Í hnotskurn: Jón Bragi Gíslason hjá Ghost Lamp

almennt stofnun Sep 23, 2014

Hvað heitir fyrirtækið?

Ghost Lamp ehf.

Hver er aðal varan?

Við bjóðum í raun uppá nýstárlegan vettvang sem tengir saman fyrirtæki og birtingaraðila s.s. bloggara, í gagnsæju og traustu umhverfi. Fyrirtæki geta óskað eftir fyrirfram skilgreindri umfjöllun á ákveðinni vöru, þjónustu eða ímynd fyrirtækisins. Þessi þjónusta nýtist fyrirtækjum við prófanir á viðbrögðum markhópa við nýjum vörum, þjónustum og t.d. vörumerkjahönnun, eða til þess að styðja við aðrar markaðsaðgerðir. Fyrirtæki fá því betri stjórn yfir útbreiðslu markaðsefnis og geta þau fylgst með útbreiðslu þess ásamt því að skilja betur viðbrögð markhópa í gegnum mælaborð okkar.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Teymið samanstendur af Jóhanni Geir Rafnssyni tæknistjóra, Guðmundi Páli Líndal lögfræðingi, Snorra H. Guðmundssyni markaðsstjóra og sjálfum mér framkvæmdastjóra en við leggjum okkur mjög mikið fram í að miðla þeirri reynslu og þekkingu sem við höfum á okkar sviði til hvors annars og því leiðum við reksturinn í mikilli sameiningu.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Ég tók þátt í Gullegginu sem er viðskiptaáætlunarkeppni fyrir fólk með hugmyndir og fyrirtæki á frumstigi, þar fór ég inn með eina hugmynd en endaði svo á því að framkvæma þá þriðju (Ghost Lamp), allt á meðan keppninni stóð, en hugmyndin kviknaði eftir að ég hafnaði fyrstu tveimur. Það getur verið mjög skapandi tími þegar maður gefur eina hugmynd upp á bátinn því þá þarf maður oftast að finna aðra enn betri.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Ég er ungur og hef engu að tapa, ég átti tvo mánuði eftir í stúdentinn og ef ég horfði fram í tímann sá ég fram á fimm ára háskólanám og himinháar skuldir fyrir menntun sem hefði kannski gefið mér einhverja illa borgaða vinnu sem ég fengi leið á. Svo gerðist það er ég fékk hugmyndina að Ghost Lamp að ég fékk óbilandi trú á henni og hef enn.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Fjármögnunin kemur alfarið úr okkar eigin vasa en við erum mjög duglegir að bjarga okkur sjálfir.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Það eru margar erfiðar hindranir og eru þær allar mismunandi eftir því úr hvaða umhverfi maður kemur. Mjög erfitt er að sannfæra vini, maka og ættingja að þú sért að gera það rétta en það erfiðasta myndi ég segja vera það að komast yfir hræðsluna að gera mistök. Ég get sagt fyrir mína hönd að ég hef gert mistök og mun halda því áfram þar til ég læri að laga þau, en það er allt partur af lærdómnum.

 Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Eftir fimm ár vill ég að Ghost Lamp verði orðinn leiðandi vettvangur fyrirtækja og birtingaraðila á heimsmælikvarða í dreifingu efnis sem á við og hefur virði fyrir markhópa fyritækja.

Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært af því að gera viðskiptahugmynd þína að veruleika?

Að hugmynd er bara fræ sem á eftir að vaxa, þroskast og breytast því meira sem þú vinnur að henni. Hún markar upphaf mjög lærdómsríks ferlis sem krefst mikils vilja styrks, mikillar þrjósku og þrautseigju.

Hvaða ráð myndir þú gefa ungum frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref?

Leitaðu inná við, finndu eitthvað sem þú hefur gríðarlega mikla ástríðu fyrir og þegar þú hefur fundið það deildu því þá með eins mörgum og þú getur! Fáðu svo fólk með þér í framkvæmdina sá sem getur það hefur meðbyr.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig að gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Það sem hefur alltaf verið okkur fremst í huga er að skapa eitthvað sem fólk vill nota og gerir líf þeirra auðveldara. Ég er hlynntur þeirri hugsun að góðir leiðtogar borði síðast og því myndi ég segja að þegar fyrstu bílfarmar af peningum fara að koma inn þá færu þeir fyrst og fremst í teymið og uppbyggingu fyrirtækisins.

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.