Frumkvöðlar eru ekki áhættufíklar

Stundum er sú mynd gefin af frumkvöðlum að þeir séu óttalausir fjárhættuspilarar sem þori að leggja allt undir, í þeirri veiku von að viðskiptahugmyndin gangi upp og peningarnir flæði inn.

Þeir láta varnaðarorð sem vind um eyru þjóta, og hefja eigin rekstur sama þó öll tölfræði segi að öruggast sé að halda sig á hinum almenna vinnumarkaði.

Ný rannsókn frá U.C. Berkeley bendir til þess að þessi staðalímynd eigi ekki við rök að styðjast. Frumkvöðlar eru ekki áhættufíklar heldur taka yfirvegaðar og meðvitaðar ákvarðanir, með hæfilega vissu um að eiga erindi sem erfiði.

Þeir eru ekki að veðja á svartan í rúllettu, og upp á von og óvon.

Forbes fjallar um þessa rannsókn og bendir á að menn á borð við Bill Gates og Mark Zuckerberg voru ekki að taka stórfenglega áhættu í frumkvöðlastarfi sínu. Þeir veðjuðu ekki á Facebook eða Microsoft í algjörri blindni, enda báðir vel gefnir menn með mikla burði til að skara fram úr. Bara það að báðir höfðu fengið inngöngu í Harvard var ákveðinn gæðastimpill á hugmyndir þeirra og burði til að gera góða hluti, og ef allt hefði farið á versta veg hefðu þeirra samt beðið fín störf í tæknigeiranum.

Eitt af því sem stendur einmitt upp úr í umfjöllun Forbes er þar sem haft er eftir höfundi rannsóknarinnar að því betur sem menn standa að vígí á vinnumarkaði, því líklegri eru þeir til að geta náð árangri sem frumkvöðlar. Hann varar frumkvöðla við, að ef frammistaða þeirra í námi eða starfi hefur verið í meðallagi þá séu litlar líkur á að frammistaðan verði mikið betri í hlutverki frumkvöðulsins.

 

 


Myndakredit: "Mark Zuckerberg - South by Southwest 2008" by Jason McELweenie - originally posted to Flickr as Mark Zuckerberg Facebook SXSWi 2008 Keynote. Licensed under Creative Commons Attribution 2.0 via Wikimedia Commons - http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Mark_Zuckerberg_-_South_by_Southwest_2008.jpg#mediaviewer/File:Mark_Zuckerberg_-_South_by_Southwest_2008.jpg


Klífðu fjöll!!!

Ímyndaðu þér (ef það er ekki nú þegar staðreynd) að þú hafir ekki mikla reynslu af fjallgöngu, hafir kannski mesta lagi gengið upp á Esjuna en lítið annað en það. Svo einn daginn þegar þú ert að keyra um einhvern sveitaveg í fjarlægju landi kemurðu að risastóru fjalli með bratta klettaveggi og þakið í snjó, og þú segjir við sjálfan þig "Þetta er fallegt fjall, ég ætla að klífa það!". Þrátt fyrir að öll almenn skynsemi segji þér að þú hafir enga reynslu né getu til að klífa slíkt fjall þá tekur þú staðfasta ákvörðun.

Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að ef þú myndir óundirbúinn reyna að klífa fjallið myndi líklega fara illa fyrir þér. Þú þarft fyrst að afla þér upplýsinga um fjallið, útvega rétta búnaðinn, æfa þig á minni fjöllum, fá leiðbeiningar frá reyndari fjallgöngumönnum, lesa bækur um það, kannski fara á námskeið og sitthvað fleira til að tryggja það að þú farir þér ekki að voða. En þegar það allt er komið er í raun ekkert sem kemur í veg fyrir það að þú gætir náð markmiði þínu.

Nákvæmlega það sama á við um frumkvöðlaferilinn, hann er alveg eins og að klífa risa stórt og ókunnugt fjall. Ef þú hlustar á skynsemina þá segjir hún þér að þú hafir enga reynslu af því að stofna fyrirtæki, að þú hafir enga þekkingu á því og að þú munir líklega enda sem gjaldþrota aumingi. Þú þarft að horfa fram hjá þeirri "skynsemi" sem samfélagið er búið að kenna þér og taka staðfasta ákvörðun. Ákvörðunin er alltaf fyrsta skrefið í áttina að því að klífa öll fjöll, svo tekur við undirbúningurinn, fyrr en varir ertu orðin hæfur til að takast á við verkefnið, "skynsemin" þagnar og þú klífur fjallið.

Það magnaða við það að fara út í fyrirtækjarekstur er það að þú þarft stöðugt að takast á við ný fjöll sem búa yfir nýjum hættum og erfiðleikum sem þú þarft að finna lausn á. Þegar þú stofnar fyrst fyrirtækið þarftu að finna út úr öllum lagalegu hlutunum við það að stofna fyrirtæki og horfast í augu við "skynsemina" sem segir þér að þetta fari illa. Svo þarftu að fara út fyrir þægindasvæðið þegar þú yfirgefur öruggu vinnuna þína og ferð að vinna að fullu að fyrirtækinu nýja. Svo þarftu að vaxa og gera stórar fjárfestingar, opna dótturfyrirtæki erlendis, reyna selja stórum fyrirtækjasamsteypum vöru þína, veðsetja fasteignina til að fyrirtækið geti vaxið og svo koll af kolli. Og hver einasta staðfasta ákvörðun sem þú tekur um að halda áfram felur í sér að þú þurfir að klífa nýtt fjall og eins og alltaf þegar maður stendur við fjallsræturnar virðist það vera ókljúfanlegt en ef þú leitar hjálpar frá þeim sem hafa meiri reynslu, aflar þér upplýsinga og undirbýrð ferðina vel þá muntu ná að klífa það fjall.

Það fara bráðum að vera komin 10 ár frá því ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki en ég er samt reglulega að klífa ný fjöll og það er alltaf jafn erfitt þegar maður stendur við fjalsræturnar en á sama tíma alltaf jafn gefandi þegar maður kemst á toppinn. Fyrir nokkrum mánuðum síðan fólst fjallið mitt í því verkefni að stofna mitt fyrsta fyrirtæki í erlendu landi og ég stóð við fjalsræturnar, horfði upp og fannst þetta vera ómögulegt verk, ég hafði enga reynslu og vissi ekkert hvernig ég ætti að fara að. En þegar ég loksins tók staðfasta ákvörðun um að gera það þá leitaði ég mér ráðleggingar hjá reyndari aðilum, fékk aðstoð og upplýsingar og lét verða af því. Nú stend ég fyrir framan nýtt fjall sem ég er kvíðinn en afar spenntur fyrir að klífa.

Ekki láta fjallið vinna, skiptu verkefninu niður í minni hluta og sigrastu á hverjum hluta fyrir sig og þá er ekkerf fjall of stórt til að klífa.

Klífðu fjöll!!!


Breytingar hjá Frumkvöðlar.is

Frumkvöðlar.is byrjaði upphaflega bara sem persónulegt blogg en þar sem ég hef lifað og hrærst í frumkvöðlaheiminum í all langan tíma þá snérust allar greinar mínar um fyrirtækjarekstur og frumkvöðlastarf. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hálf undarlegt að hugsa til þess að ég hafi skrifað mína fyrstu bloggfærslu á vefinn 12.maí 2010 en það þýðir að ég sé búinn að vera skrifa á þennan vef í meira en 4 ár. Ég var aldrei með nein sérstök plön varðandi vefinn og var meira bara að gera þetta sjálfum mér til gamans. Hugsanlega spilaði það einnig inn í þetta að ég hafði engan til að læra af þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki og fannst ég því að vissu leiti knúinn til að reyna deila reynslu minni.

Greinarnar sem ég hef skrifað á vefinn hafa verið heldur óreglulegar enda skrifa ég einungis þegar ég hef tíma og þegar ég hef frá einhverju áhugaverðu að segja. Sem dæmi þá skrifa ég yfirleitt flestar greinarnar þegar ég sjálfur er að safna mér upplýsinga um eitthvað ákveðið efni fyrir fyrirtækið mitt og deili þeim svo áfram í formi greinar. Mig er þó farið að langa núna til að breyta vefnum úr því að vera bara blogg yfir í það að verða eitthvað meira og gera í því að reyna safna raunverulegum fróðleik sem virkilega nýtist öðrum frumkvöðlum. Því miður þá hef ég ekki þann tíma sem þarf til að vera stöðugt að skrifa greinar og safna að mér efni enda er ég staddur erlendis að vinna í því að byggja upp mitt eigið fyrirtæki. En þess í stað hef ég nú ráðið nýjan ritstjóra til að halda utan um vefinn fyrir mig.

Ásgeir Ingvarsson nýr ritstjóri Frumkvöðlar.is
e150e5c07e4aa67014562034449d84bcFyrir nokkrum árum hitti ég Ásgeir þegar hann var að skrifa grein um mig fyrir Morgunblaðið og við höfum haldið góðu sambandi síðan þá. Ég vissi það að hann hefði mikinn áhuga á frumkvöðlastarfi og hann þekkti einnig vel til viðskiptaumhverfisins þar sem hann hefur skrifað mikið um það í gegnum árin. Ég ákvað því að fá hann til liðs við Frumkvöðlar.is til að aðstoða að búa til meiri stöðugleika í kringum vefsíðuna. Hann mun skrifa reglulegar greinar inn á vefsíðuna og sjá til þess að þar sé ávallt eitthvað nýtt og spennandi að finna.

Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að skrifa greinar annað slagið eftir því sem tími gefst til og mig dreymir líka um að reyna virkja nokkra reynslubolta í frumkvöðlaheiminum og fá þá til að skrifa greinar einnig. Það er ekki ennþá ljóst hvernig vefsíðan mun halda áfram að þróast en við reynum þó að halda áfram með það markmið að fræða frumkvöðla á öllum stigum fyrirtækjaferilsins.

Það væri afskaplega gaman að heyra frá ykkur lesendunum um hvað þið mynduð vilja sjá okkur fjalla um eða hvernig þið mynduð vilja sjá vefsíðuna þróast. Einnig ef einhver ykkar er tilbúin að hjálpa okkur að einhverju leiti við að gera vefsíðuna betri þá fögnum við slíku.

Eigið frábæran dag :)


Verður ástríðan frumkvöðlinum að falli?

Ég man þegar ég fékk mína fyrstu "alvarlegu" viðskiptahugmynd.

Ég hélt ég hefði aldeilis rambað niður á snilldarlausn og í Excel hafði ég löngu reiknað út að fúlgur fjár væru handan við hornið. Ég var meira að segja búinn að gera upp við mig hvernig sportbíl ég ætlaði að kaupa, þegar reksturinn væri orðinn að veruleika og peningarnir byrjaðir að rúlla inn.

Án þess að fara út í smáatriðin þá voru margir persónulegir þættir sem fengu mig til að langa mjög að hefja rekstur. Þegar ég lít til baka sé ég að óskhyggjan byrgði mér sýn, svo ég sá allt í jákvæðasta mögulega ljósi, og kom ekki auga á gallana. Ég var kominn með viljugan samstarfsmann, en svo gerðist það að kastaðist í kekki milli okkar og þá loksins að hugarfarið hjá mér fór að breytast og ég fór að geta séð gallana.

Fljótlega rann upp fyrir mér að mér hafði með öllu yfirsést alvarlegur galli í viðskiptahugmyndinni, og ég sá að ef ég hefði farið af stað hefði útkoman orðið allt annað en góð.

 

Eflaust eru margir lesendur sem kannast við sögur af þessu tagi. Sumir hafa ekki sloppið eins vel og ég, og verið komnir með peninga í spilið þegar þeir  loksins kveiktu á perunni.

 

Pistlahöfundur Wall Street Journal fjallar einmitt um þetta í pistli sem birtist í dag, og bendir á að ástríðan sem drífur frukvöðla áfram geti líka verið það sem verður þeim að falli. Sami eldmóðurinn og stórhuga draumarnir sem fá frumkvöðulinn til að segja starfi sínu lausu og leggja ævisparnaðinn að veði getur líka gefið honum rörsýn á hlutina.

Höfundurinn bendir t.d. á að bjartsýnin fær stundum á sig þá mynd að frumkvöðullinn kýs að hundsa með öllu gagnrýni og varnaðarorð. Hann hefur kannski ekki séð í raunhæfu ljósi markaðinn fyrir vöruna, eða festist í þeirri hugsunarvillu að fyrst þegar sé búið að leggja tíma og peninga í verkið sé vissara að ganga enn lengra og sjá hvort hlutirnir lagast.

Frumkvöðlum hætti líka til að vanmeta gloppurnar í eigin þekkingu, og hvaða viðbótar-kunnáttu þeir þurfa að fá inn í reksturinn með einhverjum hætti. Einnig eiga þeir til að vanmeta þau truflandi áhrif sem reksturinn á eftir að hafa á fjölskyldulíf þeirra.

Samskiptin við meðstofnendur eru líka klassískt vandamál. Á fyrstu metrunum, þegar samið er um verkaskiptingu og eignarhald, eru allir uppfullir af eldmóði og bjartsýni. Svo fara hlutirnir að breytast, byrðarnar á sumum verða léttari, og þyngri á öðrum; sumir missa áhugan á meðan aðrir verða frá að hverfa, og nýir bætast við. Togstreita og ergelsi byrjar að safnast upp, og þarf ekki nema lítinn neista til að kveikja í púðurtunnunni og gera út um fyrirtækið. Þarna getur skýr, nákvæmur og ekki síst sveigjanlegur hluthafasamningur gert mikið gagn.

 

Greinin tæpir á fjöldamörgu öðru sem frumkvöðlar þurfa að vara sig á og hægt að mæla með lesningunni.

 

Myndakredit: Kötturinn Maru á góðri stundu, með rörsýn af betri sortinni


Capital Factory

Ég rakst á þetta afar skemmtilega vidjó um Capital Factory inn á TechCrunch og það minnti mig óneitanlega á það þegar ég var að ferðast um Bandaríkin á síðasta ári. En þá kom ég við í Capital Factory og tók þar smá vinnutörn eins og sjá má á sönnunargögnunum hér fyrir ofan. En það sem meira er þá sýnir þetta myndband afskaplega vel hversu mikilvægt það er að vinna í rétta umhverfinu, umkringdur rétta fólkinu og rétta hugarfarinu.

Ég hef undanfarin ár alltaf kosið að starfa í frumkvöðlasetrum þar sem mér finnst það yfirleitt vera besta umhverfið til að veita mér innblástur og til að beintengjast "stuðningshópi frumkvöðla". Reyndar fyrst þegar ég stofnaði núverandi fyrirtæki mitt starfaði ég að mestu leiti á kaffihúsum en fljótlega flutti ég svo fyrirtækið í Hugmyndahús Háskólana sem var virkilega skemmtilegt umhverfi til að vinna í fullt af mjög skapandi fólki, í raun leitt að það hafi liðið undir lok. Þaðan flutti ég svo í Kvosina sem er á frumkvöðlasetur á vegum NMI og hefur farið afskaplega vel um Bungalo þar. Svo þegar ég flutti með fyrirtæki mitt hérna út til Kanada þá kom bara til greina einn staður sem hugsanlegt skrifstofurými fyrir fyrirtækið en það er Volta sem er aðal frumkvöðlasetrið hér í Halifax og hjálpaði sú ákvörðun mér mikið við að læra fljótar inn á rekstrarumhverfið hér úti.

Heima hefur mikið breyst í þessum málum á undanförnum árum og má meðal annars nefna frumkvöðlasetrin sem NMI eru með en einnig Innovation House út á Seltjarnarnesi en síðast þegar ég leit þar við var allt iðandi í lífi þar og mörg öflug fyrirtæki. Ég hvet því sem flesta til að skoða þessi mál betur og reyna komast inn í gott umhverfi til að rækta fyrirtækin.


Er málið að hafa Hong Kong sem bækistöð?

Þau ráð og upplýsingar sem fylgja hér á eftir eru skrifuð af leikmanni og þarf því að taka með hæfilegum fyrirvara. Lesendur eru hvattir til að leita ráða hjá sérfróðum aðilum áður en þeir stofna fyrirtæki, á Íslandi eða annars staðar. Athugasemdir og leiðréttingar eru vel þegnar í kommentakerfinu hér að neðan.

Ég átti nýlega erindi til Hong Kong og notaði tækifærið til að kynna mér hvernig það gengur fyrir sig að stofna fyrirtæki í litla lágskatta borgríkinu.

Hong Kong er nefnilega ekki amalegur staður til að standa í rekstri; þar þykir lagaumhverfið ágætt og skattbyrðin sérstaklega þægileg. Þeir sem eru að fara af stað með frumkvöðlarekstur sem er af því tagi að höfuðstöðvarnar geta verið hvar sem er í heiminum (hvað þá ef þær geta verið bara á stærð við eina skúffu) , ættu að skoða Hong Kong mjög vandlega.

Helstu kostirnir við Hong Kong eru:

- Mjög lágir skattar. Engir skattar (aðrir en þeir sem önnur lönd kunna að hafa lagt á viðskiptin) leggjast á tekjur sem verða til utan Hong Kong. Þú færð að halda eftir meiru af því sem þú og fyrirtækið þitt aflar, og um leið hefurðu aukið svigrúm sem því nemur til að bjóða upp á samkeppnishæf verð.

- Auðvelt og ódýrt er að stofna fyrirtæki. Ferlið getur tekið aðeins einn dag og tæknilega séð þarftu ekki að leggja fram eina krónu í hlutafé.

- Að viðhalda t.d. skúffufyrirtæki er ekki dýrt. Tiltölulega einfalt er að standa skil á skattframtali og sinna öðrum formsatriðum.

 

Könnun mín á Hong Kong fór þannig fram að ég notaði Google til að finna fyrirtæki sem sérhæfa sig í að aðstoða fólk við að stofna rekstur þar í landi. Sendi ég tölvupóst á þá þrjá sem virkuðu frambærilegastir (þ.e. með snotrustu vefsíðurnar), og að auki að ég hafði samband við eitt fyrirtæki sem kunningi benti mér á og hafði heyrt góða hluti um.

Í póstinum falaðist ég eftir stuttum fundi til að fá svarað nokkrum spurningum sem ég hafði um stofnunarferlið. Einum póstinum var svarað með löngum stöðluðum-pósti, og var það fyrirtæki því afskrifað. Hinum þremur póstunum var svarað á persónulegri hátt og tók litla stund að bóka fundina með viku fyrirvara.

 

Fyrst kíkti ég á Start It Up HK. Þar átti ég fund með gæðalegum ungum manni, James. James talaði fína ensku og gat svarað spurningum mínum nokkuð vel. Fyrirtækið virðist vera ungt og agnarsmátt, í einhverjum tengslum við sprota-kreðsuna í Hong Kong. Húsnæðið var ákaflega látlaust, og gaf til kynna að yfirbyggingin væri í lágmarki.

Þar getur stofnun fyrirtækis tekið 2-3 vikur og eftirfarandi:

Nafnaleit, undirbúningur pappira, eftirlit og umsjón með umsóknni: HKD 588 (ISK 8.700)

Gjöld til stjórnvalda fyrir stofnunina HKD 1.720 (ISK 25.500)

Skráning hjá skattstjóra HKD 2.250 (ISK 33.400), greitt árlega, og upphæðin hefur sveiflast undanfarin ár

Aðstoð við að opna bankareikning HKD 488 (ISK 7.200)

„Green Box“ fyrir reksturinn („skúffa“) þ.m.t. stimplagerað. HKD 488 (ISK 7.200)

Staðfest þýðing á skilríkjum eða sönnun á heimilisfangi HKD 388/stk (ISK 5.700)

Skráð heimilisfang, hjá skrifstofu Start It  Up HKD 1.088 (greitt árlega) (ISK 16.200)

Ritaraþjónusta HKD 1.088 (greitt árlega) (ISK 16.200)

Ritaraþjónustugjaldið miðast við algjöra lágmarks þjónustu, s.s. að taka við og áframsenda póst og tilkynningar frá ríkinu (2-3 bréf á ári). Aukagjald leggst á fyrir sendingar á bréfum sem berast.

 

Hraðþjónusta til að stofna reksturinn samdægurs kostar HKD 2.000 (ISK 29.700)

 

Allt talið ætti stofnun skúffufyrirtækis og „parkering“ fyrsta árið að kosta HKD 10.486 (ISK 155.896) með hraðþjónustu og tveimur staðfestum þýðingum, HKD 7.710 (ISK 114.625) annars, og viðhaldskostnaðurinn árlega eftir það að vera um HKD 4.426  (ISK 65.802)

 

Næsti fundur var hjá Profit Accounting. Þar var yfirbyggingin á starfseminni ögn snotrari, og önnum kafnir bókarar að störfum við öll skrifborð. Unga konan sem ég ræddi við talaði ögn verri ensku, og virtist líka ögn minna með á nótunum en James. Verðin þar voru á svipuðu róli: HKD 7.400 (ISK 110.000) fyrir heildarpakka (sem tekur sjö virka daga). Hægt var að lækka kostnaðinn með því að kaupa „tilbúið“ fyrirtæki á samtals HKD 5.600 (ISK 83.300). Þetta eru fyrirtæki sem stofnuð voru fyrir 1. apríl 2014 þegar skráningargjaldið hjá stjórnvöldum hækkaði úr HKD 250 í HKD 2.250, og skýrir það lægra verðið. Árlegt viðhald um HKD 5.500 (ISK 81.700)

 

Síðasti fundur var með Asia Business Service. Snotur skrifstofa á fínum stað. Íslendingur sem ég er kunnugur hefur góða reynslu af þessari stofu. Viðmælandinn talaði skiljanlega en ekki fölskvalausa ensku. Heildar kostnaður við stofnun HKD 10.300 (ISK 153.000). Árlegt viðhald HKD 3.850 (57.200),  sem skiptist i 1.600 fyrir ritara og heimilisfang, og 2.250 til stjórnvalda.

 

Á fundunum lærði ég líka eftirfarandi:

- Ekki þarf að leggja fram hlutafé, en stofna verður reikning hjá HSBC. Þar þarf helst að leggja inn HKD 10.000 (ISK 148.600) við stofnun, en þann pening má taka strax út aftur.

- Stofnun bankareiknings getur verið stærsti þröskuldurinn. Bankinn gætir sín á því hverjir fá að hefja viðskipti. Gæti þurft að sýna t.d. viðskiptaáætlun, eða gefa sönnun fyrir að reksturinn er þegar kominn vel af stað.

- Ef innistæðan á bankareiningnum er undir HKD 50.000 (ISK 743.300) leggst á mánaðarlegt gjald, HKD 100 (ISK 1.500) á mánuði.

- Ef reikningurinn er óvirkur í langna tíma (8 mánuði) gæti bankinn lokað honum.

- Þegar fyrirtækið/bankareikningur er stofnaður verður stofnandi/stjórnandi að vera í Hong Kong í eigin persónu. Sama gildir ef stjórnun fyrirtækisins færist á nýjar hendur.

- Að selja fyrirtækið, hætta rekstri, fjölga hlutum o.þ.h. er nokkuð einfalt ferli og spurning um nokkur hundruð eða nokkur þúsund Hong Kong dollara, að því gefnu að ekki sé eitthvað sem auki flækjustigið, s.s. ógreiddar kröfur.

- Eðlilega verður að halda bókhald, og ef gangur er í rekstrinum er vissara að hafa local endurskoðanda sem sér um að skila skattframtali. Skattleysi teknanna er eitthvað sem þarf að „sýna fram á“, en á ekki að vera snúið.

 

 

Annað sem ég hef komist að:

Ef þú vilt reka alvöru fyrirtæki í Hong Kong, þá er það bæði létt og erfitt í senn:

- Til að fá atvinnuleyfi fyrir þig sjálfan þarftu að sannfæra stjórnvöld um að þú sért að fara að byggja efnilegan rekstur, og þú þarft helst að vera kominn með lítið safn local starfsmanna áður en fyrsta starfsárið er liðið. Einyrkjar eiga ekki góða möguleika á að fá atvinnuleyfi í landinu.

- Laun eru há og húsnæði rándýrt (bæði fyrir þig og reksturinn). Launaskattar og launatengd gjöld eru einhver, en mjög hófstillt m.v. vesturlönd. (Launaskattur er nú 16% í HK samanborið við 46,22% jaðarskatt á laun á Íslandi).

- Borgin er mjög dínamísk, iðar af lífi og orku. Auðvelt er að tjá sig á ensku á flestum stöðum. Andrúmsloftið minnir mikið á Manhattan og þarna er svo sannarlega hægt að láta hlutina gerast, í túnfætinum á Kínverska meginlandinu, steinsnar frá risamörkuðum eins og Taílandi, Indónesiu og Indlandi.

 

Ljósmyndakredit. "Hong Kong Night Skyline" by Base64, retouched by CarolSpears - Own work. Licensed under Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0 via Wikimedia Commons - http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Hong_Kong_Night_Skyline.jpg#mediaviewer/File:Hong_Kong_Night_Skyline.jpg


Kaldlyndur mentorafauskur

Hér áður fyrr gagnrýndi ég oft þá mentora/leiðbeinendur innan frumkvöðlaumhverfisins sem voru mjög harðir við unga frumkvöðla. En þrátt fyrir það hef ég sjálfur í seinni tíð farið að verða mun harðari við unga frumkvöðla og er ófeimnari við að segja mínar skoðanir á fyrirtækjum þeirra.

Ástæðan fyrir þessari auknu harðneskju minni er ekki það að mér líki illa við frumkvöðlana eða hugmyndir þeirra heldur er það frekar útaf því að ég er að benda á hluti sem ég sjálfur vildi óska þess að ég hefði vitað fyrr í ferlinum. Staðreyndin er sú að það að ná árangri í fyrirtækjarekstri getur verið eitthvað það erfiðasta sem þú kemur til með að taka að þér á lífsleiðinni (ef þú fylgir því eftir alla leið). Þú munt þurfa taka erfiðar ákvarðanir og eyða mörgum árum af ævi þinni í að byggja eitthvað upp sem þú veist ekki hvort muni ganga upp eða ekki. Flestir mentorar þekkja þetta af eigin raun og þegar þeir eru að gagnrýna unga frumkvöðla þá eru þeir ekki að gera það af einhverri illkvittni heldur þvert á móti eru þeir að reyna sitt besta til að stytta þennan erfiða feril hjá frumkvöðlunum.

Ég vil þó taka það skýrt fram að mentor á aldrei að vera ókurteis eða niðrandi í gagnrýni sinni á ungum frumkvöðlum og ég mun ekki hika við að eiga orð við þann mentor sem gerist sekur um slíkt. En ég skil núna betur afhverju mentorar eru stundum harðir við unga frumkvöðla, einfaldlega útaf því að þeir eru að reyna undirbúa þá betur undir það sem koma skal.

Ég vil því biðja alla þá sem hafa og munu fá harða gagnrýni frá mentorum um að taka því ekki illa heldur frekar að líta á það sem tækifæri til að betrumbæta viðskiptahugmyndir sínar.


Fyrsti sólahringurinn í Halifax


Eftir 6 tíma flug til Toronto og síðan 3 tíma flug til Halifax (ég var of óþolinmóður til að bíða þangað til í næstu viku þegar Icelandair flýgur beint til Halifax) lendir flugvél mín loksins í Halifax. Klukkan var um 1 um nóttu, það voru liðnir 11 klst frá því ég lagði af stað með Flybus frá Reykjavík og ég átti þó ennþá 30 mínútna leigubílaferð eftir áður en ég kom að herberginu sem ég hafði leigt í gegnum AirBnb.

Ég endaði á því að sofa bara í 4 klst áður en ég var glaðvaknaður þótt svo ég væri mjög þreyttur. Eftir að hafa fundið matvöruverslun og sturtað mig lagði ég af stað á minn fyrsta fund, með lögfræðingi mínum hér í Halifax. Hann er algjör snillingur sem sérhæfir sig í að vinna með startup fyrirtækjum og hann sá um að "incorporate"-a Bungalo Technologies Incorporated hér í Kanada fyrir mig og var því öllu lokið áður en ég kom hingað út. Bara svona til að sýna smá lit þá gaf ég honum eina flösku af íslensku fjallagras snafsi í þakklætisskyni. Hann deildi með mér miklu af reynslu sinni af startup umhverfinu hérna úti og það hljómar sem svo að hér sé mikið að gerast, hann kynnti mig einnig í gegnum tölvupóst við öflugan blaðamann í startup umhverfinu sem hann sagði að væri gott að þekkja.

Næsti fundur minn var með Milan Vrekic sem rekur Volta Labs frumkvöðlasetrið hér í Halifax en frá fyrri heimsókn minni hingað virðist það vera virkasta frumkvöðlasetrið hér og hálfgerður miðpunktur meðal frumkvöðla. Ég tók því ekkert annað í mál en að fá skrifstofu rými þar fyrir Bungalo, leigði mér meira segja dvalarstað í næstu götu við hliðin á Volta þar sem ég var staðráðinn í að vinna þaðan. Milan er mjög áhugaverður einstaklingur, upphaflega frá Serbíu en flutti þaðan til Halifax fyrir einhverju síðan og hefur tekið þátt í hinum ýmsu frumkvöðlafyrirtækjum. Við áttum mjög gott samtal og hann deildi með mér ýmsu um frumkvöðlaumhverfið í Halifax. Eitt af því áhugaverðasta sem hann sagði mér og er alveg fast í hausnum á mér eftir fundin var að hann teldi það vera slæman hlut hversu auðveldlega fyrirtæki í Halifax gætu fengið fjármögnun. Hann bætti svo við að "Í Evrópu er kannski 20% af fyrirtækjum að fá fjármögnun en hérna í Halifax eru það öfugt farið og um 80% fyrirtækja eru að fá fjármögnun". Mér fannst það svolítið sláandi en ég er sammála honum um það of auðveldar fjármögnunarleiðir geta haft slæmar afleiðingar í för með sér en það er alveg efni annan pistil. Milan tók vel í beiðni mína að fá skrifstofu hjá Volta og hann gaf mér strax lykla að opna rýminu til að vinna í og sagði að hann gæti reddað mér lokaðri skrifstofu þegar ég væri búinn að ráða 1-2 starfsmenn.

Til þess að kynnast borginni betur og útaf því að þetta var í fyrsta skipti í nokkrar vikur þar sem ég er ekki að vinna 12 tíma á dag þá ákvað ég að nýta tækifærið og fara út að hlaupa. Ég endaði á því að hlaupa og skoða til skiptis og fór alls einhverja 7 km um borgina og líkaði bara vel við það sem ég sá.

Volta var augljóslega virkt frumkvöðlasetur því það var Hackathon í gangi þar strax fyrsta kvöldið mitt í Halifax og mér fannst ég verða að mæta.Ég er sjálfur ekki alveg nógu klár í forritun, hvorki hugbúnaðar né vélbúnaðar til að geta haldi uppi flóknum samræðum við svona klára aðila en finnst það þó afar gaman að sjá hvað er verið að vinna í. Þarna var eitt teymi sem var að prenta þrívíddarprentara með þrívíddarprendaranum sínum. Þarna var aðili sem var að reyna netvæða kaffivélina sína, aðrir voru að leika sér með flug drone-a og svo var ýmislegt annað var þarna í gangi. Ég kynntist einu tveim öðru frumkvöðlunum á svæðinu sem voru ekki að vinna í neinu verkefni og við kíktum út í nokkra bjóra.

Ég ligg núna upp í rúmi morgunin eftir, með þynnku eftir drykkjuna, harðsperrur eftir hlaupið og svolítið tómur í hausnum eftir að hafa reynt að innbyrða svo mikið á einum sólahring en allt í allt ánægður með fyrsta sólahringinn :)


Floginn til Kanada

Ég sit hérna á flugvellinum og bíð eftir flugi mínu til Kanada.

Það er í raun ekki annað hægt að segja en að þetta sé svolítið súrrealískt augnablik. Ég hef einu sinni áður komið til Kanada og nú er ég að fara þangað til að opna skrifstofu fyrir fyrirtæki mitt. Ég hef oft velt fyrir mér hvernig þessi ferill hefur verið hjá öðrum fyrirtækjum þegar þau taka þetta stóra skref yfir á alþjóðlega markaðinn og alltaf séð fyrir mér sem einhvern tignarlegan feril. Staðreyndin er þó sú að ég, líkt og svo margir aðrir frumkvöðlar sem hafa farið í gegnum þetta, er einfaldlega að stökkva út í djúpu laugina. Það er í raun engin önnur leið til að gera þetta, maður þarf bara að fara út og láta reyna á þetta alveg eins og maður lét reyna á þetta þegar maður stofnaði fyrirtækið í upphafi. Ég mun því mæta út til Kanada og reyna mitt besta til að byggja upp tengslanet, finna skrifstofu, funda með hinum ýmsu aðilum, kynna mér viðskiptaumhverfið og í raun bara gera allt sem ég get til að búa til góðan grunn að starfssemi okkar þarna úti. Sem betur fer kynntist ég mörgum frumkvöðlum í fyrstu ferð minni til Kanada og vona að ég geti byggt ofan á þau tengsl mín til að auðvelda þetta allt.

Á meðan ég sit hérna á barnum á flugvellinum rekst ég á annan frumkvöðull, hann Jökul sem starfar hjá Plain Vanilla en hann er á leið til New York til að taka við einhverjum svakalegum verðlunum fyrir QuizUp. Það hlýtur nú að boða gott fyrir ferð mína að hitta fulltrúa þessa öfluga fyrirtækis á leið minni erlendis :)


Maraþon Frumkvöðulsins

Allir þeir sem hafa rekið eigið fyrirtækið vita að það gerist allt hægt og með mikilli vinnu. Það er því frekar auðvelt að líkja stofnun fyrirtækis við maraþon, maður byrjar rólega með endamarkmiðið í huga og reynir hægt og rólega að byggja upp stöðugan hraða. Til að byrja með er þetta nokkuð ljúft og skemmtilegt en þegar það fer að líða á hlaupið fer spennan að breytast í þreytu. Hugurinn fer að færast frá því að hafa gaman og yfir það eitt að halda áfram. Þegar hlaupið er rúmlega hálfnað sér maður rétt fyrir framan sig og hugsanlega mannin við hliðin á sér en draumkennda sýnin af endamarkinu er nokkuð fjarri huga manns.

Alltaf heldur maður þó áfram að hlaupa og reynir að gleyma sársaukanum í kálfunum og hugsar bara um að ná næstu nokkru metrunum. Undir lokin er öll orkan farin úr manni og maður efast um að maður eigi nokkurntímann eftir að ná í markið, hausinn er algjörlega tómur og maður getur ekki hugsað skýrt. Þetta er tímabilið þar sem maður verður að vera sterkastur og halda áfram án þess að vita hvað næstu metrarnir eigi eftir að koma manni á óvart með. Ef maður gefst hérna upp þegar maður er hvað þreyttastur þá hefur allt verið til einskis, maður verður að halda áfram. Þegar markið verður sjáanlegt þá fyllist hugur manns af stolti og orku þótt svo að líkaminn sé ekki endilega alveg á sömu bylgjulengd þá harkar maður það. Þegar stigið er yfir endamarkið þá fyllist maður unaðstilfinningu sem er engu lík, maður gat þetta. Maður gat þetta þótt svo að margir höfðu haldið annað. Á þessu tímabili er maður kóngur í eigin heimi.

Það er því nauðsynlegt þegar verið er að vinna að viðskiptahugmynd að halda alltaf áfram að hlaupa og gefast aldrei upp sama hversu þreyttur maður er andlega eða líkamlega.


Hvað má betur fara?

Ég var að enda við að svara skoðanakönnun hjá Capacent um fyrirtækjaumhverfið á Íslandi og í lokin kom spurningin "Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?". Flestir skilja þetta svæði líklega eftir tómt en ég ákvað að tjá mig aðeins, án efa starfsmönnum Capacent til mikillar skemmtunar. Og hér deili ég með ykkur hvað ég skrifaði og ég hefði einnig gaman að heyra skoðanir ykkar.

Mér þykir frumkvöðlaumhverfið almennt séð hafa vaxið mjög hratt og dafnað vel á síðustu árum. Það eru þó að mínu mati aðallega tvö atriði sem mættu betur fara. í fyrsta lagi hafa íslenskir fjárfestar engan skilning á startup umhverfinu þar sem þeir eru ennþá að einbeita sér að ársreikningum frekar en möguleikunum og eru of gráðugir í að eignast stóran hluta í fyrirtækjum. Það mætti gera mikið af því að fræða íslenska fjárfesta um hvernig staðið er að fjárfestingum í startup fyrirtækjum erlendis og hvernig þeir geti tileinkað sér slíkar aðferðir. Hitt atriðið er svo það að rekstrarumhverfið hér á Íslandi er ekki alltaf það auðveldasta né þægilegasta fyrir sprotafyrirtæki. Skattumhverfið er nokkuð flókið og leiðinlegt, vinnubrögð ríkistofnanna eru oft hæg og erfitt að fá góð svör. Svo eru það gjaldeyrishöftin sem gera allan rekstur sem teygir anga sína út fyrir Ísland mjög flókin og leiðinlegan. Staðan er því orðin þannig í dag að ef fyrirtæki eru með mikinn rekstur erlendis er oft auðveldara og þægilegra að stofna fyrirtæki erlendis en að þurfa kljást við gjaldeyrishöftin og leiðinlegt skattaumhverfi hér á landi.

 


Þrautseigja og gamall nöldrandi karl

Ég tel mig nú ekki vera orðin svo gamlan en ég er þó farin að finna fyrir því að mér finnst ég vera orðin eins og gamall nöldrandi karl þegar fólk er að koma til mín og leita ráða. Þannig er nefnilega að eftir allt það sem ég hef farið í gegnum á síðust árum hef ég lært að það er ekkert til sem heitir frí máltíð. Þú þarft alltaf að leggja vinnu og tíma í allt það sem þú vilt ná að afreka og því verðmætara sem það er því meiri vinnu og tíma krefst það af þér.

Flestir þeir sem eru að fara sín fyrstu skref í fyrirtækjarekstri virðast ekki skilja þetta og verða oft pirraðir eða gefast upp ef þetta tekur lengra en nokkra mánuði. Það að skapa sér fjárhagslegt öryggi og stöðugan rekstur er ekkert smáræði og getur breytt öllu lífi ykkar um ókomna tíð og það að halda að það komi bara til ykkar á nokkrum mánuðum eða árum er fráleitt hugmynd. Þið getið afrekað allt sem þið viljið í þessu lífi en þið verðið að vera tilbúin að vinna fyrir því og lykilorðið þar er VINNA. Ég er sjálfur búinn að vera vinna í þessu markmiði í yfir 10 ár og mun halda áfram ótrauður þangað til það næst því ég veit að ef ég fer alla leið þá verður það algjörlega þess virði.

En þegar að fólk er að leita ráða til mín og virðist ekki hafa þolinmæði til að vinna lengur í verkefnum sínum en nokkra mánuði án þess að gefast upp, eða ef athyglin þeirra endist ekki lengur en nokkrar vikur eða ef það ætlast til að einhver komi bara og reki þetta fyrir sig, þá kemur gamli nöldrarinn upp í mér. Þá byrja ég ræðuna mína um að það verði bara að spýta í lófann og byrja þetta, eyða öllum þeim tíma sem þarf til að þetta verði að veruleika, lifa undir fátæktarmörkum í einhverja mánuði eða ár og geri bara allt það sem þarf að gera til að láta þetta verða að veruleika. Ef þið eruð ekki tilbúin að gera það eigið þið bara að halda ykkur við það að vinna fyrir aðra.

Kær kveðja,
Gamli nöldrarinn


Þolinmæði og óþolinmæði

Tveir af mikilvægustu eiginleikum sem frumkvöðull getur haft er þolinmæði og óþolinmæði. Þetta kann að hljóma sem miklar andstæður, sem þetta eru en ég held samt að þetta séu nauðsynlegir eiginleikar til að ná árangri. Þú þarft að vera nógu óþolinmóður til að vera stöðugt að vinna í fyrirtækinu og reyna ýta öllu eins hratt í gegn og mögulega hægt er. Á sama tíma þá gerist hlutir mjög hægt í fyrirtækjarekstri og því nauðsynlegt að vera með næga þolinmæði til að halda sér við efnið þegar allt virðist vera gerast nöturhægt.

Hefur þú næga þolinmæði og óþolinmæði til að ná árangri?


168 klukkutíma vinnuvikan

Tim Ferris skrifaði mjög skemmtilega bók sem hann kallaði "fjögurra klukkustunda vinnuvikan" og náði sú bók miklum vinsældum og átti það vel skilið þar sem þetta er hin prýðilegasta bók. Þessi bók endurspeglar þó að miklu leiti það leti-hugarfar sem virðist hafa náð tökum á svo miklu af hinum vestræna heimi. Allir vilja verða ríkir og þurfa ekki að hafa áhyggjur af fjármálum sínum en fæstir eru þó tilbúnir að leggja á sig þá vinnu sem þarf til að ná þeim stað. Þetta gerir það að verkum að bækur á borð við „The 4 hour workweek“ og „The Secret“ seljast í milljónum eintaka en báðar eru þetta bækur sem segja að maður geti kynnst velgengni án þess að þurfa vinna alltof mikið, The Secret fer meira segja svo langt að segja að maður þurfi alls ekki að gera neitt annað en að hugsa jákvætt.

Staðreyndin er þó sú að ef þið viljið raunverulega ná árangri og búa til fjárhagslegt öryggi fyrir ykkur sjálf og fjölskyldur ykkar í framtíðinni þá eruð þið ekki að fara ná því á 4 klst á viku og þið eruð heldur ekki að fara ná því á hinum hefðbundnu 40 klst vinnuvikum. Ég myndi í raun segja að sannleikurinn væri nær 168 klst á viku.

Ég var að hlusta á hljóðbók með honum Brian Tracy þar sem hann útskýrir þetta nokkuð skemmtilega en hann tekur það fram að það að vinna 40 klukkutíma á viku hjálpar ykkur bara rétt svo til að halda ykkur á floti. Árangur ykkar í framtíðinni mælist af þeim fjölda klukkutíma sem þið vinnið umfram hina hefðbundnu 40 klukkutíma.

Ef þið vijið ná árangri, alveg óháð í hverju það er þá þurfið þið alltaf að fórna einhverju öðru í staðinn og fyrir viðskiptafræðingana þarna úti þá enda ég þetta á tilvitnun sem þeir ættu að þekkja vel, "There is no such thing as a free lunch".


Skákborðið og hrísgrjónin

Sagan segir að þegar skákborðið hafi upphaflega verið fundið upp hafi hugvitsmaðurinn á bak við það farið með það til leiðtoga landsins. Leiðtoginn var svo ánægður þessa uppfinningu að hann bauðst til að greiða hugvitsmanninum hvað svo sem hann bæði um í þakklæti fyrir þessa uppfinningu. Hugvitsmaðurinn, sem var mjög vitur maður, bað leiðtogann um að honum yrði greitt eitt hrísgrjón fyrir fyrsta reit skákborðsins, 2 hrísgrjón fyrir annan reit borðsins, fjögur hrísgrjón fyrir þriðja reitin og svo framvegis. Alltaf tvöfaldandi fjölda hrísgrjóna á reitnum á undan. Leiðtoginn samþykkti þetta án þess að hika og varð jafnvel smá móðgaður yfir því hversu lítið hefði verið beðið um. Hann skipaði gjaldkera sínum um að reikna út heildarfjölda hrísgrjóna og afhenda hugvitsmanninum. En þegar það tók gjaldkeran meira en viku að reikna þetta út kallaði leiðtoginn hann á fund og bað um útskýringu á seinagang hans. Gjaldkerinn gaf honum þá niðurstöður útreikningana og útskýrði fyrir honum að það myndi taka meira en heildareignir konungdæmisins til að greiða hugvitsmanninum það sem þeir skulduðu honum.

Ef þið takið ykkur tíma til að reikna þetta út til enda komist þið að því að heildarfjöldi hrisgrjóna sem hugvitsmaðurinn hefði átt að fá var 18,446,744,073,709,551,615 hrísgrjón. Slíkur fjöldi hrísgrjóna hefði vegið 461,168,602,000 tonn og verið þúsund falt meiri heldur en heildar framleiðsla hrísgrjóna í heiminum 2010.

Ég held mikið upp á þessa dæmisögu þar sem ég man ennþá eftir að hafa heyrt hana sem krakki og efast um sanngildi hennar. Mér fannst það svo ólíklegt að regluleg tvöföldun á einu litlu hrísgrjóni gæti sett heilt konungsdæmi á hausinn. Í dag aftur á móti skil ég viskuna á bak við söguna og lít að mörgu leiti á velgengni sem vöxt svipaðan þeim sem heyra mátti um í þessari dæmisögu. Þú verður ekki ríkur á einu hrísgrjóni en ef þú ert duglegur og samviskusamur einstaklingur sem vinnur markvisst að markmiðum þínum þá nærðu að vinna þér inn eitt hrísgrjón eða einn hundrað kall, einn og sér er hann ekki mikið en þú heldur ótrauður áfram þangað til að þú nærð að tvöfalda hundrað kallinn í tvö hundruð kall og svo fjögur hundruð og svo koll af kolli. Þetta er ekki auðveldur ferill og hann tekur mörg ár eða jafnvel áratugi, flestir gefast upp strax í byrjun þar sem þeim finnst hundrað kall ekki vera mikill peningur en þeir sem halda þetta úti og tvöfalda peninginn alltaf með reglulegu millibili þeir byrja hægt og rólega að sjá hann stækka og stækka. Svo einn daginn er eru þeir orðnir ríkir og halda samt áfram að tvöfalda peninginn þar sem það er orðið vani hjá þeim. Ég tel þetta eiga við um fjármál, frama, velgengni, heilsu og flesta þá þætti sem við kljáumst við í lífinu.

Byrjaðu að ganga eftir skákborðinu og tvöfaldaðu það sem þú vilt afreka í lífinu.

 


Hættum að flækja allt

Af einhverjum ástæðum þá virðumst við alltaf flækja allt sem við erum að gera.

Í staðinn fyrir að sitja bara upp einfalda vefsíðu með upplýsingum um fyrirtæki okkar þá þurfum við alltaf að búa til einhverja geðveikt flotta síðu sem er gagnvirk og í þrívídd. Þótt svo að það sé ekkert í samskiptum okkar við viðskiptavini okkar sem bendir til þess að þeir vilji skoða vefsíðuna okkar í þrívídd.

Ég lendi reglulega í því sjálfur að ég bý til einhverjar rosalegar áætlanir sem er óhemju flóknar og langsóttar í stað þess að finna bara auðveldustu og þægilegustu lausnina. Hugsanlega er það útaf því að við eigum er erfitt með að sætta okkur við að eitthvað sem sé svona rosalega auðvelt gæti raunverulega búið yfir verðmætum.

Gott dæmi um slíkt er það að undanfarnar vikur er ég mikið búinn að velta fyrir mér hvort ég gæti  á einhvern hátt nýtt betur þá 2.000 einstaklinga sem heimsækja Frumkvöðlar.is í hverjum mánuði. Ég var byrjaður að búa til allskonar langsóttar hugmyndir t.d. að búa til sölukerfi þar sem frumkvöðlar gætu selt þjónustu sína eða jafnvel fyrirtæki sín í gegnum vefsíðuna. Önnur hugmynd var að fara út í það að leita að styrktaraðilum sem hefðu áhuga á að auglýsa á vefsíðunni og ná þannig til þessa sérhæfða markhóps. Og þannig hélt hausinn á mér áfram að spinna út allskonar hugmyndir sem allar hefðu krafist mikils tíma og vinnu af minni hálfu.

Svo allt í einu datt mér þessi afskaplega einfalda og þægilega hugmynd til hugar. Afhverju nota ég ekki bara Frumkvöðlar.is til að auglýsa fyrirtæki mitt. Ég er alltaf að reyna markaðssetja það og það er heljarinnar mikil vinna afhverju ekki bara að nýta þessa vefsíðu til að markaðsetja það?

Nú þegar ég hugsa um þetta finnst mér fáranlegt að ég hafi ekki bara fattað þetta strax og hætt að spá í þessu. En eins og svo margir aðrir þá þarf ég alltaf að flækja allt. Ef þið lítið hérna upp í hægra hornið sjáið þið auglýsingu fyrir Búngaló, það tók mig 5 mínútur að búa til þessa auglýsingu og setja hana inn á vefsíðuna. Afhverju fattar maður ekki bara svona hluti strax?

Lærdómur dagsins:

Ekki vera flækja hluti að óþörfu, stundum er einfaldasta lausnin sú besta.

 


Uppbyggileg umræða

Ég eyddi gærdeginum á ráðstefnunni Iceland Innovation UnConference 2012 sem var haldin af Landsbankanum  í Háskóla Ísland. Það var mjög ánægjulegt hversu mikið af nýjum andlitum voru á staðnum enda kemur það oft fyrir með frumkvöðlaviðburði hér á landi að alltaf sama fólkið er á þeim. Einnig fannst mér vera mjög ferskur blær yfir öllum umræðum og fólk virtist ræða mjög opinskátt um ástandið innan sprotaumhverfisins. Umræðan skiptist mikið niður í umræðuhópa svo ég náði nú ekki að átta mig á öllu því sem um var rætt en þær umræður sem ég tók þátt í snéru að mestu leiti að fjármagni og fjárfestum hér á landi. Persónulega tel ég helsta vandamál Íslands vera að það skortir fjárfesta með reynslu af frumkvöðlastarfi en einungsi slík týpa af fjárfestum er tilbúin að taka áhættuna af því að fjárfesta í fyrirtækjum á byrjunarstigi. Það er verkefni fjárfesta að lágmarka áhættu sína og þeir gera það með því að fjárfesta í því sem þeir þekkja, þess vegna fjárfesta fjárfestar með banka- og viðskiptafræðibakgrunn bara í ársreikningum og tölfræði á meðan að frumkvöðlafjárfestar fjárfesta í hugmyndum og fólki.

En ég ræddi einngi við fullt af skemmtilegum frumkvöðlum með áhugaverðar hugmyndir eins og t.d. Dag sem er með Fitbook og strákana í buxnalaus.is. Augljóst að það er nóg af öflugu og flottu fólki þarna úti að gera spennandi hluti :)

 


Samræður við sjálfan mig fyrir 10 árum.

Ég var að enda við að horfa á myndband sem ég rakst á inn á visir.is sem bar titillinn "Ræðir við sjálfan sig fyrir 20 árum". Í þessu myndbandi hefur kvikmyndagerðamaðurinn klippt saman myndband af sjálfum sér frá því hann ver 12 ára gamall og af sjálfum sér í dag 32 ára gömlum. Myndbandið er nokkuð skondið og áhugavert og einhvern veginn kemst maður ekki hjá því að hugsa um hversu skemmtilegt það væri að eiga samræður við sjálfan sig þegar maður var yngri.

Eins og með allt annað í lífinu þessa dagana tengdi ég þetta við fyrirtækjarekstur og frumkvöðlastarf. Út frá því fór ég að hugsa um hversu áhugavert það væri að eiga samræður við sjálfan mig fyrir 10 árum síðan þegar ég var að byrja í fyrstu tilraunum mínum í viðskiptum. Einhvern veginn myndi maður halda að það væri nú nokkuð augljóst hvað maður myndi segja við sjálfan sig enda er maður búinn að bæta á sig heilum 10 árum af reynslu, upplifunum og þekkingu, en þegar ég byrjaði að hugsa þá komst ég að því að svo var ekki.

Eitt af því mikilvægasta sem ég hef lært á þessum 10 ára ferli er hreinlega ekki hægt að koma í orð og mætti best lýsa sem tilfinningu fyrir viðskiptum. Eftir öll þau fyrirtæki sem ég hef rekið og allt það brask sem ég hef reynt þá á ég auðveldara með að skynja hvaða viðskiptatækifæri eru hagkvæm og hver eru það ekki. Ég get séð tækifæri þar sem aðrir sjá ekkert nema gjaldþrot útaf því að ég hef reynsluna og veit að ef maður myndi bara gera þetta og þetta öðruvísi þá gæti þetta skilað hagnaði. Ég veit ekki hvernig ég gæti hugsanlega kennt sjálfum mér fyrir 10 árum þetta án þess að fortíðar ég þyrfti bókstaflega bara að ganga í gegnum þetta allt aftur.

En nokkur atriði sem ég gat talið upp sem ég myndi segja við sjálfan mig í fortíðinni:

 

1. Vertu alltaf heiðarlegur í viðskiptum.

Það er mjög mikilvægt að vera heiðarlegur í öllum viðskiptum og í raun í öllum samskiptum og reyna alltaf að tryggja það að allir þeir sem þú átt viðskipti við gangi frá þeim sáttir. Það dregur úr þér mikla orku að vera í eigin rekstri og mér hefur alltaf fundist það vega upp á móti löngum vinnudögum og miklu stressi að allir þeir sem ég á viðskipti við treysti mér og ég geti treyst þeim. Þetta er líka lítill heimur og það nær engin árangri til lengdar sem er óheiðarlegur í viðskiptum.

 

2. Fólk skiptir meira máli en hagnaður.

Hver þú átt viðskipti við skiptir meira máli heldur en hagnaðurinn af viðskiptunum. Ég hef í gegnum tíðina átt viðskipti við ótal marga einstaklinga og ég hef komist að því að ef ég treysti viðkomandi ekki á einhvern hátt eða er með einhverskonar óþægilega tilfinningu við að eiga viðskipti við einhvern þá borgar það sig yfirleitt að sleppa viðskiptunum. Sem dæmi um slæm viðskipti sem ég hef lent í þá t.d. lenti ég í því að skrifa undir sölusamning við kaupenda sem svo aldrei greiddi alla upphæðina og útaf lagalegum flækjum fékk ég aldrei alla þá upphæð sem mér var lofað. Þetta var mjög há upphæð og ég kom út úr þessum viðskiptum í gríðarlega tapi. Einnig hef ég leigt út fasteignir til einstaklinga sem bókstaflega rústuðu þeim og kostuðu mig hundruði þúsunda án þess að ég ætti nokkurn möguleika að fá peninginn til baka. Slík viðskipti geta bókstaflega ýtt manni út í kvíða og stress auk alls fjárhagslega kostnaðarins. Þannig veljið ekki bara samstarfsaðila vel heldur birgja og viðskiptavini líka.

 

3. Haltu áfram!

Þrautsegja skiptir öllu máli í því að reyna koma nýjum rekstri af stað enda er ekkert auðvelt við slíkan feril. Ef þú ætlar virkilega að stofna fyrirtæki og ná langt þá verðurðu bara að halda áfram sama hversu erfitt það er. Flestir frumkvöðlar sem ég þekki hafa þurft að ganga í gegnum mjög erfið tímabil og hafa á einhverjum tímapunkti hugsað með sér að það væri nú bara sniðugra að hætta þessu rugli og fá sér venjulega vinnu. Þetta er erfitt en ef þú vilt þetta virkilega, haltu þá áfram.

 

4. Þekking, lærdómur og reynsla!

Vertu stöðugt opin fyrir nýjum reynslum og hættu aldrei að læra nýja hluti. Ef þú ert að vinna á einhverju sviði reyndu þá að lesa þér til um það og sjá hvernig þeir sem hafa náð árangri gerðu það. Farðu á námskeið, ráðstefnur, horfðu á youtube myndbönd, downloadaðu heimildarmyndum, lestu bækur, lestu bækur og lestu bækur. Það er ótrúlega mikið að fróðleik þarna úti og ef þú veist hvert þú stefnir þá geturðu allt en þú verður sífellt að vera vinna í því að læra meira og prufa meira. Ef þú færð tækifæri til að prufa eitthvað spennandi sem gæti kannski hjálpað þér á einhverjum tímapunkti í lífinu stökktu þá á tækifærið. Hættan er sú að þegar þú byrjir að vinna í þínu fyrirtæki þá hafirðu ekki lengur tíma til að læra og þá byrjar fyrirtækið að staðna og á endanum byrjar það að hnigna. Haltu ávallt áfram að læra og prufa nýja hluti.

 

Mikilvægasta uppgötvunin hjá mér sjálfum við að hugsa um þessar samræður við fortíðina er líklega sú að allt það sem ég hef gengið í gegnum súrt og sárt hefur gert mig að öflugri frumkvöðli sem á auðveldara með að láta hluti skila árangri í framtíðinni. Þannig að þótt svo að þetta hafi vægast sagt verið erfiður og kvíðafullur ferill þá myndi ég ekki vilja skipta honum fyrir neitt því ég hef hlotið svo mikla reynslu og þekkingu sem ég hefði annars aldrei getað öðlast.


Viðskiptaspeki

Í viðskiptum er að mínu mati mikilvægt að mynda sér hálfgerða lífspeki eða í raun viðskiptaspeki þar sem þú ákvarðar hvernig þú vilt stunda viðskipti. Við erum öll mismunandi með mismunandi þarfir í lífinu. Sumir fara út í viðskipti til að græða eða lifa góðu lífi og það er allt í góðu lagi, aðrir vilja skapa eitthvað, breyta heiminum eða einfaldlega skapa sér vinnu sem þeir hafa gaman af. Hver sem ástæðan er á bak við það að þú farir út í eigin rekstur þá er nauðsynlegt að þú hafir tekið þér góðan tíma til að ákveða þessa ástæðu og að þú sért sátt(ur) með hana.

Í dag er ég kominn með nokkuð vel skilgreinda viðskiptaspeki þar sem ég legg mikið upp úr því að láta gott af mér leiða. Ég vil breyta heiminum til hins betra að hverju því leiti sem ég get og vil mynda góð sambönd við þá aðila sem ég stunda viðskipti við. Ég sleppi frekar að eiga viðskipti en að eiga viðskipti við aðila sem ég ekki treysti eða finnst vera vafasamir.

Mér finnst einnig mikilvægt að hjálpa öðrum og reyni yfirleitt að vera opin fyrir því að deila því sem ég hef lært eins og þessi vefsíða sýnir kannski hvað best. En einnig hef ég verið að kenna og mentora á hinum ýmsu viðburðum. Nú síðast um helgina þegar ég mentoraði í kúrsinum „Nýsköpun og stofnun fyrirtækja" upp í HR og svo „Atvinnu- og nýsköpunarhelgi" upp á Akranesi. Það að taka þátt í slíkum viðburðum er afskaplega gefandi bæði vegna þess að ég fæ þar tækifæri til að miðla áfram reynslu minni en einnig vegna þess að það að hitta svona orkumikið fólk veitir mér innblástur og bjarta sýn á framtíð okkar.

Það sem ég er í raun að reyna segja með þessari grein er ekki bara stunda viðskipti til að stunda viðskipti. Áttið ykkur á því hvað þið viljið fá út úr þeim og þá verður allt svo miklu auðveldara og þægilegra.


Startup Weekend

 

"No Talk, All Action.
Launch a startup in 54 hours"

 

Er slagorð Startup Weekend út í Bandaríkjunum en Startup Weekend eru viðburðir sem eru búnir að slá heldur betur í gegn og eru í dag haldnir út um allan heim. Hugmyndin á bak við SW er að einstaklingar og hópar með hugmyndir komi saman og í 54 klukkustundir gera þeir ekkert annað en að vinna að hugmyndum sínum. Í lok helgarinnar reyna hóparnir svo að vera komnir með einhverskonar prótótýpu eða uppkast af vöru/vefsíðu/fyrirtæki. Hér fyrir neðan er smá myndband sem sýnir hvernig viðburðurinn gengur fyrir sig út í Bandaríkjunum.

 

 


Startup Weekend - Full from Eighteen Eighty on Vimeo.

 

Nánari upplýsingar um Startup Weekend má finna á vefsíðu þeirra http://startupweekend.org/ En eins og sést á þessu korti eru viðburðirnir sem þeir halda bókstaflega út um allan heim.

 

Þessir viðburðir hafa einnig náð til klakans og eru hér haldnir undir nafninu ANH (Atvinnu- og nýsköpunarhelgar). Þrátt fyrir að viðburðurinn beri mismunandi nafn þá er viðburðurinn sjálfur að stærstum hluta sá sami. Ég hef tvisvar sinnum tekið að mér hlutverk mentors á þessum viðburðum þar sem ég hef verið til staðar til að aðstoða unga frumkvöðla við að reyna láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Í þetta sinn þá ákvað ég þó að taka þátt í ferlinum sem þáttakandi og mætti á Akureyri með hugmynd af nýjum vettvangi fyrir núverandi fyrirtæki mitt þ.e.a.s. ég hef verið með bókunarkerfi fyrir sumarbústaði og vildi komast að því hvort það væri hægt að færa þá hugmynd yfir á tjaldsvæði þar sem mér fannst markaðssetning íslenskra tjaldsvæða vera vægast sagt léleg. Árangur helgarinnar var í raun mun meiri en ég átti von á og komst ég að því að það er ótrúlegt hvað hægt er að afkasta á einni helgi ef maður einbeitir sér 100% að einu verkefni og er ekki að láta neitt trufla sig. Í lok helgarinnar var ég kominn upp með fyrsta uppkastið af vefsíðunni www.campalo.is auk þess sem ég setti upp lendingarsíðu fyrir alþjóðlega útgáfu af vefsíðunni www.campalo.com.

Ég mætti þarna og var búinn að búast við því að ég myndi vera einn út í horni að forrita eitthvað en svo endaði ég á því að fá frábært fólk með mér í hóp sem aðstoðaði mig við að þróa hugmyndina áfram. Ég vil því nýta þetta tækifæri til að þakka Darra, Hrafnhildi, Lilju og Njáli kærlega fyrir alla aðstoðina um helgina :)

Ég get hiklaust mælt með þessum viðburði fyrir alla þá sem hafa áhuga á að láta reyna fyrir sér í fyrirtækjarekstri. Þetta er alvöru stuðningsumhverfi þar sem þið getið leitað ráðleggingar og fengið spark í rassinn en eins og alltaf þá getið þið ekki búist við að aðrir vinni vinnuna ykkar. Þetta er allt undir því komið að þið séuð tilbúin í að gefa 100% af orku ykkar og tíma í viðskiptahugmyndir ykkar. Upplýsingar um næstu ANH viðburði og frekari upplýsingar má nálgast hér http://www.anh.is/ 0g svo leyfi ég líka að fylgja smá myndbrot frá nokkrum af þeim viðburðum sem hafa verið haldnir hér á landi, þið sjáið meðal annars mig bregða fyrir þarna í mentor hlutverki.

 

 


Innovit- Atvinnu og nýsköpunarhelgi from DIMMS on Vimeo.

 


Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiftum

Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að þunnar bækur séu betri en þykkar bækur. Að hluta til er ástæðan fyrir því sú að ég les ekki ýkja hratt og á erfitt með að finna mér tíma til að lesa, en einnig er það vegna þess að ég trúi því að ef hæfni einstaklings á ákveðnu sviði felist að miklu leiti í hversu auðvelt hann á með að einfalda verkið. Ef að rithöfundur bókar þekkir vel viðfangsefni bókarinnar þá ætti hann að geta komið því frá sér á einfaldan og hnitmiðaðan hátt í sem fæstu orðum. Þess vegna hafði ég mjög gaman af því þegar ég fékk í hendurnar litla og netta bók sem hét „Heilræði fyrri unga menn í verzlun og viðskiptum“. Bókin sem er einungis 76 blaðsíður (þar af 45 í formála) er einföld upptalning á góðum ráðum í viðskiptum sem mér virðast eiga alveg jafn vel við í dag eins og fyrir 100 árum þegar þau voru rituð.  Bókin var skrifuð af George H. F. Schrader sem var Bandarískur frumkvöðull sem var búsettur hér á landi í nokkur ár í byrjun síðustu aldar.

Mig langaði bara að taka nokkur góð ráð úr bókinni og deila með ykkur.

„Ef þú átt völ á stöðu sem gefur þér tækifæri til að læra eitthvað og komast áfram, þá er sú staða arðsamari, þó hún byrji með lágu kaupi, heldur en vel launuð staða með engum framtíðarmöguleikum“

Ég hef sjálfur reynt að lifa eftir þessum ráðum og hef oft tekið að mér illa launuð störf gegn því að ég geti lært eitthvað nýtt sem síðan hefur nýst mér betur síðar í lífinu. Þetta eru góð ráð sem allir myndu hagnast að fara eftir.

„Láttu ekki hugfallast, þó fyrstu tilraunir þínar misheppnist, reyndu aftur; fáir eru smiðir í fyrsta sinn.“

Þetta er eitthvað sem en hefur ekki tekist að kenna íslendingum nægjanlega vel, þar sem við virðumst ennþá líta á mistök sem merki um leti eða heimsku. En staðreyndin er þó sú að við lærum aldrei jafn mikið af neinu eins og við lærum af mistökum okkar og það að einstaklingur sé með mistök á baki sér getur verið merki um að viðkomandi hafi öðlast mikla þekkingu af þeim mistökum og geti betur tekist á við komandi verkefni.

„Fyrir unga verzlunarmenn er sérlega gott að lesa bækur um verzlun og verzlunarlöggjöf. En fyrir handverksmenn er mjög nytsamlegt að lesa bækur og blaðagreinar um handiðnir allskonar. Þess konar bækur má fá í hverju bókasafni.“

Í dag er orðið mun auðveldara að nálgast bækur og fræðsluefni um ýmiskonar málefni hvort sem það er á bókasöfnum eða á veraldarvefnum.. Það ætti því ekki að reynast neinum erfitt að afla sér upplýsinga um það sem hann er að vinna við og skapa sér fljót sérstöðu á sínu sviði og auka þannig möguleika á árangri.

„Bezta ráðið sem ég get gefið húsbændum, er að uppala og leiðbeina verkamönnum sínum, og skoða þá eigi sem dauð verkfæri til að græða peninga. Kennið þeim og gefið þeim kost á að læra, hvernig þeir eigi að standa á eigin fótum. Æfið þá þangað til þeir eru færir um að skipa sæti húsbóndans ef nauðsyn ber til. Með því einu móti getur starfið ætíð gengið greitt, og þér sjálfir verðið aldrei þrælar atvinnu yðar. Komið því skipulagi á vinnulið yðar, sem herfylking væri, svo að það geti gegnt starfi yðar, þó veikindi eða elli beri að höndum. Kjósið ætíð einhvern fulltrúa.“

Þetta eru ráð sem ég hef einnig lesið í mörgum nýútgefnum bókum, ráðið fólk sem er hæft og jafnvel mun hæfara en þið sjálf, þjálfið það upp og verið óhrædd við að deila með þeim af reynslu ykkar. Ef að þið sem stjórnendur þjálfið ekki upp starfsfólk ykkar til að taka einn daginn við af ykkur er hætta á að þið sjálf verðið þrælar eigin vinnu og munuð ekki geta farið að minnka við ykkur vinnuna þegar þið farið að eldast þar sem það er engin hæfur til að taka við ykkar störfum.

„Það er betra að byrja með litlu og færast í aukana en að byrja með miklu, aðeins til að fara á höfuðið“

Hann talar um að það sé aldrei gott að byrja með lánsfé og það sé þess í stað gott að reyna byrja með lítið og semja vel. Sjálfur þekki ég vel að byrja fyrirtæki með mikið lánsfé og ég myndi ekki mæla með því, það er mun betra ráð að byrja smátt án lánsfés og byggja félagið statt og stöðugt upp.

„Heiðarlegur gróði og gott mannorð er framar öllu öðru; en varist að græða fé óheiðarlega.

Viðskiptaheimurinn er mun minni en maður gæti ímyndað sér og það að hafa gott orðspor skiptir öllu. Passið ávallt að eiga heiðarleg viðskipti við alla í kringum ykkur bæði vegna þess að ykkur mun líða betur andlega en einnig vegna þess að ef þið eruð óheiðarleg þá fréttist það strax og fólk hættir að treysta ykkur og vill síður eiga viðskipti við ykkur.

Hann endar bókina á eftirfarandi orðum og ég get ekki ímyndað mér betri leið til að enda slíka bók.

„Látið yður umhugað um annað meira og hærra, en að græða fé. Peningarnir eiga aðeins að vera meðal til að ná tilgangi og látið takmark ykkar verða: áhyggjulaust líf. Ef þér þá getið og hafið vilja á að hjálpa öðrum, þá mun það baka yður meiri gleði, heldur en nokkurntíma að hjálpa yður sjálfum - þ. e. a. s. ef þér gerið það skynsamlega.“

Þetta er lítil og nett bók sem er fljótlesin en ætti þó að vera marglesin því í henni eru góð og tímalaus ráð sem þið getið nýtt bæði í viðskiptum og einkalífi ykkar. Ég hefði alveg verið til í að vitna í fleiri greinar úr bókinni en þess í stað ætla ég að mæla með að þið fjárfestið í henni og innbyrðið sjálf þessa skemmtilegu lesningu.

Að lokum vill ég þakka henni Þórunni Jónsdóttur kærlega fyrir að hafa gefið mér þessa bók.


Úthýsing símsvörunnar

Ég er búinn að vera skoða ýmsa möguleika til að gera fyrirtækið mitt sjálfvirkara að öllu leiti og þannig reyna takmarka þá vinnu sem ég þurfi að leggja í hversdagslega hluti  til að geta nýtt tíma minn frekar í áframhaldandi þróun. Ein hugmyndin sem ég fékk var sú að úthýsa símsvörun fyrirtækisins þannig að ég þyrfti ekki að sitja við símann allan daginn sérstaklega þar sem vinnutíminn minn er oftar en ekki heldur óhefðbundinn. Fyrstu hugmyndirnar sem komu upp í hausnum á mér varðandi það var fyrsta lagi að það hlyti að vera fáranlega dýrt og öðru lagi að það hlyti nú að vera erfitt fyrir einhvern aðila út í bæ að svara spurningum um fyrirtækið mitt. Eftir að hafa leitað eftir símsvörunarþjónustu á google fann ég 3 fyrirtæki sem komu til greina, þessi fyrirtæki voru Ritari.is, Miðlun og Símaverið. Eftir að hafa talað við þessi fyrirtæki komst ég að því að þessari hugmyndir mínar um þjónustuna voru fjarri lagi þar sem það kom mér töluvert á óvart að svona þjónusta er á nokkuð hagstæðu verði sérstaklega m.v. það að ég losna við töluverða vinnu. Auk þess sannfærðu þau mig um að starfsmenn þeirra gætu aðlagað sig vel að öllum fyrirtækjum.

Ég hef því ákveðið að slá til og prufa slíka úthýsingu.

Næstu skrefin eru þau að ég mun í sameiningu við símsvörunarfyrirtækið útbúa upplýsingarit fyrir starfsmenn símsvörunnarinnar um fyrirtæki mitt svo þeir geti flétt upp ef einhverjar spurningar koma upp sem þau vita ekki. Einnig verður svo ákveðið með hvaða hætti símtöl sem ég sjálfur þarf að svara fyrir verða áframsend, hægt er að senda þau áfram í GSM síma minn eða einfaldlega taka niður upplýsingar um viðkomandi og ég fæ þær sendar með SMS eða tölvupósti. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig þetta kemur út og mun tvímælalaust deila reynslu minni hérna á blogginu um leið og einhver reynsla er komin.


Egilsstaðir heimsóttir

Næstkomandi föstudag, 9.september, mun ég heimsækja Egilsstaði þar sem ég mun taka þátt í viðburði sem Þorpið, skapandi samfélag á Austurlandi, er að skipuleggja. Ég eyði þarna stórum hluta af deginum á Egilsstöðum og vildi því reyna nýta tækifærið og kynnast áhugaverðum frumkvöðlum þar í bæ.

Þannig ef þú ert staðsett/ur á Egilsstöðum næsta föstudag og ert til í að hittast yfir kaffibolla og taka gott spjall þá endilega sendu mér tölvupóst á haukur@bungalo.com.

Ég skal svo reyna setja inn frekari upplýsingar hérna um viðburðinn um leið og ég fæ frekari upplýsingar um hann.

 

<< --- UPPFÆRSLA --- >>
Hérna kemur dagskrá viðburðarins:

.


TED fyrirlestrar

Einhver besta uppspretta áhugaverðra fyrirlestra á netinu er TED (www.ted.com). TED er viðburður þar sem margir af mestu hugsuðum okkar tíma koma saman til að deila hugmyndum sínum. Einn af uppáhalds fyrirlestrum mínum á TED er fyrirlestur Ken Robinson um hvernig skólar drepa niður sköpunargáfur nemenda sinna.

Á hverju ári eru haldnir ótal margir sjálfstæðir TED viðburðir sem kallast TEDx og slíkur viðburður var haldin hér á landi 2009 en ég var því miður erlendis á þessum tíma og missti af viðburðinum. Ég var þó að finna nokkrar fyrirlestranna frá þeim viðburði á netinu og vildi deila þeim hérna með ykkur. Hér fyrir neðan eru tveir góðir TEDx fyrirlestrar en restina af Reykjavik TEDx fyrirlestrunum má finna hér http://tedxtalks.ted.com/search/?search=reykjavik

Jónas Antonsson, stofnandi Gogogic tölvuleikjafyrirtækisins. Hann er einn ef uppáhalds fyrirlesurum mínum hér á Íslandi þar sem hann fer oft yfir í mjög skemmtilegar heimspekilegar pælingar um tilvilst okkar.

Torfi G. Yngvason hjá Arctic Adventures, hann hélt einmitt fyrirlestur á viðburðinn sem ég skipulagði fyrr á þessu ári og hét Reynslusögur Íslenskra Frumkvöðla. Hann er með virkilega góða yfirsýn yfir íslenska ferðaiðnaðinn og kemur þeim upplýsingum skemmtilega frá sér.


Tími til að sækja um styrki!

Ef þið stefnið að því að sækja um styrki fyrir viðskiptahugmyndir/fyrirtæki ykkar þá er núna besti tíminn til að byrja. Skilfrestur nokkurra skemmtilegra styrkja rennur út núna í næsta mánuði og því góð ástæða fyrir ykkur til að setjast niður yfir tölvuna og byrja massa út nokkrar styrktarumsóknir. Herna er listi yfir þá styrki sem þið getið sótt um á næstu vikum:

 

15.sept: Tækniþróunarsjóður

Þetta er líklega öflugasti styrkurinn sem er í boði í dag, þar sem hann getur numið allt að 30 milljónum í stærstu verkefnin. En hann skiptist upp í 3 styrktarflokka sem hver er hugsaður til að aðstoða fyrirtæki á mismunandi stað í ferlinum, þessi flokkar eru eftirfarandi:

1. Frumherjastyrkur:
Verkefnin eru einungis styrkt til 2ja ára að hámarki 5 milljónir hvert ár. Krafist er 25% mótframlags umsækjenda.

2. Verkefnisstyrkur:
Almennir verkefnisstyrkir eru til allt að 3ja ára og að hámarki 10 milljónir króna á ári. Krafist er 50% mótframlags umsækjenda.

3. Brúarstyrkur:
Verkefnin eru einungis styrkt til eins árs að hámarki 5 milljónir. Krafist er 50% mótframlags umsækjenda.

Ef þú ert að fara að sækja um styrk hjá Tækniþróunarsjóð í fyrsta skipti þá máttu búast við miklum tíma í það. Það er ætlast til að til staðar sé fullunnin viðskiptaáætlun auk þess þarf að fylla út tímafrek excel-skjöl. Það góða við að sækja um hjá tækniþróunarsjóð er að hann gefur manni gagnrýni til baka svo maður viti hvað maður gerði vitlaust, eini sjóðurinn sem gerir það sem best sem ég veit.

Frekari upplýsingar er að finna hér: http://rannis.is/sjodir/taeknithrounarsjodur/umsokn-og-upplysingar/

 

16.sept: Nýsköpunarstyrkur Landsbankans

Þessi styrkur virðist vera nýtilkominn og því þekki ég ekki vel til hans. Þetta er hugsað til að gefa frumkvöðlum tækifæri til að þróa nýja viðskiptahugmynd, eldri viðskiptahugmynd á nýju markaðssvæði eða nýja vöru eða þjónustu. Í fljótu bragði virðist þetta vera nokkuð opinn styrkur þar sem maður getur nýtt styrkinn í það sem maður þarf mest á að halda.

Frekari upplýsingar má finna hér: http://www.landsbanki.is/fyrirtaekjathjonusta/nyskopun/nyskopunarstyrkir/

Landsbankinn ætlar með þessu að veita 7 styrki að upphæð 1 milljón hver og 20 styrki að upphæð 400þús hver.

 

22.sept: Átak til atvinnusköpunnar (Nýsköpunarmiðstöð)

Eins og segir á vefsíðu nýsköpunarmiðstöðvar um Átak til atvinusköpunar: "Styrkáætlun iðnaðarráðuneytisins fyrir nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með umsóknarferlinu fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins."

Þessi styrkur er gerður til styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta. Styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða í frumkvöðla og sprotafyrirtækjum.

Frekari upplýsingar má nálgast hér: http://www.nmi.is/impra/styrkir-og-studningsverkefni/atak-til-atvinnuskopunar/

Hámarksupphæð er 50% af kostnaði verkefnis sem sótt er um, umsækjandi þarf að fjármagna hinn helminginn sjálfur.

 

Svo rakst ég líka á þennan styrktarlista inn á vefsíðu Landsbankans, góð samantekt: http://www.landsbanki.is/fyrirtaekjathjonusta/nyskopun/fjarmagn-fyrir-reksturinn/styrkir-og-sjodir/

 

 


Viðtöl við frumkvöðla

Ég er í samstarfi við hann Þórarinn Hjálmarsson (http://thorarinnh.segir.is/) að skoða möguleika á að vera með regluleg vidjó viðtöl við íslenska frumkvöðla. Hér að neðan má sjá viðtal sem hann tók við mig um Búngaló.

Við leitum nú að hressum frumkvöðlum sem hefðu áhuga á að deila því sem þeir eru að vinna í með restinni af heiminum í gegnum stutt vidjó viðtöl. Ef þú eða einhver sem þú þekkir er að gera áhugaverða hluti, einhverjar tækninýjungar, stofna fyrirtæki eða eitthvað annað spennó máttu endilega láta okkur vita með því að commenta hér fyrir neðan og við verðum í sambandi við ykkur.

Einnig líka bara ef þið hafið einhverjar óskir um einhverja íslenska frumkvöðla sem þið hefðuð áhuga á að sjá viðtöl við.

Endilega látið í ykkur heyra :)

.


Dúkkulísur - Framhald

Fyrir stuttu þá skrifaði ég grein um Dúkkulísur (DressUpGames.com) sem mér finnst ennþá vera afskaplega áhugaverð síða og gott dæmi um hvað hægt er að gera ef maður er tilbúinn að leggja á sig mikla vinnu í lengri tíma.

En ég náði loksins í hana Ingu Maríu sem er upphafsmaður þessarar vefsíðu og fékk hana til að svara nokkrum spurningum varðandi vefsíðuna, hér koma þær spurningar og svör hennar við þeim.

 

Hvaðan kom hugmyndina að DressUpGames.com?
Eftir að ég lauk námi í bókasafns- og upplýsingafræði þá langaði mig alltaf til að læra að setja upp vefsíðu. Ég var lengi að spá í hvað ég ætti að taka fyrir og uppgötvaði svo dúkkulísuleiki á vefnum. Fannst þeir sniðugir og skemmtilegir og það var engin vefsíða sem sérhæfði sig í þessum leikjum.

 

Varstu með einhverja reynslu í vefsíðugerð þegar þú fórst af stað?
Nei.

 

Forritaðir þú hana sjálf eða fékkstu einhvern til að forrita fyrir þig? Hvernig gekk það?
Já, ég sá um það sjálf frá upphafi en fékk hjálp við að búa til þá útgáfu sem nú er á vefnum.

 

Hvenær gerðirðu þér grein fyrir því að þetta gæti farið að skila þér inn raunverulegum tekjum?
Mig minnir að það hafi verið um 2003, fimm árum eftir að ég byrjaði. Fyrstu árin voru tekjurnar litlar.

 

Hverjar voru helstu hindranirnar sem þú lentir í við að gera vefsíðuna að því sem hún er í dag?
Leikjaheimurinn, þar með talið netleikir, er mjög karla- og strákamiðaður heimur. Það hefur oft verið erfitt að koma síðunni á framfæri af því karlkyns vefeigendur hafa ekki áhuga á efninu og skilja ekki að það er stór hópur sem hefur áhuga. Eftir því sem fleiri vefir helga sig dúkkulísuleikjum hefur þetta skánað, en það er samt mjög viðloðandi viðhorf hjá forriturum og vefeigendum að þetta séu ómerkilegir leikir, og í raun ekki "alvöru" leikir.

 

Lentirðu einhvertímann í vandamáli með hýsingaraðila vegna þess mikla magn heimsókna sem voru að koma inn á hana?
Já, já, oft og margsinnis fyrstu árin! En er núna með vefinn í traustri hýsingu og hef verið lengi.

 

Lagðirðu mikla áherslu á leitarvélabestun (koma þér ofarlega í leitarvélarnar) eða kom það bara sjálfkrafa með tímanum?
Alls ekki í byrjun, enda var ekki búið að uppgötva þau vísindi þegar ég byrjaði. Eftir að ég varð vör við umfjöllun um leitarvélabestun (smart orð!) hef ég alltaf haft það í huga en tekið meðvitaða ákvörðun um að missa mig ekki út í það á kostnað annarrar uppbyggingar. Maður reynir að fara milliveginn, að nota vinnubrögð sem Google og hinar leitarvélarnar mæla með en gleyma sér ekki í brögðum til að "plata" leitavélarnar.

 

Hverjar eru helstu breytingar sem þú hefur gert á vefsíðunni frá því hún var fyrst opnuð?
Ég hef reynt að breyta síðunni ekki mikið, það er mín skoðun og rannsóknir hafa sýnt að notendum líkar ekki við of miklar breytingar. Ég er núna að vinna að stórum breytingum sem verða tilbúnar seinna í sumar eða haust, það verður langstærsta breytingin til þessa.

 

Ertu með einhverjar ráðleggingar fyrir frumkvöðla þarna úti sem dreymir um að gera eitthvað svipað og þú hefur gert?
Til að halda út í langan tíma er nauðsynlegt að velja sér efni sem maður hefur áhuga á og finna flöt á efninu sem engum hefur dottið í hug áður.

 

.


Dúkkulísur

Fyrir nokkrum árum heyrði ég af íslenskri vefsíðu sem var með leik þar sem maður gat klætt persónur í allskonar föt og leikið sér að því að skipta út fötunum. Þetta var svo sem ekkert frásögufærandi nema hvað þessi vefsíða var ein af tekjumestu vefsíðum landsins. Á þessum tímapunkt gat ég engan veginn skilið hvernig slík vefsíða færi að því að hala inn miklum tekjum.

Nú nokkrum árum síðan fór ég aftur að velta þessu fyrir mér og ákvað að reyna kynna mér þetta aðeins og sjá hvort ég gæti fundið einhverja útskýringu á hvernig slíkt væri hægt. Ég byrjaði á því að opna vefsíðuna en slóðin á hana er www.dressupgames.com og þetta var hvorki mest tæknilega eða best hannaða vefsíða sem ég hef séð. Í raun virtist þetta bara vera afskaplega venjuleg vefsíða sem lítið hafði breyst á undanförnum árum.

Ég ákvað því að reyna „googla“ þetta í von um að finna einhverjar skemmtilegar upplýsingar um þetta. Þar komst ég að því að upphafsmaður vefsíðunnar væri Inga María Guðmundsdóttir, bókavörður á Ísafirði og árið 2007 var hún þriðji tekjuhæsti einstaklingurinn á Vestfjörðum. Einhvertímann hafði ég heyrt að hún væri að fá 100+ milljónir á hverju ári en ég hef enga staðfestingu fengið á því. Get nú ekki annað sagt en að þetta hafi bara glætt áhuga minn á þessari vefsíðu.

Ég fór því og greindi vefsíðuna aðeins til að átta mig á hvaðan tekjurnar væru að koma. Síðan virtist vera samansafn af linkum á allskonar „dress-up“ leiki, flestir á öðrum vefsíðum en þó nokkrir á þessari vefsíðu. Einu hugsanlegu tekjuleiðirnar sem ég fann á vefsíðunni voru í gegnum Google Adsense en það er þjónusta sem Google býður upp þar sem þú bætir smá texta inn í kóðann hjá þér og Google birtir auglýsingar tengdar því sem vefsíðan þín fjallar um, svo í hvert skipti sem einhver smellir á einhverja af þessum auglýsingum þá færðu greitt nokkrar krónur. Yfirleitt eru slíkar tekjur litlar sem engar nema um mjög mikið magn heimsókna sé að ræða. Í þessu tilfelli þá er þetta vægast sagt mikið magn af heimsóknum sem síðan er að fá en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fann þar þá er hún að fá 4,5 milljón heimsókna í hverjum mánuði og 21 milljón fléttinga.

 

Dæmi um leik á vefsíðunni.

 

Flest okkar eiga það til að líta á svona dæmi um velgengni hjá öðrum og hugsa að viðkomandi hljóti að vera afskaplega heppinn að vera fá svona margar heimsóknir. Við virðumst einhvern veginn sjálfkrafa halda því fram að þetta hafi bara gerst á einni nóttu og sé á allan hátt heppni að kenna/þakka. En ef kafað er ofan í málið er nær alltaf mikil og erfið vinna á bakvið alla velgengni hversu einföld sem hún kann að vera í fyrstu og ég held að þetta sé engin undantekning á því. Vefsíðan var stofnuð 1998 og virðist vera uppfærð daglega sem þýðir að stofnandinn hefur unnið statt og stöðugt allan þennan tíma að því að betrumbæta efnið á síðunni. Þetta er því árangur mikillar vinnu og þrautseigju.

Ég sendi tölvupóst á hana Ingu Maríu þar sem ég bað hana um að svara nokkrum spurningum varðandi upphafið á vefsíðunni til að skilja betur ferilinn sem fylgir svona verkefni. Því miður þá hef ég ennþá ekki fengið svar frá henni.

 

.


Dagskrá RÍF

Jæja þá fer óðfluga að styttast í að viðburðurinn Reynslusögur íslenskra frumkvöðla 2011 hefjist en hann fer fram á Grand Hótel, laugardaginn 18.júní. Ennþá eru nokkur sæti laus og getur fólk ennþá skráð sig með því að senda tölvupóst á haukur@bungalo.com. Það verður einnig hægt að kaupa miða við innganginn á meðan það eru ennnþá laus sæti en við mælum með að fólk skrái sig með tölvupósti til að tryggja sér öruggt sæti. Við getum ekki tekið við kortum þar sem við erum ekki með posa bara pening.

Dagskrá RÍF:

10:00-10:20    Kynning á viðburðinum
10:20-11:00    Ingi Gauti Ragnarsson, bland.is
11:00-11:40    Colin Wright, Exile Lifestyle
11:40-12:20    Elinóra Inga Sigurðardóttir, Royal Natural

12:20-13:20    Hádegishlé, Icedeas hópurinn stýrir networking-hitting yfir hádegismatnum fyrir þá sem hafa áhuga. Þetta er góð leið fyrir þá sem vilja bæta tengslanet sitt en þarna verður hópnum skipt upp og þið fáið tækifæri til að kynnast öðrum áhugaverðum einstaklingum yfir léttu spjalli og mat. Guðmundur Kári Kárason er fulltrúi Iceadeas og skipuleggur þennan viðburð.

13:20-14:00    Hjálmar Gíslason, Datamarket
14:00-14:40    Vilborg Einarsdóttir, Mentor

14:40-15:00    Hlé

15:00-15:40    Tóti Stefánsson, Mobilitus
15:40-16:20    Torfi G. Yngvason, Arctic Adventures
16:20-17:00    Haukur Guðjónsson, Búngaló

17:00-20:00    Hlé

20:00-??:00    Networking hittingur aftur um kvöldið fyrir þá sem hafa áhuga, staðsetning verður tilkynnt á laugardaginn.

Einnig verða á staðnum yfir allan daginn fulltrúar frá Innovit, Klak, Ásbrú og fleiri frumkvöðlasetrum sem munu kynna starfssemi sína og aðstoða ykkur að skilja betur frumkvöðlaumhverfið á Íslandi.

 

.