7 hættumerki hjá frumkvöðlum

heilsa May 13, 2019

Það getur verið afskaplega spennandi og skemmtilegt að vera frumkvöðull enda er fátt jafn gefandi eins og að taka einhverja hugmynd og breyta henni í arðbært fyrirtæki. Fyrirtæki sem bæði skapar störf og kannski betrumbætir heiminn á einhvern smávægilegan hátt. En það er þó langt frá því að vera dans á rósum að vera frumkvöðull, staðreyndin er sú að flestir frumkvöðlar ná illa að skapa jafnvægi á milli einkalífs og vinnu og enda á því að brenna út. En hérna eru 7 merki þess að þú sért ekki að búa til gott jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Ef þú þekkir þessi atriði úr eigin fari þá endileg reyndu að nýta þetta tækifæri til að bregðast við og skapa betra jafnvægi í kringum þinn fyrirtækjarekstur.

1. Vinna myrkranna á milli

Það er rosalega erfitt að koma af stað fyrirtæki og yfirleitt tala ég alltaf um að það taki 2-3 ár bara til að sanna hvort fyrirtækið eigi eftir að ganga upp eða ekki. Svo auðvitað fylgir mikil vinna svona stóru verkefni og ekkert að því að vinna langa vinnudaga fyrst um sinn en staðreyndin er sú að við erum ekki gerð til að vinna myrkranna á milli í of langan tíma. Þannig ef þú ert kominn á ár 2 eða 3 í rekstrinum þínum og þú ert ennþá að vinna 12 tíma á dag þá skaltu fara hægja á þér nema þú viljir lenda í kulnun.

2. Gleyma rækta vini og áhugamál

Eitt það mikilvægasta til að halda geðheilsunni er að eiga sér líf fyrir utan fyrirtækið og besta leiðinn til að gera það er að umgangast vini sína og eiga sér áhugamál. Ég hef sjálfur vanrækt þessa hluti í gegnum tíðina og ég mæli alls ekki með því. Þannig taktu þér frí af og til og bjóddu vinunum í mat eða skelltu þér í fjallgöngu.

3. Vinnan fer að flækjast inn í draumana

Þegar þú ert farinn að dreyma vinnuna á hverri nóttu þá þýðir það að þú verðir að fara hægja á þér. Það er ekki gott fyrir neinn að vera svo heltekin af vinnu sinni að ekkert annað komist að.

4. Allar bækur sem þú lest snúast um fyrirtækið

Það að lesa er yndislegt fyrirbæri og frábær leið til að bæta við sig fróðleik og til að fá frí frá hversdagsleikanum. En eins mikið og ég mæli með að fólk lesi bækur til að bæta þekkingu sína þá þarf líka að passa að bæta skáldsögum inn á lestrarlistann til að halda jafnvægi.

5. Stofna annað fyrirtæki í miðri kulnun

Þetta er fyrirbæri sem ég hef séð all oft hjá félögum mínum í fyrirtækjarekstri og mér sjálfum. Það er í eðli frumkvöðulsins að færast alltaf áfram, að byggja upp fyrirtæki, skapa verðmæti, búa til lausnir, takast á við nýjar áskoranir o.s.frv. En við erum ekkert sérstaklega góð í að átta okkur á því hvenær við eigum að taka skref aftur og hvíla okkur. Það er því ekki óalgengt að frumkvöðlar stofni ný fyrirtæki eða byrji að vinna að nýjum viðskiptahugmyndum þegar þeir eru orðnir leiðir á núverandi fyrirtækjum eða jafnvel orðnir svo útkeyrðir að þeir höndli ekki lengur að halda utan um núverandi rekstur. Ég mæli aldrei með því að einstaklingar séu að stofna önnur fyrirtæki eða byrja vinna í öðrum viðskiptahugmyndum fyrr en þeir eru annað hvort búnir að selja núverandi rekstur sinn eða búnir að koma honum þannig fyrir að hann reki sig að mestu sjálfur.

6. Brenna út án þess að vita það

Við erum afskaplega léleg í því að átta okkur á því hvenær við séum við það að brenna út eða jafnvel að við séum í miðju kulnunarástandi. Mín persónulega upplifun af kulnun er sú að fyrst um sinn byrjaði ég að lenda í 2-3 daga tímabilum þar sem ég var algörlega orkulaus og varð bara að liggja undir sæng þangað til ég gat jafnað mig. Hægt og rólega versnaði þetta þangað til að tímabilin voru komin upp í nokkrar vikur og ég var farinn að lenda í svimaköstum og magaverkjum. En aldrei áttaði ég mig á að þetta væru merki um kulnun enda var lítil umræða um slíkt á þeim tíma, það var ekki fyrr en ég lenti svo illa vegg að ég var frá vinnu í marga mánuði sem að ég áttaði mig á sannleikanum. Ég mæli því með að þið lærið af minni reynslu og hlustið betur á líkama ykkar og bregðist við þegar hann fer að segja við ykkur að eitthvað sé að.

7. Stress, kvíða og þunglyndi

Frumkvöðlar eru líka sérstaklega líklegir samkvæmt tölfræði til að þjást á einhverjum tímapunkti af andlegum veikindum á borð við stress, kvíða og þunglyndi. Það er ekkert til að skammast sín fyrir enda er það mjög algengt meðal frumkvöðla en ég mæli með því að þið leitið ykkur hjálpar hjá sálfræðingi eða öðrum fagaðilum þegar þið byrjið að finna fyrir einkennum þess. Raunverulegur styrkur felst í því að þekkja veikleika sína og vinna með þá frekar en að reyna bæla þá niður.

Það er afskaplega gefandi að stofna og byggja upp fyrirtæki en við sem stofnendur verðum að vera opin fyrir hættumerkjunum. Notið þennan lista sem áminningu um að sinna heilsu ykkar, bæði líkamlega og andlega.

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.