Ég man þegar ég fékk mína fyrstu “alvarlegu” viðskiptahugmynd.

Ég hélt ég hefði aldeilis rambað niður á snilldarlausn og í Excel hafði ég löngu reiknað út að fúlgur fjár væru handan við hornið. Ég var meira að segja búinn að gera upp við mig hvernig sportbíl ég ætlaði að kaupa, þegar reksturinn væri orðinn að veruleika og peningarnir byrjaðir að rúlla inn.

Án þess að fara út í smáatriðin þá voru margir persónulegir þættir sem fengu mig til að langa mjög að hefja rekstur. Þegar ég lít til baka sé ég að óskhyggjan byrgði mér sýn, svo ég sá allt í jákvæðasta mögulega ljósi, og kom ekki auga á gallana. Ég var kominn með viljugan samstarfsmann, en svo gerðist það að kastaðist í kekki milli okkar og þá loksins að hugarfarið hjá mér fór að breytast og ég fór að geta séð gallana.

Fljótlega rann upp fyrir mér að mér hafði með öllu yfirsést alvarlegur galli í viðskiptahugmyndinni, og ég sá að ef ég hefði farið af stað hefði útkoman orðið allt annað en góð.

 

Eflaust eru margir lesendur sem kannast við sögur af þessu tagi. Sumir hafa ekki sloppið eins vel og ég, og verið komnir með peninga í spilið þegar þeir  loksins kveiktu á perunni.

 

Pistlahöfundur Wall Street Journal fjallar einmitt um þetta í pistli sem birtist í dag, og bendir á að ástríðan sem drífur frukvöðla áfram geti líka verið það sem verður þeim að falli. Sami eldmóðurinn og stórhuga draumarnir sem fá frumkvöðulinn til að segja starfi sínu lausu og leggja ævisparnaðinn að veði getur líka gefið honum rörsýn á hlutina.

Höfundurinn bendir t.d. á að bjartsýnin fær stundum á sig þá mynd að frumkvöðullinn kýs að hundsa með öllu gagnrýni og varnaðarorð. Hann hefur kannski ekki séð í raunhæfu ljósi markaðinn fyrir vöruna, eða festist í þeirri hugsunarvillu að fyrst þegar sé búið að leggja tíma og peninga í verkið sé vissara að ganga enn lengra og sjá hvort hlutirnir lagast.

Frumkvöðlum hætti líka til að vanmeta gloppurnar í eigin þekkingu, og hvaða viðbótar-kunnáttu þeir þurfa að fá inn í reksturinn með einhverjum hætti. Einnig eiga þeir til að vanmeta þau truflandi áhrif sem reksturinn á eftir að hafa á fjölskyldulíf þeirra.

Samskiptin við meðstofnendur eru líka klassískt vandamál. Á fyrstu metrunum, þegar samið er um verkaskiptingu og eignarhald, eru allir uppfullir af eldmóði og bjartsýni. Svo fara hlutirnir að breytast, byrðarnar á sumum verða léttari, og þyngri á öðrum; sumir missa áhugan á meðan aðrir verða frá að hverfa, og nýir bætast við. Togstreita og ergelsi byrjar að safnast upp, og þarf ekki nema lítinn neista til að kveikja í púðurtunnunni og gera út um fyrirtækið. Þarna getur skýr, nákvæmur og ekki síst sveigjanlegur hluthafasamningur gert mikið gagn.

 

Greinin tæpir á fjöldamörgu öðru sem frumkvöðlar þurfa að vara sig á og hægt að mæla með lesningunni.