Hluthafasamkomulag er vatn viðskiptasambandsins

fyrstu skrefin stofnun Nov 20, 2011

Það eru engar ýkjur þegar ég segi að hluthafasamkomulag (skriflegur samningur milli hluthafa fyrirtækis) er frumkvöðlum jafn mikilvægt og vatn er líkamanum.

Ég veit vel hvernig tilfinning það er að vera að fara að stofna fyrirtæki, hugsanlega með besta vini sínum eða vinkonu og líða eins og maður sé á leið í brúðkaupsferð. Lífið er yndislegt. Það er eins með hluthafasambönd eins og ástarsambönd, þau geta farið út um þúfur og endað með látum. Til að fyrirbyggja, eða í versta falli draga úr, dramanu er nauðsynlegt að vera með ítarlegt hluthafasamkomulag sem tekur á þeim aðstæðum sem upp geta komið við ágreining hluthafa.

Segjum sem svo að tveir hluthafar séu í fyrirtækinu X ehf. og upp komi ágreiningur á milli þeirra sem ekki er hægt að leysa á farsælan hátt. Ljóst er að annar hluthafinn þarf að víkja, selja þarf fyrirtækið eða hreinlega leysa það upp. Ef skriflegt hluthafasamkomulag er fyrir hendi er tiltölulega auðveldara að leysa þetta mál þar sem fyrir liggur hvernig skuli takast á við aðstæður sem þessar. Þetta segi ég með þeim fyrirvara að það er sjaldnast eða aldrei auðvelt þegar einn eða fleiri hluthafar hætta í frumkvöðlafyrirtækjum. Ég get sagt, byggt á eigin reynslu, að það er næstum því eins erfitt að takast á við dramatísk hluthafamál eins og það er að skilja við maka. Hér eru oftast bæði peningar og tilfinningar í spilinu og eins og flestir vita getur það verið eldfim samsetning. Allavega, ef ekkert hluthafasamkomulag er fyrir hendi þarf að setjast niður og reyna að komast að samkomulagi. Ef annar aðilinn, eða báðir, eru reiðir er mjög erfitt að komast að niðurstöðu. Neikvæðar tilfinningar flækjast oft fyrir og geta jafnvel gert skynsamt fólk mjög óskynsamt. Þar fyrir utan krefst það mikillar orku að vinna þessi mál og það jafnvel þegar gott og ítarlegt hluthafasamkomulag er fyrir hendi, hvað þá þegar þarf að byrja frá grunni.

Ég hef heyrt frumkvöðla segja að þeir séu alveg á leiðinni að fara að setjast niður og gera hluthafasamkomulag, en hafi bara ekki fundið tíma til þess. Það er eins og að segja að maður sé alltaf á leiðinni að byggja grunninn að húsinu sínu, en hafi bara ekki tíma til þess og fari því bara beint í að byggja húsið. Svo kemur jarðskjálfti og fólk skilur ekkert í því að húsið hrynji með látum.

Mitt ráð til ykkar er því þetta: Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að stofna fyrirtæki, gerið þá hluthafasamkomulag áður en þið skilið stofnpappírunum til fyrirtækjaskrár.

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.