Newsjacking

markaðsmál Mar 10, 2012

Ég ætla að byrja þessa færslu á því að efna til samkeppni um bestu þýðinguna á enska orðinu “newsjacking”. Ef þú hefur ekki heyrt þetta orð áður þá er ekki seinna vænna en að þú lesir færsluna!

Ég kýs að nota orðið “fréttastuldur”, þangað til einhver kemur með eitthvað betra. Fréttastuldur hefur verið til lengi og tíðkast í öllum brönsum í heiminum. Orðið kemur samt frá David Meerman Scott, manni sem ég hef skrifað um áður. Hann hefur notað það í mikið af sínum skrifum, bæði í bókum og á blogginu sínu. Nú síðast í nóvember gaf hann út stutta rafbók sem hægt er að kaupa fyrir Kindle.

Fréttastuldur er í raun mjög einfaldur í framkvæmd. Nýttu þér fréttir til að koma sjálfum þér og/eða vörum þínum á framfæri. Þetta gengur út á að finna sjónarhorn á fréttum þar sem þú getur troðið inn á snjallan hátt og þannig “stelur” þú augnablikinu. Þetta frábær leið til fyrir fólk og fyrirtæki sem hefur lítið auglýsingabudget og vantar einhverja umfjöllun.

En hvernig nærðu þessu? Það er hægt að gera þetta klassíska, hringja í fréttamenn eða senda þeim tölvupóst og vona að þeir fjalli um þig í kjölfarið. En auðveldasta leiðin er auðvitað að nota hina svokölluðu samfélagsmiðla. Ef þú eða fyrirtæki þitt ert með blogg, Facebook síðu, Twitter aðgang eða eitthvað slíkt, þá er mjög auðvelt fyrir þig að smella þér inn í umræðuna, án mikillar áreynslu. Best er að nýta þessa miðla alla saman.

Eigum við að taka nokkur dæmi?

Fyrirtækið Eloqua sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir markaðsfyrirtæki sem samhæfir vefmælingar, tölvupóstsendingar og aðrar aðgerðir á vefnum. Forstjórinn, Joe Payne (svalt nafn), varð þess áskynja að Oracle var að ganga frá kaupum á aðal samkeppnisaðilanum, Market2Lead. Það hefði verið auðvelt fyrir Joe Payne að kalla inn allt starfsfólkið á krísufund og haft áhyggjur af nýjum risa á markaðnum. Í staðinn settist hann niður, skrifaði bloggfærslu þar sem hann bauð Oracle velkomið og sagði það ánægjulegt fyrir þennan bransa að risarnir á hugbúnaðarmarkaðnum væru farnir að horfa í þennan markað.

Þessi eina bloggfærsla skilaði sér í umfjöllun í Business Week, InfoWorld, PC World og fleiri og fleiri. Á næstu vikum sprungu allir sölukanalar upp út af allri athyglinni og í kjölfarið var skrifað undir $500.000 samning við Red Hat. Payne hefur sagt að þessi litla bloggfærsla hafi fært fyrirtækinu um MILLJÓN dollara í tekjur.

Man einhver eftir stóra saltmálinu hér um daginn?

Ég sá frábært dæmi um fréttastuld þegar stóra saltmálið komst í hámæli. Þannig var mál með vexti að Ölgerðin hafði verið að selja fólki iðnaðarsalt sem var svo notað í matargerð. Þetta var rosalega hávært og leiðinlegt mál, sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Þegar listi yfir þá viðskiptavini sem keypt höfðu saltið komst í fjölmiðla fór allt í háa loft, enda voru þar á meðal nokkrir af stærstu matvælaframleiðendum landsins.

Daginn eftir að listinn var gerður opinber sendi fyrirtækið Eðalfiskur frá sér fréttatilkynningu, en Eðalfiskur var á listanum. Þar segir að fyrirtækið fordæmi vinnubrögð Heilbrigðiseftirlitsins þar sem gefið er í skyn að Eðalfiskur hafi notað iðnaðarsaltið til matvælaframleiðslu. Það sé rétt að Eðalfiskur keypti bretti af umræddu salti, en þegar fólk sá að það var merkt sem iðnaðarsalt var því dreift á útiplön fyrirtækisins, ekki notað í framleiðslu. Þetta fór eins og eldur í sinu um netheima, Eyjan, Visir.is, MBL.is og sjónvarpsfréttirnar tóku þetta fyrir og fyrir vikið fékk Eðalfiskur ókeypis umfjöllun sem sýndi að þar væri gæðaeftirlitið í lagi.

Þó að fréttastuldur sé mjög skemmtileg og árangursrík leið til að fá umfjöllun um fyrirtækið þitt þá er hann mjög vandmeðfarinn og getur auðveldlega sprungið í höndunum á þér.

Besta dæmið um illa heppnaðan fréttastuld er þegar tískufyrirtækið Kenneth Cole reyndi að nýta sér mótmælaöldu í Egyptalandi til að vekja athygli á útsölunni hjá sér með því að setja inn tvít merkt #Cairo.

Í stað þess að bera tilætlaðan árangur og vekja athygli á útsölunni fóru að streyma inn blogg, tvít og tölvupóstar þar sem fyrirtækið var skammað og látið heyra það. Á endanum var færslan fjarlægð og fyrirtækið baðst afsökunar.

Hvað getur þú gert?

Vertu vakandi fyrir öllum þeim fréttum sem snerta þig, þinn markað og þína samkeppnisaðila. Ef tækifærið gefst skaltu stökkva til og sjá hvernig þú getur nýtt þér það. Skrifaðu frétt á heimasíðu eða blogg fyrirtækisins og deildu henni svo á Twitter og Facebook síður fyrirtækisins og þína eigin. Ef efnið er nógu djúsí þá mun það verða gripið á lofti og tekið áfram.

Ég mæli líka með bókinni Newsjacking. Hún er stutt og þú kemst í gegn um hana á ca. klukkutíma. Eins kostar hún sáralítið og er vel peninganna virði. Ef þú lest hana og finnst hún áhugaverð mæli ég með fleira efni eftir sama höfund. David Meerman Scott er virtur markaðsgúru með mikla reynslu úr bransanum. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér og mun sennilega mæta oftar hingað inn í hugrenningarnar.

Endilega skjótið á mig fleiri dæmum um fréttastuld í athugasemdum!

 

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.