Í hnotskurn: Birgir Már Sigurðsson hjá Þoran

almennt rekstur Sep 16, 2014

Hvað heitir fyrirtækið?

Þoran Distillery ehf.

Hver er aðal varan?

Við framleiðum íslenskt einmalts-viskí ásamt því að þróa bragðbætt ‘white dog’ viskí, betur þekkt sem ‘moonshine’.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Undirritaður er stofnandi og eigandi fyrirtækisins, en með mér í för eru þau Bergþóra, sem er framkvæmdastjóri, og Jóhannes, sem er framleiðslustjóri.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Hugmyndin kviknaði í einni af mörgum ‘pílagrímsferðum’ mínum til Skotlands, þar sem ég var tíður gestur hjá hinum ýmsu viskíframleiðslum. Aðstæðurnar í Skotlandi og á Íslandi eru keimlíkar þegar litið er til náttúrunnar, veðurfars, gróðurs o.sfrv. Þar rann það upp fyrir mér að Ísland hefði í raun allt sem þyrfti til þess að framleiða fyrsta flokks viskí; byggrækt sem hefur verið að færast í aukana og nóg af fersku og hreinu vatni.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Fyrir forvitni sakir þá byrjaði ég að skrifa viðskiptaáætlun sem vatt svo upp á sig. Ekki leið á löngu þar til ég var farinn að hugsa um fátt annað en viskíframleiðslu. Auk þess langaði mig til að gera eitthvað annað en ég hafði verið að gera, sem var þetta hefðbundna 9-17 skrifstofustarf fyrir framan tölvu. Ég leit á þetta þannig að ég gæti annað hvort látið slag standa og séð hvert hugmyndin myndi leiða, eða gefast upp á þessu og halda mig innan þægindarammans. Ég valdi fyrri kostinn. Ef þetta fer allt til fjandans þá bara förum við yfir þá brú þegar við komum að henni. En þangað til ætla ég að halda áfram með þetta verkefni, einfaldlega vegna þess að það gerir mig hamingjusaman, og það sem gerir mann hamingjusaman er aldrei tímasóun.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Vorið 2013 var verkefnið okkar eitt af tíu sem komst inn í Startup Reykjavík. Þar keypti Arion Banki sig inn í fyrirtækið. Einnig höfum við unnið peningaverðlaun frá Landsbankanum og Matís ásamt því að fá styrk frá Tækniþróunarsjóði.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Við höfum sem betur fer ekki látið margt hindra framgang mála hjá fyrirtækinu, þó höfum við lent í erfiðleikum hér og þar og má þar helst nefna t.d. íslenskt lagaumhverfi sem snýr að áfengisframleiðslu. Álagningin er líka heilmikil, eða rétt rúmlega 3/4 af heildarkostnaði hverrar flösku. Auk þess höfum við ekki mikla reynslu af viskígerð hér á Íslandi þannig að það hefur reynst ákaflega krefjandi að læra nýja hluti. En blessunarlega njótum við stuðnings frá sérfræðingum í Skotlandi og í Kanada sem hafa verið að fylgjast með hverju skrefi hjá okkur.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Auðvitað vonumst við eftir að vera búin að auka framleiðslugetuna og vera komin inn á fleiri markaði. En þegar öllu er á botninn hvolft þá viljum við bara reka heilbrigt fyrirtæki sem býr til gott viskí. Stundum verður það gert með tapi og stundum með hagnaði, en alltaf skal það vera gott viskí.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Að græða bílfarma af peningum hefur aldrei verið sérstaklega framarlega í okkar forgangsröðun, en auðvitað viljum við að fyrirtækinu gangi vel, efli atvinnulífið, skilar hagnaði og gerir þau sem að verkefninu koma hamingjusöm. En ef okkur gengur það vel að við förum að sjá bílfarma af peningum rúlla inn í hlað, þá hlýtur það að þýða að okkur gangi bara nokkuð vel. Ætli ég fái mér ekki bara smá viskísopa til að fagna því.

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.