Frumkvöðlar.is byrjaði upphaflega bara sem persónulegt blogg en þar sem ég hef lifað og hrærst í frumkvöðlaheiminum í all langan tíma þá snérust allar greinar mínar um fyrirtækjarekstur og frumkvöðlastarf. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hálf undarlegt að hugsa til þess að ég hafi skrifað mína fyrstu bloggfærslu á vefinn 12.maí 2010 en það þýðir að ég sé búinn að vera skrifa á þennan vef í meira en 4 ár. Ég var aldrei með nein sérstök plön varðandi vefinn og var meira bara að gera þetta sjálfum mér til gamans. Hugsanlega spilaði það einnig inn í þetta að ég hafði engan til að læra af þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki og fannst ég því að vissu leiti knúinn til að reyna deila reynslu minni.

Greinarnar sem ég hef skrifað á vefinn hafa verið heldur óreglulegar enda skrifa ég einungis þegar ég hef tíma og þegar ég hef frá einhverju áhugaverðu að segja. Sem dæmi þá skrifa ég yfirleitt flestar greinarnar þegar ég sjálfur er að safna mér upplýsinga um eitthvað ákveðið efni fyrir fyrirtækið mitt og deili þeim svo áfram í formi greinar. Mig er þó farið að langa núna til að breyta vefnum úr því að vera bara blogg yfir í það að verða eitthvað meira og gera í því að reyna safna raunverulegum fróðleik sem virkilega nýtist öðrum frumkvöðlum. Því miður þá hef ég ekki þann tíma sem þarf til að vera stöðugt að skrifa greinar og safna að mér efni enda er ég staddur erlendis að vinna í því að byggja upp mitt eigið fyrirtæki. En þess í stað hef ég nú ráðið nýjan ritstjóra til að halda utan um vefinn fyrir mig.

Ásgeir Ingvarsson nýr ritstjóri Frumkvöðlar.is
e150e5c07e4aa67014562034449d84bcFyrir nokkrum árum hitti ég Ásgeir þegar hann var að skrifa grein um mig fyrir Morgunblaðið og við höfum haldið góðu sambandi síðan þá. Ég vissi það að hann hefði mikinn áhuga á frumkvöðlastarfi og hann þekkti einnig vel til viðskiptaumhverfisins þar sem hann hefur skrifað mikið um það í gegnum árin. Ég ákvað því að fá hann til liðs við Frumkvöðlar.is til að aðstoða að búa til meiri stöðugleika í kringum vefsíðuna. Hann mun skrifa reglulegar greinar inn á vefsíðuna og sjá til þess að þar sé ávallt eitthvað nýtt og spennandi að finna.

Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að skrifa greinar annað slagið eftir því sem tími gefst til og mig dreymir líka um að reyna virkja nokkra reynslubolta í frumkvöðlaheiminum og fá þá til að skrifa greinar einnig. Það er ekki ennþá ljóst hvernig vefsíðan mun halda áfram að þróast en við reynum þó að halda áfram með það markmið að fræða frumkvöðla á öllum stigum fyrirtækjaferilsins.

Það væri afskaplega gaman að heyra frá ykkur lesendunum um hvað þið mynduð vilja sjá okkur fjalla um eða hvernig þið mynduð vilja sjá vefsíðuna þróast. Einnig ef einhver ykkar er tilbúin að hjálpa okkur að einhverju leiti við að gera vefsíðuna betri þá fögnum við slíku.

Eigið frábæran dag 🙂