The New Rules of PR and Marketing

almennt Jan 10, 2012

Ég náði loksins að klára bókina The New Rules of PR and Marketing eftir David Meerman Scott í síðustu viku. Ég er búinn að vera að lesa hana síðan í haust en náði aldrei neitt áfram vegna anna. Þannig ég tók mig til yfir hátíðirnar og kláraði kvikyndið. Þetta er frábær bók fyrir þá sem vilja auglýsa sig á internetinu, sérstaklega ef þeir eru nýir inn á þann markað.

David Meerman Scott hefur áratugareynslu úr markaðsheimum. Hann hefur verið markaðsstjóri í stórum B2B fyrirtækjum, unnið sem verðbréfamiðlari en hefur núna síðustu ár unnið fyrir sér sem rithöfundur og fyrirlesari út um allan heim.

Í bókinni tekst Scott á við það sem hann kallar hefðbundna markaðssetningu og ber hana saman við nýju reglurnar sem gilda. Hann talar um mikilvægi þess að vera sýnilegur á netinu og gera það rétt. Til dæmis bara með því að hafa allar fréttatilkynningar þannig upp settar að leitarvélar eigi auðvelt með að finna þær. Annað einfalt dæmi er að vakta umræðu á samfélagsmiðlum og geta þannig brugðist við neikvæðri umfjöllun.

Hefðbundin markaðssetning er auglýsingagerð fyrir sjónvarp, dagblöð, útvarp og slíka miðla. Á meðan hún er ennþá gríðarlega mikilvæg í markaðsstarfi fyrirtækja þá er netið alltaf að koma meira og meira inn, þetta þarf ekki að segja neinum. Gallinn er bara að þeir sem eru vanir þessum hefðbundnu miðlum reyna oft að heimfæra sömu reglur yfir á internetið. Það á því miður ekki við, þar sem eðli miðilsins er bara allt annað. Þannig eru bestu markaðsherferðirnar þær sem samnýta nýmiðla og samfélagsmiðla.

Hér eru nokkur dæmi um netmarkaðssetningu upp úr bókinni sem fyrirtæki og markaðsfólk ættu að íhuga betur:

Blogg

Blogg er alltaf að verða vinsælla meðal fyrirtækja. Þar er hægt að segja frá því sem er að gerast í fyrirtækinu, útskýra vöru, auglýsa, eða segja frá. Þó verð ég að segja að mér finnst skrítið hversu lítið er um íslenskar fyrirtækjabloggsíður. Það eru helst fjarskiptafyrirtækin og sprotafyrirtæki sem eru að blogga. Ég væri til dæmis til í að sjá bílablogg frá Heklu, bjórblogg frá Ölgerðinni, eða orkublogg frá Landsvirkjun. Þá finnst mér fáránlegt hversu fáar auglýsingastofur eru að blogga. Eftir því sem ég veit er Jónson & Le’macks eina stofan.

Blogg er frábær miðill til að vinna traffík inn á síðuna hjá þér, enda ertu að vinna þér inn prik hjá Google með því að uppfæra síðuna stöðugt, og kemur þannig ofar í leitarvélaniðurstöðum. Eins er blogg mjög þægileg leið til að sýna hvað er að gerast í fyrirtækinu. Þá nota ég blogg í minni vinnu til að segja sögu af vörum sem eru nýjar. Textinn sem ég skrifa þá er kannski aðeins of langur til að komast inn á sölusíður en bloggið er einmitt frábær vettvangur til að koma með leiðbeiningar og útskýringar.

Heimasíður

Heimasíðan þín á ekki að snúast um flottheit. Það er öllum sama um hvernig heimasíðan þín lítur út ef það er erfitt að finna upplýsingar á henni. Síðan á að vera byggð fyrir um viðskiptavini þína og með það í huga að leiða þá í gegn um kaupferlið. Þetta leiðir til þess að þeir verða ánægðari fyrir vikið þar sem síðan er auðveld í notkun og upplýsingarnar sem þeir leita að eru á reiðum höndum. Þú verður ánægðari því þetta skilar þér meiri tekjum í gegn um vefinn þinn.

PR eða almannatengsl

Það er alltaf frábært að minnst á nafn fyrirtækis síns á Mbl.is, nú eða í sjónvarpsfréttunum. Það höfðar vel til hégómagirndarinnar og manni finnst maður hafa fengið góða auglýsingu. En hverjir eru að hlusta? Scott færir rök fyrir því að oft er betra að fyrirtæki þitt eða vörumerki að vera í góðu sambandi við bloggara á sínum markaði heldur en að vera getið í fréttunum. Af hverju? Nú vegna þess að ef hátt virtir bloggarar á þínum markaði eru að tala um hvað þú ert að gera góða hluti, þá er virkilega hlustað á það, af fólkinu sem þú virkilega vilt ná til. Þannig er mikilvægt að eiga í allavega jafn góðu sambandi við óháða vefpenna og hæst virta blaðamenn.

The New Rules of PR and Marketing hefur selst í milljónum eintaka út um allan heim, allt án þess að höfundurinn hafi eitt krónu í venjulega markaðssetningu. Daginn sem hún var tilbúin sendi hann eintak á 300 þekkta bloggara og bað þá um að lesa hana og gefa sér athugasemdir. Seth Godin tók hana og lofaði á blogginu sínu, þá fór boltinn að rúlla.

Bókin er umdeild, en hún er að fá allt frá 5 stjörnum niður í 1. Mörgum finnst hún þunn og bæta litlu við í markaðsflóruna. Ég er því ósammála. Ég var búinn að lesa mér mikið til um markaðssetningu á netinu og samfélagsmiðla þegar ég byrjaði á bókinni en mér fannst hún engu að síður bæta miklu við. Höfundurinn er með bloggsíðunawww.davidmeermanscott.com og er virkur á Twitter undir nafninu @dmscott. Ef þú vilt kynnast bókinni betur mæli ég með þessari e-book, en hún er einskonar útdráttur á PDF formi. Þú getur sótt hana hér.

Ég mæli með þessari bók fyrir alla sem eru að feta sig áfram í markaðssetningu á netinu. Hún hentar sérstaklega vel fyrir fólk í eigin rekstri sem hefur ekki endilega efni á því að nýta sér hefðbundnu miðlana. Hún er full af dæmisögum, allt frá kosningabaráttu Barack Obama niður í indý hjólreiðabúðir. Kauptu nýjustu útgáfuna, t.d. frá Amazon, þar sem internetið hefur breyst mikið frá því sú fyrsta kom út árið 2007. Lestu þessa og sjáðu hvað þú getur gert á netinu.

Close

50% Complete

Two Step

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.