Hvað er að stoppa þig í að stofna fyrirtæki?

fyrstu skrefin Nov 06, 2020

Marga dreymir um að stofna sitt eigið fyrirtæki, eru jafnvel með góða viðskiptahugmynd en láta svo aldrei verða að því að henda sér í djúpu laugina. En hvað er að stoppa fólk í því að láta vaða? Margir mikla fyrir sér að fara úr öruggu starfi yfir í eigin rekstur sem getur verið áhættusamur, á meðan aðrir tala um skort á fjámagni og tíma. Gerð var óformleg könnun á facebook síðunni Íslenskir frumkvöðlar til að fá innsýn inn í hvað það er í raun og veru sem kemur í veg fyrir að fólk láti drauma sína rætast og stofni fyrirtæki, hér eru helstu niðurstöður úr þeirri könnun.

Við fyrstu sýn virðast hindranirnar vera nokkuð fjölbreyttar en þegar betur er skoðað má sjá að þær snúast allar um ótta og skort á réttu “auðlindunum”. Það er mín persónulega skoðun að stærsta hindrunin sem allir óreyndir frumkvöðlar standi frammi fyrir í þessum ferli sé andleg hindrun, óttinn við það óþekkta og óttinn við að mistakast en þegar maður kemst yfir þann ótta fer maður að finna ótrúlegustu lausnir á því sem maður áður taldi vera óyfirstíganlega hindrun.

Númer 5: Skortur á tíma
Númer fimm á listanum var tímaleysi, en það að stofna fyrirtæki er langhlaup, ekki sprettur. Oft þarf að byrja í litlum skrefum og þá er mögulega nóg að vinna við það á kvöldin eða um helgar. Ef löngunin er nógu mikil, þá muntu finna tíma og rétt tímabil til þess að fara af stað. Það þarf mögulega að forgangsraða tímanum en allir ættu að geta fundið tíma til að hefja undirbúnings vinnu og mjakast þannig hægt en örugglega að markmiði sínu.

Numer 4: Ótti um að mistakast
Fjórða algengasta afsökunin er ótti við að mistakast. Það er heilbrigt hugarfar að hugsa gagnrýnt en hinsvegar þarf að velta því fyrir sér hvað það er nákvæmlega við það að mistakast sem þið óttist. Er það hvað öðrum gæti fundist um ykkur? Er það hvaða afleiðingu þetta gæti haft fyrir daglegt líf? Eða mögulegar afleiðingar á tekjur heimilisins? Þið þurfið að skilgreina hvað það er sem þið óttist mest, því ótti getur verið jákvæður ef hann er nýttur rétt. Það er holt fyrir alla að mistakast af og til í lífinu, allt það sem er þess virði að gera krefst mikillar vinnu og þar aukast líkurnar á því að manni mistakist. Af mistökum má yfirleitt draga mikinn lærdóm og það hjálpar manni að meta framhaldið, mistök eru partur af því að vera lifandi og lifa lífinu. Fólk metur mann frekar af því að reyna að elta drauma sína í stað þess að dæma mann fyrir að mistakast.

Númer 3: Óvissa með næsta skref
Þriðja algengasta ástæðan fyrir því að fólk fer ekki í fyrirtækjarekstur er óvissa um næstu skref. Staðreyndin er sú að það er auðveldara nú en nokkru sinni fyrr að afla sér upplýsinga og fólk ætti ekki að vera í neinum vandræðum með að átta sig á næsta skrefi. Hvað eruð þið nákvæmlega óviss með varðandi næsta skref, er það tæknilegs eðlis, er það rekstrarlegs eðlis eða jafnvel einhver skriffinska sem þið bara fáið ykkur ekki til þess að tækla? Skrifið það niður og finnið lausnina á netinu, með því að virkja tengslanetið ykkar eða leita sér aðstoðar sérfræðings (bókhaldara, lögfræðings, eftir því hvað malið varðar). Óvissa er partur af leiknum, frumkvöðlar starfa í frumskógi og þurfa oft að staldra við, finna lausn og halda áfram.

Númer 2: Erfitt að taka skrefið úr öruggu starfi í eigin rekstur
Næst algengasta hindrunin er svo áhættan við það að fara úr öruggu starfi yfir í eigin rekstur. Það er eðlilegt enda er þetta mjög stórt skref. Lausnin að þessu er að hólfa ferilinn niður. Vinna smám saman að því að komast hægt og rólega úr einu í annað.

Númer 1: Skortur á fjármagni
Algengasta hindrunin er skortur á fjármagni. Þetta er afsökun sem heyrist allstaðar í umhverfi frumkvöðla, en staðreyndin er sú að það þarf ekki mikið fjármagn til að fara af stað. Það að vera frumkvöðull er ekki bara að setja upp excel skjal með viðskiptaáætlun og afkomuspá næstu ára. Það að vera frumkvöðull er að koma sér af stað með litlum tilkostnaði með hugmynd sem svo vex og dafnar í það sem þú vilt að hún verði, en það tekur tíma. Þú þarft að finna lausnir óháð því hvaða takmörkunum þú ert háð/ur, hugsa út fyrir kassann. Besta leiðin til að fjármagna fyrirtæki er að byrja strax á því að selja vöruna eða þjónustuna sem fyrirtækið býður upp á. Það er hægt að gera með litlum tilkostnaði, jafnvel á netinu, þú þarft ekki skrifstofuhúsnæði, flotta heimasíðu, nafnspjöld eða sérhannað logo til að byrja.

Annað: Krafa um laun
Það skapaðist einnig umræða hjá hópnum samhliða þessari könnun um að ein stór hindrun fyrir þá sem vilja stofna fyrirtæki eru lögin um reiknað endurgjald. Það segir að sá/sú sem starfar við eigin atvinnurekstur eigi að reikna sér laun fyrir þá vinnu og greiða af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og iðngjald í lifeyrissjóð. Eins og gefur að skilja reynist flestum þetta nánast ógerlegt fyrstu mánuðina, enda oft engar haldbærar tekjur fyrstu misserin í fyrirtækjarekstri.  Það virðist þó vera svo að hjá RSK sé ekki tekið mjög hart á brotum á þessum reglum og ekki gerð athugasemd svo lengi sem starfsemin sé lítil og að það sé ekki verið að greiða út arð á sama tíma. Þannig komist fólk hjá því að greiða sér laun þar til að fyrirtækið er komið lengra á veg og geti staðið undir því fjárhagslega að borga út laun. En á móti kemur að vegna þess að löginn taka ekkert fram um slíkar undantekningar er þessi aðferð á gráu svæði og ekkert sem kemur í veg fyrir að RSK gæti sótt á þessa aðila.

Frumkvöðlaspjall
Fyrr á árinu setti ég inn á Frumkvöðlaspjallið myndband sem heitir ,,Algengum afsökunum tortímt”. Þar er farið yfir hvað það er sem helst stoppar fólk að fara af stað í fyrirtækjarekstur. Þar tók ég saman fimm algengustu afsakanirnar og tæklaði þær hverjar á fætur annari. Ef eitthvað af þessum hindrunum eru ennþá að stoppa þig þá geturðu séð myndbandið hér fyrir neðan. 

Hvað er svo í alvöru að stoppa þig?

Láttu verða af þvi að láta hugmyndina/drauminn verða að veruleika!

Ef þú þarft frekari upplýsingar þá mælum við með Námskeiði í stofnun fyrirtækja

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.