tíma. Fyrst eftir að ég tók stökkið var ég samt alltaf að leita að „alvöru vinnu“ (eins og foreldrar mínir kölluðu það) en komst mjög fljótt að því að annaðhvort væri ég með hugann við þetta verkefni eða ekki.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Frá mér sjálfum. Ég kláraði spariféð, seldi bílinn og lifði á kærustunni en er nú farinn að geta greitt mér smá laun. Fyrir vikið er fyrirtækið algjörlega skuldlaust og finnst mér það gríðarlega mikilvægt fyrir áframhaldandi vöxt.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Erfiðast fannst mér að trúa nægilega á sjálfan mig og því að hugmyndin væri góð. Óttinn við að klúðra þessu og setja allt í gjaldþrot var (og er enn) mikill – það hjálpaði mér þó þegar ég fór að líta á þetta sem „námsleyfi“ og að versta mögulega útkoman væri „lærdómsríkari ég“, vitandi hvað skal forðast næst. Það hefur líka hjálpað að þurfa ekki utanaðkomandi fjármögnun því þá myndi gjaldþrot skaða aðra en mig... svona ef út í það færi.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Það sem skiptir mig mestu máli er að þjónustan og vörurnar okkar séu alltaf fyrsta flokks. Ég hef oft fengið boð og „leiðbeiningar“ um að vera með vörur sem eru ódýrari í framleiðslu sem við gætum mögulega selt á sama verði. Það hefur mér aldrei þótt spennandi og trúi ég því að viðskiptavinir okkar vilji frekar gæðin og komi því aftur. Við högnumst vissulega ekkert sérstaklega mikið á hverri sölu en safnast þegar saman kemur. Nú rétt rúmlega ári eftir að Prentagram varð til höfum við fengið nærri 5.000 pantanir og eigum afskaplega dyggan og góðan viðskiptavinahóp.

Það væri draumur að eftir fimm ár væri þorri þjóðarinnar farinn að frelsa myndirnar sínar og taka bestu 10-20 myndirnar á hverjum mánuði, smella þeim inn á heimasíðuna okkar (eða appið þegar það kemur á næstu mánuðum) og við kæmum þeim svo silkifögrum heim til viðkomandi næsta virka dag. En ég tek fyrst og fremst einn dag í einu og fókusera á að fullnægja þörfum hvers viðskiptavinar.

Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært af því að gera viðskiptahugmynd þína að veruleika?

Hvað þetta er í rauninni einfalt – ef maður er heiðarlegur og með vöru/þjónustu sem fólk vill þá er þetta ekkert sérstaklega flókið. Það þýðir ekki að það sé hægt að gera þetta með hangandi hendi – þetta er svo sannarlega flóknasta og erfiðasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur en vá hvað þetta er þess virði. Gleðin sem við fáum frá viðsktipavinum okkar er ómetanleg og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að viðhalda henni.

Hvaða ráð myndir þú gefa ungum frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref?

Það er að mínu mati mikilvægast að halda fókus og taka einn dag í einu... og ef sá dagur er slæmur þá kemur nýr dagur strax á eftir. Skipulag og skýr framtíðarsýn er að sjálfsögðu mikilvæg en það að skipuleggja hvert skref er ógerningur og algjör tímaeyðsla. Við félagarnir gengum eitt sumarið frá Reykjanestá þvert yfir Ísland á Langanes. 21 dagar og 650 km og við hefðu eiginlega ekkert verið á fjöllum áður. Við hefðum auðveldlega geta eytt mörgum mánuðum í að undirbúa okkur og skipuleggja hverja klukkustund en þess í stað settum við endamarkið (og nokkra fjallaskála) inn í GPS tækið og héldum af stað. Vissulega endaði þetta með því að á 19 degi þurfti að fljúga með mig  í bæinn með sýkingu sem hefði hæglega geta kostað mig fót en félagar mínir komust á leiðarenda og ferðalagið var eitt það besta sem ég hef farið í.

Talið er að það taki 2-3 ár að byggja upp traust á nýju fyrirtæki, nýrri hugmynd eða vöru. Hvernig er hægt að byggja upp slíkt traust ef stöðugt er verið að skipta um logo eða vöru? Skýr fókus á endamarkið er að mínu mati besti undirbúningurinn fyrir þá geggjuðu ferð sem það er að stofna sitt eigið fyrirtæki.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Ég hef afskaplega gaman af frumkvöðlastarfinu og tel mig geta gert þar gagn. Ég hef því mikinn áhuga á að kenna og leiðbeina öðrum en gulrótin mín er engu að síður fjárhagslegt sjálfstæði, ferðalög og afslöppun.

Ég er mjög latur að eðlisfari (þótt ég nái stundum að fela það) og vil lifa lífinu lifandi. Ég var til að mynda verðbréfamiðlari fyrir og í hruninu, ók um á fínum bíl, átti fullt af DVD myndum og borðaði aðeins of mikið, en þegar ég loks losnaði úr þessari vitleysu keypti ég flugmiða aðra leiðina til Hawaii. Þar kláraði ég viðbótarlífeyrissparnaðinn minn og fékk vinnu við að kenna á brimbretti þrátt fyrir að hafa aðeins séð brimbretti í sjónvarpinu áður. Hugsunin um að verða aftur áhyggjulaus, skuldlaus og umlukinn vinum, veiða fiska með spjóti og grilla þá á varðeldinum á ströndinni er það sem heldur mér gangandi... það væri ekkert verra að halla sér svo í snekkjunni og geta skotist heim til Íslands á einkaþotunni.


South Park gerir grín að frumkvöðlum

Sama hvert maður snýr sér, alls staðar virðast fréttir fjalla um frumkvöðla-hitt og frumkvöðla-þetta.

Hver smellurinn á fætur öðrum slær i gegn á Kickstarter og virðist nánast vikuleg uppákoma að sniðugt lítið app sigri heiminn og geri höfundana að skrilljarðamæringum.

Var löngu kominn tími til að South Park gerði grín að þessu öllu saman.

 

Á miðvikudag fengu bandarískir sjónvarpsáhorfendur að sjá Go Fund Yourself, fyrsta þáttinn í 18. þáttaröð þessara vinsælu teknimynda.

Þar hafa strákarnir tekið sig til og sett sprotafyrirtæki á laggirnar, og byrja fljótlega að raka peningunum inn á Kickstarter.

 

Er vissara að segja ekki of mikið um hvað gerist næst, en óhætt að mæla með þessum þætti fyrir frumkvöðla sem langar að hlæja örlítið að sjálfum sér.

Smella má hér til að horfa á þáttinn, á síðu sem ætti að virka á íslenskum tölvum.


Í hnotskurn: Jón Bragi Gíslason hjá Ghost Lamp

Hvað heitir fyrirtækið?

Ghost Lamp ehf.

Hver er aðal varan?

Við bjóðum í raun uppá nýstárlegan vettvang sem tengir saman fyrirtæki og birtingaraðila s.s. bloggara, í gagnsæju og traustu umhverfi. Fyrirtæki geta óskað eftir fyrirfram skilgreindri umfjöllun á ákveðinni vöru, þjónustu eða ímynd fyrirtækisins. Þessi þjónusta nýtist fyrirtækjum við prófanir á viðbrögðum markhópa við nýjum vörum, þjónustum og t.d. vörumerkjahönnun, eða til þess að styðja við aðrar markaðsaðgerðir. Fyrirtæki fá því betri stjórn yfir útbreiðslu markaðsefnis og geta þau fylgst með útbreiðslu þess ásamt því að skilja betur viðbrögð markhópa í gegnum mælaborð okkar.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Teymið samanstendur af Jóhanni Geir Rafnssyni tæknistjóra, Guðmundi Páli Líndal lögfræðingi, Snorra H. Guðmundssyni markaðsstjóra og sjálfum mér framkvæmdastjóra en við leggjum okkur mjög mikið fram í að miðla þeirri reynslu og þekkingu sem við höfum á okkar sviði til hvors annars og því leiðum við reksturinn í mikilli sameiningu.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Ég tók þátt í Gullegginu sem er viðskiptaáætlunarkeppni fyrir fólk með hugmyndir og fyrirtæki á frumstigi, þar fór ég inn með eina hugmynd en endaði svo á því að framkvæma þá þriðju (Ghost Lamp), allt á meðan keppninni stóð, en hugmyndin kviknaði eftir að ég hafnaði fyrstu tveimur. Það getur verið mjög skapandi tími þegar maður gefur eina hugmynd upp á bátinn því þá þarf maður oftast að finna aðra enn betri.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Ég er ungur og hef engu að tapa, ég átti tvo mánuði eftir í stúdentinn og ef ég horfði fram í tímann sá ég fram á fimm ára háskólanám og himinháar skuldir fyrir menntun sem hefði kannski gefið mér einhverja illa borgaða vinnu sem ég fengi leið á. Svo gerðist það er ég fékk hugmyndina að Ghost Lamp að ég fékk óbilandi trú á henni og hef enn.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Fjármögnunin kemur alfarið úr okkar eigin vasa en við erum mjög duglegir að bjarga okkur sjálfir.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Það eru margar erfiðar hindranir og eru þær allar mismunandi eftir því úr hvaða umhverfi maður kemur. Mjög erfitt er að sannfæra vini, maka og ættingja að þú sért að gera það rétta en það erfiðasta myndi ég segja vera það að komast yfir hræðsluna að gera mistök. Ég get sagt fyrir mína hönd að ég hef gert mistök og mun halda því áfram þar til ég læri að laga þau, en það er allt partur af lærdómnum.

 Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Eftir fimm ár vill ég að Ghost Lamp verði orðinn leiðandi vettvangur fyrirtækja og birtingaraðila á heimsmælikvarða í dreifingu efnis sem á við og hefur virði fyrir markhópa fyritækja.

Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært af því að gera viðskiptahugmynd þína að veruleika?

Að hugmynd er bara fræ sem á eftir að vaxa, þroskast og breytast því meira sem þú vinnur að henni. Hún markar upphaf mjög lærdómsríks ferlis sem krefst mikils vilja styrks, mikillar þrjósku og þrautseigju.

Hvaða ráð myndir þú gefa ungum frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref?

Leitaðu inná við, finndu eitthvað sem þú hefur gríðarlega mikla ástríðu fyrir og þegar þú hefur fundið það deildu því þá með eins mörgum og þú getur! Fáðu svo fólk með þér í framkvæmdina sá sem getur það hefur meðbyr.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig að gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Það sem hefur alltaf verið okkur fremst í huga er að skapa eitthvað sem fólk vill nota og gerir líf þeirra auðveldara. Ég er hlynntur þeirri hugsun að góðir leiðtogar borði síðast og því myndi ég segja að þegar fyrstu bílfarmar af peningum fara að koma inn þá færu þeir fyrst og fremst í teymið og uppbyggingu fyrirtækisins.


Frumkvöðlar eru ekki áhættufíklar

Stundum er sú mynd gefin af frumkvöðlum að þeir séu óttalausir fjárhættuspilarar sem þori að leggja allt undir, í þeirri veiku von að viðskiptahugmyndin gangi upp og peningarnir flæði inn.

Þeir láta varnaðarorð sem vind um eyru þjóta, og hefja eigin rekstur sama þó öll tölfræði segi að öruggast sé að halda sig á hinum almenna vinnumarkaði.

Ný rannsókn frá U.C. Berkeley bendir til þess að þessi staðalímynd eigi ekki við rök að styðjast. Frumkvöðlar eru ekki áhættufíklar heldur taka yfirvegaðar og meðvitaðar ákvarðanir, með hæfilega vissu um að eiga erindi sem erfiði.

Þeir eru ekki að veðja á svartan í rúllettu, og upp á von og óvon.

Forbes fjallar um þessa rannsókn og bendir á að menn á borð við Bill Gates og Mark Zuckerberg voru ekki að taka stórfenglega áhættu í frumkvöðlastarfi sínu. Þeir veðjuðu ekki á Facebook eða Microsoft í algjörri blindni, enda báðir vel gefnir menn með mikla burði til að skara fram úr. Bara það að báðir höfðu fengið inngöngu í Harvard var ákveðinn gæðastimpill á hugmyndir þeirra og burði til að gera góða hluti, og ef allt hefði farið á versta veg hefðu þeirra samt beðið fín störf í tæknigeiranum.

Eitt af því sem stendur einmitt upp úr í umfjöllun Forbes er þar sem haft er eftir höfundi rannsóknarinnar að því betur sem menn standa að vígí á vinnumarkaði, því líklegri eru þeir til að geta náð árangri sem frumkvöðlar. Hann varar frumkvöðla við, að ef frammistaða þeirra í námi eða starfi hefur verið í meðallagi þá séu litlar líkur á að frammistaðan verði mikið betri í hlutverki frumkvöðulsins.

 

 


Myndakredit: "Mark Zuckerberg - South by Southwest 2008" by Jason McELweenie - originally posted to Flickr as Mark Zuckerberg Facebook SXSWi 2008 Keynote. Licensed under Creative Commons Attribution 2.0 via Wikimedia Commons - http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Mark_Zuckerberg_-_South_by_Southwest_2008.jpg#mediaviewer/File:Mark_Zuckerberg_-_South_by_Southwest_2008.jpg


Í hnotskurn: Birgir Már Sigurðsson hjá Þoran

Hvað heitir fyrirtækið?

Þoran Distillery ehf.

Hver er aðal varan?

Við framleiðum íslenskt einmalts-viskí ásamt því að þróa bragðbætt 'white dog' viskí, betur þekkt sem 'moonshine'.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Undirritaður er stofnandi og eigandi fyrirtækisins, en með mér í för eru þau Bergþóra, sem er framkvæmdastjóri, og Jóhannes, sem er framleiðslustjóri.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Hugmyndin kviknaði í einni af mörgum 'pílagrímsferðum' mínum til Skotlands, þar sem ég var tíður gestur hjá hinum ýmsu viskíframleiðslum. Aðstæðurnar í Skotlandi og á Íslandi eru keimlíkar þegar litið er til náttúrunnar, veðurfars, gróðurs o.sfrv. Þar rann það upp fyrir mér að Ísland hefði í raun allt sem þyrfti til þess að framleiða fyrsta flokks viskí; byggrækt sem hefur verið að færast í aukana og nóg af fersku og hreinu vatni.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Fyrir forvitni sakir þá byrjaði ég að skrifa viðskiptaáætlun sem vatt svo upp á sig. Ekki leið á löngu þar til ég var farinn að hugsa um fátt annað en viskíframleiðslu. Auk þess langaði mig til að gera eitthvað annað en ég hafði verið að gera, sem var þetta hefðbundna 9-17 skrifstofustarf fyrir framan tölvu. Ég leit á þetta þannig að ég gæti annað hvort látið slag standa og séð hvert hugmyndin myndi leiða, eða gefast upp á þessu og halda mig innan þægindarammans. Ég valdi fyrri kostinn. Ef þetta fer allt til fjandans þá bara förum við yfir þá brú þegar við komum að henni. En þangað til ætla ég að halda áfram með þetta verkefni, einfaldlega vegna þess að það gerir mig hamingjusaman, og það sem gerir mann hamingjusaman er aldrei tímasóun.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Vorið 2013 var verkefnið okkar eitt af tíu sem komst inn í Startup Reykjavík. Þar keypti Arion Banki sig inn í fyrirtækið. Einnig höfum við unnið peningaverðlaun frá Landsbankanum og Matís ásamt því að fá styrk frá Tækniþróunarsjóði.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Við höfum sem betur fer ekki látið margt hindra framgang mála hjá fyrirtækinu, þó höfum við lent í erfiðleikum hér og þar og má þar helst nefna t.d. íslenskt lagaumhverfi sem snýr að áfengisframleiðslu. Álagningin er líka heilmikil, eða rétt rúmlega 3/4 af heildarkostnaði hverrar flösku. Auk þess höfum við ekki mikla reynslu af viskígerð hér á Íslandi þannig að það hefur reynst ákaflega krefjandi að læra nýja hluti. En blessunarlega njótum við stuðnings frá sérfræðingum í Skotlandi og í Kanada sem hafa verið að fylgjast með hverju skrefi hjá okkur.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Auðvitað vonumst við eftir að vera búin að auka framleiðslugetuna og vera komin inn á fleiri markaði. En þegar öllu er á botninn hvolft þá viljum við bara reka heilbrigt fyrirtæki sem býr til gott viskí. Stundum verður það gert með tapi og stundum með hagnaði, en alltaf skal það vera gott viskí.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Að græða bílfarma af peningum hefur aldrei verið sérstaklega framarlega í okkar forgangsröðun, en auðvitað viljum við að fyrirtækinu gangi vel, efli atvinnulífið, skilar hagnaði og gerir þau sem að verkefninu koma hamingjusöm. En ef okkur gengur það vel að við förum að sjá bílfarma af peningum rúlla inn í hlað, þá hlýtur það að þýða að okkur gangi bara nokkuð vel. Ætli ég fái mér ekki bara smá viskísopa til að fagna því.


Hefurðu það sem til þarf?

Allir frumkvöðlar kannast við þessa ógnvekjandi tölfræði: fjögur af hverjum fimm sprotafyrirtækjum leggja upp laupana á innan við einu og hálfu ári frá stofnun.

Frumkvöðullinn hristir þetta af sér, strýkur svitann af enninu og hugsar sem svo að þessi 80% hljóti að vera rekin af óttalegum ösnum sem skortir allt viðskiptavit, skrifuðu viðskiptaáætlunina niður á munnþurrku, eða voru hreinlega með afleita viðskiptahugmynd.

„Mín hugmynd er svo góð, að þetta hlýtur að ganga upp“, hugsar frumkvöðullinn og innst í meðvitundinni segir líka litil rödd: „og ég er svo klár að ég get tekist á við hvað sem er“.

 

Í nýlegri grein á Entrepreneur.com bendir frumkvöðullinn og fjárfestirinn Adam Callinan á að málið er ekki svona einfalt. Persónuleiki, strykleikar og veikleikar frumkvöðulsins geta haft allt að segja um það hvernig sprotafyrirtækinu vegnar.

 

Í fyrsta lagi þarf frumkvöðull að geta þrifist vel á óreiðu. Frumkvöðullinn er stöðugt að mæta óvæntum hindrunum, þarf í sífellu að leysa málin, búa til nýja ferla, og ryðja brautina. Sumir eiga erfitt með að fúnkera nema þeir séu að fylgja ferlum og forskriftum sem aðrir sköpuðu –eitthvað sem er mikill veikleiki fyrir frumkvöðul.

Í annan stað þarf frumkvöðull fjárhagslegt bakland. Það getur tekið nokkur ár fyrir sprotafyrirtæki að skila stofnanda sínum tekjum. Ef allir bankareikningar eru tæmdir og ísskápurinn tómur er freistandi fyrir frumkvöðulinn að gefast upp og fara aftur inn á vinnumarkaðinn. Örygigspúði í formi sparnaðar, maki með stöðugar tekjur, eða mjög ódýr lífsstíll eru allt leiðir til að halda fjárhagslegu hliðinni í horfinu.

Í þriðja lagi varar Callinan við að frumkvöðlar elti tískusveiflurnar. Alltaf er gullgrafaraæði í gangi einhvers staðar. Frumkvöðullinn ætti að halda sig við það svið þar sem styrkleikar hans liggja.

Fjórða atriðið snýst um þrautseigju. Hefurðu aldrei unnið á sama vinnustaðnum í meira en tvö ár? Hopparðu frá borði þegar eitthvað fer að ergja þig og þreyta? Þetta gæti verið til marks um skort á þrautseigju, eitthvað sem frumkvöðullinn má ekki vera án. Að koma sprotafyrirtæki á legg snýst oftast um þrotlausa vinnu, óvissu og nagandi stress. Langt þrautahlaup er framundan áður en von er á að komast í mark.


Í hnotskurn: Friðbjörn Orri Ketilsson hjá Vefmiðlun

Í hnotskurn er nýr dálkur á Frumkvöðlar.is. Þar er markmiðið að draga saman á knappan hátt áhugaverð verkefni sem Frumkvöðlar eru að vinna að.

Friðbjörn Orri Ketilsson hjá Vefmiðlun ríður á vaðið.

 

Hvað heitir fyrirtækið?

Vefmiðlun ehf.

Hver er aðal varan?

Manor Legal sem er lögfræðileg málaskrá og Manor Collect sem er innheimtukerfi fyrir lögmenn.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Við erum lítill samhentur hópur sem stendur að Manor. Við skiptum rekstrinum í tvo þætti, annars vegar forritun og kerfisumsjón þar sem Arthúr Ólafsson stendur við stjórnvölinn, og hins vegar viðmótshönnun og þjónustu sem er á ábyrgð undirritaðs.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Margir af okkar bestu vinum eru lögmenn. Við sáum hjá þeim mikil tækifæri til þess að einfalda störfin, minnka handavinnu og auka verðmætasköpun í rekstrinum. Þeir vildu einbeita sér að lögfræðinni og hafa við höndina kerfi sem héldi utan um allt annað í rekstrinum. Við sáum í þessu gott tækifæri og úr varð Manor.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Þegar við höfðum grófmótað hugmyndina fórum við á nokkrar lögmannsstofur og bárum hana undir eigendur þeirra. Manor varð strax eftirsótt vara þó enginn kóði hefði enn verið skrifaður. Ég man sérstaklega eftir fyrsta fundi okkar með virtri stofu, þar sem rætt var um hvort Manor hentaði þeim, að þá teiknuðum við á A4 blað hvernig útfærslan gæti litið út og kæmi til með að virka. Eftir nokkur pennastrik með lögmönnunum var komin sniðug nálgun og þeir spurðu strax: Og hvenær getum við byrjað að nota þetta? Það var þá sem við ákváðum að stökkva á hugmyndina.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Félagið hefur ekki leitað til fjárfesta og hafa stofnendur félagsins (Friðbjörn og Arthúr) lagt félaginu til hlutafé. Engar skuldir hvíla á félaginu. Þetta er að sumra mati gamaldags nálgun en við erum þeirrar skoðunar að þannig sé félagið frjálst og geti brugðist samstundis við breytingum í umhverfi sínu. Við getum tekið stefnumótandi ákvarðanir að morgni dags og hafist handa við framkvæmd þeirra um hádegi. Það er verðmæt staða fyrir hugbúnaðarfyrirtæki.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Við sem stóðum að Manor í fyrstu höfðum bakgrunn úr hagfræði og verkfræði. Við þekktum ekki lögfræðina og urðum því að setja mikinn kraft í að koma okkur inn í viðfangsefnið. Við náðum okkur í kennslubækur og glærupakka frá lagadeildunum og lásum okkur til þegar upp komu sjónarmið um meðferð mála, ferla fyrir dómstólum o.þ.h. Þá lærðum við tungutakið jafnóðum og við tókum inn viðskiptavini. Þetta var mikil áskorun.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Ef allt fer að óskum höldum við stöðu okkar sem leiðandi hugbúnaðalausn fyrir lögmenn. Þeir lögmenn sem eru í viðskiptum við okkur í dag segja erfitt að sjá reksturinn fyrir sér án Manor. Við vonum að eftir fimm ár sé það almennt sjónarmið meðal lögmanna.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Við erum rétt að byrja á Manor vegferðinni. Leiðarkortið felur í sér þróun næstu árin og vinnum við það leiðarkort mjög náið með okkar viðskiptavinum. Ef allt í einu kæmu inn mikil viðskipti þá myndi það aðeins flýta fyrir þeirri vegferð. Við erum þeirrar skoðunar að arðbær rekstur sé það besta fyrir alla sem honum tengjast – viðskiptavinir fá hágæða vöru og þjónustu, starfsfólk fær starfsöryggi og góð kjör og eigendur ávaxta fjárfestingu sína.


Blessaðir kúnnarnir...

Sagt er að atvinnurekandinn eigi versta yfirmann sem hugsast getur: Hann er nefnilega háður duttlungum viðskiptavinarins.

Sumir viðskiptavinir og verkkaupar eru verri en aðrir, og þeir verstu geta látið þrúgandi og kröfuharðan yfirmann virðast eins og hið ljúfasta og mildasta lamb í samanburði.

 

Yfirleitt er lítið sem hægt er að gera, nema bíta á jaxlinn og vona að frekjan og heimskan gangi yfir. Vitur frumkvöðull veit að það borgar sig yfirleitt ekki að segja fíflum og bjánum til syndanna, því fátt er skæðara en vitleysingur sem telur að sér vegið.

 

En að bíta á jaxlinn þýðir ekki að ómöuglegt sé að fá útrás. Ein vefsíða sem nota má sem sáluhjálp eftir samskipti við erfiðan kúnna er Clientsfromhell.net.

 

Er þar safnað saman nafnlausum frásögnum af viðskiptavinum sem ættu margir best heima í teiknimyndasögunum um Dilbert.

 

Hér eru nokkrir nýlegir gullmolar, og alveg öruggt að lesendur Frumkvöðla.is geta samsvarað sig sumum reynslusögunum.

 

 

ME: Does everything look good for you?

CLIENT: Everything is great, but who is this girl in front of the background?

ME: Um, that’s the character you wanted me to design.

CLIENT: What? I didn’t ask for that. I said to give the chair more character!

I forward the client the original email, wherein she requests a female character to be designed.

CLIENT: Don’t you try ‘photoshopping’ my words!

 

We got a request from a regular client (a large marketing firm) for some major work that needed to be done in two days. The work required staff overtime, multiple disrupted schedules, and a lot of favors from some freelancers we work with, but the client was willing to pay a premium for us to meet their schedule.

We received numerous phone calls from the client during this time, each one a request for updates and reassurances because “if the project is delayed by even a day it will cause all sorts of problems.”

We uploaded the final project to our secure downloads site. All the projects here are available for three months. Afterwards, they are moved to an offline archive

The client thanked us for working so hard to meet their deadline, and they confirmed receipt of the download details.

Six months later, my supervisor got a frantic call from the client asking where the download is. My supervisor explained that it was online for three months, but it has been archived. She reassured the client that we can restore it from our archives.

While this is happening, a get a phone call from someone in another division at the client’s workplace, asking the same question, demanding that the link work within five minutes, and wanting to know if we treat all of our clients this poorly.  

After we reposted the files, I decided to check the download logs for the original posting. The client never visited the original download link.

Needless to say, any further rush jobs from this client were taken with a grain of salt. 

 

We got a request from a regular client (a large marketing firm) for some major work that needed to be done in two days. The work required staff overtime, multiple disrupted schedules, and a lot of favors from some freelancers we work with, but the client was willing to pay a premium for us to meet their schedule.

We received numerous phone calls from the client during this time, each one a request for updates and reassurances because “if the project is delayed by even a day it will cause all sorts of problems.”

We uploaded the final project to our secure downloads site. All the projects here are available for three months. Afterwards, they are moved to an offline archive

The client thanked us for working so hard to meet their deadline, and they confirmed receipt of the download details.

Six months later, my supervisor got a frantic call from the client asking where the download is. My supervisor explained that it was online for three months, but it has been archived. She reassured the client that we can restore it from our archives.

While this is happening, a get a phone call from someone in another division at the client’s workplace, asking the same question, demanding that the link work within five minutes, and wanting to know if we treat all of our clients this poorly.  

After we reposted the files, I decided to check the download logs for the original posting. The client never visited the original download link.

Needless to say, any further rush jobs from this client were taken with a grain of salt. 

 


1,5 milljarðar fyrir kælibox

Frumkvöðlarnir á bak við Coolest kæliboxið hafa nú slegið met sem árangursríkasta söfnunin á Kickstarter. Á vef Time er greint frá því að á 52 dögum hafi Coolest-verkefnið fengið 13.285.226 dali í framlög frá 60.000 einstaklingum, jafnvirði um 1,5 milljarða króna.

Fyrra Kickstarter metið átti snjallúrið Pebble sem árið 2012 safnaði yfir 10 milljónum dala.

Hönnuður Coolest, Ryan Grepper, er enn að vinna að því að fulklára hönnunina og finna rétta framleðandann en þeir sem greiddu í söfnunina geta reiknað með að fá sinn eigin kæli í hendurnar í febrúar á næsta ári.

 

Sennilega þekkja flestir lesenda Coolest-kæliboxið nú þegar, enda vinsælt umræðuefni á samfélagsvefum. Coolest tekur kælibox-hugmyndina á næsta stig, með úthugsaðri vöruhönnun. Er meðal annars innbyggður blandari, hleðsutæki og blátannar-hátalari, díóðulýsing í drykkjarhólfinu og frágangur þannig að boxið er auðvelt í notkun og flutningum, með mikið notagildi.

 

Frumkvöðlar geta lært ýmsar lexíur af Coolest:

- Ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana: Aðstandendur Coolest höfðu áður reynt að koma sér á framfæri á Kickstarter árið 2013, en tókst ekki að ná 125.000 dala markmiði sínu. Þegar þeir reyndu aftur árið 2014 voru tvær milljónir dala komnar í sjóðinn á innan við sólarhring.

- Það þarf ekki alltaf að finna up hjólið: Coolest er ekki glæný uppfinning, en betrumbætir stórlega hið hefðbundna kælibox og tvinnar saman ólíka tækni í eitt tæki sem enginn virðist geta verið án.

- Mikill er máttur internetsins; Vandað, auðskiljanlegt og skemmtilegt kynningarmyndband Coolest dreifðist um netheima eins og eldur um sinu. Ef þú ert með skemmtilega vöru, og kynnir hana á grípandi hátt, þá geta netverjar orðið þínir sterkustu sölumenn.


Fjölmiðlamál á fimmt... föstudegi: Að búa til fréttir

Áður hefur verið skrifað um Richard Branson hér á Frumkvöðlar.is og hvernig hann er einstaklega lunkinn við að skapa fyrirtækjum sínum sýnileika í Fjölmiðlum.

Uppátækin hafa verið af ýmsum toga, og hafa spannað allt frá því að reyna að ferðast umhverfis hnöttinn í loftbelg yfir í að fara í flugfreyjubúning (í varalit og háum hælum) vegna „veðmáls“ við stjórnanda Air Asia.

Þegar Sir Richard tekur sig til stökkva fjölmiðlar á fréttina og Virgin fær jákvæða og áberandi umfjöllun hringinn í kringum hnöttinn, og kostar sama sem ekki neitt. Sýnileikinn er hæglega milljóna dala virði í hvert sinn.

Bæði frumkvöðlar og rekstramenn almennt ættu að sjá hvort þeir geti ekki tileinkað sér sumar aðferðir Virgin-kóngsins. Ef menn kunna þá list að „búa til fréttir“ er hægt að fá heilmikinn sýnileika og ávinningurinn á við rándýra auglýsingaherferð.

 

Fyrst er gott að huga að því hvort hægt er að gera óáhugaverðar fréttir áhugaverðari. Stendur til að undirrita enn einn samninginn, og senda út mynd á fjölmiðla þar sem helstu stjórnendur sitja skælbrosandi í jakkafötum við borð inni í fundarherbergi? Af hverju ekki að grínast aðeins og hringja í Gunnar Nelson?

Ertu poppkóngur sem veður í milljörðum og vantar ódýra kynningu á nýju plötunni þinni? Af hverju ekki að búa til risavaxna styttu af þér og finna henni stað í miðri Thames?

Ertu úrsmiður á Laugaveginum og langar að kynna nýtt íþróttaúr sem þolir hvað sem er? Hví ekki að fá lánaðan geimfarabúning og byggja upp forvitnina í nokkra daga með því að rölta um bæinn í dularfullum búningnum?

 

 

Ljósmyndakredit: Arctic Iceland.


Verður ástríðan frumkvöðlinum að falli?

Ég man þegar ég fékk mína fyrstu "alvarlegu" viðskiptahugmynd.

Ég hélt ég hefði aldeilis rambað niður á snilldarlausn og í Excel hafði ég löngu reiknað út að fúlgur fjár væru handan við hornið. Ég var meira að segja búinn að gera upp við mig hvernig sportbíl ég ætlaði að kaupa, þegar reksturinn væri orðinn að veruleika og peningarnir byrjaðir að rúlla inn.

Án þess að fara út í smáatriðin þá voru margir persónulegir þættir sem fengu mig til að langa mjög að hefja rekstur. Þegar ég lít til baka sé ég að óskhyggjan byrgði mér sýn, svo ég sá allt í jákvæðasta mögulega ljósi, og kom ekki auga á gallana. Ég var kominn með viljugan samstarfsmann, en svo gerðist það að kastaðist í kekki milli okkar og þá loksins að hugarfarið hjá mér fór að breytast og ég fór að geta séð gallana.

Fljótlega rann upp fyrir mér að mér hafði með öllu yfirsést alvarlegur galli í viðskiptahugmyndinni, og ég sá að ef ég hefði farið af stað hefði útkoman orðið allt annað en góð.

 

Eflaust eru margir lesendur sem kannast við sögur af þessu tagi. Sumir hafa ekki sloppið eins vel og ég, og verið komnir með peninga í spilið þegar þeir  loksins kveiktu á perunni.

 

Pistlahöfundur Wall Street Journal fjallar einmitt um þetta í pistli sem birtist í dag, og bendir á að ástríðan sem drífur frukvöðla áfram geti líka verið það sem verður þeim að falli. Sami eldmóðurinn og stórhuga draumarnir sem fá frumkvöðulinn til að segja starfi sínu lausu og leggja ævisparnaðinn að veði getur líka gefið honum rörsýn á hlutina.

Höfundurinn bendir t.d. á að bjartsýnin fær stundum á sig þá mynd að frumkvöðullinn kýs að hundsa með öllu gagnrýni og varnaðarorð. Hann hefur kannski ekki séð í raunhæfu ljósi markaðinn fyrir vöruna, eða festist í þeirri hugsunarvillu að fyrst þegar sé búið að leggja tíma og peninga í verkið sé vissara að ganga enn lengra og sjá hvort hlutirnir lagast.

Frumkvöðlum hætti líka til að vanmeta gloppurnar í eigin þekkingu, og hvaða viðbótar-kunnáttu þeir þurfa að fá inn í reksturinn með einhverjum hætti. Einnig eiga þeir til að vanmeta þau truflandi áhrif sem reksturinn á eftir að hafa á fjölskyldulíf þeirra.

Samskiptin við meðstofnendur eru líka klassískt vandamál. Á fyrstu metrunum, þegar samið er um verkaskiptingu og eignarhald, eru allir uppfullir af eldmóði og bjartsýni. Svo fara hlutirnir að breytast, byrðarnar á sumum verða léttari, og þyngri á öðrum; sumir missa áhugan á meðan aðrir verða frá að hverfa, og nýir bætast við. Togstreita og ergelsi byrjar að safnast upp, og þarf ekki nema lítinn neista til að kveikja í púðurtunnunni og gera út um fyrirtækið. Þarna getur skýr, nákvæmur og ekki síst sveigjanlegur hluthafasamningur gert mikið gagn.

 

Greinin tæpir á fjöldamörgu öðru sem frumkvöðlar þurfa að vara sig á og hægt að mæla með lesningunni.

 

Myndakredit: Kötturinn Maru á góðri stundu, með rörsýn af betri sortinni


Sýnileiki og fjölmiðlar: pressu-kittið

Sprotafyrirtæki ættu að reyna að útbúa góðan upplýsingapakka fyrir fjölmiðla, pressu-kitt.

Þar er safnað á einn stað upplýsingum og myndefni sem fjölmiðlamenn geta síðan stuðst við þegar kemur að því að segja frá fyrirtæknu og vörum þess.

 

Pressu-kittið getur t.d. verið í formi sérstaks svæðis á vefsíðu fyrirtækisins þar sem hægt er að nálgast eftirfarandi gögn:

- Farsímanúmer og tölvupóstur þess sem annast fjölmiðla/almannatengslin.

- Stutt og hnitmiðuð samantekt um starfsemina og/eða vöruna. Þessi samantekt kafar ekki mjög djúpt ofan í málin, en hefur að geyma nægilegan fróðleik og staðreyndir til að fjölmiðlar hafi smá "kjöt" til að setja í grein eða frétt. Hvenær var fyrirtækið stofnað? Af hverjum? Hvað er reksturinn orðinn stór, mælt í starfsmönnum, veltu, viðskiptalöndum? Hvaða verðlaun og vegtyllur hafið þið fengið? Hvað gerir varan og hvað greinir hana frá samkeppninni? Hvar eruð þið staðsett? Hvar er varan fáanleg?

- Ítarlegri samantekt um fyrirtækið, lykilstarfsmenn og um vöruna. Þetta eru gögn fyrir þá sem vilja kafa dýpra. Hér gæti verið viðeigandi að birta stutt æviágrip stjórnenda og segja frá tæknilegum smáatriðum vörunnar sem verið er að selja.

- Afrit af eða tilvísanir í fjölmiðlaumfjöllun um fyrirtækið eða vöruna. Einnig upptökur t.d. af fyrirlestrum stjórnenda og viðtölum í útvarpi eða sjónvarpi, ef við á. (Munið að fá leyfi hjá fjölmiðlinum fyrst).

- Afrit af eldri fréttatilkynningum.

- FAQ skjal, um fyrirtækið og/eða vöruna

- Gott myndasafn: Vel teknar myndir í góðri stærð og góðri upplausn. Hér viltu hafa

1) Vel teknar myndir af lykilstarfsmönnum (hverjum fyrir sig), mögulega með vinnustaðinn í bakgrunni, eða máski skilti með nafni fyrirtækisins. Gott er líka að taka myndir þar sem varan er í bakgrunni eða forgrunni.

2) Vandaðar myndir af vörunni, mögulega á hlutlausum bakgrunni. Myndir af vörunni í notkun og tölvuteikningar, skjáskot og skýringarmyndir eins og við á.

3) Myndir af starfseminni, eitthvað til að sýna mannlífið á vinnustaðnum og iðjuna bak við tjöldin, dagleg störf í búðinni.

4) Myndir af húsnæði fyrirtækisins, verslun eða verksmiðju.

5) Lógo og önnur merki.

Mundu að fyrirtækið þarf að eiga birtingarréttinn á öllum þessum myndum.

 

Athugaðu að gott getur verið að gera þessi gögn aðgengileg víðar en bara undir "press" hnappinum á heimasíðunni.

- Gerðu t.d. góðar myndir og lógó aðgengileg í Facebook myndasafni fyrirtækisins, og settu helstu upplýsingar, tölvupósta og símanúmer í "about" rammann.

- Settu afrit af fjölmiðlapakkanum á Dropbox eða Google Docs svo þú getir auðveldlega deilt hlekk í gögnin (og átt af þeim afrit).

- Gættu að því, ef það er tímabært, að sagt sé frá fyrirtækinu á Wikipediu (á réttu tungumálunum) og að við greinina séu tengdar sumar af myndunum úr pressu-kittinu. Oft er það fyrsta sem fólk gerir til að fræðast um fyrirtæki eða vöru að Gúggla eitthvað á borð við "nafn fyrirtækis Wikipedia" því þar er fólk vant að geta gengið að stuttum og hnitmiðuðum upplýsingum.

- Þegar mikið liggur við, t.d. á ráðstefnum og vörusýningum, er hægt að prenta út valda hluta úr pressukittinu, setja í möppur og hafa tiltækt fyrir fjölmiðlafólk.

 

 

Myndakredit: Wikipedia. Hoe's six-cylinder press. N. Orr - History of the Processes of Manufacture 1864


Stjarnfræðilegar fjárhæðir á örfáum árum

Eitt af því sem gerir frumkvöðlastarfið svo spennandi er að þar eru tekjumöguleikarnir miklu meiri en á vinnumarkaðinum. Frumkvöðullinn tekur vitaskuld mikla áhættu, og fari allt á versta veg er hann litlu bættari eftir að hafa í fjölda ára lagt blóð svita og tár í efnilega viðskiptahugmynd.

Gangi allt að óskum geta ávetir erfiðisins hins vegar verið langt, langt framúr því sem hæst launuðu launþegar fá fyrir að streða frá níu til fimm.

Fyrr á árinu tók Wall Street Journal saman tölur sem sýna þennan veruleika svart á hvítu. Gerði fjármáladagblaðið lista yfir verðmætustu sprotafyrirtæki heims og raðaði eftir áætluðu markaðsverði miðað við síðustu fjármögnunarlotu.

Gat WSJ fundið samtals 30 sprota i Bandaríkjunum, Evrópu og Kína sem verðlagðir eru á meira en milljarð dala. Elsta fyrirtækið á listanum var stofnað 1995 en það yngsta 2012.

Efst á listanum trónir Uber, metið á 18,2 milljarða dala með fjármögnun samtals upp á 1,6 milljarða. Uber var stofnað 2009 og hefur því að jafnaði hækkað í virði um 3,64 milljarða dala á ári. Skagar það hátt í árleg fjárlög íslenska ríkisins.

Næst á listanum eru Dropbox, stofnað 2007, Airbnb og kínverski farsímaframleiðandinn Xiaomi, öll metin á 10 milljarða dala, stofnuð 2007, 2008 og 2010.

Fyrirtækin sem á eftir koma ættu sum að vera vel kunnug lesendum Frumkvöðla.is, en önnur með öllu óþekkt, og eru samt verðmetin margfalt á við verðmætasta fyrirtæki Íslands.

Fimmta á listanum er bandaríska fyrirtækið Palantir sem þjónustar gagnanjósnaþarfir Bandarískra stjórnvalda, metið á 9,3 milljarða dala. Sjötta er Jingdong, kínversk netverslun metin á 7,3 milljarða dala.

Myndavefurinn Pinterest er í sjöunda sæti, metin á 5 milljarða, svo evrópska netverslunin Zalando, þá geimferðafélagið SpaceX, 4,8 miljarða virði, og í tíunda sæti hugbúnaðarfyritækið Cloudera metið á 4,1 milljarð dala.

 

 

 


Fjölmiðlar: að eiga gott viðtal

Fyrri pistlana tvo um fjölmiðlatengsl má skoða hér og hér. Þar var stiklað á stóru um hvernig má ná athygli fjölmiðla, og hvernig á að gera skothelda fréttatilkynningu.

Nú hefur frumkvöðull fylgt ráðleggingum mínum í þaula, og stóra stundin runnin upp: viðtalið.

Sumir fá hnút í magann og eru að farast úr sviðsskrekk. Aðrir missa svefn yfir tilhugsuninni um að eitthvað misritist í viðtalinu. Svo eru hinir sem komast aldrei yfir það að hafa gleymt einhverju mikilvægu í sjálfu viðtalinu.

 

Að eiga gott viðtal er samt alls ekki svo snúið. Enginn þarf að fá magasár af því að ræða við fjölmiðla.

 

Hvernig á að veita gott viðtal?

1. Veldu vandaðan miðil. Fjölmiðlar eru mjög misjafnir í efnistökum, áherslum og vinnubrögðum. Ég mæli með því að fagmenn leiti frekar í fjölmiðlana sem hafa orðspor fyrir vönduð vinnubrögð og litla æsifréttamennsku. Þú vilt ekki þurfa að eyða miklu púðri í að slökkva elda og leiðrétta rangfærslur eftir viðtalið, nema hrein og klár athygli án tillits til innihalds sé það sem þig vantar.

2. Veldu vandaðan blaðamann, ef þú getur. Innan fjölmiðla starfa mjög mismunandi blaðamenn. Þeir eiga sínar sterku og veiku hliðar, hafa sinn stíl og sín áhugamál. Lastu vel heppnaða grein í blaðinu, eða hlustaðirðu á áhugavert viðtal í útvarpinu? Punktaðu hjá þér nafn blaða-/útvarpsmannsins og sjáðu hvort þú kemst að hjá honum. Þú veist þá að hverju þú gengur.

3. Sjáðu hvort þú getur fengið að lesa próförk. Hér eru reglur fjölmiðla mismunandi og einnig allur gangur á því hvaða skilyrði blaðamennirnir sjálfir setja. Á vönduðum fjölmiðli á að vera auðsótt að fá að skoða a.m.k. það sem eftir þér er haft, til að ganga úr skugga um að ekkert hafi misskilist. Ef eitthvað þarf að snurfusa, vertu þá með á hreinu á hvaða formi blaðamaðurinn vill fá leiðréttingarnar (sjálfur vil ég að fólk noti „Track Changes“ fítusinn).

Mundu líka að blaðamaðurinn er undir tímapressu og athugasemdirnar þurfa að berast með hraði. Ef þú ert of lengi að svara er greinin óðara komin í birtingu óleiðrétt.

Mundu einnig að blaðamaðurinn kann væntanlega sitt fag. Yfirlesturinn er aðallega hugsaður til að laga villur, en ekki til að gera stórtækar breytingar á orðalagi, skipulagi og innihaldi greinarinnar. Greinin er höfundarverk blaðamanns, merkt hans nafni.

4. Stundum eru skrifleg svör best. Mér þykja munnleg viðtöl gera bestu greinarnar og tek yfirleitt ekki í mál að senda spurningar með tölvuósti. Í samtali getur blaðamaðurinn jafnóðum skerpt á því sem er óljóst, og kafað dýpra í áhugaverða fleti á málinu. Spurningalistar í tölvupósti verða oft að greinum sem eru frekar  þunnar, flatar og götóttar.

En ef þú vilt tryggja í bak og fyrir að ekkert misskiljist getur verið rétt hamra á því að fá spurningar skriflega og svara þeim hratt til baka með tölvupósti. Þetta á einkum við þegar verið er að skrifa stakar og stuttar fréttir um mjög afmarkað (og viðkvæmt) efni, og blaðamann vantar „komment“ um eitt og annað.

5. Ekki undirbúa viðtalið alltof mikið, en hafðu á hreinu hverju þú vilt koma að. Sennilega ertu þegar orðinn þjálfaður í að kynna vöruna og fyrirtækið, en ef ekki getur verið ágætt að fara yfir með kollega hvernig gott væri að svara þeim spurningum sem von er á.

Í blaðaviðtölum er pressan minni og óhætt að hökta, hika og tafsa aðeins. Blaðamaðurinn setur ekki hikorðin, beygingarvillurnar og sletturnar í greinina. Í útvarpi og sjónvarpi þurfa svörin hins vegar að vera betur meitluð, hnitmiðuð og skýr.

Hvað ætli margir „fréttapunktar“ komist að í viðtalinu? Hvað er það sem þér liggur á að koma á framfæri? Láttu blaðamanninn vita hvað þér þykir markverðast og byrjaðu á að ræða þessi aðalatriði.

6. Settu blaðamanninn inn i efnið. Blaðamenn eru afskaplega klár stétt og þeir eru fljótir að setja sig inn í málin ef þeir fá smá stund til að undirbúa sig. Til öryggis er þó, stundum, gott að útskýra stuttlega fyrir blaðamanninum hvað þið eruð að fara að fjalla um. Þannig færðu betri spurningar til að svara. Hér getur vönduð fréttatilkynning hjálpað.

Í útvarpi og sjónvarpi getur verið að fjölmiðlamaðurinn vilji eiga við þig stutt for-viðtal þar sem þið tæpið á þvi hvað verður rætt. Þannig eru báðir í stakk búnir til að spyrja og svara vel.

7. Hafðu myndir og annað efni klárt, ef við á. Gott myndefni hjálpar og fangar auga lesenda. Áttu góðar tölvuteikningar af uppfinningunni þinni? Vel tekna mynd af þér í nýja atvinnuhúsnæðinu? Það er gott að reyna að koma upp myndabanka sem fjölmiðlar geta gengið í. Þar ættu að vera hausamyndir af lykilfólkinu, vörumyndir, húsnæðismyndir og mögulega bak-við-tjöldin myndir. Passaðu að hafa myndefnið í góðri upplausn og stærð.

Þegar viðtalið er birt eða útvarpað er svo vissara að þín hlið sé alveg klár: vefsíðan komin upp, símalínur mannaðar og augun á pósthólfinu. Þú vilt ekki að þeir sem eru áhugasamir um vöruna og fyirrtækið komi að tómum kofanum þegar þeir reyna að fræðast meira um þig og kompaníið.

8. Ræktaðu sambandið við blaðamanninn. Ef viðtalið kemur vel út og viðbrögðin mikil, láttu blaðamanninn vita og þakkaðu fyrir þig. Gæti jafnvel verið viðeigandi að senda vinabeiðni á LinkedIn og Facebook. Ef þú átt vin á fjölmiðli getur það auðveldað þér mjög að komast að í framtíðinni. Ekki drekkja samt blaðamanninum í upplýsingum óumbeðið. Ekki fara að senda honum vikuleg fréttabréf og skýrslur sem teppa pósthólfið.

 

 Myndakredit: President Richard Nixon during an Interview with John Chancellor, Eric Sevareid, Howard K. Smith and Nancy Dickerson for the Television Special Program "A Conversation with the President", 01/04/1971


Frumkvöðull gefur frá sér reksturinn

Þegar lagt er upp í þá langferð að stofna fyrirtæki er gott að hafa á hreinu hvaða persónulegu markmiðum frumkvöðullinn stefnir að. Breski athafnamaðurinn Simon Cohen er gott dæmi um að árangurinn er stundum mældur í einhverju öðru og háfleygara en hversu margar krónur eru í peningatankinum.

Telegraph skrifar um hvernig Cohen gaf frá sér stöndugan rekstur, til að varðveita hugsjónina að baki fyrirtæki sínu.

Fyrir ellefu árum setti hann á laggirnar almannatengsla- og markaðsfyrirtækið Global Tolerance, þar sem áherslan hefur verið á að liðssinna einstaklingum og samtökum sem berjast fyrir bættum heimi. Viðskiptavinalistinn er ekki af lakara taginu, og Cohen m.a. unnið að verkefnum fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Dalai Lama.

Svo gerist það að Cohen og frú eiga von á barni nr. tvö, og 35 ára gamall frumkvöðullinn kemst að þeirri niðurstöðu að nú skipti hann mestu að eyða tíma með ungum börnunum sínum. Komið væri að því að kveðja Global Tolerance.

Cohen hefði eflaust getað selt stofuna, fyrir rösklega milljón punda (tæpar 200 milljónir króna), en vildi ekki taka á því sénsinn að gildi og markmið fyrirtækisins sem hann stofnaði myndu glatast í höndum nýrra eigenda.

Hann ákvað því frekar að gefa reksturinn frá sér.

Við tók löng og mikil leit að réttu arftökunum. Umsækjendur voru yfir 200 talsins frá 30 löndum. Tveir heppnir úrvalsmenn sem Cohen hand-valdi fá 95% eignarhlut í Global Tolerance, 10.000 pund í reiðufé og allar eignir fyrirtækisns. Sjálfur heldur stofnandin eftir 5%.

Cohen hyggst einbeita sér að heimilishaldinu, en sinna almannatengslaráðgjöf einn dag í viku.

Hvað þykir lesendum? Er þetta glapræði, eða er kannski varasamt að einblína á peningana sem endanlegt markmið frumkvöðlastarfs?

Myndi dæmið horfa öðruvísi við ef Cohen væri komin á ellilífeyrisaldur? Hann er jú enn ungur og eflaust stofnað nýtt fyrirtæki seinna meir og gert góða hluti ef honum fara að leiðast heimilisstörfin eða fer að skorta peninga.

 

 

Myndkredit: Málverk af Jóakim Aðalönd eftir meistara Carl Barks.


Að komast að hjá fjölmiðlum - Part Deux

Þú ert búinn að finna rétta fjölmiðilinn til að koma fyrirtækinu þínu eða vöru á framfæri. Þú hefur jafnvel sett markið á tiltekinn blaðhluta eða þátt, og mögulega ertu með augastað á ákveðnum blaðamanni sem þú heldur að sé treystandi til að skila verkinu vel frá sér.

Þú hefur líka fundið áhugaverða fleti til að gera viðtalið eða fréttina bitastæðari. Svo hefurðu samband með tíu daga fyrirvara eða svo, til að komast örugglega að á þeim tíma sem hentar þér best.

Það eina sem þig vantar er skotheld fréttatilkynning.

 

Að setja saman fréttatilkynningu er ekki alltaf nauðsynlegt, en getur hjálpað þér við að komast að, og auðveldað blaðamönnum að undirbúa gott viðtal eða skrifa skýra og ruglingslausa grein. Hér er hægt að fara nokkrar leiðir:

 

Sumir [óvandaðri] miðlar stunda hálfgerða „copy-paste blaðamennsku“. Þar fer lítill eða enginn tími í að taka viðtöl og endurskrifa textann, ef fréttatilkynningin er brúkanleg, og blaðamaðurinn bara feginn að geta sparað sér vinnu. Ef þig langar að komast að hjá þannig miðli er rétt að skrifa fréttatilkynninguna nánast eins og fulluna grein. Því léttari sem vinnan er fyrir blaðamanninn, því betri eru líkurnar á að þú komist að.

Er vaninn að byrja á nokkrum málsgreinum þar sem efni fréttatilkynningarinnar er sett skýrt fram: hvað var að gerast, eða er að fara að gerast, hvenær, hvernig, hvar og hverjir standa á bak við.

Þar fyrir neðan koma nokkrar beinar tilvitnanir í þann eða þá sem eru í forsvari. Úr þessu getur blaðamaður mjög auðveldlega smíðað stutta frétt, bara með því að ýta á Ctrl+C og Ctrl+V.

Hér er eitt dæmi af handahófi, af vef ráðuneytis, sem sýnir dæmigerðan strúktúr og efnistök. Púnktarnir fremst í tilkynningunni súmmera upp aðalatriðin og beina blaðamanninum að því sem þú vilt að fái mesta athygli.

 

Vandaðri miðlar  láta líka fréttatilkynningarnar duga einar og sér en umorða textann til að vera ekki með greinar sem eru alveg samhljóða þeim sem birtast hjá keppinautunum. Reiknaðu líka með að blaðamaður kann að vilja ná í þig til að fá ítarlegra „kvót“ eða nánari upplýsingar um efnið, jafnvel bara fyrir örstutta frétt. Gættu þess því að láta bæði tölvupóst og farsímanúmer fylgja með, og vertu tilbúinn að svara símanum. Ef þú (eða einhver annar sem er í forsvari) svarar ekki strax gæti blaðamaðurinn ákveðið að skrifa um næsta mál í pósthólfinum í staðinn.

 

Fréttatilkynningin getur líka hjálpað blaðamanni að taka betra viðtal. Tilkynningin getur útskýrt vel um hvað fyrirtækið eða varan snýst, aukið þannig líkurnar á góðum spurningum og dregið úr villum og misskilningi í sjálfri umfjölluninni.

Ekki gleyma svo þessu:

- Fylgdu fréttatilkynningum eftir með símtali, jafnvel bæði á undan og eftir að þú ýtir á „senda“. Ef þú bara sendir tilkynninguna upp á von og óvon færðu kannski stutta frétt birta, en ef þig dreymir um ítarlega umfjöllun er vissara að hringja og reyna að selja einhverjum af holdi og blóði þá hugmynd að gera meira úr efninu.

- Lestu tilkynninguna vandlega yfir áður en hún er send. Láttu jafnvel einhvern annan lesa fyrir þig og athuga hvort eitthvað er misritað eða hvort eitthvað hefur gleymst. Betur sjá augu en auga.

- Inniheldur tilkynningin örugglega upplýsingar um: hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hverjir, símanúmer, vefsíður og netföng?

- Láttu farsímanúmer fylgja með, ekki bara borðsíma eða netfang. Blaðamenn hringja á öllum tímum dagsins, alla daga vikunnar. Þeir eru undir tímapressu og vilja helst ekki senda tölvupóst til að fá kannski svar eftir dúk og disk.

- Láttu fylgja með eina eða tvær myndir, ca 1MB að stærð hvor, sem nota má til að skreyta greinina.  Ekki senda risamyndir því þær geta verið þungar í vöfum fyrir tölvur og póstþjóna. Sendu myndirnar sem viðhengi, en ekki sem hluta af megimáli póstsins.

- Ein myndin gæti verið af þeim sem er(u) í forsvari og önnur af vörunni. Fallega teknar myndir (eða vandaðar tölvuteikningar) komast frekar að, fá stærra pláss í prentmiðlum og fanga betur athygli lesenda. Vandaðir fjölmiðlar vilja helst ekki nota lógó sem myndskreytingu. Láttu líka fylgja slóð á fleiri, og stærri myndir, t.d. á Dropbox. Gættu þess að þú eigir birtingarréttinn á öllu myndefninu.

 

 


Er málið að hafa Hong Kong sem bækistöð?

Þau ráð og upplýsingar sem fylgja hér á eftir eru skrifuð af leikmanni og þarf því að taka með hæfilegum fyrirvara. Lesendur eru hvattir til að leita ráða hjá sérfróðum aðilum áður en þeir stofna fyrirtæki, á Íslandi eða annars staðar. Athugasemdir og leiðréttingar eru vel þegnar í kommentakerfinu hér að neðan.

Ég átti nýlega erindi til Hong Kong og notaði tækifærið til að kynna mér hvernig það gengur fyrir sig að stofna fyrirtæki í litla lágskatta borgríkinu.

Hong Kong er nefnilega ekki amalegur staður til að standa í rekstri; þar þykir lagaumhverfið ágætt og skattbyrðin sérstaklega þægileg. Þeir sem eru að fara af stað með frumkvöðlarekstur sem er af því tagi að höfuðstöðvarnar geta verið hvar sem er í heiminum (hvað þá ef þær geta verið bara á stærð við eina skúffu) , ættu að skoða Hong Kong mjög vandlega.

Helstu kostirnir við Hong Kong eru:

- Mjög lágir skattar. Engir skattar (aðrir en þeir sem önnur lönd kunna að hafa lagt á viðskiptin) leggjast á tekjur sem verða til utan Hong Kong. Þú færð að halda eftir meiru af því sem þú og fyrirtækið þitt aflar, og um leið hefurðu aukið svigrúm sem því nemur til að bjóða upp á samkeppnishæf verð.

- Auðvelt og ódýrt er að stofna fyrirtæki. Ferlið getur tekið aðeins einn dag og tæknilega séð þarftu ekki að leggja fram eina krónu í hlutafé.

- Að viðhalda t.d. skúffufyrirtæki er ekki dýrt. Tiltölulega einfalt er að standa skil á skattframtali og sinna öðrum formsatriðum.

 

Könnun mín á Hong Kong fór þannig fram að ég notaði Google til að finna fyrirtæki sem sérhæfa sig í að aðstoða fólk við að stofna rekstur þar í landi. Sendi ég tölvupóst á þá þrjá sem virkuðu frambærilegastir (þ.e. með snotrustu vefsíðurnar), og að auki að ég hafði samband við eitt fyrirtæki sem kunningi benti mér á og hafði heyrt góða hluti um.

Í póstinum falaðist ég eftir stuttum fundi til að fá svarað nokkrum spurningum sem ég hafði um stofnunarferlið. Einum póstinum var svarað með löngum stöðluðum-pósti, og var það fyrirtæki því afskrifað. Hinum þremur póstunum var svarað á persónulegri hátt og tók litla stund að bóka fundina með viku fyrirvara.

 

Fyrst kíkti ég á Start It Up HK. Þar átti ég fund með gæðalegum ungum manni, James. James talaði fína ensku og gat svarað spurningum mínum nokkuð vel. Fyrirtækið virðist vera ungt og agnarsmátt, í einhverjum tengslum við sprota-kreðsuna í Hong Kong. Húsnæðið var ákaflega látlaust, og gaf til kynna að yfirbyggingin væri í lágmarki.

Þar getur stofnun fyrirtækis tekið 2-3 vikur og eftirfarandi:

Nafnaleit, undirbúningur pappira, eftirlit og umsjón með umsóknni: HKD 588 (ISK 8.700)

Gjöld til stjórnvalda fyrir stofnunina HKD 1.720 (ISK 25.500)

Skráning hjá skattstjóra HKD 2.250 (ISK 33.400), greitt árlega, og upphæðin hefur sveiflast undanfarin ár

Aðstoð við að opna bankareikning HKD 488 (ISK 7.200)

„Green Box“ fyrir reksturinn („skúffa“) þ.m.t. stimplagerað. HKD 488 (ISK 7.200)

Staðfest þýðing á skilríkjum eða sönnun á heimilisfangi HKD 388/stk (ISK 5.700)

Skráð heimilisfang, hjá skrifstofu Start It  Up HKD 1.088 (greitt árlega) (ISK 16.200)

Ritaraþjónusta HKD 1.088 (greitt árlega) (ISK 16.200)

Ritaraþjónustugjaldið miðast við algjöra lágmarks þjónustu, s.s. að taka við og áframsenda póst og tilkynningar frá ríkinu (2-3 bréf á ári). Aukagjald leggst á fyrir sendingar á bréfum sem berast.

 

Hraðþjónusta til að stofna reksturinn samdægurs kostar HKD 2.000 (ISK 29.700)

 

Allt talið ætti stofnun skúffufyrirtækis og „parkering“ fyrsta árið að kosta HKD 10.486 (ISK 155.896) með hraðþjónustu og tveimur staðfestum þýðingum, HKD 7.710 (ISK 114.625) annars, og viðhaldskostnaðurinn árlega eftir það að vera um HKD 4.426  (ISK 65.802)

 

Næsti fundur var hjá Profit Accounting. Þar var yfirbyggingin á starfseminni ögn snotrari, og önnum kafnir bókarar að störfum við öll skrifborð. Unga konan sem ég ræddi við talaði ögn verri ensku, og virtist líka ögn minna með á nótunum en James. Verðin þar voru á svipuðu róli: HKD 7.400 (ISK 110.000) fyrir heildarpakka (sem tekur sjö virka daga). Hægt var að lækka kostnaðinn með því að kaupa „tilbúið“ fyrirtæki á samtals HKD 5.600 (ISK 83.300). Þetta eru fyrirtæki sem stofnuð voru fyrir 1. apríl 2014 þegar skráningargjaldið hjá stjórnvöldum hækkaði úr HKD 250 í HKD 2.250, og skýrir það lægra verðið. Árlegt viðhald um HKD 5.500 (ISK 81.700)

 

Síðasti fundur var með Asia Business Service. Snotur skrifstofa á fínum stað. Íslendingur sem ég er kunnugur hefur góða reynslu af þessari stofu. Viðmælandinn talaði skiljanlega en ekki fölskvalausa ensku. Heildar kostnaður við stofnun HKD 10.300 (ISK 153.000). Árlegt viðhald HKD 3.850 (57.200),  sem skiptist i 1.600 fyrir ritara og heimilisfang, og 2.250 til stjórnvalda.

 

Á fundunum lærði ég líka eftirfarandi:

- Ekki þarf að leggja fram hlutafé, en stofna verður reikning hjá HSBC. Þar þarf helst að leggja inn HKD 10.000 (ISK 148.600) við stofnun, en þann pening má taka strax út aftur.

- Stofnun bankareiknings getur verið stærsti þröskuldurinn. Bankinn gætir sín á því hverjir fá að hefja viðskipti. Gæti þurft að sýna t.d. viðskiptaáætlun, eða gefa sönnun fyrir að reksturinn er þegar kominn vel af stað.

- Ef innistæðan á bankareiningnum er undir HKD 50.000 (ISK 743.300) leggst á mánaðarlegt gjald, HKD 100 (ISK 1.500) á mánuði.

- Ef reikningurinn er óvirkur í langna tíma (8 mánuði) gæti bankinn lokað honum.

- Þegar fyrirtækið/bankareikningur er stofnaður verður stofnandi/stjórnandi að vera í Hong Kong í eigin persónu. Sama gildir ef stjórnun fyrirtækisins færist á nýjar hendur.

- Að selja fyrirtækið, hætta rekstri, fjölga hlutum o.þ.h. er nokkuð einfalt ferli og spurning um nokkur hundruð eða nokkur þúsund Hong Kong dollara, að því gefnu að ekki sé eitthvað sem auki flækjustigið, s.s. ógreiddar kröfur.

- Eðlilega verður að halda bókhald, og ef gangur er í rekstrinum er vissara að hafa local endurskoðanda sem sér um að skila skattframtali. Skattleysi teknanna er eitthvað sem þarf að „sýna fram á“, en á ekki að vera snúið.

 

 

Annað sem ég hef komist að:

Ef þú vilt reka alvöru fyrirtæki í Hong Kong, þá er það bæði létt og erfitt í senn:

- Til að fá atvinnuleyfi fyrir þig sjálfan þarftu að sannfæra stjórnvöld um að þú sért að fara að byggja efnilegan rekstur, og þú þarft helst að vera kominn með lítið safn local starfsmanna áður en fyrsta starfsárið er liðið. Einyrkjar eiga ekki góða möguleika á að fá atvinnuleyfi í landinu.

- Laun eru há og húsnæði rándýrt (bæði fyrir þig og reksturinn). Launaskattar og launatengd gjöld eru einhver, en mjög hófstillt m.v. vesturlönd. (Launaskattur er nú 16% í HK samanborið við 46,22% jaðarskatt á laun á Íslandi).

- Borgin er mjög dínamísk, iðar af lífi og orku. Auðvelt er að tjá sig á ensku á flestum stöðum. Andrúmsloftið minnir mikið á Manhattan og þarna er svo sannarlega hægt að láta hlutina gerast, í túnfætinum á Kínverska meginlandinu, steinsnar frá risamörkuðum eins og Taílandi, Indónesiu og Indlandi.

 

Ljósmyndakredit. "Hong Kong Night Skyline" by Base64, retouched by CarolSpears - Own work. Licensed under Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0 via Wikimedia Commons - http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Hong_Kong_Night_Skyline.jpg#mediaviewer/File:Hong_Kong_Night_Skyline.jpg


Viltu komast að hjá fjölmiðlunum?

Á sprotastiginu getur viðtal eða fréttabútur skilið á milli feigs og ófeigs. Ef tekst að fá rétta sýnileikann í fjölmiðlum er hægt að ná til nýrra viðskiptavina, samstarfsaðila og fjárfesta, byggja upp ímynd og orðspor.

Furðuoft virðast frumkvöðlar eiga í mesta basli með að koma sér og fyrirtækjum sínum á framfæri í fjölmiðlum, og missa af verðmætum tækifærum. Að komast að í blöðunum, í sjónvarpi, útvarpi eða hjá vefmiðlunum er samt ekki svo snúið, ef menn bera sig rétt að.

Hér eru nokkur atriði til að hafa í huga:

- Taktu upp símann: Ekki bíða eftir að fjölmiðlarnir finni þig. Hafðu samband við þann miðil sem þér hugnast best og sjáðu hvort skiptiborðið getur ekki komið þér í samband við vinsamlegan blaðamann eða ritstjóra.

- Veldu rétta miðilinn: Sjónrænt efni ætti síður að fara í útvarpsfréttirnar, og hljóðrænt efni á kannski ekki best heima í prentmiðli. Hvaða miðil notar svo fólkið sem þú vilt ná til? Mundu að ef þú færð mikinn sýnileika á einum stað gætu aðrir miðlar haft minni áhuga á þér (þú ert ekki lengur „skúpp“), svo vandaðu valið í fyrstu tilraun.

- Hafðu eitthvað áhugavert fram að færa: Þetta er kannski mikilvægasta reglan af öllum. Fjölmiðlar vilja segja sögur um nýja og spennandi hluti. Er varan þín að fara að valda straumhvörfum? Varð fyrirtækið til á skemmtilegan hátt? Á varan þín erindi inn í umræðu um atburði líðandi stundar? Þú verður að hafa einhverja beitu á önglinum svo fjölmiðlarnir bíti.

- Vandaðu tímasetninguna: Ekki vera of snemma eða of seint á ferðinni. Þú kemst varla að með dagsfyrirvara, og þú gleymist ef þú hefur samband með margra mánaða fyrirvara. Mundu líka að á sumum tímum ársins er auðveldra að komast að. Færri berjast um sviðsljósið þegar er gúrkutíð.


Mikilvægu smáatriðin á netinu

Þú stendur í þeim sporum að vera með góða viðskiptahugmynd og gangi allt að óskum bíða þín gull og grænir skógar handan við hornið.

En það er nokkurn veginn sama hver viðskiptahugmyndin er, að árangurinn mun að stórum hluta ráðast af því hversu sýnilegt sprotafyrirtækið þitt eða varan getur verið á netinu. Þeir sem ekki sjást á netinu gætu allt eins ekki verið til. Er því vissara að frumkvöðlar hugi að því strax á fyrstu skrefunum hvernig má ná sem mestum og bestum sýnileika í gegnum netið:

1. Googlaðu nafn vörunnar eða fyrirtækisins. Ertu  með einstakt nafn í höndunum eða ertu að keppa við milljónir leitarniðurstaða?

2. Er gott  lén til sölu sem inniheldur nafn vörunnar eða fyrirtækisins? Síður á borð við Domainguru.com bjóða upp á aðgengilega léna-leitarvél. Ef hentugt lén er ekki á lausu gæti verið skynsamlegt að finna nýtt nafn á reksturinn.

3. Ekki kaupa lén nema það endi á .com eða .is. Margir sem vilja finna upplýsingar um fyrirtækið þitt munu byrja á að slá inn nafnið á fyrirtækinu í vafrann og bæta .com eða .is fyrir aftan. Ef þú ætlar að herja bæði á íslenska og erlenda markaðinn skaltu kaupa bæði .com og .is lénin.

4. Ekki kaupa lénsnafn með hástriki eða tölum og hafðu lénið eins einfalt og auðvelt að muna og hægt er. Reyndu að hafa ekki fleiri en þrjú atkvæði í léns-nafninu. Odyra-flugfelagid.is mun tapa fyrir oflug.is. (Og já, lénið Oflug.is er laust!)

5. Skráðu þig fyrir Facebook síðu og Facebook-slóð með nafni fyrirtækisins og/eða vörunnar. Gerðu það sama á YouTube, Flickr, Twitter, Google+, Vimeo, Pinterest og Gmail. Þú vilt hafa stjórn yfir vörumerkinu þínu á þessum stöðum og vissara að vera búinn að eignast rétta notendanafnið áður en varan þín verður heimsfræg.

6. Lestu þér til um leitarvélabestun (e. search engine optimization), og notaðu fræðin í öllu því efni sem þú setur á netið. Þú vilt vanda þig við að hafa réttu lykilorðin í textum og réttu „töggin“ á myndum svo fólk finni þig hratt og vel þegar það leitar að Spliff, Donk eða Gengju.

7. Athugaðu svo hversu auðvelt er að ná í þig með þeim upplýsingum sem finna má á netinu. Er fyrirtækið skráð á Já.is? Er eldgamalt farsímanúmer við nafnið þitt í símaskránni? Má finna landlínunúmer, farsímanúmer, heimilisfang og tölvupóstfang á vefsíðunni eða í „about“ glugganum á Facebook-síðunni?

 


Ekki halda hugmyndinni leyndri

Frumkvöðlar með góðar viðskiptahugmyndir eru oft í þeim sporum að vita ekki hvort óhætt er að tala um hugmyndina við aðra. Hvað ef einhver stelur hugmyndinni og gerir þannig að engu drauma um ríkidæmi og heimsfrægð? Hvað ef þú ert Tesla og einhver óprúttinn Edison liggur við hlustir?

Raunin er samt að yfirleitt er sáralitil áhætta tekin með því að tala um viðskiptahugmynda oft, víða og við marga. Ávinningurinn er alla jafna mun meiri en áhættan.

- Að búa til vöru eða fyrirtæki úr hugmynd er meira en að segja það. Yfirleitt kostar það áralangt strit og miklar persónulegar fórnir að komast  í mark og uppskera árangur erfiðisins. Þetta kallar á óbilandi trú á viðskiptahugmyndina, sem er eitthvað sem fólk hefur alla jafna ekki nema það hafi fengið hugmyndina sjálft.

- Með því að tala við aðra færðu endurgjöf á hugmyndina og getur komið auga á vankanta og möguleika sem þér höfðu yfirsést. Betra að fá þessa endurgjöf fyrr en seinna.

- Þú ert líka að þjálfa söluræðuna með hverju samtali, og ert fyrir vikið betur í stakk búinn til að fá væntanlega fjárfesta og samstarfsmenn á þitt band.

- Með því að tala við aðra ertu að hvetja sjálfan þig áfram. Það er hálf-neyðarlegt að segja einhverjum frá mergjaðri hugmynd sem þú vilt gera að veruleika, hitta þennan sama einstakling ári síðar og hafa ekki færst skrefi nær markmiðinu. Hugmyndir sem haldið er leyndum rykfalla mun auðveldar ofan í skúffu.

- Ekki halda að einhvers staðar annars staðar sé ekki einhver að vinna að alveg sömu hugmynd. Góðar hugmyndir verða oft til á mörgum stöðum á sama tíma og það er framkvæmdin sem ræður úrslitum en ekki hugdettan.

- Oft ræður útfærslan meiru um árangurinn en hugmyndin sjálf. Þú hefur örugglega einstaka sýn á það hverju þú vilt áorka, og sérð fyrir þér smæstu smáatriði, hugsar um viðskiptahugmyndina þína vakinn og sofinn. Hugmyndaþjófarnir mega sín lítils gagnvart þessu. Það er eitt að framleiða snjallsíma og annað að framleiða iPhone.

- Jafnvel ef hugmyndinni er stolið, og hugmyndaþjófurinn verður ríkur af, þá verður það ekki af þér tekið að þú ert hugmyndamanneskja. Þú færð eflaust aðra og enn betri hugmynd áður en langt um líður, en hugmyndaþjófurinn verður alltaf ófrumlegur og undir meðallagi.

…svo geturðu alltaf farið Winklevoss-leiðina og staðið uppi 17 milljörðum króna ríkari.