Það er aukið álag að þurfa að vinna heima og sérstaklega þegar maður er með börn. Í kófinu vorum við hjónin bæði að vinna heima og ég fann fljótt að ég þurfti mjög nauðsynlega að hafa sterka rútínu.

Ég gerði mjög fastmótaða áætlun á hverjum degi frá 9-17 og hélt mig við hana.

Ég „mætti í vinnuna” og byrjaði daginn alltaf á markmiðasetningu. Hvað vildi ég klára í dag og hvað þurfti ég að gera í mínum verkefnum til að fá tilfinninguna um að dagsverki væri lokið. Þó að maður sé að sinna stórum verkefnum er mjög mikilvægt að brjóta þau niður til að geta merkt sem lokið á hverjum einasta degi.

Ég tók mér alltaf klukkutíma í hreyfingu í hádeginu. Líkamsrækt og áreynsla á miðjum vinnudegi hjálpar mér að fókusera betur á eftir. Ég uppgötva oft lausnir um leið og ég hætti að hugsa um vandamálið því ég er of upptekinn að halda jógapósunni.

Að fara út úr húsi á kvöldin sem gat bara verið stuttur göngutúr gaf mér betri svefn. Maður sefur betur þegar maður hressir sig við áður en maður fer í bólið og góður svefn skiptir öllu máli.

Þessir föstu punktar hafa haldið mér réttu megin í hausnum og ég er þakklátur fyrir að hafa möguleikann á að passa upp á sjálfan mig í þessu ástandi.

Mig langaði að fá að heyra í ykkur og vita hvernig þið hafið verið að tækla þennan tíma. Það er svo gott að vita að maður er ekki einn og það eru margir þarna úti eru að fara í gegnum erfitt tímabil. Að missa tekjulind á að því er virðist einu bretti er ógnvænlegt ástand og það er ekkert að því að finna fyrir ótta. Að verða andlega og líkamlega veikur þegar við göngum í gegnum erfiðleika er mjög eðlilegt og við ætlum að komast í gegnum þetta saman. Erfiðleikar eru partur af því að vera í rekstri og hreinlega partur af því að vera manneskja en það er fátítt að við séum svona mörg að ganga í gegnum það sama á sama tíma.