Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að þunnar bækur séu betri en þykkar bækur. Að hluta til er ástæðan fyrir því sú að ég les ekki ýkja hratt og á erfitt með að finna mér tíma til að lesa, en einnig er það vegna þess að ég trúi því að ef hæfni einstaklings á ákveðnu sviði felist að miklu leiti í hversu auðvelt hann á með að einfalda verkið. Ef að rithöfundur bókar þekkir vel viðfangsefni bókarinnar þá ætti hann að geta komið því frá sér á einfaldan og hnitmiðaðan hátt í sem fæstu orðum. Þess vegna hafði ég mjög gaman af því þegar ég fékk í hendurnar litla og netta bók sem hét „Heilræði fyrri unga menn í verzlun og viðskiptum“. Bókin sem er einungis 76 blaðsíður (þar af 45 í formála) er einföld upptalning á góðum ráðum í viðskiptum sem mér virðast eiga alveg jafn vel við í dag eins og fyrir 100 árum þegar þau voru rituð. Bókin var skrifuð af George H. F. Schrader sem var Bandarískur frumkvöðull sem var búsettur hér á landi í nokkur ár í byrjun síðustu aldar.
Mig langaði bara að taka nokkur góð ráð úr bókinni og deila með ykkur.
„Ef þú átt völ á stöðu sem gefur þér tækifæri til að læra eitthvað og komast áfram, þá er sú staða arðsamari, þó hún byrji með lágu kaupi, heldur en vel launuð staða með engum framtíðarmöguleikum“
Ég hef sjálfur reynt að lifa eftir þessum ráðum og hef oft tekið að mér illa launuð störf gegn því að ég geti lært eitthvað nýtt sem síðan hefur nýst mér betur síðar í lífinu. Þetta eru góð ráð sem allir myndu hagnast að fara eftir.
„Láttu ekki hugfallast, þó fyrstu tilraunir þínar misheppnist, reyndu aftur; fáir eru smiðir í fyrsta sinn.“
Þetta er eitthvað sem en hefur ekki tekist að kenna íslendingum nægjanlega vel, þar sem við virðumst ennþá líta á mistök sem merki um leti eða heimsku. En staðreyndin er þó sú að við lærum aldrei jafn mikið af neinu eins og við lærum af mistökum okkar og það að einstaklingur sé með mistök á baki sér getur verið merki um að viðkomandi hafi öðlast mikla þekkingu af þeim mistökum og geti betur tekist á við komandi verkefni.
„Fyrir unga verzlunarmenn er sérlega gott að lesa bækur um verzlun og verzlunarlöggjöf. En fyrir handverksmenn er mjög nytsamlegt að lesa bækur og blaðagreinar um handiðnir allskonar. Þess konar bækur má fá í hverju bókasafni.“
Í dag er orðið mun auðveldara að nálgast bækur og fræðsluefni um ýmiskonar málefni hvort sem það er á bókasöfnum eða á veraldarvefnum.. Það ætti því ekki að reynast neinum erfitt að afla sér upplýsinga um það sem hann er að vinna við og skapa sér fljót sérstöðu á sínu sviði og auka þannig möguleika á árangri.
„Bezta ráðið sem ég get gefið húsbændum, er að uppala og leiðbeina verkamönnum sínum, og skoða þá eigi sem dauð verkfæri til að græða peninga. Kennið þeim og gefið þeim kost á að læra, hvernig þeir eigi að standa á eigin fótum. Æfið þá þangað til þeir eru færir um að skipa sæti húsbóndans ef nauðsyn ber til. Með því einu móti getur starfið ætíð gengið greitt, og þér sjálfir verðið aldrei þrælar atvinnu yðar. Komið því skipulagi á vinnulið yðar, sem herfylking væri, svo að það geti gegnt starfi yðar, þó veikindi eða elli beri að höndum. Kjósið ætíð einhvern fulltrúa.“
Þetta eru ráð sem ég hef einnig lesið í mörgum nýútgefnum bókum, ráðið fólk sem er hæft og jafnvel mun hæfara en þið sjálf, þjálfið það upp og verið óhrædd við að deila með þeim af reynslu ykkar. Ef að þið sem stjórnendur þjálfið ekki upp starfsfólk ykkar til að taka einn daginn við af ykkur er hætta á að þið sjálf verðið þrælar eigin vinnu og munuð ekki geta farið að minnka við ykkur vinnuna þegar þið farið að eldast þar sem það er engin hæfur til að taka við ykkar störfum.
„Það er betra að byrja með litlu og færast í aukana en að byrja með miklu, aðeins til að fara á höfuðið“
Hann talar um að það sé aldrei gott að byrja með lánsfé og það sé þess í stað gott að reyna byrja með lítið og semja vel. Sjálfur þekki ég vel að byrja fyrirtæki með mikið lánsfé og ég myndi ekki mæla með því, það er mun betra ráð að byrja smátt án lánsfés og byggja félagið statt og stöðugt upp.
„Heiðarlegur gróði og gott mannorð er framar öllu öðru; en varist að græða fé óheiðarlega.
Viðskiptaheimurinn er mun minni en maður gæti ímyndað sér og það að hafa gott orðspor skiptir öllu. Passið ávallt að eiga heiðarleg viðskipti við alla í kringum ykkur bæði vegna þess að ykkur mun líða betur andlega en einnig vegna þess að ef þið eruð óheiðarleg þá fréttist það strax og fólk hættir að treysta ykkur og vill síður eiga viðskipti við ykkur.
Hann endar bókina á eftirfarandi orðum og ég get ekki ímyndað mér betri leið til að enda slíka bók.
„Látið yður umhugað um annað meira og hærra, en að græða fé. Peningarnir eiga aðeins að vera meðal til að ná tilgangi og látið takmark ykkar verða: áhyggjulaust líf. Ef þér þá getið og hafið vilja á að hjálpa öðrum, þá mun það baka yður meiri gleði, heldur en nokkurntíma að hjálpa yður sjálfum – þ. e. a. s. ef þér gerið það skynsamlega.“
Þetta er lítil og nett bók sem er fljótlesin en ætti þó að vera marglesin því í henni eru góð og tímalaus ráð sem þið getið nýtt bæði í viðskiptum og einkalífi ykkar. Ég hefði alveg verið til í að vitna í fleiri greinar úr bókinni en þess í stað ætla ég að mæla með að þið fjárfestið í henni og innbyrðið sjálf þessa skemmtilegu lesningu.
Að lokum vill ég þakka henni Þórunni Jónsdóttur kærlega fyrir að hafa gefið mér þessa bók.
50% Complete
Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.