Frumkvöðlar í prenti

Flestar framfarir í íslensku frumkvöðlaumhverfi hafa átt sér stað þegar grassrótin sjálf þ.e.a.s. frumkvöðlarnir sem starfa í umhverfinu, taka sig til og setja í framkvæmd þær breytingar sem þeir vilja sjá á umhverfinu. Og þökk sé grassrótinni þá hefur umhverfið stöðugt haldið áfram að verða betra og betra. Nýjustu ummerki áframhaldandi þróunar umhverfisins má nú finna bæði í sjónvarpinu í formi þáttarins Toppstöðvarinnar og í prenti í ný útgefinni bók með sama nafn.

12239603_10153393449088515_8211711442557273461_nEf þið hafi ekki nú þegar keypt ykkur eintak af Toppstöðinni og sömuleiðis nokkur eintök til að nýta í jólagjafir fyrir áhugasama fjölskyldumeðlimi og vini, þá mæli ég með að þið gerið það. Bæði til að undirstrika það fyrir ykkur sjálfum og fyrir þeim sem ykkur þykir vænt um að allt sé hægt og líka til að styðja við þá frumkvöðla sem lögðu tíma sinn, vinnu og fjármuni í að gera þessa bók að veruleika.

 

Bókin samanstendur af greinum frá 40 íslenskum frumkvöðlum (þar á meðal mér sjálfum) sem deila í henni ýmsum góðum ráðum sem þeir hafa lært í gegnum viðskiptaævintýri sín. Það eru því margir mjög góðir fróðleiksmolar þarna sem koma frá reyndum frumkvöðlum.

Í raun vildi ég einnig skrifa þessa blogg færslu í þakklætisskyni til allra þeirra frumkvöðla sem hafa lagt hönd sína á plóginn til að gera íslenskt frumkvöðlaumhverfi betra. Vonandi veitir vinna þeirra þér innblástur til að bretta upp ermarnar ef þér finnst eitthvað mega betrumbæta í frumkvöðlaumhverfinu eða heiminum í heild.

Við erum öll saman í þessu og því betra sem frumkvöðlaumhverfið verður því betri tækifæri munum við eiga á að skapa alþjóðlega fyrirtæki sem ná velgengni.


Reykjavik Runway í topp 10 í Gullegginu

Ég kynntist henni Ingibjörgu Grétu Gísladóttur fyrst fyrir nokkrum árum síðan þegar hún rak Hugmyndhúsið við Grandagarð og það fór ekkert á milli mála að þar var öflug manneskja á ferðinni. Í framhaldi af því hefur hún haldið áfram að starfa í frumkvöðlaumhverfinu og stofnaði fyrirtækið Reykjavik Runway, nú þegar hefur fyrirtækið náð að verða vel sýnilegt í íslenskum tískuheimi enda skipulagði það glæsilega hönnunarkeppni sumarið 2012.

Reykjavik Runway er eitt af 10 fyrirtækjum/viðskiptahugmyndum til að komast í úrslit í Gullegginu og því fannst mér það nauðsynlegt að heyra aðeins í henni Ingibjörgu og biðja hana um að segja okkur aðeins frá fyrirtækinu og framtíðarplönum þess.

 

Stefna Ingibjargar með fyrirtækið er að reyna aðstoða íslenska fatahönnuði við að koma sér á framfæri á alþjóðavettvangi. Það kemur til með að vera gert í gegnum internetið með öflugri vefsíðu, við það bætast svo öflug áhersla á markaðsmál og tengslanet við mikilvæga aðila í tískuheiminum erlendis.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hana Ingibjörgu með tölvupósti í netfangið igg@reykjavikrunway.com.


Kasy í topp 10 í Gullegginu

Katrín Sylvía Símonardóttir er stofnandi fyrirtækisins kasy, en næstu helgi keppir það fyrirtæki til úrslita í Gullegginu sem er frumkvöðlakeppni á vegum Innovit. Viðskiptahugmynd Katrínar felst í því að framleiða sundfatnað fyrir konur með línur og er hægt að aðlaga sundfatnaðinn að aðstæðum að hverju sinni.

Ég skellti mér í smá bíltúr með henni Katrínu þar sem ég truflaði hana við akstur með allskonar skemmtilegum spurningum. Þess má líka geta að ég tók viðtalið upp á símann minn svo tæknilega séð var hún að tala í símann við aksturinn :)

Kasy sundfötin fara bráðlega í framleiðslu og því augljóst að kvennmenn út um allan heim þurfa ekki að bíða alltof lengi eftir því að geta fjárfest í slíkri hönnun. En fyrir þau ykkar sem getið ekki beðið þá getið þið nálgast frekari upplýsingar á facebook síðu kasy.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hana Katrínu með tölvupósti í netfangið kasydesign@gmail.com.


Karolina Fund í topp 10 í Gullegginu

Eitt af því sem fólk kvartar mest yfir þegar það er að stofna fyrirtæki er hversu erfitt það er að nálgast fjármagn. Bankar lána yfirleitt ekki til nýrra fyrirtækja nema að það sé til einhverskonar veð fyrir því og það reynist mörgum erfitt að finna fjárfesta og hvað þá áhugasama fjárfesta sem eru tilbúnir að leggja pening í fyrirtækið.

Ég hitti í gær tvo af stofnendum Karolina Fund, sem þessa dagana keppir til úrslita í Gullegginu, þá Inga Rafn og Jónmund. En Karolina Fund hefur einmitt þann tilgang að leysa ofangreint vandamál og hjálpa ungum fyrirtækjum og frumkvöðlum að nálgast fjármagn í gegnum hópfjármögnun (e. crowdfunding). Heyrum hér aðeins hvað þeir höfðu að segja:

 

Þannig að Karolina Fund kemur til með að búa til vettvang fyrir skapandi fólk til að leita sér hópfjármögnunnar fyrir verkefni sín. Með því að setja upp ýtarlegar upplýsingar um verkefnin svo sem vidjó, ýtarlegar textalýsingar, markmið, fjárþörf o.f.l. geta hugsanlegir fjárfestar fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurfa til að taka ákvörðun um hvort þeir vilji fjárfesta. Það skemmtilega við uppsetninguna á þessu er að hver sem er getur fjárfest í þessum hugmyndum, þú þarft ekki að vera fagfjárfestir heldur einungis að eiga smá pening og þá getur þú lagt þann pening í eitthvað verkefni sem vonandi mun skapa störf og tekjur fyrir íslensku þjóðina auk þess sem þú sjálfur gætir grætt betur á því heldur en ef peningurinn sæti bara í bankanum.

Hægt er að setja upp verkefni þar sem leitað er eftir minni fjárfestum sem þá fá hugsanlega prótótýpu ef vörunni eða eitthvað annað spennandi í þakklætisskyni fyrir sitt framlag. Einnig er þó hægt að setja upp stærri verkefni þar sem fjárfestarnir fá raunverulegan hluta í fyrirtækinu og geta þá orðið meðeigendur í hugmyndinni. Þessi vettvangur ætti því að vera spennandi valmöguleiki fyrir stórar sem smáar hugmyndir í framtíðinni.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hann Inga Rafn með tölvupósti í netfangið contact@karolinafund.com.


Markaðsmál á Mannamáli í topp 10 í Gullegginu

Þóranna Kristín Jónsdóttir er mjög virk í íslenskum markaðsmálum og ég hef oft rekist á hana á ýmsum markaðs- og frumkvöðlatengdum viðburðum. Það var því gaman að sjá að hún væri nú komin í topp 10 í Gullegginu.

Fyrr í dag plataði ég Þórönnu til að hitta mig í kaffibolla á Te&kaffi á laugaveginum til að fá smá upplýsingar um viðskiptahugmynd hennar en líkt og með Viral Trade og Insidememo viðtölin mín þá ákvað ég einnig að taka þetta upp á vidjó.

 

 

Hugmyndin heitir Markaðsmál á mannamáli og gengur út á það að útbúa fræðsluefni fyrir ung fyrirtæki til að auðvelda þeim markaðssetningu fyrirtækisins. Markaðssetning fyrirtækja er eitthvað sem getur reynst mörgum ungum fyrirtækjaeigendum erfiðlega auk þess sem kostnaðurinn er oft ansi mikill. Viðskiptahugmynd Þórönnu mun vonandi auðvelda þessum fyrirtækjum fyrir og vonandi ná að lækka kostnað þeirra við markaðssetningu töluvert.

Þóranna stundar í dag markaðseinkaþjálfun og ráðgjöf og hægt er að nálgast frekari upplýsignar um hana á vefsíðunni thoranna.is eða á facebook síðu hennar.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hana Þórönnu með tölvupósti í netfangið thoranna@thoranna.is.


Insidememo í topp 10 í Gullegginu

Í framhaldi af viðtali mínu við hann Gulla hjá Viral Trade í fyrradag hef ég ákveðið að elta upp nokkra fleiri frumkvöðla sem eru komnir í úrslit hjá Gullegginu til að forvitnast um Hugmyndir þeirra.

Andrés Jónsson, Fannar Freyr Jónsson og Jón Dal eru frumkvöðlarnir sem standa á bak við viðskiptahugmyndina Insidememo. Sú hugmynd snýst um að vinna með sérhæfðar og í mörgum tilfellum staðbundnar upplýsingar og setja þær fram á auðveldan og aðgengilegan hátt. Í raun getið þið ímyndað ykkur öll þau mörgu tilfelli þegar þið eydduð heilu klukkutímunum á Google að leita eftir hinum ýmsu upplýsingum en funduð aldrei nákvæmlega það sem þið voruð að leita eftir, Insidememo er lausnin við því. Þeir koma til með að útbúa hina ýmsu lista og skjöl sem nýtast t.d. fréttamönnum, ráðgjafafyrirtækjum og erlendum viðskiptamönnum sem koma í nýtt land eða borg.

En til að fá nánari upplýsingar um þessa viðskiptahugmynd þá hafði ég upp á honum Andrési út í Bandaríkjunum þar sem hann er í viðskiptaferð og fékk hann til að segja mér nánar frá hugmyndinni í gegnum Skype.

Það skemmtilega við Insidememo er sú staðreynd að þeir eru komnir vel á leið með fyrstu útgáfu af vörunni sinni og mun hún líklega verður opnuð á næstu dögum á slóðinni www.disulistar.is. Hjá Dísulistum munuð þið t.d. geta nálgast lista eins og „Viðburðir í íslensku viðskiptalífi“, „Fjölmiðlalisti 2012“ og „Íslenskir Fjárfestar 2012“ en þann síðasta myndu ábyggilega margir lesendur þessa bloggs hafa áhuga á enda ekki sérstaklega auðvelt að nálgast upplýsingar um fjárfesta hér á landi.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hann Andrés með tölvupósti í netfangið andres@godsamskipti.is.

 


Viral Trade í topp 10 í Gullegginu

 

Í gær fékk ég mér smá göngutúr með honum Guðlaugi Lárusi Finnbogasyni en hann er stofnandi Viral Trade. En sú hugmynd er einmitt ein af 10 sem komust í úrslit í Gullegginu í ár en þetta árið voru vel yfir 200 hugmyndir sem tóku þátt. Sjálfur er ég ekki mikill tölvuleikjamaður fyrir utan kannski Angry Birds á símanum mínum og því þekkti ég þennan heim ekki sérstaklega mikið. En eftir að hafa spjallað aðeins við hann Guðlaug náði ég betri tökum á hugmynd hans og fór að skilja hversu stór og öflugur markaður þetta gæti orðið.

Hugmynd hans byggist í raun á því að í dag er áhugafólk um tölvuleiki farið að eyða afskaplega miklum tíma í tölvuleikjunum þar sem þeir byggja upp tölvuleikjapersónur og safna saman alls kyns verðmætum eins og öflugri sverðum, geimskipum og jafnvel peningum. Vegna þess hversu langan tíma það tekur að eignast þessa hluti í leiknum þá eru mikil verðmæti í þessu og margir sem spila eru tilbúnir að borga raunverulega peninga til að stytta tímann sem þarf til að eignast þessa hluti. Í nokkur ár hafa leikmenn verið að kaupa og selja slíkan varning sín á milli en sá ferill hefur ekki alltaf verið auðveldur og þar kemur Viral Trade inn í myndina. Viral Trade mun starfa sem milliliður á milli þessara leikmanna og tryggja það að allt fari vel fram og fyrir þetta mun Viral Trade taka smá prósentu af öllu því sem fer í gegnum þá.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um hugmyndina, hafið áhuga á einhverskonar samstarfi eða jafnvel ef þið viljið fjárfesta í henni þá getið þið haft samband við hann Guðlaug í netfangið glf@hi.is.


Fafu - skapandi leikföng

 

Fyrirtækið Fafu sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á skapandi leikbúningum fyrir börn. Fafu sem var upphaflega stofnað árið 2009 er rekið af Huldu Hreiðarsdóttur og Þórunni Jónsdóttur. Ég fékk hana Þórunni aðeinst til að setjast niður með mér og segja mér frá Fafu og þeim ferli sem þær þurftu að fara í gegnum til að koma fyrirtækinu á þann stað sem það er í dag.

Fyrir frekari upplýsingar um Fafu getið þið heimsótt vefsíðu þeirra fafutoys.com.

Hérna læt ég svo einnig fylgja með smá kynningar myndband fyrir Fafu leikbúningana.

 

 


TED fyrirlestrar

Einhver besta uppspretta áhugaverðra fyrirlestra á netinu er TED (www.ted.com). TED er viðburður þar sem margir af mestu hugsuðum okkar tíma koma saman til að deila hugmyndum sínum. Einn af uppáhalds fyrirlestrum mínum á TED er fyrirlestur Ken Robinson um hvernig skólar drepa niður sköpunargáfur nemenda sinna.

Á hverju ári eru haldnir ótal margir sjálfstæðir TED viðburðir sem kallast TEDx og slíkur viðburður var haldin hér á landi 2009 en ég var því miður erlendis á þessum tíma og missti af viðburðinum. Ég var þó að finna nokkrar fyrirlestranna frá þeim viðburði á netinu og vildi deila þeim hérna með ykkur. Hér fyrir neðan eru tveir góðir TEDx fyrirlestrar en restina af Reykjavik TEDx fyrirlestrunum má finna hér http://tedxtalks.ted.com/search/?search=reykjavik

Jónas Antonsson, stofnandi Gogogic tölvuleikjafyrirtækisins. Hann er einn ef uppáhalds fyrirlesurum mínum hér á Íslandi þar sem hann fer oft yfir í mjög skemmtilegar heimspekilegar pælingar um tilvilst okkar.

Torfi G. Yngvason hjá Arctic Adventures, hann hélt einmitt fyrirlestur á viðburðinn sem ég skipulagði fyrr á þessu ári og hét Reynslusögur Íslenskra Frumkvöðla. Hann er með virkilega góða yfirsýn yfir íslenska ferðaiðnaðinn og kemur þeim upplýsingum skemmtilega frá sér.


Ragnheiður Ösp hjá Umemi

 

Ég leit við hjá Ragnheiði Ösp hjá Umemi og ræddi aðeins við hana um fyrirtæki hennar og hvernig það er að starfa sem vöruhönnuður á Íslandi.

Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir er íslenskur vöruhönnuður sem hefur starfað við fyrirtæki sitt Umemi frá árinu 2005. Hún er með mjög sérstakan stíl í hönnun sinni og má hér fyrir neðan sjá nokkrar myndir af vörum sem hún hefur hannað. Frekari upplýsingar um hana má fá á vefsíðu hennar www.umemi.com.

Svo ef ykkur langar í eitt stykki Notknot púða frá Umemi þá veit ég að það er Facebook leikur í gangi hjá þeim: http://www.facebook.com/designbyumemi

 


Viðtöl við frumkvöðla

Ég er í samstarfi við hann Þórarinn Hjálmarsson (http://thorarinnh.segir.is/) að skoða möguleika á að vera með regluleg vidjó viðtöl við íslenska frumkvöðla. Hér að neðan má sjá viðtal sem hann tók við mig um Búngaló.

Við leitum nú að hressum frumkvöðlum sem hefðu áhuga á að deila því sem þeir eru að vinna í með restinni af heiminum í gegnum stutt vidjó viðtöl. Ef þú eða einhver sem þú þekkir er að gera áhugaverða hluti, einhverjar tækninýjungar, stofna fyrirtæki eða eitthvað annað spennó máttu endilega láta okkur vita með því að commenta hér fyrir neðan og við verðum í sambandi við ykkur.

Einnig líka bara ef þið hafið einhverjar óskir um einhverja íslenska frumkvöðla sem þið hefðuð áhuga á að sjá viðtöl við.

Endilega látið í ykkur heyra :)

.


Dúkkulísur - Framhald

Fyrir stuttu þá skrifaði ég grein um Dúkkulísur (DressUpGames.com) sem mér finnst ennþá vera afskaplega áhugaverð síða og gott dæmi um hvað hægt er að gera ef maður er tilbúinn að leggja á sig mikla vinnu í lengri tíma.

En ég náði loksins í hana Ingu Maríu sem er upphafsmaður þessarar vefsíðu og fékk hana til að svara nokkrum spurningum varðandi vefsíðuna, hér koma þær spurningar og svör hennar við þeim.

 

Hvaðan kom hugmyndina að DressUpGames.com?
Eftir að ég lauk námi í bókasafns- og upplýsingafræði þá langaði mig alltaf til að læra að setja upp vefsíðu. Ég var lengi að spá í hvað ég ætti að taka fyrir og uppgötvaði svo dúkkulísuleiki á vefnum. Fannst þeir sniðugir og skemmtilegir og það var engin vefsíða sem sérhæfði sig í þessum leikjum.

 

Varstu með einhverja reynslu í vefsíðugerð þegar þú fórst af stað?
Nei.

 

Forritaðir þú hana sjálf eða fékkstu einhvern til að forrita fyrir þig? Hvernig gekk það?
Já, ég sá um það sjálf frá upphafi en fékk hjálp við að búa til þá útgáfu sem nú er á vefnum.

 

Hvenær gerðirðu þér grein fyrir því að þetta gæti farið að skila þér inn raunverulegum tekjum?
Mig minnir að það hafi verið um 2003, fimm árum eftir að ég byrjaði. Fyrstu árin voru tekjurnar litlar.

 

Hverjar voru helstu hindranirnar sem þú lentir í við að gera vefsíðuna að því sem hún er í dag?
Leikjaheimurinn, þar með talið netleikir, er mjög karla- og strákamiðaður heimur. Það hefur oft verið erfitt að koma síðunni á framfæri af því karlkyns vefeigendur hafa ekki áhuga á efninu og skilja ekki að það er stór hópur sem hefur áhuga. Eftir því sem fleiri vefir helga sig dúkkulísuleikjum hefur þetta skánað, en það er samt mjög viðloðandi viðhorf hjá forriturum og vefeigendum að þetta séu ómerkilegir leikir, og í raun ekki "alvöru" leikir.

 

Lentirðu einhvertímann í vandamáli með hýsingaraðila vegna þess mikla magn heimsókna sem voru að koma inn á hana?
Já, já, oft og margsinnis fyrstu árin! En er núna með vefinn í traustri hýsingu og hef verið lengi.

 

Lagðirðu mikla áherslu á leitarvélabestun (koma þér ofarlega í leitarvélarnar) eða kom það bara sjálfkrafa með tímanum?
Alls ekki í byrjun, enda var ekki búið að uppgötva þau vísindi þegar ég byrjaði. Eftir að ég varð vör við umfjöllun um leitarvélabestun (smart orð!) hef ég alltaf haft það í huga en tekið meðvitaða ákvörðun um að missa mig ekki út í það á kostnað annarrar uppbyggingar. Maður reynir að fara milliveginn, að nota vinnubrögð sem Google og hinar leitarvélarnar mæla með en gleyma sér ekki í brögðum til að "plata" leitavélarnar.

 

Hverjar eru helstu breytingar sem þú hefur gert á vefsíðunni frá því hún var fyrst opnuð?
Ég hef reynt að breyta síðunni ekki mikið, það er mín skoðun og rannsóknir hafa sýnt að notendum líkar ekki við of miklar breytingar. Ég er núna að vinna að stórum breytingum sem verða tilbúnar seinna í sumar eða haust, það verður langstærsta breytingin til þessa.

 

Ertu með einhverjar ráðleggingar fyrir frumkvöðla þarna úti sem dreymir um að gera eitthvað svipað og þú hefur gert?
Til að halda út í langan tíma er nauðsynlegt að velja sér efni sem maður hefur áhuga á og finna flöt á efninu sem engum hefur dottið í hug áður.

 

.


Dúkkulísur

Fyrir nokkrum árum heyrði ég af íslenskri vefsíðu sem var með leik þar sem maður gat klætt persónur í allskonar föt og leikið sér að því að skipta út fötunum. Þetta var svo sem ekkert frásögufærandi nema hvað þessi vefsíða var ein af tekjumestu vefsíðum landsins. Á þessum tímapunkt gat ég engan veginn skilið hvernig slík vefsíða færi að því að hala inn miklum tekjum.

Nú nokkrum árum síðan fór ég aftur að velta þessu fyrir mér og ákvað að reyna kynna mér þetta aðeins og sjá hvort ég gæti fundið einhverja útskýringu á hvernig slíkt væri hægt. Ég byrjaði á því að opna vefsíðuna en slóðin á hana er www.dressupgames.com og þetta var hvorki mest tæknilega eða best hannaða vefsíða sem ég hef séð. Í raun virtist þetta bara vera afskaplega venjuleg vefsíða sem lítið hafði breyst á undanförnum árum.

Ég ákvað því að reyna „googla“ þetta í von um að finna einhverjar skemmtilegar upplýsingar um þetta. Þar komst ég að því að upphafsmaður vefsíðunnar væri Inga María Guðmundsdóttir, bókavörður á Ísafirði og árið 2007 var hún þriðji tekjuhæsti einstaklingurinn á Vestfjörðum. Einhvertímann hafði ég heyrt að hún væri að fá 100+ milljónir á hverju ári en ég hef enga staðfestingu fengið á því. Get nú ekki annað sagt en að þetta hafi bara glætt áhuga minn á þessari vefsíðu.

Ég fór því og greindi vefsíðuna aðeins til að átta mig á hvaðan tekjurnar væru að koma. Síðan virtist vera samansafn af linkum á allskonar „dress-up“ leiki, flestir á öðrum vefsíðum en þó nokkrir á þessari vefsíðu. Einu hugsanlegu tekjuleiðirnar sem ég fann á vefsíðunni voru í gegnum Google Adsense en það er þjónusta sem Google býður upp þar sem þú bætir smá texta inn í kóðann hjá þér og Google birtir auglýsingar tengdar því sem vefsíðan þín fjallar um, svo í hvert skipti sem einhver smellir á einhverja af þessum auglýsingum þá færðu greitt nokkrar krónur. Yfirleitt eru slíkar tekjur litlar sem engar nema um mjög mikið magn heimsókna sé að ræða. Í þessu tilfelli þá er þetta vægast sagt mikið magn af heimsóknum sem síðan er að fá en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fann þar þá er hún að fá 4,5 milljón heimsókna í hverjum mánuði og 21 milljón fléttinga.

 

Dæmi um leik á vefsíðunni.

 

Flest okkar eiga það til að líta á svona dæmi um velgengni hjá öðrum og hugsa að viðkomandi hljóti að vera afskaplega heppinn að vera fá svona margar heimsóknir. Við virðumst einhvern veginn sjálfkrafa halda því fram að þetta hafi bara gerst á einni nóttu og sé á allan hátt heppni að kenna/þakka. En ef kafað er ofan í málið er nær alltaf mikil og erfið vinna á bakvið alla velgengni hversu einföld sem hún kann að vera í fyrstu og ég held að þetta sé engin undantekning á því. Vefsíðan var stofnuð 1998 og virðist vera uppfærð daglega sem þýðir að stofnandinn hefur unnið statt og stöðugt allan þennan tíma að því að betrumbæta efnið á síðunni. Þetta er því árangur mikillar vinnu og þrautseigju.

Ég sendi tölvupóst á hana Ingu Maríu þar sem ég bað hana um að svara nokkrum spurningum varðandi upphafið á vefsíðunni til að skilja betur ferilinn sem fylgir svona verkefni. Því miður þá hef ég ennþá ekki fengið svar frá henni.

 

.


Dagskrá RÍF

Jæja þá fer óðfluga að styttast í að viðburðurinn Reynslusögur íslenskra frumkvöðla 2011 hefjist en hann fer fram á Grand Hótel, laugardaginn 18.júní. Ennþá eru nokkur sæti laus og getur fólk ennþá skráð sig með því að senda tölvupóst á haukur@bungalo.com. Það verður einnig hægt að kaupa miða við innganginn á meðan það eru ennnþá laus sæti en við mælum með að fólk skrái sig með tölvupósti til að tryggja sér öruggt sæti. Við getum ekki tekið við kortum þar sem við erum ekki með posa bara pening.

Dagskrá RÍF:

10:00-10:20    Kynning á viðburðinum
10:20-11:00    Ingi Gauti Ragnarsson, bland.is
11:00-11:40    Colin Wright, Exile Lifestyle
11:40-12:20    Elinóra Inga Sigurðardóttir, Royal Natural

12:20-13:20    Hádegishlé, Icedeas hópurinn stýrir networking-hitting yfir hádegismatnum fyrir þá sem hafa áhuga. Þetta er góð leið fyrir þá sem vilja bæta tengslanet sitt en þarna verður hópnum skipt upp og þið fáið tækifæri til að kynnast öðrum áhugaverðum einstaklingum yfir léttu spjalli og mat. Guðmundur Kári Kárason er fulltrúi Iceadeas og skipuleggur þennan viðburð.

13:20-14:00    Hjálmar Gíslason, Datamarket
14:00-14:40    Vilborg Einarsdóttir, Mentor

14:40-15:00    Hlé

15:00-15:40    Tóti Stefánsson, Mobilitus
15:40-16:20    Torfi G. Yngvason, Arctic Adventures
16:20-17:00    Haukur Guðjónsson, Búngaló

17:00-20:00    Hlé

20:00-??:00    Networking hittingur aftur um kvöldið fyrir þá sem hafa áhuga, staðsetning verður tilkynnt á laugardaginn.

Einnig verða á staðnum yfir allan daginn fulltrúar frá Innovit, Klak, Ásbrú og fleiri frumkvöðlasetrum sem munu kynna starfssemi sína og aðstoða ykkur að skilja betur frumkvöðlaumhverfið á Íslandi.

 

.