Nýsköpun og stofnun fyrirtækja í HR

fyrstu skrefin May 19, 2013

Í síðustu viku lauk áfanganum Nýsköpun og stofnun fyrirtækja sem er 3 vikna kúrs í Háskólanum í Reykjavík þar sem nemendur úr hinum ýmsu deildum koma saman til að vinna að viðskiptahugmynd. Nemendurnir hafa sjálfir fullt vald yfir hvaða hugmynd þeir vinna með og markmið áfangans er að hóparnir komist eins langt með það og þeir geti í að gera verkefnið að raunverulegu fyrirtæki. Til þess að ná því markmiði þurfa þeir að þróa hugmyndina áfram, greina markhóp, skilgreina hindranir á leiðinni og búa til aðgerðaráætlun. Persónulega finnst mér Háskólinn í Reykjavík, Innovit og allir þeir sem standa að þessum áfanga eiga heiður skilið þar sem þetta opnar huga nemenda gagnvart nýjum valmöguleika í lífinu þ.e.a.s. að verða sjálfstætt starfandi að loknu námi.

Ég var beðin um að koma sem mentor fyrir hópana og er þetta annað ár mitt í röð sem ég mentora í þessum kúrs. Ég er afar þakklátur fyrir þann heiður að fá að taka þátt í þessum kúrs og tala við þetta unga og orkumikla fólk sem mun í framtíðinni breyta heiminum sem við lifum í. Það er áhugavert að spjalla við alla þessa aðila sem eru að taka sín fyrstu skref í sjálfstæðum rekstri og átta sig á að þau eru að kljást við alveg sömu vandamálin og ég fór í gegnum þegar ég var að taka mín fyrstu skref. Helst myndi ég vilja sjá alla 57 hópana reyna að láta hugmyndir sínar verða að veruleika í framhaldi af kúrsinum en staðreyndin er þó sú að fáir ef nokkur af hópunum munu vinna áfram með hugmyndir sínar. Á móti kemur að þessir aðilar eru þó líklegri til að stofna eigið fyrirtæki í framtíðinni þar sem þeir hafa í þessum kúrs aðeins kynnst því sem þarf til að starfa sjálfstætt.

Það eru fjórir eiginleikar sem ég leita alltaf að þegar ég velti fyrir mér hversu líklegt það er að viðskiptahugmyndir nái árangri og það merkilega er að engin af þessum eiginleikum tengist í raun vörunni heldur miklu frekar hópnum/stofnendunum. Þessir eiginleikar eru:

1. Óbilandi trú á hugmyndinni:
Hópurinn/stofnandinn verður að hafa óbilandi trú á því að hugmyndin geti orðið að veruleika og að hún geti breytt heiminum. Hópar sem hafa slíka trú á hugmyndinni eru yfirleitt með smitandi áhuga og þegar þeir tala um hugmyndina getur maður ekki annað en látið ímyndunaraflið fljúga með þeim til framtíðarinnar þar sem hugmyndin er orðin að veruleika.

2. Óbilandi trú á sjálfum sér.
Munurinn á þeim sem framkvæma og þeim sem framkvæma ekki felst ekki í umhverfi þeirra, menntun, fortíð, aðgengi að fjármagni, hæfileikum né nokkru öðru en því hvort viðkomandi hafi trú á sjálfum sér eða ekki. Ef stofnandinn/hópurinn hefur trú á því að þeir séu rétti aðilinn til að framkvæma hugmyndina og að þeir geti gert það þá eru þeir mun líklegri til að framkvæma. Ég veðja alltaf á þá sem eru tilbúnir að framkvæma.

3. Þrjóska:
Fyrstu árin í rekstri geta verið fáranlega erfið og oft þurfa stofnendurnir að vera tilbúnir að vinna ókristilega tíma, taka á sig mjög mikla ábyrgð, lifa langt undir fátæktamörkum og fórna hinum ýmsu hlutum til að rækta fyrirtækið. Þetta er ekki auðvelt og því er það góður eiginleiki að vera nógu þrjóskur til að halda alltaf áfram þótt svo engin annar í kringum mann hafi trú á hugmyndinni. Þeir sem ná árangri eru þrjóskir og sætta sig ekki við annað en að láta hugmynd sína verða að veruleika alveg sama hversu langan tíma það mun taka.

4. Vera tilbúin að leggja allt undir: 
Ef stofnendurnir eru ekki tilbúnir að setja eigin pening í viðskiptahugmyndina þá mun engin fjárfestir nokkurn tímann vilja setja pening í hana. Það er líka engin að fara henda í þig pening til að láta drauminn þinn verða að veruleika, þú þarft sjálf/sjálfur að láta hana verða að veruleika og leggja allt sem þú átt undir. Þeir sem eru tilbúnir að leggja allt undir eru með persónulega skuldbindingu í hugmyndinni og þeir munu ekki gefast upp fyrr en þeir hafa reynt allt sem þeir geta til að halda hugmyndinni gangandi.

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.