Hvernig hélt ég geðheilsu í Covid-19?

Það er aukið álag að þurfa að vinna heima og sérstaklega þegar maður er með börn. Í kófinu vorum við hjónin bæði að vinna heima og ég fann fljótt að ég þurfti mjög nauðsynlega að hafa sterka rútínu.

Ég gerði mjög fastmótaða áætlun á hverjum degi frá 9-17 og hélt mig við hana.

Ég „mætti í vinnuna” og byrjaði daginn alltaf á markmiðasetningu. Hvað vildi ég klára í dag og hvað þurfti ég að gera í mínum verkefnum til að fá tilfinninguna um að dagsverki væri lokið. Þó að maður sé að sinna stórum verkefnum er mjög mikilvægt að brjóta þau niður til að geta merkt sem lokið á hverjum einasta degi.

Ég tók mér alltaf klukkutíma í hreyfingu í hádeginu. Líkamsrækt og áreynsla á miðjum vinnudegi hjálpar mér að fókusera betur á eftir. Ég uppgötva oft lausnir um leið og ég hætti að hugsa um vandamálið því ég er of upptekinn að halda jógapósunni.

Að fara út úr húsi á kvöldin sem gat bara verið stuttur göngutúr gaf mér betri svefn. Maður sefur betur þegar maður hressir sig við áður en maður fer í bólið og góður svefn skiptir öllu máli.

Þessir föstu punktar hafa haldið mér réttu megin í hausnum og ég er þakklátur fyrir að hafa möguleikann á að passa upp á sjálfan mig í þessu ástandi.

Mig langaði að fá að heyra í ykkur og vita hvernig þið hafið verið að tækla þennan tíma. Það er svo gott að vita að maður er ekki einn og það eru margir þarna úti eru að fara í gegnum erfitt tímabil. Að missa tekjulind á að því er virðist einu bretti er ógnvænlegt ástand og það er ekkert að því að finna fyrir ótta. Að verða andlega og líkamlega veikur þegar við göngum í gegnum erfiðleika er mjög eðlilegt og við ætlum að komast í gegnum þetta saman. Erfiðleikar eru partur af því að vera í rekstri og hreinlega partur af því að vera manneskja en það er fátítt að við séum svona mörg að ganga í gegnum það sama á sama tíma.


Hvert er rétta bókhaldskerfið fyrir þig?

Öll fyrirtæki þurfa að halda bókhald, skila inn vsk-skilum, halda utan um launagreiðslur, gefa út reikninga og sitthvað fleira. Það fer þó alveg eftir fyrirtækinu og frumkvöðlinum hversu mikið af þessum atriðum hann vill sinna sjálfur og hversu mikið hann vill útvista til bókarans síns, en ef hann ætlar að sjá um eitthvað af þessum atriðum sjálfur þá getur verið gott að hafa einhverskonar bókhaldskerfi.

Stóra spurningin er þá "hvaða bókhaldskerfi á ég að nota?" og við því er ekki til neitt einfalt svar því að það virðist vera mjög mikið smekksatriði hvaða kerfi fólk kýs að nota. Til þess að reyna fá smá yfirsýn yfir hvaða bókhaldskerfi frumkvöðlar væru helst að nota gerði ég óformlega skoðunakönnun inn á Íslenskir frumkvöðla FB grúppunni og hérna eru niðurstöðurnar úr þeirri könnun.

Ég myndi segja að þessi niðurstaða endurspeglar nokkuð vel mína reynslu af notkun bóhaldskerfa fyrir lítil fyrirtæki en ég hef á ferli mínum notað öll þessi 4 kerfi sem fengu flest atkvæði. Í framhaldi af þessari skoðanakönnun langaði mig til að skoða með ykkur aðeins betur þessi topp fjögur kerfi og sjá hvort ég gæti hjálpað ykkur til að ákveða hvaða kerfi myndi henta ykkur best.

Þegar ég fór að skoða þessi kerfi þá skráði ég mig sem notandi á öll þau kerfi sem voru með frían prufutíma til að rifja upp reynslu mína af þeim og taka nokkur skjáskot til að deila með ykkur. Lýsingarnar á kerfunum endurspegla bara mína persónulegu upplifun og reynslu af þessum kerfum og í sumum tilfellum er sú reynsla takmörkuð.

DK

Líklega er DK búið að vera eitt aðal bókhaldskerfið á Íslandi undanfarin ár enda hef ég hvað oftast heyrt það nefnt af öllum bókhaldskerfunum og mér skilst að það séu vel yfir 6.000 notendur af því í dag. Ég notaði það síðast fyrir líklega svona 5 árum síðan og á þeim tímapunkti var viðmót á því örlítið gamaldags en á sama tíma var þetta mjög öflugt kerfi sem gerði mér kleift að vera með allskonar keyrslur á reikningum og sjálfvirkni.

Það var engin frír prufutími hjá þeim og því gat ég ekki skráð mig til að prufa núverandi kerfi og taka nýjar skjámyndir. En þetta er í raun mjög öflugt kerfi með endalaust marga eiginleika en á sama tíma er það örlítið flókið og kostnaðarsamt og því held ég að það henti betur fyrir fyrirtæki sem eru komin með góða veltu og hafa raunverulega þörf á öflugum kerfum og góðum samtengingum við önnur kerfi.

Eiginleikar

 • Senda reikninga
 • Starfsmannakerfi
 • Birgðakerfi
 • Bókunarkerfi
 • Sölukerfi
 • Viðskiptamanna kerfi
 • Afgreiðslukerfi
 • o.f.l.

Verðlagning:

 • Grunnpakki: kr.9.660-/mán án vsk.

 

Regla.is

Regla fær almennt séð góða dóma frá þeim sem ég hef talað við sem nota það og margir sem líkja því við aðeins minni og ódýrari útgáfu af DK. Kerfið býður upp á flest allt það sem lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa á að halda í svona kerfi og nokkuð sanngjarnt í verði þó það hafi verið nefnt að verðið hækkar aðeins með tímanum þegar maður er í viðskiptum við þá. Mér finnst einnig viðmótið heldur gamaldags þótt ég sé viss um að þeir sem eru búnir að vinna með það lengi finnist það fínt.

Eiginleikar

 • Fjárhagskerfi
 • Sölu- og birgðakerfi
 • Afgreiðslukerfi
 • Netverslanatenging
 • Launakerfi
 • o.f.l.

Verðlagning

 • Grunnpakki kr.2.800-/mán án vsk.

 

Konto

Konto virkar alltaf á mig sem litli gaurinn á markaðnum, en þetta hefur undanfarin ár verið einfaldasta leiðin til að senda út einstaka reikninga. Ég byrjaði fyrst að nota Konto þegar ég þurfti bara að senda út einn reikning og nennti ekki að standa í vesseninu við að skrá mig í eitthvað flókið kerfi, síðan þá hef ég sent nokkra reikninga í gegnum þetta og það er bæði einfalt og fljótlegt.

Eiginleikar:

 • Senda reikninga

Verðlagning:

 • Frítt að senda allt að 10 reikninga
 • Grunnpakkinn kr.4.490-/mán

 

Payday

Payday er mjög ungt fyrirtæki en á sama tíma eru þeir búnir að vera vaxa hratt enda eru þeir með vel hannað kerfi sem er einfalt í notkun. Með kerfinu er auðvelt að senda reikninga og vera með sjálfvirka keyrslu á launatengdum gjöldum og VSK skilum. Ég veit að það er búin að vera mikil þróunarvinna í gangi hjá þeim og ég er spenntur að fylgjast með hvernig þetta kerfi mun þróast á komandi árum.

Eiginleikar:

 • Senda reikninga
 • VSK-skil
 • Skil á launatengdum gjöldum.
 • Yfirlit

Verðlagning:

 • Frítt að senda allt að 2 reikninga per mánuð.
 • Grunnpakkinn kr.3.900-/mán

 

Vonandi hjálpar þetta þér eitthvað til að ákveða hvaða bókhaldskerfi er best fyrir þig en svo er einnig alltaf mikilvægt að tala við bókarann sinn og fá ráðleggingar frá honum/henni líka.

Og ef þú hefur reynslu af eitthvað af þessum kerfum þá endilega deilið með okkur í kommentum hver ykkar upplifun hefur verið.

 


Jólagjafir starfsmanna

Nú eru jólin á næsta leiti og ég var aðeins að skoða hvað fyrirtæki geta gert fyrir starfsmenn sína í tilefni jólanna. Samkvæmt RSK þá eru yfirleitt öll hlunnindi skattskyld en það er þó nokkrar undantekningar eins og árshátíðir, starfsmannaferðir og jólagleði. Heildarkostnaður af þessum undantekninum má vera allt að kr.130.000- á ári per starfsmann, allt umfram það er skattskylt. En það þýðir það að hægt er að gera ansi mikið fyrir starfsmenn sína á ári hverju. Hérna er tilvitnun í vefsíðu RSK:

"Ekki skal telja til tekna hlunnindi og fríðindi sem felast í ýmsum viðurgjörningi við starfsmenn og t.d. árshátíð, starfsmannaferðum, jólagleði og sambærilegum samkomum og viðburðum, enda sé að jafnaði um að ræða viðburði sem standi öllum starfsmönnum launagreiðandans til boða og árlegur kostnaður af þeim nemi ekki hærri fjárhæð en 130.000 kr. á hvern starfsmann. Hlunnindi og fríðindi af umræddum toga umfram 130.000 kr. skulu teljast starfsmanni til tekna, hvernig sem fyrirkomulagi á greiðslum launagreiðanda er háttað."

Frekari upplýsingar um þetta má lesa inn á Skattmat RSK: https://www.rsk.is/einstaklingar/tekjur-og-fradraettir/skattmat/

Ég er engin sérfræðingur í skattamálum en ég get ekki betur séð en þarna sé tilvalið tækifæri til að gera eitthvað gott fyrir starfsfólkið og frumkvöðulinn í tilefni hátíðanna. Þarna væri t.d. hægt að bjóða öllum út í jólahlaðborð og þótt svo það sé ekki beint nefnt þá hljóta jólagjafir að vera partur af jólagleðinni og því ekki úr vegi að gefa einhverja smá gjöf með.

Hvað ætlið þið að gera fyrir ykkar starfsfólk þetta árið? :)


Hvar er hægt að nálgast fréttir um íslenska frumkvöðlaumhverfið?

Mér finnst nú almennt séð ekki vera margir miðlar á Íslandi sem hafa í gegnum árin verið með góð og regluleg skrif um íslenska frumkvöðlaumhverfið og því hefur oft verið erfitt að fylgjast með því sem er að gerast. En hérna eru nokkrir hlekkir á miðla sem ég myndi mæla með að þið mynduð kíkja á.

Facebook grúppur

Íslenskir frumkvöðlar (Þetta mín "go-to" síða til að fylgjast með því sem er að gerast hjá frumkvöðlum, en þess ber að geta að ég er ekki alveg hlutlaus þar sem ég rek þessa grúppu. 4.500 meðlimir).

Hugmyndaráðuneytið (Mér hefur fundist þessi grúppa ekki vera alveg jafn virk og hún var en engu að síður mæli ég með að fylgjast þar með. 4.300 meðlimir)

Korka - Konur í nýsköpun og sprotafyrirtækjum.​ (Ég er ekki meðlimur í þessari grúppu en virðist vera virk. 2.200 meðlimir)

Frumkvöðlar í ferðaþjónustu (Fyrir frumkvöðla í ferðaþjónustu. 300 meðlimir)

Vefsíður

North Stack (Þetta er líklega ein virkasta fréttaveitan um íslenska startup umhverfið.)

Startup Iceland (Bala Kamallakharan er um árabil búinn að vera einn öflugasti bloggarinn í íslenska startup umhverfinu)

Frumkvöðlar (Þetta er náttúrulega barnið mitt en ég hef á síðari árum farið frá því að reyna miðla fréttum og ákveðið að reyna frekar að miðla fróðleik og ýtarlegri greinum varðandi frumkvöðlastarf.)

Nýsköpunarmiðstöð (Fréttir frá nýsköpunarmiðstöð)

Þetta er nú bara stutt upptalning á svona helstu miðlum sem ég þekki og nota en hverju er ég að gleyma? og hvaða aðrar síður ættu heima á þessum lista? Bætið því við í athugsemdum hér fyrir neðan.

P.S. 10 nördastig í boði fyrir þann sem getur sagt mér hvaðan cover myndin með þessari grein kemur :)


Hvaða styrkir eru í boði fyrir þig og þitt fyrirtæki?

Ég er búinn að fá nokkrar spurningar að undanförnu varðandi hvaða styrkir séu í boði fyrir fólk í fyrirtækjarekstri og ég ákvað því bara að skrifa svarið mitt í formi bloggfærslu hér á frumkvodlar.is. Ég hef áður skrifað um styrki og góð ráð til að sækja um styrki en umhverfið breytist sífellt og þeir styrkir sem voru í boði fyrir nokkrum árum eru það ekki lengur og svo er fjöldin allur af minni styrkjum sem poppa upp hér og þar en eru aðeins í boði í stutta stund. Hérna vil ég því frekar fjalla aðeins um mismunandi flokka af styrkjum, tilgang þeirra og reyna gefa ykkur smá hugmynd um hvaða styrkir gætu hugsanlega verið í boði fyrir ykkur og hvar þið gætuð byrjað að leita.

Nýsköpunarstyrkir

Þetta eru styrkir sem eru sérstaklega hugsaðir til þess að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Þannig í raun mæti segja að þeir séu hugsaðir til að skapa fyrirtæki á Íslandi sem eru samkeppnishæf við það besta erlendis og eiga möguleika á að vaxa alþjóðlega. Þetta eru yfirleitt stærstu og bestu styrkirnir sem eru í boði hér á landi og Tækniþróunarsjóður(Rannís) heldur um þá flesta. Ef þitt fyrirtæki er með áherslu á nýsköpun og nýjungar og er ekki í beinni samkeppni við önnur íslensk fyrirtæki þá mæli ég hiklaust með að þið skoðið þessa styrki en ég vara ykkur þó við að þetta eru langar og strangar umsóknir og með öllu óvíst hvort þær skili einhverju svo ekki fara sækja um þessa styrki með neinu hálfkáki, gerið þetta almennilega ef þið ætlið að gera það á annað borð. Hérna er listi yfir helstu nýsköpunarstyrkina:

 • Fræ: Fræið hefur það að markmiði að styðja við hugmyndir og verkefni á frumstigi sem getur leitt af sér stærra þróunarverkefni og styrkir geta verið allt að 1,5 milljónir.
 • Sproti: Sproti er ætlaður til að styðja við verkefni á byrjunarstigi og styrkir geta numið allt að 20 milljónum.
 • Vöxtur, sprettur: Vöxtur er ætlaður til að styrkja þróunarverkefni sem eru komin af frumstigi hugmyndar. Sprettur er öndvegisstyrkur innan Vaxtar. Þessi styrkir geta numið allt að 50-70m.
 • Markaðsstyrkur: Styrkir vegna sérstaks markaðsátaks og geta numið allt að 10m.
 • Hagnýt rannsóknarverkefni: Geta numið allt að 45m.
 • Einkaleyfastyrkur: Styrkur sérstaklega hugsaður til að aðstoða við einkaleyfisferilinn, getur numið allt að 1,2m.

Atvinnusköpunarstyrkir

Það er eitt af verkefnum ríkisins að lágmarka atvinnuleysi og reyna tryggja það að nóg sé af störfum í boði fyrir landsmenn. Eitt af verkfærunum sem ríkið getur notað til að ýta undir atvinnusköpun er að styðja við og styrkja fjárhagslega þá einstaklinga sem vilja skapa sín eigin störf og störf fyrir aðra. Slíkir styrkir eru yfirleitt veitir í gegnum eitthvað af stofnunum ríkisins.

Besta dæmið um þetta eru þeir styrkirnir Frumkvæði og Starfsorka sem ríkið veitir í gegnum Vinnumálastofnun en eini tilgangur þessar styrkja er að skapa störf fyrir þá einstaklinga sem eru á atvinnuleysisbótum. Frumkvæði er hugsað fyrir einstaklinginn sjálfan og felst í fræðslu og leiðsögn sem getur hjálpað einstaklingnum að komast að því hvort hann geti búið til sitt eigið starf. Ég held að það sé ekki beint fjárhagslegur styrkur sem fylgir þessu en einstaklingnum býðst þó að vera á atvinnuleysisbótum á meðan hann tekur sín fyrstu skref í eigin rekstri sem er í sjálfu sér góður styrkur. Starfsorka er svo átaksverkefni sem hjálpar fyrirtækjaeigendum að ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá og fá greitt með þeim grunn atvinnuleysisbætur fyrstu mánuðina.

Svæðisbundnir styrkir

Mörg bæjarfélög og landshlutar sjá sér hag í því að styðja við fyrirtæki á sínu hagsmunasvæði til að hjálpa þeim að skapa fleiri störf og meiri tekjur fyrir alla. Þótt svo að þetta gæti fallið undir flokkin hér á undan þá er þetta yfirleitt bundið við ákveðið svæði og því takmarkar það töluvert hverjir geta sótt um það. Hérna eru einungis nokkur dæmi en það er ómögulegt að telja allt upp og því verðið þið sjálf að leita ykkur upplýsinga um ykkar landshluta, bæjarfélög o.s.frv. hugsanlega geta bæjarskrifstofur eða aðrar ríkisstofnanir á svæðinu veitt ykkur frekari upplýsingar.

Sérhæfðir styrkir

Styrkir sem eru sérstaklega hugsaðir til að styrkja ákveðnar atvinnugreinar og því mikilvægt að gúggla styrki tengda þeirri atvinnugrein sem þú tilheyrir og einnig heyra í öllum tengdum stofnunum til að spyrjast fyrir. En hérna eru nokkur dæmi um sérhæfða styrki:

Styrkir til tiltekina hópa

Þetta eru styrkir sem eru að einbeita sér að því að styðja við ákveðna hópa innan samfélagsins til að auka þáttöku þeirra í atvinnusköpun og fyrirtækjarekstri.

Styrkir veittir af fyrirtækjum

Oft veita stærri fyrirtæki einhverjar upphæðir á hverju ári til að styðja við góð verkefni sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið, umhverfið o.s.frv. Þetta er hugsuð sem leið fyrir fyrirtækin til láta gott af leiða og ekki skemmir fyrir þeim að þetta geta oft verið góð tækifæri til að komast í fréttirnar. Það er stundum erfitt að finna þessa styrki en á móti kemur þá þýðir það oft að færri aðilar eru að sækja um þá. Nokkur dæmi:

Samstarf milli landa

Það eru í boði óhemjan öll af samstarfsstyrkjum á milli landa en það getur farið svaðalega mikill tími í því að leita og finna rétta styrkinn en besta leiðinn til að finna þá er inn á vef Rannís, Norrænt Samstarf eða Nýsköpunarmiðstöðvar. En athugið að þó að margir þessara styrkja geta verið mjög háir eða upp á tugi milljóna þá getur líka farið mikill tími í að finn þá, afla sér upplýsingar um þá, sækja um þá o.s.frv. En ef þið eruð með einhvern samstarfsaðila í öðru landi eða eruð með starfssemi í fleiri en einu landi þá er þetta hiklaust eitthvað sem þið mættuð skoða nánar.

Næstu skref?

Upptalningarnar hér að ofan af styrkjunum er einungis brotabrot af því sem er í boði og það er engin leið fyrir mig að halda uppfærðum lista yfir þá alla. Ef þú hefur áhuga á að fá styrk fyrir þína hugmynd eða þitt fyrirtæki þá þarftu að leggja út í smá rannsóknarvinnu og finna réttu styrkina fyrir þig en hérna er þó tjékklisti yfir það sem þú getur gert svona aðeins til að styðja við þig í þessum ferli.

 1. Farðu í gegnum allar helstu upptalningar á styrkjum á netinu til að fá betri hugmynd um það sem er í boði. Þær síður sem veita góða upptalningu á styrkjum í boði eru t.d.
 2. Gúgglaðu styrki um eftirfarandi:
  • Nýsköpun, almennt og sérstaklega í kringum þá nýsköpun sem þú ert að vinn að.
  • Atvinnusköpun.
  • Þitt landssvæði
  • Þinn hrepp
  • Þitt bæjarfélag
  • Þína atvinnugrein
  • Tengdar atvinnugreinar
  • Alla þá hópa sem þú gætir hugsanlega tilheyrt
  • Finndu eins marga styrki frá fyrirtækjum eins og þú getur
  • Samstarfsverkefni á milli landa (ef það á við þitt fyrirtæki)
 3. Hafðu samband við ríkisstofnanir á þínu svæði og þinni atvinnugrein og reyndu að fá eins miklar upplýsingar og þú getur frá þeim um styrki, biddu jafnvel um fund með ráðgjafa eða einhverjar frekari hjálp frá þeim.
 4. Sæktu svo bara um allt sem þú getur sótt um og krosslegðu fingur :)

 


Frumkvöðlar í prenti

Flestar framfarir í íslensku frumkvöðlaumhverfi hafa átt sér stað þegar grassrótin sjálf þ.e.a.s. frumkvöðlarnir sem starfa í umhverfinu, taka sig til og setja í framkvæmd þær breytingar sem þeir vilja sjá á umhverfinu. Og þökk sé grassrótinni þá hefur umhverfið stöðugt haldið áfram að verða betra og betra. Nýjustu ummerki áframhaldandi þróunar umhverfisins má nú finna bæði í sjónvarpinu í formi þáttarins Toppstöðvarinnar og í prenti í ný útgefinni bók með sama nafn.

12239603_10153393449088515_8211711442557273461_nEf þið hafi ekki nú þegar keypt ykkur eintak af Toppstöðinni og sömuleiðis nokkur eintök til að nýta í jólagjafir fyrir áhugasama fjölskyldumeðlimi og vini, þá mæli ég með að þið gerið það. Bæði til að undirstrika það fyrir ykkur sjálfum og fyrir þeim sem ykkur þykir vænt um að allt sé hægt og líka til að styðja við þá frumkvöðla sem lögðu tíma sinn, vinnu og fjármuni í að gera þessa bók að veruleika.

 

Bókin samanstendur af greinum frá 40 íslenskum frumkvöðlum (þar á meðal mér sjálfum) sem deila í henni ýmsum góðum ráðum sem þeir hafa lært í gegnum viðskiptaævintýri sín. Það eru því margir mjög góðir fróðleiksmolar þarna sem koma frá reyndum frumkvöðlum.

Í raun vildi ég einnig skrifa þessa blogg færslu í þakklætisskyni til allra þeirra frumkvöðla sem hafa lagt hönd sína á plóginn til að gera íslenskt frumkvöðlaumhverfi betra. Vonandi veitir vinna þeirra þér innblástur til að bretta upp ermarnar ef þér finnst eitthvað mega betrumbæta í frumkvöðlaumhverfinu eða heiminum í heild.

Við erum öll saman í þessu og því betra sem frumkvöðlaumhverfið verður því betri tækifæri munum við eiga á að skapa alþjóðlega fyrirtæki sem ná velgengni.


Frumkvöðlaskattur?

Ég hef í gegnum árin stofnað nokkur fyrirtæki hér á Íslandi og að mörgu leiti er það ekki svo flókinn ferill, sérstaklega þegar maður er búinn að fara í gegnum hann einu sinni áður. Það sem hefur þó alltaf pirrað mig afskaplega mikið er sú staðreynd að kostnaðurinn við að skrá fyrirtæki hér á Íslandi er kr.130.500-.

Það er afar ólíklegt að raunkostnaður ríkisskattstjóra við það að skrá fyrirtæki hjá sér sé svo mikill enda líklega ekki svo mikil vinna fyrir starfsmenn skattstjóra. En ef raunkostnaður þeirra er ekki svo mikill þá hlýtur það að þýða að allt það sem kemur inn umfram raunkostnaðinn sé tækifæri fyrir ríkið að hagnast á framtakssemi íslenskra frumkvöðla þ.e.a.s. að í staðinn fyrir að ríkið sé að styðja við fátæka frumkvöðla, sem eru að reyna byggja upp virði og störf fyrir sjálfa sig og aðra, hefur ríkið ákveðið að reyna skattleggja framtakssemi þeirra.

Allir þeir sem hafa tekið að sér það mikla og erfiða verkefni að byggja upp eigin rekstur gera sér grein fyrir hversu rosalega erfitt það er og hversu mikilvægt það er að hver einasta króna sé nýtt á sem bestann hátt. Hundrað og þrjátíu þúsund krónur eru því yfirleitt mjög mikill peningur fyrir þessa frumkvöðla og í flestum tilfellum stærsti kostnaðarliður þeirra á upphafsstigum rekstursins. Í öllum öðrum löndum sem ég hef kynnt mér frumkvöðlastarf er skráningarkostnaðurinn mun lægri og því má með sanni segja að ríkisskattstjóri sé að veikja samkeppnisstöðu íslenskra frumkvöðlafyrirtækja á alþjóðamarkaðnum með því að skattleggja þau svona hárri upphæð strax í upphafi.

Samanburður á skráningarkostnaði fyrirtækja.

Ísland: kr.130.500-
Kanada: kr.40.000- (326% dýrara á Íslandi)
Svíþjóð: kr.33.000- (395% dýrara á Íslandi)
Danmörk: kr.16.700- (781% dýrara á Íslandi)
USA: kr.9.000- (1.450% dýrara á Íslandi)

* Ég hef einnig heyrt að það sé stundum frítt að skrá fyrirtæki á norðurlöndunum ef um er að ræða nýsköpun en ég hef ekki kynnt mér það nánar.

Lágmarkshlutafé sem þarf að leggja í fyrirtæki á Íslandi (kr.500.000-) er að mínu mati einnig alltof hátt og algjör óþarfi en ég ætla láta þá umræðu bíða betri tíma.

Ég tek það skýrt fram að ég hef ekkert á móti skattlagningu enda er það mikilvægt til að tryggja gott samfélag fyrir okkur öll en mér finnst það mjög ósanngjarnt að vera rukka svo há gjöld af fólki sem er að reyna skapa virði fyrir samfélag okkar.

Endileg deildu með okkur skoðunum þínum á þessu máli hér fyrir neðan.

 


Á að blogga á ensku?

10704014_10153576323706002_609114480533184479_n

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvað ég eigi að gera við frumkvöðlar.is þar sem bloggið fer að verða meira takmarkandi fyrir mig eftir því sem ég sjálfur vex og þróast sem frumkvöðull. Í dag eru mínir mestu vaxtamöguleikar erlendis og flest öll mín samskipti eiga sér stað við erlenda aðila út um allan heim. Því meiri tíma sem ég eyði erlendis því meira geri ég mér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að hætta að takmarka sig við eitt land og byrja hegða sér sem alþjóðlegur frumkvöðull. Eitt af skrefunum í áttina að því er það að færa meira af samskiptum sínum yfir á ensku og því hef ég ákveðið að minnka skriftir mínar hérna á frumkvöðlar.is og einbeita mér í auknu mæli að því að skrifa á ensku á hinni bloggsíðunni minni VikingEntrepreneur.com.

 


Í hnotskurn: Friðrik Guðjónsson hjá Prentagram

Hvað heitir fyrirtækið?

Prentagram

Hver er aðal varan?

Hágæða prentun á ljósmyndum, handsmíðaðir íslenskir rammar og allt sent beint heim til viðskiptavinarins.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Ég er stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins en í dag koma þrettán aðrir að daglegum rekstri félagsins. Við erum þó aðeins tvö í fullu starfi þar sem við úthýsum því sem hægt er að úthýsa.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Hugmyndin kviknaði út frá þörfinni sem ég fann hjá sjálfum mér til að framkalla myndir. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að taka ljósmyndir og fékk til dæmis viðurnefnið „Frikki ljósmyndari“ þegar ég stundaði nám í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík, því ég var alltaf með myndavélina á lofti. Ég fann að ég hafði aldrei almennileg tækifæri til að sýna myndirnar þótt þær færu að sjálfsögðu á netið. Hver hefur svosem gaman af því að setjast niður með félögunum og skoðar myndir á Dropbox?

Mig hefur alltaf dreymt um að stofna mitt eigið fyrirtæki og ég var ætíð opinn fyrir „hugmyndinni“ en hún lét ekki sjá sig. Það var svo eitt kvöldið að ljósaperan kviknaði... ég hafði þá sjö árum áður hengt ljósmyndaramma um alla íbúðina mína – en engar voru myndirnar til að setja í þá. Á þessum sjö árum gaf ég mér alveg nokkrum sinnum tíma í að setja myndir á minniskubba/geisladiska og skrifa stærðirnar á römmunum niður á blað bara til að týna þessu öllu aftur. Það að fara með miðann og kubbinn í Hans Petersen, koma svo aftur daginn eftir til að sækja myndirnar og fara með þær heim til að setja í rammana hefði bara ekki komist í framkvæmd.

Það var kominn tími á nútímalega lausn!

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Það var í raun ekki fyrr en ég var orðinn óþolandi leiður á vinnunni minni að ég ákvað að segja upp og láta vaða. Það vildi svo til að hugmyndin kom á svipuðum tíma. Fyrst eftir að ég tók stökkið var ég samt alltaf að leita að „alvöru vinnu“ (eins og foreldrar mínir kölluðu það) en komst mjög fljótt að því að annaðhvort væri ég með hugann við þetta verkefni eða ekki.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Frá mér sjálfum. Ég kláraði spariféð, seldi bílinn og lifði á kærustunni en er nú farinn að geta greitt mér smá laun. Fyrir vikið er fyrirtækið algjörlega skuldlaust og finnst mér það gríðarlega mikilvægt fyrir áframhaldandi vöxt.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Erfiðast fannst mér að trúa nægilega á sjálfan mig og því að hugmyndin væri góð. Óttinn við að klúðra þessu og setja allt í gjaldþrot var (og er enn) mikill – það hjálpaði mér þó þegar ég fór að líta á þetta sem „námsleyfi“ og að versta mögulega útkoman væri „lærdómsríkari ég“, vitandi hvað skal forðast næst. Það hefur líka hjálpað að þurfa ekki utanaðkomandi fjármögnun því þá myndi gjaldþrot skaða aðra en mig... svona ef út í það færi.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Það sem skiptir mig mestu máli er að þjónustan og vörurnar okkar séu alltaf fyrsta flokks. Ég hef oft fengið boð og „leiðbeiningar“ um að vera með vörur sem eru ódýrari í framleiðslu sem við gætum mögulega selt á sama verði. Það hefur mér aldrei þótt spennandi og trúi ég því að viðskiptavinir okkar vilji frekar gæðin og komi því aftur. Við högnumst vissulega ekkert sérstaklega mikið á hverri sölu en safnast þegar saman kemur. Nú rétt rúmlega ári eftir að Prentagram varð til höfum við fengið nærri 5.000 pantanir og eigum afskaplega dyggan og góðan viðskiptavinahóp.

Það væri draumur að eftir fimm ár væri þorri þjóðarinnar farinn að frelsa myndirnar sínar og taka bestu 10-20 myndirnar á hverjum mánuði, smella þeim inn á heimasíðuna okkar (eða appið þegar það kemur á næstu mánuðum) og við kæmum þeim svo silkifögrum heim til viðkomandi næsta virka dag. En ég tek fyrst og fremst einn dag í einu og fókusera á að fullnægja þörfum hvers viðskiptavinar.

Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært af því að gera viðskiptahugmynd þína að veruleika?

Hvað þetta er í rauninni einfalt – ef maður er heiðarlegur og með vöru/þjónustu sem fólk vill þá er þetta ekkert sérstaklega flókið. Það þýðir ekki að það sé hægt að gera þetta með hangandi hendi – þetta er svo sannarlega flóknasta og erfiðasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur en vá hvað þetta er þess virði. Gleðin sem við fáum frá viðsktipavinum okkar er ómetanleg og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að viðhalda henni.

Hvaða ráð myndir þú gefa ungum frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref?

Það er að mínu mati mikilvægast að halda fókus og taka einn dag í einu... og ef sá dagur er slæmur þá kemur nýr dagur strax á eftir. Skipulag og skýr framtíðarsýn er að sjálfsögðu mikilvæg en það að skipuleggja hvert skref er ógerningur og algjör tímaeyðsla. Við félagarnir gengum eitt sumarið frá Reykjanestá þvert yfir Ísland á Langanes. 21 dagar og 650 km og við hefðu eiginlega ekkert verið á fjöllum áður. Við hefðum auðveldlega geta eytt mörgum mánuðum í að undirbúa okkur og skipuleggja hverja klukkustund en þess í stað settum við endamarkið (og nokkra fjallaskála) inn í GPS tækið og héldum af stað. Vissulega endaði þetta með því að á 19 degi þurfti að fljúga með mig  í bæinn með sýkingu sem hefði hæglega geta kostað mig fót en félagar mínir komust á leiðarenda og ferðalagið var eitt það besta sem ég hef farið í.

Talið er að það taki 2-3 ár að byggja upp traust á nýju fyrirtæki, nýrri hugmynd eða vöru. Hvernig er hægt að byggja upp slíkt traust ef stöðugt er verið að skipta um logo eða vöru? Skýr fókus á endamarkið er að mínu mati besti undirbúningurinn fyrir þá geggjuðu ferð sem það er að stofna sitt eigið fyrirtæki.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Ég hef afskaplega gaman af frumkvöðlastarfinu og tel mig geta gert þar gagn. Ég hef því mikinn áhuga á að kenna og leiðbeina öðrum en gulrótin mín er engu að síður fjárhagslegt sjálfstæði, ferðalög og afslöppun.

Ég er mjög latur að eðlisfari (þótt ég nái stundum að fela það) og vil lifa lífinu lifandi. Ég var til að mynda verðbréfamiðlari fyrir og í hruninu, ók um á fínum bíl, átti fullt af DVD myndum og borðaði aðeins of mikið, en þegar ég loks losnaði úr þessari vitleysu keypti ég flugmiða aðra leiðina til Hawaii. Þar kláraði ég viðbótarlífeyrissparnaðinn minn og fékk vinnu við að kenna á brimbretti þrátt fyrir að hafa aðeins séð brimbretti í sjónvarpinu áður. Hugsunin um að verða aftur áhyggjulaus, skuldlaus og umlukinn vinum, veiða fiska með spjóti og grilla þá á varðeldinum á ströndinni er það sem heldur mér gangandi... það væri ekkert verra að halla sér svo í snekkjunni og geta skotist heim til Íslands á einkaþotunni.


Í hnotskurn: Jón Bragi Gíslason hjá Ghost Lamp

Hvað heitir fyrirtækið?

Ghost Lamp ehf.

Hver er aðal varan?

Við bjóðum í raun uppá nýstárlegan vettvang sem tengir saman fyrirtæki og birtingaraðila s.s. bloggara, í gagnsæju og traustu umhverfi. Fyrirtæki geta óskað eftir fyrirfram skilgreindri umfjöllun á ákveðinni vöru, þjónustu eða ímynd fyrirtækisins. Þessi þjónusta nýtist fyrirtækjum við prófanir á viðbrögðum markhópa við nýjum vörum, þjónustum og t.d. vörumerkjahönnun, eða til þess að styðja við aðrar markaðsaðgerðir. Fyrirtæki fá því betri stjórn yfir útbreiðslu markaðsefnis og geta þau fylgst með útbreiðslu þess ásamt því að skilja betur viðbrögð markhópa í gegnum mælaborð okkar.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Teymið samanstendur af Jóhanni Geir Rafnssyni tæknistjóra, Guðmundi Páli Líndal lögfræðingi, Snorra H. Guðmundssyni markaðsstjóra og sjálfum mér framkvæmdastjóra en við leggjum okkur mjög mikið fram í að miðla þeirri reynslu og þekkingu sem við höfum á okkar sviði til hvors annars og því leiðum við reksturinn í mikilli sameiningu.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Ég tók þátt í Gullegginu sem er viðskiptaáætlunarkeppni fyrir fólk með hugmyndir og fyrirtæki á frumstigi, þar fór ég inn með eina hugmynd en endaði svo á því að framkvæma þá þriðju (Ghost Lamp), allt á meðan keppninni stóð, en hugmyndin kviknaði eftir að ég hafnaði fyrstu tveimur. Það getur verið mjög skapandi tími þegar maður gefur eina hugmynd upp á bátinn því þá þarf maður oftast að finna aðra enn betri.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Ég er ungur og hef engu að tapa, ég átti tvo mánuði eftir í stúdentinn og ef ég horfði fram í tímann sá ég fram á fimm ára háskólanám og himinháar skuldir fyrir menntun sem hefði kannski gefið mér einhverja illa borgaða vinnu sem ég fengi leið á. Svo gerðist það er ég fékk hugmyndina að Ghost Lamp að ég fékk óbilandi trú á henni og hef enn.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Fjármögnunin kemur alfarið úr okkar eigin vasa en við erum mjög duglegir að bjarga okkur sjálfir.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Það eru margar erfiðar hindranir og eru þær allar mismunandi eftir því úr hvaða umhverfi maður kemur. Mjög erfitt er að sannfæra vini, maka og ættingja að þú sért að gera það rétta en það erfiðasta myndi ég segja vera það að komast yfir hræðsluna að gera mistök. Ég get sagt fyrir mína hönd að ég hef gert mistök og mun halda því áfram þar til ég læri að laga þau, en það er allt partur af lærdómnum.

 Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Eftir fimm ár vill ég að Ghost Lamp verði orðinn leiðandi vettvangur fyrirtækja og birtingaraðila á heimsmælikvarða í dreifingu efnis sem á við og hefur virði fyrir markhópa fyritækja.

Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært af því að gera viðskiptahugmynd þína að veruleika?

Að hugmynd er bara fræ sem á eftir að vaxa, þroskast og breytast því meira sem þú vinnur að henni. Hún markar upphaf mjög lærdómsríks ferlis sem krefst mikils vilja styrks, mikillar þrjósku og þrautseigju.

Hvaða ráð myndir þú gefa ungum frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref?

Leitaðu inná við, finndu eitthvað sem þú hefur gríðarlega mikla ástríðu fyrir og þegar þú hefur fundið það deildu því þá með eins mörgum og þú getur! Fáðu svo fólk með þér í framkvæmdina sá sem getur það hefur meðbyr.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig að gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Það sem hefur alltaf verið okkur fremst í huga er að skapa eitthvað sem fólk vill nota og gerir líf þeirra auðveldara. Ég er hlynntur þeirri hugsun að góðir leiðtogar borði síðast og því myndi ég segja að þegar fyrstu bílfarmar af peningum fara að koma inn þá færu þeir fyrst og fremst í teymið og uppbyggingu fyrirtækisins.


Hvað þarf til að byggja upp gott umhverfi fyrir frumkvöðla á Íslandi?

Þorsteinn B. Friðriksson stofnandi og forstjóri Plain Vanilla flutti þennan fyrirlestur á Haustráðstefnu Advania. Ég hef í raun engu við þetta að bæta hjá honum Þorsteini, frábærlega góð samantekt hjá honum og yndislega gaman að fylgjast með velgengni QuizUp.


Í hnotskurn: Birgir Már Sigurðsson hjá Þoran

Hvað heitir fyrirtækið?

Þoran Distillery ehf.

Hver er aðal varan?

Við framleiðum íslenskt einmalts-viskí ásamt því að þróa bragðbætt 'white dog' viskí, betur þekkt sem 'moonshine'.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Undirritaður er stofnandi og eigandi fyrirtækisins, en með mér í för eru þau Bergþóra, sem er framkvæmdastjóri, og Jóhannes, sem er framleiðslustjóri.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Hugmyndin kviknaði í einni af mörgum 'pílagrímsferðum' mínum til Skotlands, þar sem ég var tíður gestur hjá hinum ýmsu viskíframleiðslum. Aðstæðurnar í Skotlandi og á Íslandi eru keimlíkar þegar litið er til náttúrunnar, veðurfars, gróðurs o.sfrv. Þar rann það upp fyrir mér að Ísland hefði í raun allt sem þyrfti til þess að framleiða fyrsta flokks viskí; byggrækt sem hefur verið að færast í aukana og nóg af fersku og hreinu vatni.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Fyrir forvitni sakir þá byrjaði ég að skrifa viðskiptaáætlun sem vatt svo upp á sig. Ekki leið á löngu þar til ég var farinn að hugsa um fátt annað en viskíframleiðslu. Auk þess langaði mig til að gera eitthvað annað en ég hafði verið að gera, sem var þetta hefðbundna 9-17 skrifstofustarf fyrir framan tölvu. Ég leit á þetta þannig að ég gæti annað hvort látið slag standa og séð hvert hugmyndin myndi leiða, eða gefast upp á þessu og halda mig innan þægindarammans. Ég valdi fyrri kostinn. Ef þetta fer allt til fjandans þá bara förum við yfir þá brú þegar við komum að henni. En þangað til ætla ég að halda áfram með þetta verkefni, einfaldlega vegna þess að það gerir mig hamingjusaman, og það sem gerir mann hamingjusaman er aldrei tímasóun.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Vorið 2013 var verkefnið okkar eitt af tíu sem komst inn í Startup Reykjavík. Þar keypti Arion Banki sig inn í fyrirtækið. Einnig höfum við unnið peningaverðlaun frá Landsbankanum og Matís ásamt því að fá styrk frá Tækniþróunarsjóði.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Við höfum sem betur fer ekki látið margt hindra framgang mála hjá fyrirtækinu, þó höfum við lent í erfiðleikum hér og þar og má þar helst nefna t.d. íslenskt lagaumhverfi sem snýr að áfengisframleiðslu. Álagningin er líka heilmikil, eða rétt rúmlega 3/4 af heildarkostnaði hverrar flösku. Auk þess höfum við ekki mikla reynslu af viskígerð hér á Íslandi þannig að það hefur reynst ákaflega krefjandi að læra nýja hluti. En blessunarlega njótum við stuðnings frá sérfræðingum í Skotlandi og í Kanada sem hafa verið að fylgjast með hverju skrefi hjá okkur.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Auðvitað vonumst við eftir að vera búin að auka framleiðslugetuna og vera komin inn á fleiri markaði. En þegar öllu er á botninn hvolft þá viljum við bara reka heilbrigt fyrirtæki sem býr til gott viskí. Stundum verður það gert með tapi og stundum með hagnaði, en alltaf skal það vera gott viskí.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Að græða bílfarma af peningum hefur aldrei verið sérstaklega framarlega í okkar forgangsröðun, en auðvitað viljum við að fyrirtækinu gangi vel, efli atvinnulífið, skilar hagnaði og gerir þau sem að verkefninu koma hamingjusöm. En ef okkur gengur það vel að við förum að sjá bílfarma af peningum rúlla inn í hlað, þá hlýtur það að þýða að okkur gangi bara nokkuð vel. Ætli ég fái mér ekki bara smá viskísopa til að fagna því.


Í hnotskurn: Friðbjörn Orri Ketilsson hjá Vefmiðlun

Í hnotskurn er nýr dálkur á Frumkvöðlar.is. Þar er markmiðið að draga saman á knappan hátt áhugaverð verkefni sem Frumkvöðlar eru að vinna að.

Friðbjörn Orri Ketilsson hjá Vefmiðlun ríður á vaðið.

 

Hvað heitir fyrirtækið?

Vefmiðlun ehf.

Hver er aðal varan?

Manor Legal sem er lögfræðileg málaskrá og Manor Collect sem er innheimtukerfi fyrir lögmenn.

Hvaða fólk leiðir reksturinn?

Við erum lítill samhentur hópur sem stendur að Manor. Við skiptum rekstrinum í tvo þætti, annars vegar forritun og kerfisumsjón þar sem Arthúr Ólafsson stendur við stjórnvölinn, og hins vegar viðmótshönnun og þjónustu sem er á ábyrgð undirritaðs.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Margir af okkar bestu vinum eru lögmenn. Við sáum hjá þeim mikil tækifæri til þess að einfalda störfin, minnka handavinnu og auka verðmætasköpun í rekstrinum. Þeir vildu einbeita sér að lögfræðinni og hafa við höndina kerfi sem héldi utan um allt annað í rekstrinum. Við sáum í þessu gott tækifæri og úr varð Manor.

Hvað fékk þig til að taka stökkið og gera hugmyndina að veruleika?

Þegar við höfðum grófmótað hugmyndina fórum við á nokkrar lögmannsstofur og bárum hana undir eigendur þeirra. Manor varð strax eftirsótt vara þó enginn kóði hefði enn verið skrifaður. Ég man sérstaklega eftir fyrsta fundi okkar með virtri stofu, þar sem rætt var um hvort Manor hentaði þeim, að þá teiknuðum við á A4 blað hvernig útfærslan gæti litið út og kæmi til með að virka. Eftir nokkur pennastrik með lögmönnunum var komin sniðug nálgun og þeir spurðu strax: Og hvenær getum við byrjað að nota þetta? Það var þá sem við ákváðum að stökkva á hugmyndina.

Hvaðan kemur fjármögnunin?

Félagið hefur ekki leitað til fjárfesta og hafa stofnendur félagsins (Friðbjörn og Arthúr) lagt félaginu til hlutafé. Engar skuldir hvíla á félaginu. Þetta er að sumra mati gamaldags nálgun en við erum þeirrar skoðunar að þannig sé félagið frjálst og geti brugðist samstundis við breytingum í umhverfi sínu. Við getum tekið stefnumótandi ákvarðanir að morgni dags og hafist handa við framkvæmd þeirra um hádegi. Það er verðmæt staða fyrir hugbúnaðarfyrirtæki.

Hver er erfiðasta hindrunin sem þarf að yfirstíga?

Við sem stóðum að Manor í fyrstu höfðum bakgrunn úr hagfræði og verkfræði. Við þekktum ekki lögfræðina og urðum því að setja mikinn kraft í að koma okkur inn í viðfangsefnið. Við náðum okkur í kennslubækur og glærupakka frá lagadeildunum og lásum okkur til þegar upp komu sjónarmið um meðferð mála, ferla fyrir dómstólum o.þ.h. Þá lærðum við tungutakið jafnóðum og við tókum inn viðskiptavini. Þetta var mikil áskorun.

Hvar viltu að fyrirtækið verði statt eftir fimm ár?

Ef allt fer að óskum höldum við stöðu okkar sem leiðandi hugbúnaðalausn fyrir lögmenn. Þeir lögmenn sem eru í viðskiptum við okkur í dag segja erfitt að sjá reksturinn fyrir sér án Manor. Við vonum að eftir fimm ár sé það almennt sjónarmið meðal lögmanna.

Þegar fyrstu bílfarmarnir af peningum fara að hrúgast inn, hvað langar þig gera fyrir þig sjálfan, og fyrir aðra?

Við erum rétt að byrja á Manor vegferðinni. Leiðarkortið felur í sér þróun næstu árin og vinnum við það leiðarkort mjög náið með okkar viðskiptavinum. Ef allt í einu kæmu inn mikil viðskipti þá myndi það aðeins flýta fyrir þeirri vegferð. Við erum þeirrar skoðunar að arðbær rekstur sé það besta fyrir alla sem honum tengjast – viðskiptavinir fá hágæða vöru og þjónustu, starfsfólk fær starfsöryggi og góð kjör og eigendur ávaxta fjárfestingu sína.


Rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi

Tryggvi Hjaltason hafði nýverið samband við mig til að segja mér frá mastersritgerð sem hann hafði unnið um rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi. Helstu niðurstöður verkefnisins voru þessar:

"Niðurstöður rannsóknarinnar eru í raun mjög skýrar og nokkuð afgerandi staðfestar af alþjóðlegum mælingum. Þegar kemur að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi felast veikleikarnir fyrst og fremst í ófullnægjandi fjármögnunarumhverfi, vanköntum á skattaumhverfinu og takmörkuðum aðgangi að sérfræðiþekkingu. En Ísland hefur líka marga styrkleika á þessum vettvangi og eru styrkleikarnir margir hverjir fólgnir í þáttum sem eru ekki eins breytanlegir og veikleikarnir eins og menningu, smæð, tengslum og aðgangi. Á Íslandi er gott að stofna fyrirtæki, aðgangur er að góðu tengslaneti, styttra er í prufumarkaði en almennt gengur og gerist erlendis og grunnaðstæður eru til staðar til þess að mikill hraði getur verið í ferlinu að breyta hugmynd í fyrirtæki."

Hérna má sjá myndband þar sem hann útskýrir nánar rannsóknina og niðurstöður hennar.

Og svo má lesa meira um rannsóknina, framkvæmd hennar og niðurstöðurnar á vefsíðu Tryggva http://seediceland.com/

Nú væri gaman að heyra álita ykkar á íslensku rekstrarumhverfi og hvort þið séuð sammála niðurstöðum þessarar rannsóknar.


Stærsti frumkvöðlaviðburður ársins 2014


Ég hef lítið reynt að hylja skoðanir mínar á Startup Iceland viðburðinum sem fer fram 2.júní í Hörpunni enda tel ég þetta vera einn öflugasta viðburð ársins fyrir frumkvöðla og í raun eitthvað sem engin íslenskur frumkvöðull ætti að láta fram hjá sér fara.

Mér finnst það þó afar sorglegt að þetta árið mun ég ekki komast á þennan viðburð þar sem ég verð staddur út í Kanada að opna skrifstofu þar í landi fyrir fyrirtækið mitt. Startup Iceland ráðstefnan spilaði þó stóran þátt í því að ég er núna kominn í útrás til Kanada. Á fyrri ráðstefnunum hitti ég öfluga frumkvöðla sem ég hef haldið góðu sambandi við og út frá þeim samböndum hafa orðið til allskonar tækifæri sem leiða svo af sér önnur tækifæri. Þessi tækifæri eru hluti ástæðu þess að ég sá mér nú hag í því að opna fyrirtækið erlendis, ég er komin með tengslin og þekkinguna á erlendum mörkuðum. Það má því með sanni segja að svona viðburðir eru ekki bara gerðir til að læra af miklu reyndari frumkvöðlum heldur líka til að hitta og kynnast öðrum öflugum einstaklingum (eins og þér sjálfum/sjálfri) og betrumbæta þannig tengslanet þitt.

Þetta verður í fyrsta skipti sem ég missi af þessum viðburð en ég að treysti á að þið nýtið ykkur þetta tækifæri í botn í fjarveru minni, blandið geði við erlenda frumkvöðla, styrkið tengslanet íslenskra frumkvöðla og skálið nokkrum bjórum fyrir mig :)

Startup Iceland ráðstefnan fer fram 2.júní í Hörpunni og þið getið fengið frekari upplýsingar um hana og keypt miða á hana hér: http://www.startupiceland.com/

Kaupið miða tímanlega svo þið missið ekki af þessu :)


Iceland Innovation UnConference 2013

Nýsköpunarviðburðurinn Iceland Innovation UnConference (IIU) fer fram í annað sinn laugardaginn 9. nóvember næstkomandi á Háskólatorgi. Landsbankinn stendur fyrir viðburðinum í samstarfi við Háskóla Íslands og Massachusetts Technology Leadership Council (MassTLC) í Boston, sem sérhæfir sig í að hlúa að frumkvöðlastarfsemi.

Í fyrra, þegar viðburðurinn var haldinn í fyrsta sinn, tóku tæplega 200 manns þátt og einkenndist dagurinn af mikilli orku og uppbyggilegum umræðum.

Fyrir hverja:

Viðburðurinn er fyrir þá sem vilja:

1.  Kynda undir nýsköpunarkraftinn. Komast út af skrifstofunni, stíga út fyrir rammann og virkja eigin ofurkrafta til að gera eitthvað nýtt.

2. Hitta mjög hæfileikaríkt og magnað fólk. Þarna eru allir aðilar sem þú þarft að þekkja á einum stað, allt frá stjórnendum til fjárfesta, frumkvöðlum til sérfræðinga.

3.  Miðla og öðlast þekkingu. Hefur þú mikinn áhuga á ákveðnu málefni? Miðlaðu þekkingu þinni og lærðu af öðrum með því að stinga upp á umræðuefni.

 

•             Staður: Háskólatorg

•             Stund: 9. nóvember 2013, kl. 9:30-16

•             Þátttökugjald: 3.900 kr. (innifalið eru matur, einkaviðtöl og ráðstefnugögn)

 

+ Skráning á IIU 2013

+ Nánar um IIU

 

Svona virkar þetta

Umræðuhópar

Dagskráin er mótuð í upphafi dags af þátttakendum sjálfum. Hver og einn getur komið með tillögur að umræðuefni sem þeir hafa áhuga á að ræða eða kynna fyrir öðrum. Þátttakendur velja svo sjálfir hvaða umræðum þeir taka þátt í.

Einkaviðtöl við leiðbeinendur

Samhliða áhugaverðum umræðum, bjóða sérfræðingar úr hópi forstjóra, fjárfesta og reynslumikilla sérfræðinga fram tíma sinn í viðtölum við þátttakendur. Viðtöl eru bókuð  í upphafi dags. Fyrstir koma fyrstir fá.

+ Listi yfir leiðbeinendur 2013

Stanslaus tengslamyndun

Þetta er einstakt tækifæri til myndunnar nýrra og gagnlegra tengsla milli frumkvöðla, forstjóra,  háskólanema og annarra sérfróðra aðila.

 

Hvers vegna á ég að mæta á unConference? from Landsbankinn þinn on Vimeo.


Frá hugmynd að fyrirtæki á 54 klst

Helgina 18.-20.október næstkomandi fer fram einstakur viðburður sem heitir Startup Weekend. Þessi viðburður er að mínu mati einhver besta leiðin fyrir þá sem eru að velta fyrir sér að fara út í eigin rekstur til þess að taka fyrstu skrefin. Þátttakendur koma á föstudegi þar sem þeir skipta sér upp í hópa eftir því hvaða hugmyndir fólk vill vinna með og svo er unnið að þeim hugmyndum dag og nótt í 54 klukkutíma. Á svæðinu eru leiðbeinendur og mentorar til að aðstoða við ferilinn og leiðbeina þátttakendum en það sem meira er þá er þarna annað fólk á sama stað og þú með kannski einhverja þekkingu t.d. tölvu, viðskipta eða hönnun sem þig vantar til að láta hugmynd þína verða að veruleika. Þetta er því í senn frábær leið til að byggja upp tengslanet og hraðasta aðferðin við að láta hugmynd þína verða að veruleika.

Ég fór og heimsótti Klak-Innovit sem standa á bak við þennan viðburð og fékk frekari upplýsingar  frá þeim.

Endilega skráið ykkur og takið þátt í þessum viðburð, það kostar einungis um 3.500 krónur að taka þátt og þið fáið ómetanlega reynslu út úr þessu. Til þess að afla ykkur frekari upplýsingar og til þess að skrá ykkur getið þið heimsótt vefsíðu Startup Weekend Reykjavík.

Sjá einnig grein sem ég skrifaðu um Startup Weekend á síðasta ári.


ByrjunarReitur sprotaskrifstofa

Gísli Kr stofnandi ByrjunarReits var orðin þreyttur á því hversu erfitt væri fyrir ung fyrirtæki að taka sín fyrstu skref og hann ákvað því að taka málin í sínar hendur og setja á lagirnar frumkvöðlaskrifstofuna ByrjunarReitur. Verkefnið er hugsað til að veita ungum fyrirtækjum skrifstofuhúsnæði og stuðning frá öðrum fyrirtækjum í sömu sporum. Mikið er lagt upp úr því að umhverfið sé líflegt og ýti undir sköpun ásamt því að veita liðsinni og upplýsingar varðandi hina ýmsu þætti reksturs fyrirtækja.

ByrjunarReitur veitir fyrirtækjum aðsetur og aðgang að vinnuaðstöðu og fundaraðstöðu með ýmiskonar stuðningsþjónustum. Einnig verða rými sem eru ætluð í skapandi vinnu svo sem “Brainstorm” og planning fundi fyrir tæknifyrirtæki sem og annarskonar fyrirtæki. Hægt verður að velja um þrenns konar leigufyrirkomulag, fast borð, lausa viðveru eða skrifstofu (sjá nánar)

„Verkefnið ByrjunarReitur er sprottið upp úr þeirri greiningu að þörf sé á litlu samfélagi á höfuðbogarsvæðinu þar sem lítil fyrirtæki og einstaklingar sem vinna sjálfstætt geta komið saman og unnið í skapandi, örvandi og styðjandi umhverfi. Sjálfur þekki ég vel þarfir ungra fyrirtækja og hefði gripið það tækifæri að vera á stað þar sem líf er og gróska í upphafi míns reksturs og þar sem mig mætti kalla nú orðið frumkvöðul með reynslu þá fannst mér upplagt að grípa tækifærið og koma þessu verkefni í loftið þar sem þörfin er alveg klár hér. Við verðum með fastar starfsstöðvar á 20 þúsund á mánuði en 15 þúsund fyrstu 3 mánuðina. Síðan verðum við með svokallaða "lausa viðveru" þar sem er svæði hjá okkur þar sem árgjald er á aðgangi, 60 þúsund krónur, og getur þá fólk komið milli 9 og 18 á daginn og unnið eða nýtt fundaraðstöðuna. Inní þessu verði er allt innifalið sem snýr að húsnæðinu.“
-Gísl Kr

 

Sjá nánar um húsnæðið á vefsíðu ByrjunarReits.

 


Síðasta tækifæri til að kaupa miða á Startup Iceland

Þá er komið að því, Startup Iceland ráðstefnan er að skella á og miðasölunni lýkur á miðnætti í nótt.

Nú þegar hafa verið frábær viðbrögð við ráðstefnunni og gaman að sjá hversu mikill áhuga er hjá íslendingum á frumkvöðlastarfi. Ég er á því að þessi ráðstefna sé mjög mikilvægur viðburður fyrir alla sem starfa í eða hafa áhuga á að starfa í sprotaumhverfinu. Í þessari grein ætla ég aðeins að telja upp nokkra hluti varðandi ráðstefnuna til að tryggja það að þú látir verða af því að kíkja á þennan skemmtilega viðburð.

 

Afhverju ættir þú að fara?

Eitt mikilvægasta verkefni allra þeirra sem vilja ná árangri, óháð því á hvaða sviði þið starfið, er að byggja upp gott tengslanet. Það að þekkja rétta fólkið og vita hvar þið getið komist í sambönd við rétta fólkið getur flýtt fyrir öllum verkefnum og tryggt velgengni þeirra. Þessi viðburður er tilvalin vettvangur til að byggja upp gott tengslanet, þarna er samansafn af öflugum frumkvöðlum, viðskiptafólki, fjárfestum og fólki með þá reynslu sem þig skortir. Þarna er líka möguleiki að búa til tengslanet út fyrir strendur landsins þar sem mikið er af erlendum aðilum á svæðinu.

Einnig er mikilvægt að læra af þeim sem hafa gert það sem þig langar til að gera. Eiga fyrirmyndir og læra af reynslu þeirra. Yfirleitt er það bara eitthvað sem við getum gert í gegnum bækur og greinar á netinu, en nú eru þessir aðilar að koma til landsins til að halda fyrirlestra á Startup Iceland ráðstefnunni. Þannig getið þið nú fengið tækifæri til að heyra þetta fólk tala um reynslu sína í eigin persónu. Ekki láta þetta tækifæri til að læra af þeim sem kunna fram hjá ykkur fara.

Þið getið keypt miða á viðburðin með því að smella hér!

Dagskráin

Viðburðurinn skiptist í raun niður í þrjá mismunandi viðburði, hackathon, UnConference og Fyrirlestra.

Hackathonið fer fram um helgina (1.-2.júní) og er prýðis skemmtilegur viðburður fyrir þá sem eru tæknivæddastir í hópnum þ.e.a.s. forritarar. Þetta er í raun bara mót á milli forritara og er hugsað sem upphitunarviðburður fyrir ráðstefnuna og fínt fyrir þá að mæta sem hafa áhuga. Ég skrifaði grein um Hackathonið í fyrra sem þið getið séð hér: Hvað nákvæmlega er Hackathon?

UnConference fer fram á mánudaginn (3. júní) frá 8:30 til 13:30 og er samskiptavettvangur, en ég fór fyrst á svona viðburð í fyrra sem var haldin í Háskóla Íslands og ég tók á þeim tíma saman smá grein um þann viðburð sem má sjá hér: Iceland Innovation UnConference 2012. Þetta er rosalega skemmtilegur viðburður þar sem þátttakendurnir sjálfir taka þátt í að stýra hvernig hann þróast. Þetta verður því mjög góður vettvangur til að taka þátt í uppbyggilegum umræðum um allt það sem er að gerast tengt sprotum með bæði íslenskum og erlendum aðilum úr viðskiptalífinu.

Fyrirlestrarnir fara svo fram á þriðjudeginum (4.júní) frá 9:00 til 16:00. Þetta er hápunktur ráðstefnunnar og á sviðið munu stíga heimfrægir aðilar sem munu deila með ykkur reynslu sinni. Lista yfir alla fyrirlesara má nálgast hjá Startup Iceland vefsíðunni en þetta eru stórir aðilar í alþjóðlega „Startup“ umhverfinu. Hérna er svo ýtarlegri dagskrá fyrir þriðjudaginn.

9:00 - 9:10 Opening comments from Bala Kamallakharan
9:10 - 9:20 Welcome from Mr Luis E. Arreaga, US Ambassador of Iceland
9:20 - 9:30 Nassim Nicholas Taleb “Antifragility”
9:30 - 10:00 Panel Discussion with Ryan McIntyre and Jason Mendelson of The Foundry Group, moderated by Bala Kamallakharan
10:00 - 10:20 Brad Burnham, Union Square Ventures “Policies That Promote Freedom of Innovation in Startup Communities”
10:20 - 10:40 Helga Waage, Mobilitus ”…How Scandinavian of Me”
10:40 - 11:00 Dr. Ted Zoller “Dealmakers and Startup Communities”
11:00 - 11:20 Coffee Break
11:20 - 11:40 Dr.Thor Sigfusson, Sjávarklasinn
11:40 - 12:00 John Biggs, TechCrunch “The Future”
12:00 - 12:20 Noah Ross of LaunchPad Advertising and Melanie Weinberger, CEO, Fit Steady “The Importance of Brand Identity”
12:20 - 13:30 Lunch
13:30 - 13:50 Angela Jackson, Portland Seed Fund “Weeds not Orchids: Creating unfair advantage in the startup ecosystem”
13:50 - 14:10 John Sehcrest “Seattle Angel Conference: A Case Study in Building Local Startup Ecosystems”
14:10 - 14:20 Kristjan Kristjansson and Einar Gudmundsson, “Startup Reykjavik Announces 2013 Startup Finalists LIVE”
14:20 - 14:50 Panel Discussion: Startup Entrepreneurs “Stories and Lessons Learned on the Path to Success” with Vala Halldorsdottir and Sesselja Vilhjalmsdottir, The Startup Kids; Thorsteinn Fridriksson, Plain Vanilla; Kjartan Olafsson, Volta Labs
14:50 - 15:10 Gunnar Holmsteinn, Director of Product Management, Jive Software “The CLARA Journey”
15:10 - 15:15 Bala Kamallakharan

Þið getið keypt miða á viðburðin með því að smella hér!

 


Verður sprotafyrirtækið þitt sýnilegt á Startup Iceland?

Nú fer að líða að því að Startup Iceland ráðstefnan hefjist en um helgina fer fram hackathon keppnin, á mánudaginn verður svo UnConference og þriðjudagurinn er aðal dagur ráðstefnunnar. Ráðstefnan er hugsuð til að aðstoða íslensk sprotafyrirtæki við það að koma sér á framfæri og viljum við sem erum að aðstoða við að skipuleggja þessa ráðstefnu því gera allt sem við getum til að hjálpa slíkum fyrirtækjum. Þarna verður stór hópur af fólki úr íslensku atvinnulífinu, auk þess sem þarna verða margir öflugir aðilar með góð tengsl í sprotaumhverfinu erlendis.

Íslenskum sprotafyrirtækjum býðst því að vera með bás frá laugardegi til mánudagsins og kynna þannig fyrirtæki sitt á meðan á viðburðinum stendur. Fyrir þá sem hafa áhuga á að vera með bás og kynna sig og vöru sína þá getið þið sent tölvupóst á mig á haukur @ bungalo.is eða á Bala Kamallakharan á bala @ startupiceland.com.


Nýsköpun og stofnun fyrirtækja í HR

Í síðustu viku lauk áfanganum Nýsköpun og stofnun fyrirtækja sem er 3 vikna kúrs í Háskólanum í Reykjavík þar sem nemendur úr hinum ýmsu deildum koma saman til að vinna að viðskiptahugmynd. Nemendurnir hafa sjálfir fullt vald yfir hvaða hugmynd þeir vinna með og markmið áfangans er að hóparnir komist eins langt með það og þeir geti í að gera verkefnið að raunverulegu fyrirtæki. Til þess að ná því markmiði þurfa þeir að þróa hugmyndina áfram, greina markhóp, skilgreina hindranir á leiðinni og búa til aðgerðaráætlun. Persónulega finnst mér Háskólinn í Reykjavík, Innovit og allir þeir sem standa að þessum áfanga eiga heiður skilið þar sem þetta opnar huga nemenda gagnvart nýjum valmöguleika í lífinu þ.e.a.s. að verða sjálfstætt starfandi að loknu námi.

Ég var beðin um að koma sem mentor fyrir hópana og er þetta annað ár mitt í röð sem ég mentora í þessum kúrs. Ég er afar þakklátur fyrir þann heiður að fá að taka þátt í þessum kúrs og tala við þetta unga og orkumikla fólk sem mun í framtíðinni breyta heiminum sem við lifum í. Það er áhugavert að spjalla við alla þessa aðila sem eru að taka sín fyrstu skref í sjálfstæðum rekstri og átta sig á að þau eru að kljást við alveg sömu vandamálin og ég fór í gegnum þegar ég var að taka mín fyrstu skref. Helst myndi ég vilja sjá alla 57 hópana reyna að láta hugmyndir sínar verða að veruleika í framhaldi af kúrsinum en staðreyndin er þó sú að fáir ef nokkur af hópunum munu vinna áfram með hugmyndir sínar. Á móti kemur að þessir aðilar eru þó líklegri til að stofna eigið fyrirtæki í framtíðinni þar sem þeir hafa í þessum kúrs aðeins kynnst því sem þarf til að starfa sjálfstætt.

Það eru fjórir eiginleikar sem ég leita alltaf að þegar ég velti fyrir mér hversu líklegt það er að viðskiptahugmyndir nái árangri og það merkilega er að engin af þessum eiginleikum tengist í raun vörunni heldur miklu frekar hópnum/stofnendunum. Þessir eiginleikar eru:

1. Óbilandi trú á hugmyndinni:
Hópurinn/stofnandinn verður að hafa óbilandi trú á því að hugmyndin geti orðið að veruleika og að hún geti breytt heiminum. Hópar sem hafa slíka trú á hugmyndinni eru yfirleitt með smitandi áhuga og þegar þeir tala um hugmyndina getur maður ekki annað en látið ímyndunaraflið fljúga með þeim til framtíðarinnar þar sem hugmyndin er orðin að veruleika.

2. Óbilandi trú á sjálfum sér.
Munurinn á þeim sem framkvæma og þeim sem framkvæma ekki felst ekki í umhverfi þeirra, menntun, fortíð, aðgengi að fjármagni, hæfileikum né nokkru öðru en því hvort viðkomandi hafi trú á sjálfum sér eða ekki. Ef stofnandinn/hópurinn hefur trú á því að þeir séu rétti aðilinn til að framkvæma hugmyndina og að þeir geti gert það þá eru þeir mun líklegri til að framkvæma. Ég veðja alltaf á þá sem eru tilbúnir að framkvæma.

3. Þrjóska:
Fyrstu árin í rekstri geta verið fáranlega erfið og oft þurfa stofnendurnir að vera tilbúnir að vinna ókristilega tíma, taka á sig mjög mikla ábyrgð, lifa langt undir fátæktamörkum og fórna hinum ýmsu hlutum til að rækta fyrirtækið. Þetta er ekki auðvelt og því er það góður eiginleiki að vera nógu þrjóskur til að halda alltaf áfram þótt svo engin annar í kringum mann hafi trú á hugmyndinni. Þeir sem ná árangri eru þrjóskir og sætta sig ekki við annað en að láta hugmynd sína verða að veruleika alveg sama hversu langan tíma það mun taka.

4. Vera tilbúin að leggja allt undir: 
Ef stofnendurnir eru ekki tilbúnir að setja eigin pening í viðskiptahugmyndina þá mun engin fjárfestir nokkurn tímann vilja setja pening í hana. Það er líka engin að fara henda í þig pening til að láta drauminn þinn verða að veruleika, þú þarft sjálf/sjálfur að láta hana verða að veruleika og leggja allt sem þú átt undir. Þeir sem eru tilbúnir að leggja allt undir eru með persónulega skuldbindingu í hugmyndinni og þeir munu ekki gefast upp fyrr en þeir hafa reynt allt sem þeir geta til að halda hugmyndinni gangandi.

 


Milljarða króna exit hjá CLARA


Í dag birtist á forsíðu fréttablaðsins grein um það að sprotafyrirtækið CLARA hefði verið selt á 1 milljarð króna. Fyrir Íslenska sprotaumhverfið eru þetta náttúrulega frábærar fréttir. Nokkrir af okkar öflugustu ungu frumkvöðlum hafa sannað að hér á Íslandi geta orðið til öflug fyrirtæki sem eru samkeppnishæf við þau bestu erlendis. Einnig virðast þeir hafa gengið frá þessu með smá aur í vasanum og það sem meira skiptir mikla reynslu sem mun vonandi nýtast þeim til að búa til önnur öflug og skemmtileg fyrirtæki í framtíðinni.

Lesa má nánar um þettta hér: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2013/05/01/clara_seld_fyrir_meira_en_milljard/

Ég get ekki annað en samglaðst CLARA hópnum en á sama tíma samgleðst ég líka íslenska frumkvöðlaumhverfinu þar sem ég veit að þetta mun hafa keðjuverkandi áhrif á umhverfið. Vonandi munu nú fleiri fjárfestar átta sig á þeim tækifærum sem búa í ungum sprotafyrirtækjum og vonandi mun þetta veita þeim fjölmörgu stofnendum sem eru að starfa við erfiðar aðstæður innblástur til að halda áfram og gefast ekki upp þótt að móti blási.

Þetta er allavegana búið að veita mér innblástur og ætla að lofa því hér og nú að sá dagur mun koma að ég mun ganga með nokkuð hundruð milljónir frá sölu á einu af fyrirtækjum mínum. Annars skal ég hundur heita!


Nýsköpunarþing 2013

Í morgun mætti ég á Nýsköpunarþing 2013 sem haldið er af Rannís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóði. Viðburðurinn var hinn prýðilegasti í alla staði.

Fyrsti ræðumaðurinn hafði gert samanburð á frumkvöðlaumhverfinu á norðurlöndunum og þá sérstaklega í samhengi við hraðvaxandi fyrirtæki og fannst mér sem svo að niðurstaða þeirra rannsókna væri hvað helst sú að Íslensk fyrirtæki eru ekki að stækka jafn mikið og jafn hratt og þau sem eru á flestum hina norðulandanna.

Hilmar Veigar Pétursson hjá CCP var svo með kynning á hvernig vöxturinn á CCP hefði verið og reyndi hann að greina hvað hefði betur mátt fara til að hraða fyrir vexti fyrirtækisins. Hilmar er alltaf með góðar kynningar og þessi var engin undantekning. Hann virtist þó ekki svo viss um að hann hefði viljað gera mikið öðruvísi þar sem hann sagði að erfiðu tímabilin hefðu þjappað mannskapnum saman og búið til öflugri starfshóp.

Kynnt var skemmtilegt hljóðfæri sem blandar saman tækni og tónverki.

Að lokum var svo veitt nýsköpunarverðlaun 2013 sem að þessu sinni fór til Völku, fyrirtækis sem þróar og framleiðir tækjabúnað fyrir fiskiðnaðinn.


Athafnateygjan

Nú er hafin alþjóðleg Athafnavika (e. Global Entrepreneurship Week) en hún er haldin út um allan heim dagana 12. – 19. nóvember. Viðburðurinn er hugsaður sem hvatning fyrir fólk að láta verða af hugmyndum sínum, áætlað er að 7 milljónir einstaklinga taki þátt í viðburðinum í um 130 löndum.

Í tilefni ef athafnavikunni dreifir Innovit núna athafnateygjum eða Action-band eins og það heitir á ensku. Hugmyndin á bak við teygjurnar er að fólk sem fær teyju í hendina er hvatt til að framkvæma eitthvað og skrá það inn á vefsíðuna action-band.com og afhenda svo næsta aðila teygjuna. Þannig er hægt að fylgjast með framvindu mála og sjá hversu langt teygjan berst og hversu margir láta verða af því að framkvæma eitthvað. Hvað þið framkvæmið getur bæði verið stórt og smátt en það mikilvægast er að framkvæma eitthvað.

Kristján og Diljá hjá Innovit kíktu við hérna niðrá skrifstofu hjá mér í kaffibolla og afhentu mér teygju ásamt því að gefa mér nokkrar auka teygjur til að afhenda út til öflugra aðila. Ég er ennþá með nokkrar ef þið hafið áhuga á að taka þátt.

Hér getið þið hlustað á viðtal við Kristján Freyr Kristjánsson hjá Innovit í þættinum "Í bítið" þar sem hann útskýrir þetta betur: http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=15070 

Ég er alltaf spenntur fyrir öllu því sem hvetur fólk til að framkvæma og vonandi mun þetta verkefni fá fólk til að hugsa jákvætt til framkvæmda :)

 


Sprotalistar

Nýlega var opnaður nýr vefur sem ber heitið sprotar.is og stendur Nýsköpunarmiðstöð á bak við þennan vef. Vefsíðan stefnir að því að vera með lifandi lista þar sem heldur utan um fyrirtæki sem teljast vera á sprotastiginu með þeim tilgangi að veita almenningi og hlutaðeigendi aðilum almenna sýn á umhverfi sprota í dag. Þetta er að mörgu leiti fínt framtak og verður gaman að sjá hvernig tekst til en þetta minnti mig þó á nokkrar aðrar tilraunir sem hafa verið gerðar til að búa til svona lista og sumir lifa eitthvað áfram en aðrar deyja fljótlega vegna skorts á uppfærslum og betrumbætum.

 


Sprotablað Frjálsrar Verslunar

Eyþór Ívar Jónsson hjá Klakinu hefur undanfarin ár tekið saman lista yfir áhugaverða sprota í árlegu tölublaði Frjálsrar verslunar sem ber heitið "sprotablaðið". Yfirleitt eru þetta um 100 sprotar sem Eyþór tekur saman ár hvert.

 

 

 

 

 

Sprotalisti Hjálmars Gíslasonar
Hjálmar Gíslason stofnandi Datamarket setti upp lista yfir sprotafyrirtæki 2008  en ég hef nú reynda ekki náð að komast yfir þann lista svo ég veit ekki alveg hvernig hann stendur í dag en hvort honum hafi verið við haldið.

 


Icelandic Startup Companies Map

Finnur (fyrir mörgum betur þekktur sem Gommit)  setti upp 2010 skemmtilegt kort með staðsetningu allra frumkvöðlafyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var mjög skemmtilegt framtak hjá honum og á þeim tíma mjög nýleg leið til að setja fram svona upplýsingar. Þetta er listi sem mætti endilega vekja aftur til lífsins en ég held að hann hafi lítið verið uppfærður nýlega.

 

 

Google docs listinn
Lengi vel var listi sem var geymdur á Google Docs sem gekk manna á milli og var frekar ýtarlegur og góður listi yfir öll sprotafyrirtæki á Íslandi. Ég er reyndar ekki að finna linkinn á þennan lista einmitt núna þannig ef einhver þarna úti er með linkinn þá endilega deilið honum sem comment hérna fyrir neðan. En þessi listi var nokkuð góður og virkaði ágætlega þar sem hann var nokkuð lifandi og margir sem komu að því að uppfæra hann.

 

Crunchbase
Vefmiðillinn Techcrunch er með vefsíðuna crunchbase.com sem heldur utan um alþjóðleg frumkvöðlafyrirtæki í tæknigeiranum og geta fyrirtæki skráð sig sjálf á vefsíðunni þeirra. Mikið af íslenskum fyrirtækjum hafa haft vit á því að skrá sig þar og hérna má nálgast lista yfir öll íslensk fyrirtæki sem hafa skráð sig.

 

 

Ef þið viti um einhverja fleiri lista yfir sprota þá endilega deilið þeim með okkur :)

 


Iceland Innovation UnConference 2012

UnConference 2012 er heldur frábrugðin tegund af ráðstefnu/námskeiði þar sem árangur þátttakenda er að miklu leiti bara undir þeim sjálfum komið. Þátttakendur vinna nefnilega í sameiningu dagskrá viðburðarins og hjálpa hver öðrum. Við þetta bætist svo að hópur reynslubolta kemur á staðinn til að veita þátttakendum ráðleggingar og deila með þeim reynslu sinni.

Hérna er smá myndband um viðburðinn:

Hvað er unConference? from Landsbankinn þinn on Vimeo.

Dagskráin er svo eitthvað á þessa leið.
1. Dagurinn hefst á skráningu og afhendingu ráðstefnugagna.
2. Þátttakendur koma saman til að móta dagskrá ráðstefnunar.
3. Einkaviðtöl bókuð hjá leiðbeinendum.
4. Umræðuhópar koma saman til að ræða hin ýmsu mál.
5. Einkaviðtöl við leiðbeinendur.

Frekari upplýsingar um viðburðinn má svo nálgast á vef Landsbankans og þar fer einnig fram skráning á viðburðinn. Ráðstefnan fer fram 3. Nóvmber og eru einungis 100 sæti laus svo ég mæli með að fólk skrái sig tímanlega.

Ég verð svo sjálfur þarna á staðnum sem leiðbeinandi og mér skilst að þátttakendur geti valið hvaða leiðbeinendur þeir hitta svo ef þið hafið einhverjar spurningar fyrir mig eða ég get eitthvað aðstoðað þá mun ég gera það með glöðu geði. Hlakka til að sjá ykkur öll á þessum áhugaverða viðburði :)

 


Ráðstefna: Frumkvöðlar eru framtíðin

18. október næstkomandi fer fram ráðstefna undir yfirskriftinni „Frumkvöðlar eru framtíðin“ í Salnum í Kópavogi. Þar koma fram margar konur sem hafa gert það gott í frumkvöðlastarfi og fjalla um stofnun og rekstur á eigin fyrirtækjum.   Á ráðstefnunni verður leitast við að svara spurningum í tengslum við alþjóðavæðingu fyrirtækja, fjárfestingarmat, nálganir og aðferðir við fjármögnun og mikilvægi tengslanetsins bæði í innlendu og erlendu samhengi svo fátt eitt sé nefnt.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á vefsíðu NMI.


Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Vestfjörðum

Helgina 12. til 14. október næstkomandi fer fram Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Vestfjörðum. Viðburðurinn er vettvangur fyrir þá sem langar að koma viðskiptahugmynd í framkvæmd eða taka þátt í uppbyggingu hugmynda annarra.

Viðburðurinn er öllum opinn og það kostar ekkert að taka þátt. Yfir helgina fá þátttakendur tækifæri til þess að ná lengra með hugmyndir sínar með aðstoð fjölmargra sérfræðinga. Eins verða flutt gagnleg erindi um uppbyggingu hugmynda og stofnun fyrirtækja. Viðburðurinn er því fyrir alla þá sem hafa hugmyndir að vöru eða þjónustu, starfandi fyrirtæki og einnig þá sem langar að aðstoða aðra við uppbyggingu hugmynda.

Innovit og Landsbankinn standa að viðburðinum í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og sveitarfélög á Vestfjörðum.  Eins styðja fyrirtæki af svæðinu rausnarlega við viðburðinn. Viðburðurinn fer fram í Þróunarsetrinu á Ísafirði.

Atvinnu- og nýsköpunarhelgar eru að erlendri fyrirmynd, en „Startup weekend“, hafa farið sigurför um allan heim. Hér á Íslandi hafa slíkar helgar verið haldnar víða um land undanfarin ár með góðum árangri. Markmið helganna er að virkja fólk til athafna og standa viðburðirnir yfir frá föstudegi til sunnudags þar sem  þátttakendur fá tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum og njóta leiðsagnar og innblásturs frá sérfróðum aðilum.

Þátttaka er ókeypis! Dagskrá og aðrar upplýsingar um viðburðinn má finna á anh.is

Þáttaröðin Sprotar

Í dag fór af stað áhugaverð þáttaröð hjá mbl.is sem heitir Sprotar og er þar fjallað um ferilinn sem fylgir því að framkvæma hugmyndir sínar. Í þáttunum verður fylgt eftir teymum sem er með hugmyndir í vinnslu og hvernig þau fara að. Fyrsta þáttinn má sjá hér: http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/75930/


Lokakynningar Startup Reykjavík

Nú á föstudaginn var lokadagur Startup Reykjavíkur framtaksins.

Fyrir þau ykkar sem þekkið þetta ekki þá var þetta 10 vikna verkefni þar sem 10 viðskiptahópar unnu að því að þróa áfram hugmyndir sínar. Arion banki setti 2 milljónir króna í hvert verkefni gegn 6% hlut, Klak og Innovit sáu um að halda utan um verkefnið og tugi mentora úr íslensku, og erlendu, atvinnulífi mætti á staðinn til að leiðbeina og aðstoða liðin.

Ég var þeim heiðri aðnjótandi að geta fengið að fylgjast með verkefninu frá upphafi og ég gat ekki betur séð en að afskaplega vel væri staðið að öllum þáttum verkefnisins. Hóparnir 10 voru valdir úr 180 umsóknum og aðhaldið allan tímann var mjög gott.

Á síðasta degi verkefnisins kynntu allir viðskiptahóparnir viðskiptahugmyndir sínar fyrir sal fullan af fjárfestum. Framfarirnar á þessum 10 vikum voru ótvíræðar, kynningarnar sem ég sé í upphafi verkefnisins og svo þær sem ég sá í lokin voru gjörólíkar. Allir hóparnir komu fram af mjög mikilli fagmennsku, kynntu hugmyndir sínar, lýstu áætlunum sínum og útskýrðu hvað þeir væri að leita að frá fjárfestum.

Ég hef sagt það áður og mun gera það eina ferðina aftur hér að þetta verkefni mun líklega gjörbreyta frumkvöðlaumhverfinu hér á landi. En verkefnið hvílir nú á herðum fjárfestanna, það er spurning hvort þeir standi sig og taki þátt í þessu nýja og spennandi frumkvöðlaumhverfi eða hvort þeir séu of hræddir og íhaldsamir fyrir slíkum nýjungum.

 

Ég bíð svo bara spenntur eftir Startup Reykjavík 2013 :)