Í viðskiptum er að mínu mati mikilvægt að mynda sér hálfgerða lífspeki eða í raun viðskiptaspeki þar sem þú ákvarðar hvernig þú vilt stunda viðskipti. Við erum öll mismunandi með mismunandi þarfir í lífinu. Sumir fara út í viðskipti til að græða eða lifa góðu lífi og það er allt í góðu lagi, aðrir vilja skapa eitthvað, breyta heiminum eða einfaldlega skapa sér vinnu sem þeir hafa gaman af. Hver sem ástæðan er á bak við það að þú farir út í eigin rekstur þá er nauðsynlegt að þú hafir tekið þér góðan tíma til að ákveða þessa ástæðu og að þú sért sátt(ur) með hana.

Í dag er ég kominn með nokkuð vel skilgreinda viðskiptaspeki þar sem ég legg mikið upp úr því að láta gott af mér leiða. Ég vil breyta heiminum til hins betra að hverju því leiti sem ég get og vil mynda góð sambönd við þá aðila sem ég stunda viðskipti við. Ég sleppi frekar að eiga viðskipti en að eiga viðskipti við aðila sem ég ekki treysti eða finnst vera vafasamir.

Mér finnst einnig mikilvægt að hjálpa öðrum og reyni yfirleitt að vera opin fyrir því að deila því sem ég hef lært eins og þessi vefsíða sýnir kannski hvað best. En einnig hef ég verið að kenna og mentora á hinum ýmsu viðburðum. Nú síðast um helgina þegar ég mentoraði í kúrsinum „Nýsköpun og stofnun fyrirtækja” upp í HR og svo „Atvinnu- og nýsköpunarhelgi” upp á Akranesi. Það að taka þátt í slíkum viðburðum er afskaplega gefandi bæði vegna þess að ég fæ þar tækifæri til að miðla áfram reynslu minni en einnig vegna þess að það að hitta svona orkumikið fólk veitir mér innblástur og bjarta sýn á framtíð okkar.

Það sem ég er í raun að reyna segja með þessari grein er ekki bara stunda viðskipti til að stunda viðskipti. Áttið ykkur á því hvað þið viljið fá út úr þeim og þá verður allt svo miklu auðveldara og þægilegra.