Er málið að hafa Hong Kong sem bækistöð?

rekstur Aug 04, 2014

Þau ráð og upplýsingar sem fylgja hér á eftir eru skrifuð af leikmanni og þarf því að taka með hæfilegum fyrirvara. Lesendur eru hvattir til að leita ráða hjá sérfróðum aðilum áður en þeir stofna fyrirtæki, á Íslandi eða annars staðar. Athugasemdir og leiðréttingar eru vel þegnar í kommentakerfinu hér að neðan.

Ég átti nýlega erindi til Hong Kong og notaði tækifærið til að kynna mér hvernig það gengur fyrir sig að stofna fyrirtæki í litla lágskatta borgríkinu.

Hong Kong er nefnilega ekki amalegur staður til að standa í rekstri; þar þykir lagaumhverfið ágætt og skattbyrðin sérstaklega þægileg. Þeir sem eru að fara af stað með frumkvöðlarekstur sem er af því tagi að höfuðstöðvarnar geta verið hvar sem er í heiminum (hvað þá ef þær geta verið bara á stærð við eina skúffu) , ættu að skoða Hong Kong mjög vandlega.

Helstu kostirnir við Hong Kong eru:

– Mjög lágir skattar. Engir skattar (aðrir en þeir sem önnur lönd kunna að hafa lagt á viðskiptin) leggjast á tekjur sem verða til utan Hong Kong. Þú færð að halda eftir meiru af því sem þú og fyrirtækið þitt aflar, og um leið hefurðu aukið svigrúm sem því nemur til að bjóða upp á samkeppnishæf verð.

– Auðvelt og ódýrt er að stofna fyrirtæki. Ferlið getur tekið aðeins einn dag og tæknilega séð þarftu ekki að leggja fram eina krónu í hlutafé.

– Að viðhalda t.d. skúffufyrirtæki er ekki dýrt. Tiltölulega einfalt er að standa skil á skattframtali og sinna öðrum formsatriðum.

 

Könnun mín á Hong Kong fór þannig fram að ég notaði Google til að finna fyrirtæki sem sérhæfa sig í að aðstoða fólk við að stofna rekstur þar í landi. Sendi ég tölvupóst á þá þrjá sem virkuðu frambærilegastir (þ.e. með snotrustu vefsíðurnar), og að auki að ég hafði samband við eitt fyrirtæki sem kunningi benti mér á og hafði heyrt góða hluti um.

Í póstinum falaðist ég eftir stuttum fundi til að fá svarað nokkrum spurningum sem ég hafði um stofnunarferlið. Einum póstinum var svarað með löngum stöðluðum-pósti, og var það fyrirtæki því afskrifað. Hinum þremur póstunum var svarað á persónulegri hátt og tók litla stund að bóka fundina með viku fyrirvara.

 

Fyrst kíkti ég á Start It Up HK. Þar átti ég fund með gæðalegum ungum manni, James. James talaði fína ensku og gat svarað spurningum mínum nokkuð vel. Fyrirtækið virðist vera ungt og agnarsmátt, í einhverjum tengslum við sprota-kreðsuna í Hong Kong. Húsnæðið var ákaflega látlaust, og gaf til kynna að yfirbyggingin væri í lágmarki.

Þar getur stofnun fyrirtækis tekið 2-3 vikur og eftirfarandi:

Nafnaleit, undirbúningur pappira, eftirlit og umsjón með umsóknni: HKD 588 (ISK 8.700)

Gjöld til stjórnvalda fyrir stofnunina HKD 1.720 (ISK 25.500)

Skráning hjá skattstjóra HKD 2.250 (ISK 33.400), greitt árlega, og upphæðin hefur sveiflast undanfarin ár

Aðstoð við að opna bankareikning HKD 488 (ISK 7.200)

„Green Box“ fyrir reksturinn („skúffa“) þ.m.t. stimplagerað. HKD 488 (ISK 7.200)

Staðfest þýðing á skilríkjum eða sönnun á heimilisfangi HKD 388/stk (ISK 5.700)

Skráð heimilisfang, hjá skrifstofu Start It  Up HKD 1.088 (greitt árlega) (ISK 16.200)

Ritaraþjónusta HKD 1.088 (greitt árlega) (ISK 16.200)

Ritaraþjónustugjaldið miðast við algjöra lágmarks þjónustu, s.s. að taka við og áframsenda póst og tilkynningar frá ríkinu (2-3 bréf á ári). Aukagjald leggst á fyrir sendingar á bréfum sem berast.

 

Hraðþjónusta til að stofna reksturinn samdægurs kostar HKD 2.000 (ISK 29.700)

 

Allt talið ætti stofnun skúffufyrirtækis og „parkering“ fyrsta árið að kosta HKD 10.486 (ISK 155.896) með hraðþjónustu og tveimur staðfestum þýðingum, HKD 7.710 (ISK 114.625) annars, og viðhaldskostnaðurinn árlega eftir það að vera um HKD 4.426  (ISK 65.802)

 

Næsti fundur var hjá Profit Accounting. Þar var yfirbyggingin á starfseminni ögn snotrari, og önnum kafnir bókarar að störfum við öll skrifborð. Unga konan sem ég ræddi við talaði ögn verri ensku, og virtist líka ögn minna með á nótunum en James. Verðin þar voru á svipuðu róli: HKD 7.400 (ISK 110.000) fyrir heildarpakka (sem tekur sjö virka daga). Hægt var að lækka kostnaðinn með því að kaupa „tilbúið“ fyrirtæki á samtals HKD 5.600 (ISK 83.300). Þetta eru fyrirtæki sem stofnuð voru fyrir 1. apríl 2014 þegar skráningargjaldið hjá stjórnvöldum hækkaði úr HKD 250 í HKD 2.250, og skýrir það lægra verðið. Árlegt viðhald um HKD 5.500 (ISK 81.700)

 

Síðasti fundur var með Asia Business Service. Snotur skrifstofa á fínum stað. Íslendingur sem ég er kunnugur hefur góða reynslu af þessari stofu. Viðmælandinn talaði skiljanlega en ekki fölskvalausa ensku. Heildar kostnaður við stofnun HKD 10.300 (ISK 153.000). Árlegt viðhald HKD 3.850 (57.200),  sem skiptist i 1.600 fyrir ritara og heimilisfang, og 2.250 til stjórnvalda.

 

Á fundunum lærði ég líka eftirfarandi:

– Ekki þarf að leggja fram hlutafé, en stofna verður reikning hjá HSBC. Þar þarf helst að leggja inn HKD 10.000 (ISK 148.600) við stofnun, en þann pening má taka strax út aftur.

– Stofnun bankareiknings getur verið stærsti þröskuldurinn. Bankinn gætir sín á því hverjir fá að hefja viðskipti. Gæti þurft að sýna t.d. viðskiptaáætlun, eða gefa sönnun fyrir að reksturinn er þegar kominn vel af stað.

– Ef innistæðan á bankareiningnum er undir HKD 50.000 (ISK 743.300) leggst á mánaðarlegt gjald, HKD 100 (ISK 1.500) á mánuði.

– Ef reikningurinn er óvirkur í langna tíma (8 mánuði) gæti bankinn lokað honum.

– Þegar fyrirtækið/bankareikningur er stofnaður verður stofnandi/stjórnandi að vera í Hong Kong í eigin persónu. Sama gildir ef stjórnun fyrirtækisins færist á nýjar hendur.

– Að selja fyrirtækið, hætta rekstri, fjölga hlutum o.þ.h. er nokkuð einfalt ferli og spurning um nokkur hundruð eða nokkur þúsund Hong Kong dollara, að því gefnu að ekki sé eitthvað sem auki flækjustigið, s.s. ógreiddar kröfur.

– Eðlilega verður að halda bókhald, og ef gangur er í rekstrinum er vissara að hafa local endurskoðanda sem sér um að skila skattframtali. Skattleysi teknanna er eitthvað sem þarf að „sýna fram á“, en á ekki að vera snúið.

 

 

Annað sem ég hef komist að:

Ef þú vilt reka alvöru fyrirtæki í Hong Kong, þá er það bæði létt og erfitt í senn:

– Til að fá atvinnuleyfi fyrir þig sjálfan þarftu að sannfæra stjórnvöld um að þú sért að fara að byggja efnilegan rekstur, og þú þarft helst að vera kominn með lítið safn local starfsmanna áður en fyrsta starfsárið er liðið. Einyrkjar eiga ekki góða möguleika á að fá atvinnuleyfi í landinu.

– Laun eru há og húsnæði rándýrt (bæði fyrir þig og reksturinn). Launaskattar og launatengd gjöld eru einhver, en mjög hófstillt m.v. vesturlönd. (Launaskattur er nú 16% í HK samanborið við 46,22% jaðarskatt á laun á Íslandi).

– Borgin er mjög dínamísk, iðar af lífi og orku. Auðvelt er að tjá sig á ensku á flestum stöðum. Andrúmsloftið minnir mikið á Manhattan og þarna er svo sannarlega hægt að láta hlutina gerast, í túnfætinum á Kínverska meginlandinu, steinsnar frá risamörkuðum eins og Taílandi, Indónesiu og Indlandi.

 

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.