Samræður við sjálfan mig fyrir 10 árum.

almennt Jul 07, 2012

Ég var að enda við að horfa á myndband sem ég rakst á inn á visir.is sem bar titillinn “Ræðir við sjálfan sig fyrir 20 árum“. Í þessu myndbandi hefur kvikmyndagerðamaðurinn klippt saman myndband af sjálfum sér frá því hann ver 12 ára gamall og af sjálfum sér í dag 32 ára gömlum. Myndbandið er nokkuð skondið og áhugavert og einhvern veginn kemst maður ekki hjá því að hugsa um hversu skemmtilegt það væri að eiga samræður við sjálfan sig þegar maður var yngri.

Eins og með allt annað í lífinu þessa dagana tengdi ég þetta við fyrirtækjarekstur og frumkvöðlastarf. Út frá því fór ég að hugsa um hversu áhugavert það væri að eiga samræður við sjálfan mig fyrir 10 árum síðan þegar ég var að byrja í fyrstu tilraunum mínum í viðskiptum. Einhvern veginn myndi maður halda að það væri nú nokkuð augljóst hvað maður myndi segja við sjálfan sig enda er maður búinn að bæta á sig heilum 10 árum af reynslu, upplifunum og þekkingu, en þegar ég byrjaði að hugsa þá komst ég að því að svo var ekki.

Eitt af því mikilvægasta sem ég hef lært á þessum 10 ára ferli er hreinlega ekki hægt að koma í orð og mætti best lýsa sem tilfinningu fyrir viðskiptum. Eftir öll þau fyrirtæki sem ég hef rekið og allt það brask sem ég hef reynt þá á ég auðveldara með að skynja hvaða viðskiptatækifæri eru hagkvæm og hver eru það ekki. Ég get séð tækifæri þar sem aðrir sjá ekkert nema gjaldþrot útaf því að ég hef reynsluna og veit að ef maður myndi bara gera þetta og þetta öðruvísi þá gæti þetta skilað hagnaði. Ég veit ekki hvernig ég gæti hugsanlega kennt sjálfum mér fyrir 10 árum þetta án þess að fortíðar ég þyrfti bókstaflega bara að ganga í gegnum þetta allt aftur.

En nokkur atriði sem ég gat talið upp sem ég myndi segja við sjálfan mig í fortíðinni:

1. Vertu alltaf heiðarlegur í viðskiptum.

Það er mjög mikilvægt að vera heiðarlegur í öllum viðskiptum og í raun í öllum samskiptum og reyna alltaf að tryggja það að allir þeir sem þú átt viðskipti við gangi frá þeim sáttir. Það dregur úr þér mikla orku að vera í eigin rekstri og mér hefur alltaf fundist það vega upp á móti löngum vinnudögum og miklu stressi að allir þeir sem ég á viðskipti við treysti mér og ég geti treyst þeim. Þetta er líka lítill heimur og það nær engin árangri til lengdar sem er óheiðarlegur í viðskiptum.

 

2. Fólk skiptir meira máli en hagnaður.

Hver þú átt viðskipti við skiptir meira máli heldur en hagnaðurinn af viðskiptunum. Ég hef í gegnum tíðina átt viðskipti við ótal marga einstaklinga og ég hef komist að því að ef ég treysti viðkomandi ekki á einhvern hátt eða er með einhverskonar óþægilega tilfinningu við að eiga viðskipti við einhvern þá borgar það sig yfirleitt að sleppa viðskiptunum. Sem dæmi um slæm viðskipti sem ég hef lent í þá t.d. lenti ég í því að skrifa undir sölusamning við kaupenda sem svo aldrei greiddi alla upphæðina og útaf lagalegum flækjum fékk ég aldrei alla þá upphæð sem mér var lofað. Þetta var mjög há upphæð og ég kom út úr þessum viðskiptum í gríðarlega tapi. Einnig hef ég leigt út fasteignir til einstaklinga sem bókstaflega rústuðu þeim og kostuðu mig hundruði þúsunda án þess að ég ætti nokkurn möguleika að fá peninginn til baka. Slík viðskipti geta bókstaflega ýtt manni út í kvíða og stress auk alls fjárhagslega kostnaðarins. Þannig veljið ekki bara samstarfsaðila vel heldur birgja og viðskiptavini líka.

 

3. Haltu áfram!

Þrautsegja skiptir öllu máli í því að reyna koma nýjum rekstri af stað enda er ekkert auðvelt við slíkan feril. Ef þú ætlar virkilega að stofna fyrirtæki og ná langt þá verðurðu bara að halda áfram sama hversu erfitt það er. Flestir frumkvöðlar sem ég þekki hafa þurft að ganga í gegnum mjög erfið tímabil og hafa á einhverjum tímapunkti hugsað með sér að það væri nú bara sniðugra að hætta þessu rugli og fá sér venjulega vinnu. Þetta er erfitt en ef þú vilt þetta virkilega, haltu þá áfram.

 

4. Þekking, lærdómur og reynsla!

Vertu stöðugt opin fyrir nýjum reynslum og hættu aldrei að læra nýja hluti. Ef þú ert að vinna á einhverju sviði reyndu þá að lesa þér til um það og sjá hvernig þeir sem hafa náð árangri gerðu það. Farðu á námskeið, ráðstefnur, horfðu á youtube myndbönd, downloadaðu heimildarmyndum, lestu bækur, lestu bækur og lestu bækur. Það er ótrúlega mikið að fróðleik þarna úti og ef þú veist hvert þú stefnir þá geturðu allt en þú verður sífellt að vera vinna í því að læra meira og prufa meira. Ef þú færð tækifæri til að prufa eitthvað spennandi sem gæti kannski hjálpað þér á einhverjum tímapunkti í lífinu stökktu þá á tækifærið. Hættan er sú að þegar þú byrjir að vinna í þínu fyrirtæki þá hafirðu ekki lengur tíma til að læra og þá byrjar fyrirtækið að staðna og á endanum byrjar það að hnigna. Haltu ávallt áfram að læra og prufa nýja hluti.

 

Mikilvægasta uppgötvunin hjá mér sjálfum við að hugsa um þessar samræður við fortíðina er líklega sú að allt það sem ég hef gengið í gegnum súrt og sárt hefur gert mig að öflugri frumkvöðli sem á auðveldara með að láta hluti skila árangri í framtíðinni. Þannig að þótt svo að þetta hafi vægast sagt verið erfiður og kvíðafullur ferill þá myndi ég ekki vilja skipta honum fyrir neitt því ég hef hlotið svo mikla reynslu og þekkingu sem ég hefði annars aldrei getað öðlast.

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.