Mér hefur fundist nokkuð vanta upp á hjá Íslendingum þegar það kemur að nafnspjöldum. Þeir hvorki kunna að deila nafnspjöldum sínum né að nýta nafnspjöld annara. Það er eins og þeir haldi að þetta sé bara einhver bréfsnifsi.

Nafnspjöld eru blanda af markaðssetningu og myndun tengslanets(e.networking). Þeir sem nota nafnspjöld á réttan hátt geta fengið ótrúlega mikið út úr því. Hérna ætla ég að gefa nokkur dæmi um hvernig þú getur nýtt nafnspjöld betur.

Nafnspjaldið þitt:

 1. Formlegur vs. óformlegur: hönnun nafnspjaldsins gefur mjög mikið til kynna hvort þú háttir samskiptum þínum við aðra á formlegan eða óformlegan hátt. Ef nafnspjaldið er sett upp eftir hefðbundna nafnspjaldaútlitinu með einungis lágmarks upplýsingum þá gefur það til kynna að þú og fyrirtæki þitt séuð formlegir í samskiptum. Andstæðan við þetta eru nafnspjöld sem notast við húmor og óhefðbundna uppsetningu.
 2. Ávallt við höndina: Það að eiga flott nafnspjald gerir ekkert fyrir þig nema þú sért með það við hendina þegar þú þarft á því að halda. Ég mæli sjálfur með því að vera með einhverskonar hulstur utan um þau, það verndar þau og lítur betur út þegar þú ert að afhenda einhverjum spjaldið. Hulstrið nýtist einnig þegar þú færð nafnspjald til baka því þá geturðu sett það á stað sem þú týnir því ekki.
 3. Enga feimni: Af einhverjum ástæðum þá eru margir feimnir við það að taka upp og deila nafnspjöldum. Það segir sig í raun sjálft að nafnspjaldið þitt gerir ekkert gagn nema einhver  taki við því á endanum. Þess vegna þarftu að vera ófeiminn við að afhenda það öllum þeim sem sýna þér og rekstri þínum áhuga.

 

Nafnspjöld frá öðrum:

 1. Hafa samband strax: Þegar þú færð afhent nafnspjald þá er það staðfesting á því að viðkomandi hafi áhuga á að vera í sambandi við þig á einhverjum tímapunkti og þar afleiðandi stækka sitt og þitt tengslanet. Það er gott að gera það að venju sinni að alltaf næsta dag eftir að maður fær nafnspjald að senda viðkomandi stuttan tölvupóst þar sem þú þakkar fyrir ánægjulegan hitting og býður viðkomandi um að vera í sambandi við þig hvenær sem er. Þetta byrjar samskipti ykkar á góðu nótunum og eykur líkurnar á því að hann hafi samband við þig á einhverjum tímapunkti í framtíðinni.
 2. Krota á bakhliðina: Það getur verið gott að skrifa niður einhverja áminningu á nafnspjaldið svo ef þú þarft einhvertímann að hafa samband aftur við viðkomandi þá hjálpar áminningin þig að muna um hvað þið töluðuð eða hvar þið hittust.
 3. Geyma nafnspjaldið: Alltaf að geyma öll nafnspjöld sem þú færð og þá er best að geyma þau öll á sama stað t.d. kaupa nafnspjaldabók og geyma þau þar svo fljótlegt sé að flétta í gegnum hana. Vera svo ófeimin við að taka þau upp og hafa samband við viðkomandi.

 

Dæmi um skemmtileg nafnspjöld:

Þetta er nafnspjald var hannað af Steinari þegar við fórum af stað með Búngaló vefsíðuna. Það eru nokkrir mjög góðir kostir við þetta nafnspjald:

 • Allir starfsmenn fyrirtækisins gátu notast við sama spjaldið þar sem nöfnin komu ekki fram á því heldur benti frekar á svæði á vefsíðunni þar sem hægt var að fá allar upplýsingar.
 • Nóg pláss á því ef við eða móttakandi vildi skrifa eitthvað á það.
 • Húmorinn sagði móttakanda að við værum óformleg í samskiptum okkar og hann gæti verið óhræddur við að hafa samband.
 • Vekur yfirleitt athygli. Þegar móttakandi les aftan á spjaldið þá bregst það yfirleitt ekki að hann brosir með sér og oftar en ekki þá myndast smá umræður út frá nafnspjaldinu.

Við höfum reyndar verið svo ánægðir með nafnspjaldið að við notumst við það ennþá daginn í dag og höfum prentað 3 upplög af því.

Þetta nafnspjald er búið til úr laser-skornum málmi, ég hef einu sinni fengið svona svipað nafnspjald (reyndar ekki frá Steve Wozinak) og þetta er alveg eins og að halda á kreditkorti. Myndi nú ekki mæla með að ný fyrirtæki væru að eyða pening í slík nafnspjöld enda held ég að stykkið kosti um 400 krónur en þetta er skemmtilegt dæmi um hvað sumir leggja í nafnspjöldin.

Ég hef orðið aðeins var við það erlendis þótt svo það virðist ekki vera mikið um það hér að fyrirtæki búa til nafnspjöld sem þjóna einhverskonar tilgangi fyrir móttakandann og gera það þá að verkum að þeir halda lengur í þau. Dæmu um slík nafnspjöld:

 • Tannstönglar: hægt er að brjóta hluta af spjaldinu af til að nota sem tannstöngul.
 • Upptakari, getur notað nafnspjaldið til að opna flösku.
 • Skóhorn.
 • Spegill.
 • USB-lykill: þá eru upplýsingarnar einfaldlega prentaðar á usb-lykil.
 • o.s.frv.

 

Ef þú veist um einhver flott íslensk nafnspjöld þá væri gaman ef þú myndir deila þeim með okkur.