Ímyndaðu þér (ef það er ekki nú þegar staðreynd) að þú hafir ekki mikla reynslu af fjallgöngu, hafir kannski mesta lagi gengið upp á Esjuna en lítið annað en það. Svo einn daginn þegar þú ert að keyra um einhvern sveitaveg í fjarlægju landi kemurðu að risastóru fjalli með bratta klettaveggi og þakið í snjó, og þú segjir við sjálfan þig “Þetta er fallegt fjall, ég ætla að klífa það!”. Þrátt fyrir að öll almenn skynsemi segji þér að þú hafir enga reynslu né getu til að klífa slíkt fjall þá tekur þú staðfasta ákvörðun.

Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að ef þú myndir óundirbúinn reyna að klífa fjallið myndi líklega fara illa fyrir þér. Þú þarft fyrst að afla þér upplýsinga um fjallið, útvega rétta búnaðinn, æfa þig á minni fjöllum, fá leiðbeiningar frá reyndari fjallgöngumönnum, lesa bækur um það, kannski fara á námskeið og sitthvað fleira til að tryggja það að þú farir þér ekki að voða. En þegar það allt er komið er í raun ekkert sem kemur í veg fyrir það að þú gætir náð markmiði þínu.

Nákvæmlega það sama á við um frumkvöðlaferilinn, hann er alveg eins og að klífa risa stórt og ókunnugt fjall. Ef þú hlustar á skynsemina þá segjir hún þér að þú hafir enga reynslu af því að stofna fyrirtæki, að þú hafir enga þekkingu á því og að þú munir líklega enda sem gjaldþrota aumingi. Þú þarft að horfa fram hjá þeirri “skynsemi” sem samfélagið er búið að kenna þér og taka staðfasta ákvörðun. Ákvörðunin er alltaf fyrsta skrefið í áttina að því að klífa öll fjöll, svo tekur við undirbúningurinn, fyrr en varir ertu orðin hæfur til að takast á við verkefnið, “skynsemin” þagnar og þú klífur fjallið.

Það magnaða við það að fara út í fyrirtækjarekstur er það að þú þarft stöðugt að takast á við ný fjöll sem búa yfir nýjum hættum og erfiðleikum sem þú þarft að finna lausn á. Þegar þú stofnar fyrst fyrirtækið þarftu að finna út úr öllum lagalegu hlutunum við það að stofna fyrirtæki og horfast í augu við “skynsemina” sem segir þér að þetta fari illa. Svo þarftu að fara út fyrir þægindasvæðið þegar þú yfirgefur öruggu vinnuna þína og ferð að vinna að fullu að fyrirtækinu nýja. Svo þarftu að vaxa og gera stórar fjárfestingar, opna dótturfyrirtæki erlendis, reyna selja stórum fyrirtækjasamsteypum vöru þína, veðsetja fasteignina til að fyrirtækið geti vaxið og svo koll af kolli. Og hver einasta staðfasta ákvörðun sem þú tekur um að halda áfram felur í sér að þú þurfir að klífa nýtt fjall og eins og alltaf þegar maður stendur við fjallsræturnar virðist það vera ókljúfanlegt en ef þú leitar hjálpar frá þeim sem hafa meiri reynslu, aflar þér upplýsinga og undirbýrð ferðina vel þá muntu ná að klífa það fjall.

Það fara bráðum að vera komin 10 ár frá því ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki en ég er samt reglulega að klífa ný fjöll og það er alltaf jafn erfitt þegar maður stendur við fjalsræturnar en á sama tíma alltaf jafn gefandi þegar maður kemst á toppinn. Fyrir nokkrum mánuðum síðan fólst fjallið mitt í því verkefni að stofna mitt fyrsta fyrirtæki í erlendu landi og ég stóð við fjalsræturnar, horfði upp og fannst þetta vera ómögulegt verk, ég hafði enga reynslu og vissi ekkert hvernig ég ætti að fara að. En þegar ég loksins tók staðfasta ákvörðun um að gera það þá leitaði ég mér ráðleggingar hjá reyndari aðilum, fékk aðstoð og upplýsingar og lét verða af því. Nú stend ég fyrir framan nýtt fjall sem ég er kvíðinn en afar spenntur fyrir að klífa.

Ekki láta fjallið vinna, skiptu verkefninu niður í minni hluta og sigrastu á hverjum hluta fyrir sig og þá er ekkerf fjall of stórt til að klífa.

Klífðu fjöll!!!