Í hnotskurn: Friðrik Guðjónsson hjá Prentagram

fyrstu skrefin stofnun Sep 30, 2014

Hvað heitir fyrirtækið?

Prentagram

Hver er aðal varan?

Hágæða prentun á ljósmyndum, handsmíðaðir íslenskir rammar og allt sent beint heim til viðskiptavinarins.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Ég er stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins en í dag koma þrettán aðrir að daglegum rekstri félagsins. Við erum þó aðeins tvö í fullu starfi þar sem við úthýsum því sem hægt er að úthýsa.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Hugmyndin kviknaði út frá þörfinni sem ég fann hjá sjálfum mér til að framkalla myndir. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að taka ljósmyndir og fékk til dæmis viðurnefnið „Frikki ljósmyndari“ þegar ég stundaði nám í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík, því ég var alltaf með myndavélina á lofti. Ég fann að ég hafði aldrei almennileg tækifæri til að sýna myndirnar þótt þær færu að sjálfsögðu á netið. Hver hefur svosem gaman af því að setjast niður með félögunum og skoðar myndir á Dropbox?

Mig hefur alltaf dreymt um að stofna mitt eigið fyrirtæki og ég var ætíð opinn fyrir „hugmyndinni“ en hún lét ekki sjá sig. Það var svo eitt kvöldið að ljósaperan kviknaði… ég hafði þá sjö árum áður hengt ljósmyndaramma um alla íbúðina mína – en engar voru myndirnar til að setja í þá. Á þessum sjö árum gaf ég mér alveg nokkrum sinnum tíma í að setja myndir á minniskubba/geisladiska og skrifa stærðirnar á römmunum niður á blað bara til að týna þessu öllu aftur. Það að fara með miðann og kubbinn í Hans Petersen, koma svo aftur daginn eftir til að sækja myndirnar og fara með þær heim til að setja í rammana hefði bara ekki komist í framkvæmd.

Það var kominn tími á nútímalega lausn!

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Það var í raun ekki fyrr en ég var orðinn óþolandi leiður á vinnunni minni að ég ákvað að segja upp og láta vaða. Það vildi svo til að hugmyndin kom á svipuðum tíma. Fyrst eftir að ég tók stökkið var ég samt alltaf að leita að „alvöru vinnu“ (eins og foreldrar mínir kölluðu það) en komst mjög fljótt að því að annaðhvort væri ég með hugann við þetta verkefni eða ekki.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Frá mér sjálfum. Ég kláraði spariféð, seldi bílinn og lifði á kærustunni en er nú farinn að geta greitt mér smá laun. Fyrir vikið er fyrirtækið algjörlega skuldlaust og finnst mér það gríðarlega mikilvægt fyrir áframhaldandi vöxt.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Erfiðast fannst mér að trúa nægilega á sjálfan mig og því að hugmyndin væri góð. Óttinn við að klúðra þessu og setja allt í gjaldþrot var (og er enn) mikill – það hjálpaði mér þó þegar ég fór að líta á þetta sem „námsleyfi“ og að versta mögulega útkoman væri „lærdómsríkari ég“, vitandi hvað skal forðast næst. Það hefur líka hjálpað að þurfa ekki utanaðkomandi fjármögnun því þá myndi gjaldþrot skaða aðra en mig… svona ef út í það færi.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Það sem skiptir mig mestu máli er að þjónustan og vörurnar okkar séu alltaf fyrsta flokks. Ég hef oft fengið boð og „leiðbeiningar“ um að vera með vörur sem eru ódýrari í framleiðslu sem við gætum mögulega selt á sama verði. Það hefur mér aldrei þótt spennandi og trúi ég því að viðskiptavinir okkar vilji frekar gæðin og komi því aftur. Við högnumst vissulega ekkert sérstaklega mikið á hverri sölu en safnast þegar saman kemur. Nú rétt rúmlega ári eftir að Prentagram varð til höfum við fengið nærri 5.000 pantanir og eigum afskaplega dyggan og góðan viðskiptavinahóp.

Það væri draumur að eftir fimm ár væri þorri þjóðarinnar farinn að frelsa myndirnar sínar og taka bestu 10-20 myndirnar á hverjum mánuði, smella þeim inn á heimasíðuna okkar (eða appið þegar það kemur á næstu mánuðum) og við kæmum þeim svo silkifögrum heim til viðkomandi næsta virka dag. En ég tek fyrst og fremst einn dag í einu og fókusera á að fullnægja þörfum hvers viðskiptavinar.

Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært af því að gera viðskiptahugmynd þína að veruleika?

Hvað þetta er í rauninni einfalt – ef maður er heiðarlegur og með vöru/þjónustu sem fólk vill þá er þetta ekkert sérstaklega flókið. Það þýðir ekki að það sé hægt að gera þetta með hangandi hendi – þetta er svo sannarlega flóknasta og erfiðasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur en vá hvað þetta er þess virði. Gleðin sem við fáum frá viðsktipavinum okkar er ómetanleg og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að viðhalda henni.

Hvaða ráð myndir þú gefa ungum frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref?

Það er að mínu mati mikilvægast að halda fókus og taka einn dag í einu… og ef sá dagur er slæmur þá kemur nýr dagur strax á eftir. Skipulag og skýr framtíðarsýn er að sjálfsögðu mikilvæg en það að skipuleggja hvert skref er ógerningur og algjör tímaeyðsla. Við félagarnir gengum eitt sumarið frá Reykjanestá þvert yfir Ísland á Langanes. 21 dagar og 650 km og við hefðu eiginlega ekkert verið á fjöllum áður. Við hefðum auðveldlega geta eytt mörgum mánuðum í að undirbúa okkur og skipuleggja hverja klukkustund en þess í stað settum við endamarkið (og nokkra fjallaskála) inn í GPS tækið og héldum af stað. Vissulega endaði þetta með því að á 19 degi þurfti að fljúga með mig  í bæinn með sýkingu sem hefði hæglega geta kostað mig fót en félagar mínir komust á leiðarenda og ferðalagið var eitt það besta sem ég hef farið í.

Talið er að það taki 2-3 ár að byggja upp traust á nýju fyrirtæki, nýrri hugmynd eða vöru. Hvernig er hægt að byggja upp slíkt traust ef stöðugt er verið að skipta um logo eða vöru? Skýr fókus á endamarkið er að mínu mati besti undirbúningurinn fyrir þá geggjuðu ferð sem það er að stofna sitt eigið fyrirtæki.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Ég hef afskaplega gaman af frumkvöðlastarfinu og tel mig geta gert þar gagn. Ég hef því mikinn áhuga á að kenna og leiðbeina öðrum en gulrótin mín er engu að síður fjárhagslegt sjálfstæði, ferðalög og afslöppun.

Ég er mjög latur að eðlisfari (þótt ég nái stundum að fela það) og vil lifa lífinu lifandi. Ég var til að mynda verðbréfamiðlari fyrir og í hruninu, ók um á fínum bíl, átti fullt af DVD myndum og borðaði aðeins of mikið, en þegar ég loks losnaði úr þessari vitleysu keypti ég flugmiða aðra leiðina til Hawaii. Þar kláraði ég viðbótarlífeyrissparnaðinn minn og fékk vinnu við að kenna á brimbretti þrátt fyrir að hafa aðeins séð brimbretti í sjónvarpinu áður. Hugsunin um að verða aftur áhyggjulaus, skuldlaus og umlukinn vinum, veiða fiska með spjóti og grilla þá á varðeldinum á ströndinni er það sem heldur mér gangandi… það væri ekkert verra að halla sér svo í snekkjunni og geta skotist heim til Íslands á einkaþotunni.

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.