Frumkvöðlarnir á bak við Coolest kæliboxið hafa nú slegið met sem árangursríkasta söfnunin á Kickstarter. Á vef Time er greint frá því að á 52 dögum hafi Coolest-verkefnið fengið 13.285.226 dali í framlög frá 60.000 einstaklingum, jafnvirði um 1,5 milljarða króna.

Fyrra Kickstarter metið átti snjallúrið Pebble sem árið 2012 safnaði yfir 10 milljónum dala.

Hönnuður Coolest, Ryan Grepper, er enn að vinna að því að fulklára hönnunina og finna rétta framleðandann en þeir sem greiddu í söfnunina geta reiknað með að fá sinn eigin kæli í hendurnar í febrúar á næsta ári.

 

Sennilega þekkja flestir lesenda Coolest-kæliboxið nú þegar, enda vinsælt umræðuefni á samfélagsvefum. Coolest tekur kælibox-hugmyndina á næsta stig, með úthugsaðri vöruhönnun. Er meðal annars innbyggður blandari, hleðsutæki og blátannar-hátalari, díóðulýsing í drykkjarhólfinu og frágangur þannig að boxið er auðvelt í notkun og flutningum, með mikið notagildi.

 

Frumkvöðlar geta lært ýmsar lexíur af Coolest:

– Ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana: Aðstandendur Coolest höfðu áður reynt að koma sér á framfæri á Kickstarter árið 2013, en tókst ekki að ná 125.000 dala markmiði sínu. Þegar þeir reyndu aftur árið 2014 voru tvær milljónir dala komnar í sjóðinn á innan við sólarhring.

– Það þarf ekki alltaf að finna up hjólið: Coolest er ekki glæný uppfinning, en betrumbætir stórlega hið hefðbundna kælibox og tvinnar saman ólíka tækni í eitt tæki sem enginn virðist geta verið án.

– Mikill er máttur internetsins; Vandað, auðskiljanlegt og skemmtilegt kynningarmyndband Coolest dreifðist um netheima eins og eldur um sinu. Ef þú ert með skemmtilega vöru, og kynnir hana á grípandi hátt, þá geta netverjar orðið þínir sterkustu sölumenn.