Friðbjörn Orri Ketilsson hjá Vefmiðlun ríður á vaðið.

 

Hvað heitir fyrirtækið?

Vefmiðlun ehf.

Hver er aðal varan?

Manor Legal sem er lögfræðileg málaskrá og Manor Collect sem er innheimtukerfi fyrir lögmenn.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Við erum lítill samhentur hópur sem stendur að Manor. Við skiptum rekstrinum í tvo þætti, annars vegar forritun og kerfisumsjón þar sem Arthúr Ólafsson stendur við stjórnvölinn, og hins vegar viðmótshönnun og þjónustu sem er á ábyrgð undirritaðs.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Margir af okkar bestu vinum eru lögmenn. Við sáum hjá þeim mikil tækifæri til þess að einfalda störfin, minnka handavinnu og auka verðmætasköpun í rekstrinum. Þeir vildu einbeita sér að lögfræðinni og hafa við höndina kerfi sem héldi utan um allt annað í rekstrinum. Við sáum í þessu gott tækifæri og úr varð Manor.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Þegar við höfðum grófmótað hugmyndina fórum við á nokkrar lögmannsstofur og bárum hana undir eigendur þeirra. Manor varð strax eftirsótt vara þó enginn kóði hefði enn verið skrifaður. Ég man sérstaklega eftir fyrsta fundi okkar með virtri stofu, þar sem rætt var um hvort Manor hentaði þeim, að þá teiknuðum við á A4 blað hvernig útfærslan gæti litið út og kæmi til með að virka. Eftir nokkur pennastrik með lögmönnunum var komin sniðug nálgun og þeir spurðu strax: Og hvenær getum við byrjað að nota þetta? Það var þá sem við ákváðum að stökkva á hugmyndina.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Félagið hefur ekki leitað til fjárfesta og hafa stofnendur félagsins (Friðbjörn og Arthúr) lagt félaginu til hlutafé. Engar skuldir hvíla á félaginu. Þetta er að sumra mati gamaldags nálgun en við erum þeirrar skoðunar að þannig sé félagið frjálst og geti brugðist samstundis við breytingum í umhverfi sínu. Við getum tekið stefnumótandi ákvarðanir að morgni dags og hafist handa við framkvæmd þeirra um hádegi. Það er verðmæt staða fyrir hugbúnaðarfyrirtæki.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Við sem stóðum að Manor í fyrstu höfðum bakgrunn úr hagfræði og verkfræði. Við þekktum ekki lögfræðina og urðum því að setja mikinn kraft í að koma okkur inn í viðfangsefnið. Við náðum okkur í kennslubækur og glærupakka frá lagadeildunum og lásum okkur til þegar upp komu sjónarmið um meðferð mála, ferla fyrir dómstólum o.þ.h. Þá lærðum við tungutakið jafnóðum og við tókum inn viðskiptavini. Þetta var mikil áskorun.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Ef allt fer að óskum höldum við stöðu okkar sem leiðandi hugbúnaðalausn fyrir lögmenn. Þeir lögmenn sem eru í viðskiptum við okkur í dag segja erfitt að sjá reksturinn fyrir sér án Manor. Við vonum að eftir fimm ár sé það almennt sjónarmið meðal lögmanna.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Við erum rétt að byrja á Manor vegferðinni. Leiðarkortið felur í sér þróun næstu árin og vinnum við það leiðarkort mjög náið með okkar viðskiptavinum. Ef allt í einu kæmu inn mikil viðskipti þá myndi það aðeins flýta fyrir þeirri vegferð. Við erum þeirrar skoðunar að arðbær rekstur sé það besta fyrir alla sem honum tengjast – viðskiptavinir fá hágæða vöru og þjónustu, starfsfólk fær starfsöryggi og góð kjör og eigendur ávaxta fjárfestingu sína.