Eftir 6 tíma flug til Toronto og síðan 3 tíma flug til Halifax (ég var of óþolinmóður til að bíða þangað til í næstu viku þegar Icelandair flýgur beint til Halifax) lendir flugvél mín loksins í Halifax. Klukkan var um 1 um nóttu, það voru liðnir 11 klst frá því ég lagði af stað með Flybus frá Reykjavík og ég átti þó ennþá 30 mínútna leigubílaferð eftir áður en ég kom að herberginu sem ég hafði leigt í gegnum AirBnb.

Ég endaði á því að sofa bara í 4 klst áður en ég var glaðvaknaður þótt svo ég væri mjög þreyttur. Eftir að hafa fundið matvöruverslun og sturtað mig lagði ég af stað á minn fyrsta fund, með lögfræðingi mínum hér í Halifax. Hann er algjör snillingur sem sérhæfir sig í að vinna með startup fyrirtækjum og hann sá um að “incorporate”-a Bungalo Technologies Incorporated hér í Kanada fyrir mig og var því öllu lokið áður en ég kom hingað út. Bara svona til að sýna smá lit þá gaf ég honum eina flösku af íslensku fjallagras snafsi í þakklætisskyni. Hann deildi með mér miklu af reynslu sinni af startup umhverfinu hérna úti og það hljómar sem svo að hér sé mikið að gerast, hann kynnti mig einnig í gegnum tölvupóst við öflugan blaðamann í startup umhverfinu sem hann sagði að væri gott að þekkja.

Næsti fundur minn var með Milan Vrekic sem rekur Volta Labs frumkvöðlasetrið hér í Halifax en frá fyrri heimsókn minni hingað virðist það vera virkasta frumkvöðlasetrið hér og hálfgerður miðpunktur meðal frumkvöðla. Ég tók því ekkert annað í mál en að fá skrifstofu rými þar fyrir Bungalo, leigði mér meira segja dvalarstað í næstu götu við hliðin á Volta þar sem ég var staðráðinn í að vinna þaðan. Milan er mjög áhugaverður einstaklingur, upphaflega frá Serbíu en flutti þaðan til Halifax fyrir einhverju síðan og hefur tekið þátt í hinum ýmsu frumkvöðlafyrirtækjum. Við áttum mjög gott samtal og hann deildi með mér ýmsu um frumkvöðlaumhverfið í Halifax. Eitt af því áhugaverðasta sem hann sagði mér og er alveg fast í hausnum á mér eftir fundin var að hann teldi það vera slæman hlut hversu auðveldlega fyrirtæki í Halifax gætu fengið fjármögnun. Hann bætti svo við að “Í Evrópu er kannski 20% af fyrirtækjum að fá fjármögnun en hérna í Halifax eru það öfugt farið og um 80% fyrirtækja eru að fá fjármögnun”. Mér fannst það svolítið sláandi en ég er sammála honum um það of auðveldar fjármögnunarleiðir geta haft slæmar afleiðingar í för með sér en það er alveg efni annan pistil. Milan tók vel í beiðni mína að fá skrifstofu hjá Volta og hann gaf mér strax lykla að opna rýminu til að vinna í og sagði að hann gæti reddað mér lokaðri skrifstofu þegar ég væri búinn að ráða 1-2 starfsmenn.

Til þess að kynnast borginni betur og útaf því að þetta var í fyrsta skipti í nokkrar vikur þar sem ég er ekki að vinna 12 tíma á dag þá ákvað ég að nýta tækifærið og fara út að hlaupa. Ég endaði á því að hlaupa og skoða til skiptis og fór alls einhverja 7 km um borgina og líkaði bara vel við það sem ég sá.

Volta var augljóslega virkt frumkvöðlasetur því það var Hackathon í gangi þar strax fyrsta kvöldið mitt í Halifax og mér fannst ég verða að mæta.Ég er sjálfur ekki alveg nógu klár í forritun, hvorki hugbúnaðar né vélbúnaðar til að geta haldi uppi flóknum samræðum við svona klára aðila en finnst það þó afar gaman að sjá hvað er verið að vinna í. Þarna var eitt teymi sem var að prenta þrívíddarprentara með þrívíddarprendaranum sínum. Þarna var aðili sem var að reyna netvæða kaffivélina sína, aðrir voru að leika sér með flug drone-a og svo var ýmislegt annað var þarna í gangi. Ég kynntist einu tveim öðru frumkvöðlunum á svæðinu sem voru ekki að vinna í neinu verkefni og við kíktum út í nokkra bjóra.

Ég ligg núna upp í rúmi morgunin eftir, með þynnku eftir drykkjuna, harðsperrur eftir hlaupið og svolítið tómur í hausnum eftir að hafa reynt að innbyrða svo mikið á einum sólahring en allt í allt ánægður með fyrsta sólahringinn 🙂